Þegar ég kom til starfa í Hallgrímskirkju var mér þörf á stól og skrifborði. Ég fór um kirkjuna til að leita að húsgögnum, sem ekki væru notuð, kíkti í allar vistarverur þessa mikla húss sem er eins ævintýralegt og Hogwart-skóli. Leitin varð að lokum tenging við sr. Jakob. Í háloftum turnsins sá ég fagurt, bogið tekkskrifborð, sem höfðaði eða talaði sterkt til mín, en ég vissi ekki af hverju. En ég skildi það þegar mér var sagt að þetta væri skrifborðið hans sr. Jakobs. Þá mundi ég. Ég hafði séð það heima hjá honum og tengdi við hann hið innra. Borðið hafði verið gefið til kirkjunnar skömmu áður en ég kom til starfa. Og nú er fagra, danska skrifborðið hans á skrifstofunni minni, vekur athygli þeirra sem koma. Og það verður samtalstilefni um persónuna, rithöfundinn, fræðimanninnn og kennimanninn Jakob Jónsson. Ég hugsa um hann oft, um þanka hans, áhyggjur, hugsjónir og líka prédikun þegar ég sest niður við borðið og hamra á tölvuna.
Jakob Jónsson var stórveldi í kirkjulífi Íslands og risi í menningarlífinu á tuttugustu öld. Hann var embættismaður, vísindamaður, skáld, félagsmálamaður, menningarmaður og prestur. Í uppvextinum heyrði ég foreldra mína tala um hann. Á heimili mínu var hlustað á sr. Jakob þegar hann messaði í útvarpinu og greinar hans í dagblöðunum voru lesnar. Og ættmenni Jakobs komu víða við sögu: Eysteinn, bróðir hans, var áberandi í pólitíkinni, röddin hans Jökuls var seiðandi í útvarpinu og bækur hans voru lesnar. Svava var áberandi í menningarlífi og stjórnmálum og Þór stjórnaði veðrinu. Og þegar eitthvert þeirra – eða annarra ættmenna og afkomenda Jakobs kom við sögu – var Jakob gjarnan nefndur einnig. Ég man að faðir minn talaði meira um sr. Jakob en móðir mín.
Kom þetta úr mér?
Árið 1983 fór ég að safna efni í doktorsritgerð mína sem er um minni í trúarhefð Íslendinga. Og þar sem hluti ritgerðarinnar fjallar um tuttugustu aldar guðfræði vildi ég gjarnan hitta sem flesta sem höfðu komið að máli. Ég hitti dr. Jakob einhverju sinni á fundi og hann var áhugasamur um verkefni mitt. Ég hreifst af fjörinu, kíminni greindinni og getunni til greiningar. Við ákváðum að hittast og ég fór heim til hans og mér þótti merkilegt að hlusta á þennnan merka skáldprest túlka menningarstrauma og kirkulíf aldarinnar. Þar sem ég bjó á þessum tíma austur í Skaftártungu tók sr. Jakob upp á því að senda mér bréf. Þau voru lífleg, greinandi og skemmtileg. Ég spurði hann um guðfræði hans. Jakob vitnaði í ritverk Carlo Collodi sem heitir á frummálinu Pinocchio sem við þekkjum sem teiknimyndahetjuna Gosa. Í bréfi Jakobs frá 9. janúar 1984 segir hann: „Ræður mínar eru ákaflega misjafnar að gæðum, að sjálfsögðu, og við endurlestur segir maður stundum við sjálfan sig eins og Pinochio í Pleasure Island: „Did that come out of me?“ Og hvað var það sem kom út úr honum, hvað hugsaði hann og skrifaði, sagði og prédikaði?
Uppvöxtur, gildi og andi
Jakob var tuttugustu aldar maður.[i]Hann fæddist í upphafi aldar og bar í sjálfum sér hugsjónir og menningarbylgjur aldarinnar – spannaði öldina. Hann fæddist á Hofi í Álftafirði um miðjan vetur árið 1904. Hann sleit barnsskóm eystra, fór til náms fyrir sunnan, starfaði erlendis og síðan í Reykjavík. Hann var Austfirðingur með útsýn, síðan Íslendingur og svo heimsborgari. Hann lést um sumar, eystra, á heimahögunum á þjóðhátíðardeginum 17. júní árið 1989.
