Textar þessa sunnudags eru áleitnir og tala beint inn í tíu ára afmæli bankahrunsins. Í guðspjallinu er sagt frá manni sem var í miklum vandkvæðum, en Jesús líknaði honum og reisti hann á fætur til nýs lífs. Pistillinn hvetur til endurnýjunar og í lexíunni segir: „Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja … Snúið við svo að þið lifið.“ Þetta er kjarnyrt samantekt á erindi kristninnar í veröldinni, verkefni hvers manns og orð í tíma töluð þegar hugað er að uppgjörum áfalla – já allra hruna heimsins.
Geir og Guð
Í gær voru rétt tíu ár frá því sá merki stjórmálamaður Geir Haarde, forsætisráðherra, flutti áhrifaríka ræðu 6. október árið 2008. Ræðan var öll birt á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Erindi hennar er skýrt og Geir endaði ræðu sína með því að segja: „Guð blessi Ísland.“ Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki ofnotað Guð í kveðjum. En það er skýr og jákvæð kveðja að biðja mönnum blessunar Guðs. Og hefur aldrei skaddað nokkurn mann – en alltaf bætt. Amma mín og móðir sögðu við alla, sem þær kvöddu: „Guð blessi þig.“ En þessi blessun Geirs Haarde varð eins og táknsetning um ótrúlega atburði þessara haustdaga fyrir tíu árum, þegar bankakerfi Íslands hrundi.
Ekki gjaldþrota á meðan
Stórar stundir brenna minningu í huga. Og Guð blessi Ísland – kveðja Geirs var „aha-stundin“ þegar raunveruleiki hrunsins dagaði á okkur og brenndist í vitund flestra. Mörg eigum við sterkar minningar, sem tengjast þessum tíma. Við kona mín vorum vorum á leið til útlandi og líka uggandi um stöðu bankamálanna. Og hún hringdi í starfsmann í þjónustudeild bankans og tjáði áhyggjurnar. Hann sagði við hana vinalega og hughreystandi: „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“
Þegar við lentum í Barcelona opnuðu margir símana sína á leiðinni út úr flugvélinni. Og það varð mikið uppnám í landgangnum, hróp og köll. Glitnir hafði fallið og ríkið tekið yfir reksturinn meðan við flugum í suðurátt yfir úthafið. Ræða Geirs Haarde hitti okkur og við fylgdumst með fréttum og svo féll Landsbankinn. Daginn, sem við fórum heim, féll Kaupþing. „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“ Jú, Kaupþing féll, allir stóru bankarnir féllu. Fjármálakerfi Íslands hrundi. Tugir þúsunda urðu fyrir fjárhagstjóni, samfélagið lemstraðist, stjórnálaumræðan eitraðist og þjóðin varð fyrir áfalli. Guð blessi Ísland.
Álagahamur peninganna
Og nú lítum við til baka og rifjum upp. Og það er mikilvægt að fara yfir tilfinningarnar, þó sumar séu sárar og íþyngjandi. Eins og mörg önnur hlustaði ég – fyrir hrun – á helstu fjármálasérfræðinga þjóðarinnar lofa getu, fjárfestingasnilld, íslenskra útrásarmanna. Flestar trommur voru slegnar til að magna trúna á velgengnina. Forsetaembættið var notað og stjórnmálamennirnir voru líka málaliðar. Blekkingarvefurinn varð álagahamur Íslands. Það var nístandi sárt þegar háskaleikurinn endaði með skelfingu og í ljós kom að fataskápar keisaranna voru tómir. Þeim, sem treyst var, brugðust, hvort sem það var með vilja eða vegna álaganna. Eldarnir loguðu, harmurinn var mörgum mjög þungur. Við prestarnir heyrðum margar sorgarsögur fólks í miklum vanda.
