+ Helgi Sigurðsson +

Helgi var tákn um tímann. Hann stóð við búðarborðið, með allar veggklukkurnar að baki sér og varð sjálfur taktur eða tímapúls. Þau, sem fóru um Skólavörðustíginn, sáu hann og gott ef Helgi var ekki sem hin menska ásjóna tímans, laðandi, hlýlegur og viðmótsgóður. Og svo þegar úrin okkar töpuðu sínum slögum og duttu út úr tímanum fórum við til Helga með gripina. Og hann sagði stundum: „Komdu eftir klukkutíma.“ Helgi átti alltaf ráð, lagaði og hreinsaði gangverkið. Og margir klóruðu sér í höfðinu yfir lága verðinu hjá honum. Stundum var jafnvel erfitt að fá að borga og eins og úrsmiðnum væri beinlínis gerður greiði að komið væri með klukku og bilaðan pendúl til hans. Klukkurnar lifnuðu í höndum Helga og svo sagði hann sposkur skömmu áður en hann lokaði búðinni sinni: „Það getur enginn stöðvað tímann.“ Og nú er þessi vökumaður miðborgarinnar farinn, taktur Skólavörðustígsins er orðinn annar. Hvað gerði hann við mörg úr og hvað seldi hann margar klukkur? Hvað sá hann aumur á mörgum og efldi lífslöngun þeirra? Það veit enginn, en nú er hann að læra takt eilífðarinnar. Hann leiðir vonandi Eddu sína eða ræðir við son sinn, syndir á eilífðartíma í laugum himinsins og kannski skreppur hann á eitthvert skemmtiskak á gleðivíkum? Það stoppar enginn eilífðina. 

Upphaf, fjölskylda og nám

Helgi Hreiðar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 5. febrúar árið 1934. Móðir hans var Júlía Ósk Guðnadóttir (30. júlí 1907 – 3. feb. 1996) og Sigurður Jónsson (24.12. 1901 – 19.2. 1975). Systkinin voru þrjú. Helgi var elstur. Sigurður Jónas fæddist 1939 og Jóhanna Guðný árið 1940. Nú eru þau öll látin og eilífðin hefur umfaðmað þeirra tíma.

Helgi bjó á barnsaldri og unglingsárum hér í nágrenni Skólavörðuholtsins, í Mjóuhlíð og á Leifsgötu. Austurbæjarskóli varð hans skóli. Sem unglingur fór hann í sveit á Seljaland undir Eyjafjöllum og synti í Seljavallalaug. Þegar hann hafði aldur til og fann meistara, sem vildi taka við honum, hófst merkileg vegferð Helga. Hann lærði hjá Jóhannesi Norfjörð HF og byrjaði úrsmíðanámið árið 1952 – í miðjum miðbænum, í Austurstræti 14, þar sem Kaffi París er núna. Helgi sagði síðar frá, að verkstæðið hafi verið á þriðju hæðinni, en búðin var á götuhæð. Hjá því stönduga fyrirtæki vann hann í fjögur ár, tvö voru námsár og síðan önnur tvö og þá var hann fullveðja úrsmiður. Eftir það stofnaði hann eigið verkstæði og var fyrst til húsa í Morgunblaðshúsinu í Aðalstræti. Þar var fjölskrúðugt mannlíf og húsið var vísir að fyrsta mollinu í Reykjavík. Síðan færði Helgi sig yfir á Vesturgötu 3 og árið 1967 upp á Skólavörðustíg, í Pfaffhúsið. Helgi varð margoft fyrir því að brotist var inn í verslun hans, en því tók hann sem hverju öðru hundsbiti og af æðruleysi. Hélt bara útsölu ef þýfið fannst. Helgi var áður en yfir lauk búinn að starfa á sjöunda áratug í sínu fagi og á Skólavörðustígnum í hálfa öld. Og nú kveðjum við hann í þessari kirkju sem blasti við Helga í hvert einasta sinn, sem hann kom til vinnu eða fór út fyrir dyr síns vinnustaðar. Þetta hlið himins var sjónarrönd Helga meirihluta lífs hans.