Hans Jakob Jónsson var sonur prestshjónanna Sigríðar Hansdóttur Beck og Jóns Finnssonar. Það er heillandi að lesa lýsingar Jakobs um móður hans og fólkið hennar. Það var söngelskt og litríkt fólk. Í æfisögunni segir Jakob frá uppeldi og trúarmótun sinni, hvernig áhrifin frá báðum foreldrum fléttuðust saman í vitund hans og hvenig hann vann sjálfur úr. Hann segir fagurlega frá uppeldisaðferðum móður sinnar og ljóst er að hún, eins og faðirinn, hefur lagt Jakobi í brjóst ábyrgðartilfinningu og mannvirðingu, gilti einu hverrar stöðu það var. Og í prédikunum sést vel hve næmur Jakob var á gildi kvenna. Hann ræddi fagurlega um konur, um Maríu móður Jesú og svo var mesta leikverk hans um konuna, sem Hallgrímur elskaði, Tyrkja Guddu.
Um föður sinn segir Jakob, að hann hafi verið maður mannúðar og frelsisástar. Og Jakob taldi – og örugglega ekki úr lausu lofti gripið – að á sinni tíð hafi Jón sennilega verið með lærðustu sagnfræðingum þjóðarinnar. Sonurinnn tók í arf frá föðurnum menningaropnun og vitund um hið djúpa samhengi sögunnar. Jón kenndi syni sínum að skoða fólk, meta aðstæður og ummæli Jóns brendist í vitund sonarins: Faðir hans sagði einhvern tima: „Ég met menn eftir því hvernig þeir tala um andstæðinga sína.“ Veganestið að heiman var því kjarnmikið og giftudrjúgt.
Af minningum Jakobs má ráða að hann var næmur, tilfinningaríkur og opinn. Hann talar oft um djúpa skynjun og reynslu og hafði alla ævi áhuga á ofurreynslu. Einu sinni var hann í messu í Beruneskirkju og upplifði eitthvað annað og meira en skynveruleikann. Í fermingarathöfninni skynjaði hann djúp tengsl við alla sem voru í kirkjunni. Og hann skrifaði í Játningum (1948): „Ég fann, að hið sama „líf“ eða „andi“ sem var í sjálfum mér, var allt í einu öllu … Meðvitund mín gerði hvorttveggja í senn, að verða að engu og verða allt.“ Síðar sagði hann þessa dulræna skynjun ekki hafa fullnægt sér, nema af því að hún fékk sína skýringu í skynjun opinberunar Guðs í Kristi (s 19).[ii]Lífstúlkun og guðfræði Jakobs var alla tíð Kristsmiðlæg.
Ad astra
Þegar heimanáminu fyrir austan lauk fór Jakob suður og hóf nám í MR og lauk stúdentsprófi 1924. Jakob var fjölhæfur og jafnvígur á greinar fræðanna og hefði allt eins getað lagt fyrir sig raungreinar sem mannvísindi. Ólafur Daníelsson, kennari hans, spurði hann hvað hann ætlaði að læra í framhaldi stúdentsprófsins. „Guðfræði“ svaraði Jakob en komst síðar að því að dr. Ólafur hefði fremur viljað að hann legði fyrir sig stærðfræði. (s 37) Jakob var margra vídda, var vísindaþenkjandi tilfinningamaður og því opin fyrir fleiru en efnistúlkunum einum. Þegar ég les bækur Jakobs sýnist mér ljóst, að hann hafi orðið fyrir áhrifum úr ólíkum áttum. Veraldir fræðanna voru margar á fyrri hluta tuttugustu aldar og mörk voru teygjanleg og hreyfanleg milli greina og milli hins tæka og ótæka. Og ég minni á, að margir glímdu við mörk skynsemi í kjölfar upplýsingarinnar, hvernig væri hægt að halda saman hinu andlega, siðlega, vísindalega, efnislega, listræna og mennska í tilverunni. Jakob lærði að sjá hið smáa í samhengi hins stóra og sótti í heildarsýn sem gat tekið til hins smáa án þess að riðla öllu.