Hliðrun – veiklun
Vandinn var vissulega margþættur: Oflæti í fjárfestingum, getuleysi stjórnmálastéttarinnar, hræðsla embættismanna, háskólafólksins og líka kirkjunnar. Teflonhúðin var álagayfirborð stétta og hópa. Guð blessi Ísland. En gerðir eða getuskortur einstaklinga eða hópa er ekki eina ástæða hrunsins heldur fremur hliðrun í menningunni, sem stóð í langan tíma. Að fjármálamenn, stjórnmálamenn, embættismenn og við öll skyldum lenda í hruninu var niðurstaða þróunar í heila öld. Gamla Ísland var ekki fullkomið, en í menningu okkar hafði kristin mannsýn stýrt meðferð fjármuna. Raunsæji var um styrkleika, en líka breiskleika fólk. Fyrr og síðar hafði verið hamrað á í prédikun, bókum og stjórmálum, að menn væru samfélag en ekki samsafn einstaklinga, um mikilvægi þess að standa með náunganum og öðru fólki. Samstaðan var aðall menningar okkar. Um aldir var hamrað á, að peningar væru ekki markmið, heldur tæki til að þjóna öðrum. Gróði væri ekki í eigin þágu, heldur til að bæta líf heildar. Við erum ekki eyland fyrir okkur sjálf – eða fyrir fjölskyldu okkar og ættmenni. Við erum ábyrg fyrir velferð þeirra sem hafa lítið, þeirra sem eru líðandi – allra. Guð blessi þig merkti alltaf á fyrri tíð að Guð hefði áhuga á velferð allra. Það var þessi sýn og vitund, sem hafði spillst í vaxandi velsæld tuttugustu aldar Íslands. Hið trúarlega var alla liðna öld æ ákveðnar flæmt úr almannarýminu og lokað inn í kirkjuhúsunum og helst á skrifstofum prestanna. Íslensk þjóð gleymdi, að Guð blessar ekki bara þjóðkirkjuna, heldur vill efla uppeldi og blessa atvinnulíf, banka og móta útrásarvíkinga. Siðferðisveiklun samfélags er vond menningarhliðrun. Og þegar Geir Haarde sagði Guð blessi Ísland hljómaði það ekki eins og góð kveðja um að við öll nytum góðs, heldur fremur eins viðvörunaróp. „Nú er allt komið til fjandans og búið ykkur undir það versta.“
Blessun en frelsi manna
Við getum spurt: Blessaði Guð Ísland? Ég segi já. Guð var og er með. Við treystum frekt, gerðum mistök, fórum of hratt, trúðum bláeyg og hrundum öll. En alltaf var Guð þó með. Guð er alltaf nærri, Guð blessar einstaklinga, gefur líf, ljós, mat og drykk, vind og sól, veröld til að lifa í – og róttækt frelsi til starfa og að gera gott. En þótt Guð blessi allt og alla tekur Guð aldrei frá okkur ákvörðunarvaldið, hið rótttæka frelsi til að ákveða okkar stefnu, vinnu, fjárfestingar, líf og lífshætti. Við getum ákveðið, að halda í þau gildi sem hafa reynst vel í samfélagi manna um aldir. En við getum líka ákveðið að sleppa þeim og bara græða og grilla.
…svo að þið lifið
Geir Haarde sagði í ræðunni merku: „Ég hvet ykkur öll til að standa vörð um það sem skiptir mestu máli í lífi hvers einasta manns, standa vörð um þau lífsgildi sem standast það gjörningaveður sem nú er að hefjast… …Guð blessi Ísland.“
Bæn Geirs virkaði. Björgunaraðgerðirnar skiluðu ótrúlegum árangri. Víða hefur verið tekið faglega og vel á málum. En við erum ekki búin að vinna grunnvinnuna við að ákveða hvað við ætlum að gera í siðferðisefnum okkar, menningarhliðrun og uppeldi barnanna. Guð blessi Ísland gekk eftir í flestu hinu ytra. En það er okkar að vinna með blessunina í okkar lífi og okkar menningu. Það varðar nýjan anda, nýtt hjarta.
Ég kalla eftir þeim nýja anda, því nýja hjarta. „Snúið við svo að þið lifið.“ Guð blessi Ísland og í Jesú nafni – Amen.
Hallgrímskirkja 7. október, 2018. 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Tíu ára afmæli hruns.
Lexía: Esk 18.29-32
En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.
Pistill: Ef 4.22-24
Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
Guðspjall: Matt 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.