Lífið í miðborginni

„Við stoppum ekki tímann,“ sagði hann. Helgi varð eins og klettur í straumi tímans í miðbæjarlífinu. Og hann gætti að því, að tíminn yrði skemmtilegur, glaðlegur, vinsamlegur og til góðs. Helgi eignaðst vini í kaupmönnum og starfsfólkinu í Miðbænum. Hann mætti á Prikið í Bankastrætinu í byrjun dags og hitti Miðbæjarfélagana, fékk sér kaffi, rabbaði um pólitík eða stórmál samfélagsins, hló með vinum sínum og treysti böndin. Mannlífið var litríkt og Óli blaðasali kom við og kastaði kveðju á hópinn og kom út blöðum. Helgi var hlýr í samskiptum og kollegarnir, sem áttu í samkeppni um hylli og krónur kúnanna, voru vinir hans en ekki andstæðingar; Garðar Ólafsson, Magnús Baldvinsson, Carl A Bergmann og Kornelíus. Helgi lánaði þeim tæki og varahluti þegar þá vanhagaði um eitthvað og þeir lánuðu honum sömuleiðis. Já, Helgi var líka vinur Guðnýjar og Guðmundar á Mokka, Höskuldar á Barónsstígnum, Ófeigs og Hildar, Önnu Maríu og allra þeirra sem versluðu og sinntu þjónustustörfum í þessum hluta bæjarins. Þessir sömu vinir úr nágrenninu voru honum mikill stuðningur alla tíð og líka þegar vinnþrekið minnkaði í lokin. Þökk sé þeim öllum.

Fyrirmyndarborgari

Það var gaman að koma til Helga, hann var svo kumpánlegur og vinsamlegur og tók að sér listamenn og lífskúnstnera. Steingrímur Sigurðsson, Ketill Larsen og Stórval voru vinir Helga og sátu stundum lengi. En svo fóru hinir kaupmennirnir að fara, vinir hans líka, seldu fyrirtæki sín og létu frá sér starfsstöðvar sínar. En Helgi hélt áfram og varð eins og lifandi kennileiti og tákn um fyrri tíma en líka samhengi fortíðar og framtíðar. Svo var hann fyrirmyndarborgari – á svo mörgum sviðum. Þrautseigja Helga vakti athygli og hlýja hans var rómuð. Það var því eðlilegt að þegar Helgi varð áttræður og enn með eigin rekstur á Skólavörðustígnum, að vinir og fulltrúar Reykjavíkurborgar mættu fyrir framan verslun hans – honum að óvörum – til að færa honum blóm, heiðra hann og syngja fyrir hann.[i]Helgi átti stóran þátt í að gera Skólavörðustíginn að þeirri frábæru verslunargötu sem hún varð. Í lokin var hann orðinn óformlegur en óumdeildur heiðursborgari Reykjavíkur. En hann var ekkert á því að hætta. „Ég er ekki búinn að skrifa uppsagnarbréfið og er ekki viss að ég myndi taka við því. Það er enn gaman að fara í vinnuna á morgnanna“ sagði hann.

Sundgarpurinn

Helgi var ekki aðeins fulltrúi tímans heldur keppti við klukkuna líka. Helgi var einn mesti afreksmaður Íslands í sundi á tuttugustu öld. Hann lærði að synda í Sundhöllinni, sótti hana alla tíð og synti hraðar en aðrir. Helgi gekk í Sundfélagið Ægi nýfermdur unglingurinn og byrjaði að keppa 1950. Hann var nýorðinn 17 ára þegar hann setti fyrsta Íslandsmet sitt. Það var í 800 metra skriðsundi. Og metið setti hann 22. mars, sama dag og hann er jarðsettur, nú 68 árum síðar. Svo bætti hann sama ár Íslandsmetin í 1000 metrunum og 15000 metra skriðsundi. Næstu árin var Helgi skriðsundskóngur Íslands og setti met í millivegalengdum í skriðsundi. Alls setti Helgi tíu Íslandsmet, vann afreksmerki ÍSÍ og komst á verðlaunapall á Norðurlandamóti, enda einn af bestu sundmönnum Evrópu á þeim tíma. Helgi var ekki aðeins frægur fyrir tímana sína heldur líka fyrir hve fallega hann synti. Þessi fagursundmaður varð oftar sundkóngur Íslands en aðrir sundmenn. Helgi synti hraðast, fegurst og nú fer hann skriðið í eilífðarstraumi. Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju frá Sundfélaginu Ægi og frá Sundsambandi Íslands. 