Guðfræðisamhengið
En hvernig var þá guðfræðilegur prófíll Jakobs Jónssonar? Eitt er heimasamhengi uppeldis og foreldra. Annað eru eigindir og hæfni einstaklings og svo það þriðja eru hugðarefni og menningarlegt eða fræðasamhengi ,sem menn hrífast af og lifa í. Þegar Jakob Jónsson fór suður í skóla voru átök í íslensku samfélagi um margt, stefnu íslenskrar þjóðar og menningar og líka var ágreiningur um eðli og stefnu kristninnar og mörk trúar. Samfélag Íslendinga var að losna úr festum fortíðar, menningarlegrar og efnahagslegrar einhæfni. Nýguðfræðin sló í gegn en átti sér tvær víddir á Íslandi, annars vegar þá almennu guðfræðilegu frjálshyggju sem kom fram í Þýskalandi í lok 19. aldar og teygði sig langt inn í tuttugustu öldina. Hins vegar voru sálarrannsóknir, sem var ekki hindurvitnatrú heldur meðvituð fræðatilraun til að styðja hið óskilvitlega skilvitlegum rökum. Hin nýja guðfræði heillaði unga manninn Jakob Jónsson. Og Jakob var hrifnari af Haraldi Níelssyni en Jóni Helgasyni, sem voru leiðtogar sitt hvors hóps þeirrar bylgju, sem nefnd var nýguðfræði. Jakob sagði, að Haraldur væri mesti prédikari sem hann hafði hlustað á um sína daga (s 42). Jakob var eins og bestu menn sálarrannsókna í því að álíta ekki spíritisma trúaratriði heldur aðferð, tæki og vísindalegt verklag á sannleiksvegi hinna mestu gæða og himnesks sannleika. Jakob lauk guðfræðinámi á umbrotatíma. Og með félögum sínum vitjaði Jakob deyjandi Haraldar Níelssonar og meistarinn fól þeim að taka við keflinu og boða hinn frjálsa kristindóm (s 43). Ungu mennirnir voru ekki aðeins opnir fyrir vísindum, trúarlegum sönnunum, heldur líka pólitískum þörfum samfélagsins. Og guðfræðingarnir ætluðu ekki á láta sitt eftir liggja. Jakbob var einn af Straumamönnunum. Hann stofnaði til tímarits með Páli Þorleifssyni, Lúdvíg Guðmundssyni og Einari Magnússyni sem allir urðu mikilvirkir í samfélagi okkar Íslendinga. En eitthvað hefur gengið á – því Jón, faðir Jakobs, var smeykur um að ungu guðfræðingarnir færu offari. Hann bað son sinn að gæta sín í skrifum, nefndi sérstaklega að Jakob ætti ekki abbast upp á Sigurbjörn Ástvald Gíslason, forystumann í Dómkirkjunni, KFUM og stofnanda elliheimilisins Grundar. Hann ætti það ekki skilið. Og Jakob ætti að gæta sín líka á að mógða ekki biskupinn eða aðra kirkjunnar menn (s 45). Ég staldraði við þessa bón Jóns Finnssonar: Þekkti hann kapp sonarins? Var hann að lýsa eigin varfærni? Var hann búinn að lesa tákn tímanna?
Hinn guðfræðilegi prófíll
Þegar skoðuð er guðfræði Jakobs Jónssonar koma ýmis einkenni í ljós. Og þau varða áherslu á innra líf, hið persónulega í lífi einstaklinga. Og hvað merkir það í þessu fræðilega og menningarlega samhengi hans?