Edda Sigrún og fjölskyldan

Og svo varð glæsikonan Edda, sem varð á vegi Helga. Henni leist alls ekki á hann þegar hún sá hann fyrst því hann var svo óhreinn. En svo þegar hann hafði farið í bað og hún sá glæsimennið, hreinan og strokin, þá komu stjörnurnar í augu hennar og hann heillaðist af henni. Þau horfðu á hvort annað alla tíð, urðu par síðan – alla æfi – hvað sem á dundi og á dagana dreif. Og jafnvel í svefni leiddust þau og þegar eitthvert barna eða barnabarna sváfu uppí hjá þeim leiddust þau yfir barnið á milli. Og þegar veikindin skildu þau að síðustu árin sat Helgi hjá Eddu sinni og hélt í hönd hennar. Hann elskaði hana alla tíð og hún elskaði hann „Dassa sinn.“[ii]

Þau Edda Sigrún og Helgi bjuggu við barnalán og eignuðust fimm börn. Fjögur þeirra eru á lífi. Sigurður er elstur. Síðan kom Grétar í heiminn skömmu síðar, en Grétar lést á jólum árið 2016. Nokkra ára hlé varð á barneignum eftir fyrstu strákana en svo kom seinna hollið: Helgi Hafsteinn, Edda Júlía og Sigrún Gréta. Sigurður er læknir, Grétar var úrsmiður og starfaði lengi með föður sínum, Helgi Hafsteinn er læknir í Hollandi, Edda Júlía er kennari og Sigrún Gréta er lögildur fasteignasali. Út af þeim Eddu og Helga er nú orðinn mikill ættbogi.

Helgi og Edda voru afkastamikið dugnaðarfólk. Það gegnir reyndar furðu hve mikill kraftur var í húsa- og bygginga-málum þeirra. Þau Helgi byggðu í Rauðagerði með Sigurði og Júlíu, foreldrum Helga, og stuttu síðar í Stóragerði og ein byggðu þau 1973 stórt fjölskylduheimili í Hlyngerði. Þau tóku líka til hendinni við húsbyggingar eða húsaviðgerðir á Stokkseyri, við Skerjafjörð, á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.

Minningarnar

Hvaða minningar áttu um Helga? Leyfðu þeim að synda flugsund inn í vitund þína. Manstu glettnina, kímnina, jákvæðnina og skyndibrosin, sem breiddust yfir andlit hans. Manstu kviku hreyfingarnar hans, hvernig hann smellti úrsmiðsauganu fyrir hægra augað, beygði sig yfir fíngert úrverkið og hve fimlega fingur hans sneru eða beittu smátólum úrameistarans? Manstu örsmá tannhjól eða varahluti, sem hann bjó til svo hægt væri að koma dýrmætum klukkum í gang að nýju? Manstu húmorinn hans? Og skylduræknina? Vissir þú hve natinn faðir hann var? Hann var óvenjulegur pabbi af sinni kynslóð, smurði nesti og kaffibrauð, skipti á rúmum og passaði ungana sína vel. Hann gekk í öll verk, nema eldamennsku!Svo var hann natinn afi.

Manstu félagsmálamanninn, í Úrsmiðafélaginu, sundhreyfingunni og Frímúrarareglunni? Manstu skíðamanninn og skíðastílinn hans? Manstu ljúfmennskuna, tillitssemi við nágranna og samkeppnisaðila? Manstu snyrtimennskuna? Eða glaðlyndið? Og hve flottur hann var? Í litríkum fötum, litríkur maður. Og myndin af honum við splunkunýjan Citroen Pallas, á leið til Íslands með Gullfossi, sýnir vel glæsileikann. Fulltrúar Reykjavíkurborgar töluðu gjarnan um Helga sem fyrirmynd annarra í umhverfisfegrun og að hann hreinsaði upp sígarettustubba og tyggjóklessur og gætti að umhverfi verslunar sinnar. Manstu hve umhyggjusamur Helgi var gagnvart þeim, sem voru við útkant mannlífsins? Manstu traustið, sem Helgi sýndi fólki? Og hve örlátur hann var? Og svo gladdist hann þegar hann gat gefið vinum sínum fisk þegar hann kom af sjó. Manstu fimi Helga? Og manstu hvað hann átti erfitt með að loka versluninni? Það var eiginlega bara tvennt, sem réttlætti að hann skellti í lás. Það voru útför ástvinar eða að hann væri að fara á sjó með Sigga. Á trillunni leið honum vel, en vildi þó alls ekki fara fyrr en síðdegis. Þá setti hann miða á útidyr búðarinnar: Er farinn á sjó! Það þótti Helga fullgild skýring á, að ekki var hægt að komast í klukkurnar. 

 

 

 

Lokin og nýtt upphaf

Og nú er hann á eilífðarstíminu. Nú smellir hann ekki glerauganu fyrir hægra augað framar. Hann leiðir ekki Eddu sína á þessari jörð, heldur einhvers staðar á himneskum Skólavörðustíg. En minningarnar um hann lifa. Brosið hans og hlýja lifir í menningu Íslands og minningu ástvina hans. Enginn stöðvar tímann – og ekki heldur dauðann þegar hann kemur. Nú hefur pendull Helga stöðvast. Hann selur okkur ekki framar Rhythm, Seiko, Citizen eða Orient og alls ekki Rolex. Líf Helga er fullnað, verkin hans líka. Klukkusmiðurinn besti á himnum hefur sagt: „Gott, þú góði trúi þjónn.“ Sekúndur Helga eru orðnar að tikki í tímahafi eilífðar. Við þökkum fyrir líf, tíma, stundir og verk Helga H. Sigurðssonar og biðjum Guð að geyma hann og blessa í himni sínum.

Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Kistulagning og útför. Hallgrímskirkja, föstudaginn, 22. mars, 2019. Erfi í safnaðarsal kirkjunnar. Jarðsett í Garðakirkjugarði.

HELGI H. SIGURÐSSON Kt 050234-4799

Helgi H. Sigurðsson fæddist í Reykjavík 5. febrúar 1934. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík laugardaginn 16. mars 2019. Foreldrar Helga voru Sigurður Jónasson, ritsímavarðstjóri frá Seyðisfirði, f. 24.12.1901, d. 19.02.1975 og Júlía Ósk Guðnadóttir húsmóðir, f. 30.07.1907, d. 03.02.1996. Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum og tveimur systkinum, lengst af í Mjóuhlíð 4 í Reykjavík. Bróðir Helga var Sigurður Jónas Sigurðsson f. 05.03.1939, d. 07.05.2017 og systir hans var Jóhanna Guðný Sigurðardóttir, f. 26.10.1940, d. 15.12.2013. Helgi kvæntist Eddu Sigrúnu Ólafsdóttur héraðsdómslögmanni 25. september 1955. Edda Sigrún lést 13. mars 2017. Helgi og Edda Sigrún eignuðust 5 börn: 1) Sigurður Helgason, læknir, fæddur 27. apríl 1955, giftur Rannveigu Halldórsdóttur fædd 19. júní 1955 og eiga þau þrjá syni, Halldór Hauk, Helga og Matthías Þór. 2) Grétar Helgason, úrsmiður f. 14.01.1958, d. 24.12.2016. Kona hans var Erla Jónsdóttir fædd 29. apríl 1958 og eignuðust þau fjögur börn, Lindu Rún, Hildi Eddu, Helgu Láru og Daníel. 3) Helgi Hafsteinn Helgason, læknir, fæddur 10. janúar 1969. Kona hans er Fjóla Grétarsdóttir fædd 19. mars 1968. Börn þeirra eru Ásta Karen, Haukur Steinn og Lilja Dögg. 4) Edda Júlía Helgadóttir, kennari, fædd 28. janúar 1970 og hún á 3 börn, Andra Má, Sigþór Árna og Teklu Ósk með fyrrum sambýlismanni Bjarna Jóhanni Árnasyni. 5) Sigrún Gréta Helgadóttir fasteignasali fædd 8. september 1971 og á hún dótturina Eddu Sigrúnu Jónsdóttur með fyrrum sambýlismanni Jóni Kristni Garðarssyni.

[i]Frásögn og myndbrot frá 2014 má sjá að baki þessari slóð: https://www.visir.is/g/2014140209440

[ii]Um Eddu Sigrúnu: https://www.sigurdurarni.is/efni/edda-sigrun-olafsdottir/