Jakob forðast alla tíð frumspeki og trúarheimspekilega þanka um Guð. Hann skilgreindi trú með samfélagslega tengjandi og hagnýtum hætti. Trú taldi hann að ætti að skila gildum og gæðum út í þjóðfélag manna og efla mannfélagið. Hann áleit hvers kyns rétttrúnað fremur „rangtrú“ eða „skakktrú“ fremur en sanna trú (s 48). Rannsóknir á Biblíunni áttu hug hans umfram það að raða hugmyndum trúfræðinnar í hyllukerfi réttrar trúar. Hann var – eins og meiri hluti nýguðfræðinga fyrri hluta tuttugust aldar – fremur með hugann reynslu en trúarlegt bókhald. Jakob hafði meiri áhuga á reynslu fólks en ópersónulegum staðreyndum. Sem sé líf persónunnar umfram sértæka þekkingarmola. Reynsla fólks og hans sjálfs beintengdi hann við Jesú Krist guðspjallanna fremur en við hugsun eða kenningakerfi miðaldanna. Og tenging Guðs við mannheim kom fram í persónu Jesú, sem gæti fremur tengst upplifunum einstaklinga en síður í einhverjum kenningasmíðum síðari tíma manna.[iii]Guðfræðilegur prófíll Jakobs var því nýguðfræilegur og annar en þeirra sem voru uppteknir af að verja einhverja rétta línu eða uppáhaldskenningar. Og við getum kallað þetta nýkantíska guðfræðinálgun, sem er í anda þess sem margir guðfræðingar aðhylltust á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Prédikunargerð
Þegar farið er yfir ritverk og embættisverk Jakobs Jónssonar sést berlega hve mikill fagmaður hann var. Hann lagði reyndar mikið upp úr gæðum í öllu sem gert var, hvort sem er í kennslu fermingarungmenna, hjónaviðtölum, prédikun, sálgæslu og útförum. Hann hafði skoðun á sniði, gerð, tilgangi og atferli prestanna í öllum verkum. Jakob var proffi.
Jakob lærði að undirbúa ræður í foreldrahúsum. Hann fylgdist með og vissi hvernig faðir hans undirbjó sig og flutti síðan mál sitt í kirkjunum. Í guðfræðideildinni var það Sigurður Sívertssen sem leiðbeindi guðfræðinemum við ræðugerðina. Jakob segir frá því að hann lenti í brasi við Jón Helgason, biskup, þegar hann skilaði ræðu til dóms, væntanlega prófræðu. Biskup var ósáttur við eitthvað í ræðunni og vildi fá unga manninn til að strika út það, sem honum þótti miður. Sigurður bar biskupsboðskapinn til Jakobs, en honum var ekki í hug að beygja sig, vildi ekki fella niður hinn umdeilda hluta við flutning. Og hann fékk að kenna á biskupsstefnunni og fékk hraksmánarlega lágt fyrir. En Sigurður Sívertssen tjáði hinum unga prédikara, að þó hann hefði ekki breytt prédikuninni hefði hann sýnt manndóm í að fylgja sannfæringu sinni. Það þótti bæði Jakobi og Sigurði meira virði en einkunnagjöfin. Og Jakob mat mikils kennara sinn en síður biskupinn.
Blaðalaus en skipulagður
Þór Jakobsson skrifaði skemmtilega grein um föður sinn, heimilislíf Jakobs, Þóru og barnanna og birti hana í tímaritinu Skildi.[iv]Þar kemur fram að Jakob skrifaði gjarnan eða undirbjó ræður sínar á laugardagskvöldum. Margar ræður flutti Jakob blaðalaust. Jakob tilgreinir sjálfur, að þegar hann var prestur á Norðfirði á árunum 1929-35 hafi hann byrjað að prédika blaðalaust við og við. Einu sinni samdi Jakob ræðu og var komin með hana í kirkju – en tilfinningamanninum þótti hún svo köld að hann skildi hana eftir á altarinu – eins og hann sagði – til þess að freistaðist ekki að grípa í hana ef honum fataðist andlega flugið. Jakob lærði að leyfa sér að fljóta á öldu andagiftarinnar. Hann vissi að hann gat leyft frelsi, stemningu og innblæstri að opna, vinna úr og miðla túlkun og viðbrögðum til áheyrenda sinna (s 59). Jakob var tilfinningaríkur og nýtti gáfuna í þágu prédikunar. Og auðvitað var beint augnsamband til góðs, vakti með tilheyrendum ilfinningu fyrir að við þá væri talað beint en ekki prédikað yfir þeim og óháð viðbrögðum. Ræður Jakobs urðu því nær gagnvirku samtali en einræðu. Og prédikarinn var svo hugaður að leyfa sér flugið líka í útvarpsmessum. Einu sinni var kvartað yfir ræðu Jakobs í útvarpinu. Hringt var í Helga Hjörvar til að fá handritið að ræðunni, væntanlega til að gera mál úr. En Helgi svaraði snarlega að útvarp væri til að hlusta á það en ekki lesa það. Ræðan var ekki til skrifuð.
Það er merkilegt að skoða ræðuskipulag Jakobs. Ég var að skoða hið dásamlega safn Jakobs Jónssonar í handritadeild Þjóðarbókhlöðunnar. Jakob og fjölskyldan hafa haldið vel saman ræðusafninu. Jakob hefur verið skipulagður í undirbúningi prédikana sinna. Hann einfaldlega bjó til nákvæmt yfirlit sem hann gat síðan fylgt. Hann var búinn að semja ræðurnar í huga og vissi hvernig og hvað hann ætlaði að segja. Kirkjuræðurnar voru með skýrri grind, en svo leyfði hann sér að leggja inn anda, tilfinningu, samtal, ljósgeisla augnabliksins, kátínu samfélagsins. Og því urðu prédikanir Jakobs svo góðar, skipulagðar, en líka spontan, leiftrandi andríkar.
Guðsþjónusturnar geta verið eins og aðrar mannlegar samkomur. Ímislegt kemur upp á. Skemmtileg saga er til af því, að Jakob brást við augnabliksmálunum. Hann þorði að vera, hvíla í stundinni og bregðast við. Einu sinni var Jakob að messa í Vatnabyggð. Jökull, sonur hans, var með honum og þeir feðgar voru í fjórðu guðsþjónustu dagsins. Og til að leggja ekki frekara messufarg á ungsveininn fékk Jökul að vera utan dyra við leik. Það var heitt úti. Þegar Jakob var í miðri prédikun kom drengurinn inn, stilltur og prúður, laumaði sér til föður síns og spurði lágt: „Pabbi ertu ekki bráðum að vera búinn.“ Og pabbinn spurði lagróma hvað væri að. Og drengurinn svaraði: „Ég þarf að fá að drekka.“ Honum var þá einfaldlega svo heitt að hann þurfti að drekka. “Ertu ekki bráum að verða búinn“ (s 86). Það þekkjum við prestarnir, en ástæðurnar geta verið margar og ófyrirséðar, í kirkjum sem utan. Jakob þorði að vera.
Málsnið
Ekki þarf lengi að lesa í ritverkum Jakobs Jónssonar til að sjá hve lipur penni hann var. Hann skrifar litríkan, myndrænan og leiftrandi texta. Mál sitt kryddaði hann gjarnan með dæmum og stutt er í gáskann og sögurnar kættu. T.d. af sr. Jóhanni Þorkelssyni, sem var veikur en batnaði og var á leið til skips. Og klerkur var spurður hvort hann væri að leið til útlanda: „Já„ sagði hann. … „Sumir vinir mínir voru raunar farnir að búast við að ég væri að fara til himnaríkis, en ég verð víst að kannast við, að mig langaði meira til Kaupmannahafnar.“
Jakob bar alla tíð djúpa virðingu fyrir tilheyrendum sínum, vildi ná sambandi, taldi mikilvægt að tengja við forsendur og viðhorf þeirra sem nutu prédikunarinnar. Prédikanir Jakobs voru því áheyrilegar. Hann sagði það sem fyrir honum var sannast og réttast á hverjum stað og hverri stundu. Og tilheyrendurnir voru fólkið sem sótti í kirkjuna, vildi fræðslu. Af því Jakob var afburðafræðari fékk fólk fræðslu, ekki síst í málum Nýja testamentisins. Og það var ekki bara siðfræði, skipulag þjóðfélagsins eða persónulegir fordómar prestsins sem það tók með sér frá kirkju eða heyrði í útvarpinu.
Einu sinni kom sr. Árni Þórarinsson eftir útvarpsmessu og á tröppurnar hjá Jakobi, sem var á leið út til prestsverka og gat því ekki boðið gamla manninum inn. Og gamli maðurinn sagði við Jakob. „Ég kom bara til að þakka þér fyrir prédikunina í útvarpinu í morgun. Það var afbragðs ræða – afbragðs ræða. Ég hélt fyrst, að það ætlaði að verða eins og vant er – tómur mórall.“ En þó Jakob talaði um samfélagsmál var honum hið eiginlega erindi ekki það sem sett var á disk og upp í munn, heldur mun fremur hin dýpri gæði, það sem nærði sál manna og andann. Honum var í mun að benda fólki á guðleg nánd sem hann sjálfur taldi sig hafa orðið fyrir. En þeirri nánd er ekki miðlað með fyrirskipunum í símskeytastíl, lögmálsprédikun. Frá upphafi reyndi Jakob að miðla jákvæðum mannskilningi, ábyrgð og manngæsku. Hann leitaði jafnan hins jákvæða, þess sem er hinn eiginlegi stofn kristninnar frá upphafi, erindis um fögnuð frá Guði.
Sjálfstæður
Jakob kom til starfa fyrstur presta í Hallgrímskirkju í ársbyrjun 1941 og starfaði lengur en nokkur annar prestur við þessa kirkju. Fyrstu árin voru annir gífurlegar í nýjum söfnuði, í stríði, aðstöðuleysi og gríðarlegum breytingum. En svo lauk heimsstyrjöld, festa komst á störf og líf og Jakob fylgdist með því sem gerðist í heimi menningar og fræða, líka guðfræðinni. Fyrra stríð hafði mikil áhrif á guðfræðina og hið seinna líka. Jakob skrifaði: „Mér krossbrá þegar ég kynntist guðfræðingum í Evrópu eftir stríðið.“ Allt var breytt. Andstæðurnar voru orðnar meiri og aðarar en á Íslandi. Játningartrúnaður var eitt, nýjar línur í biblíuvísindum, bókmenntarannsóknir ritningar og kerygmaáhersla. Jakob taldi engar játningar ofar Biblíunni sjálfur og stunda ætti sem mestar biblíurannsóknir.
En gamlar víglínur voru horfnar og Jakobi fannst hann vera orðinn einn á báti með sín áhugamál. Einfari er orð sem hann notaði um sjálfan sig. Honum fannst hann ekki eiga samleið með félaginu sem var með útlenska titilinn – og á við félag játningartrúrra presta – né í hinum hópnum. Hann skrifaði mér í bréfi við lífslok sín að erindi hans hafi alltaf verið tvenns konar. Annars vegar að fá trúað fólk til að sækja messur og hins vegar að fá prestana til að lesa guðfræði! Gott markmið. Hann, lífsreyndur, brýnir til frumleika og þors í hugsun. Við eigum að þora – segir hann. „Það getur verið óþægileg tilfinning í bráð að fara hvergi …. inn í einhverja sérstaka klíku, en þegar litið er til baka, er ég því feginn að hafa fremur kosið einmanaleikann.“
Og á þessum síðari árum fékk skáldið tíma til að yrkja og skrifa leikbókmenntir. Fræðimaðurinn fékk líka næði. Og doktorsritgerð Jakobs um kímni og skop í Nýja testamentinu var frumlegt framlag til biblíufræðanna. Jakob opnaði æðar, sem aðrir hafa síðan skoðað. Einn af hagyrðingunum þakkaði Jakobi fræðimanni fyrir með vísu sem margir þekkja: Hún er svo í ævisögu Jakobs.
Oft oss Jakob kæta kunni,
Því klerkurinn góðri skemmtun ann
og brandarana í Biblíunni
betur en aðrir þekkti hann.
Jakob skrifaði líka merka bók um Hallgrím Pétursson. Áður en Jakob gaf hana út hafði í fræðaheiminum einkum verið rætt um Passíusálmana út frá lífsreynslu Hallgríms – eins og rekja þyrfti einstaka þætti út frá sjúkleik eða áföllum. Arne Möller og Magnús Jónsson höfðu einkum farið þá leið í skrifum sínum. En Jakob opnaði nýjar æðar með því að skoða Passíusálmana bókmenntalega. Þegar ég á sínum tíma rannsakaði Passíusálamana hafði ég mikið gagn af skrifum Jakobs. Aðferðin er vissulega barn síns tíma en nálgunin var frumleg og opnaði.
Afburðamaður Jakob Jónsson, embættismaður, skáld, fræðimaður, prestur, skapandi brautryðjandi. Þökk sé honum öll störf hans í þágu Hallgrímssafnaðar og kirkju Íslands.
Fyrirlestur SÁÞ í Norðursal Hallgrímskirkju um dr. Jakob Jónsson, 3. mars, 2019. Í röð fyrirlestra um prédikun og kenningu presta Hallgrímskirkju frá 1941 – 2015. Hvernig mæltist prestinum?
Myndin yfir greininni er af yfirliti ræðu Jakobs Jónssonar sem hann flutti á biblíudeginum 8. febrúar, 1942. 2. sd. í níuviknaföstu. Þetta yfirlit gefur innsýn í hvernig hann skipulagði ræður sínar og þær sem virtust vera blaðalausar voru skipulagðar.
[i]Hans Jakob Jónsson, fæddist á Hofi í Álftafirði í Suður-Múlasýslu 20.1. árið 1904. Foreldrar hans voru Jón Finnsson, prestur í Álftafirði og á Djúpavogi, og Sigríður Hansína Hansdóttir Beck.Kona Jakobs var Þóra Einarsdóttir. Börn þeirra: Guðrún Sigríður, hjúkrunarfræðingur og Íransfræðingur; Svava, bókmenntafræðingur, rithöfundur og alþm.; Jökull, rithöfundur; Þór, veðurfræðingur og Jón Einar, lögmaður. Jakob varð stúdent frá MR 1924. Hann lauk embættisprófi í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1928, var við framhaldsnám í sálfræði við Winnipeg-háskóla 1934-35, stundaði nám í kennimannlegri guðfræði og nýjatestamentisfræðum við Háskólann í Lundi 1959-60 og lauk lícentíatsprófi í guðfræði við háskólann í Lundi 1961 og varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 1965.Jakob var aðstoðarprestur hjá föður sínum á Djúpavogi 1928, sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli 1929-35, prestur í Kanada 1935-40 og í Hallgrímskirkjuprestakalli 1941-1974. Hann var skólastjóri við gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1931-34, stundakennari við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga 1941-42 og MR 1944-50. Hann var formaður Prestafélags Íslands í áratug og gegndi margvíslegum öðrum trúnaðarstörfum. Jakob skrifaði fjölda rita um guðfræði og skrifaði einnig leikrit. Jakob lést á Djúpavogi 17. Júní árið 1989.
[ii]Jakob Jónsson, Frá sólarupprás til sólarlags, Minningabrot, Skuggsjá, Bókabúð Ólivers Steins, Hafnarfjörður, 1981. Hér er vísað til blaðsíðutals þeirrar bókar og þegar vísað er í síður í þessum lestri er vísað til þeirar bókar.
[iii]Sjá helstu þætti nýguðfræði í samantekt Alfred Ernest Garvie í bók James C. Livingston, Modern Christian Thought: From the Enlightenment to Vatican II,(New York: Macmillan Publishing C., Inc., London: Collier Macmillan Publishers, 1971), 246.
[iv]Þór Jakobsson, Um föður minn, sr. Jakob Jónsson, dr. theol. (1904-1989) nokkrar svipmyndir, Skjöldur ; 2007; 16 (6) = (66): bls. 18-23.