Helgi var fjallamaður. Hann naut áreynslunnar við að klífa fjöll, finna leiðir, gleðjast yfir undrum náttúrunnar og komast á toppinn. Og syngja svo að kvöldi í hópi glaðsinna göngufólks. Í þannig aðstæðum kynntist ég Helga. Hann hafði reyndar alltaf verið til í vitund minni, því við vorum systrasynir og hann var sautján árum eldri. Móðir mín og móðursystir elskuðu hann og hossuðu honum ungum og alla tíð síðan. Ég vissi því af honum, en við kynntumst þó ekki fyrr en fyrir tuttugu árum. Þá réð Ferðafélag Íslands Helga til að stýra gönguferðum um svarfdælsk fjöll. Ég var sá lukkuhrólfur að vera í hópi Helga og naut þess í mörg ár síðan. Hann var afburða leiðsögumaður. Ég hef ekki notið annars betri. Þar sem við frændur deildum herbergi í fyrstu ferðinni varð ég vitni að hve margra vídda Helgi var. Hann m.a. gerði námstilraunir með sjálfan sig. Hann sofnaði með lestur Íslendingasagna í eyrum og nýtti því svefntímann til að læra. En hann var slakur gagnvart því að draumar hans hafi yfirtekið námið og ekki alltaf ljóst hvað væri úr Laxdælu eða Eglu og hvað frá honum sjálfum. Þessi eftirminnilega gönguvika tengdi þátttakendur og ég naut þeirrar blessunar að kynnast konu minni undir vökulum augum fararstjórans.
Helgi var afar eftirminnilegur maður. Honum var mikið gefið og var fjölgáfaður. Atorku- maður við vinnu, hvort sem það var í sveitavinnu bernskunnar eða í fræðum fullorðinsáranna. Hann hafði þörf fyrir einveru og sökkti sér í það, sem hann sinnti hverju sinni, hvort sem það var á rannsóknarstofunni eða við skáktölvuna sína.
Hann sótti í söng og gleði og var allra manna skemmtilegastur í samkvæmum. Hann var alvörumaður en líka syngjandi gleðikólfur, íþróttagarpur en líka fíngerður tilfinningamaður, háskólamaður en einnig bóndi, stórborgamaður en sótti í fásinnið, þekkingarsækinn og framfarasinnaður, en mat einnig mikils klassík og festu menningarinnar.
Ég þekkti foreldra Helga og fannst hann flétta gæði beggja í eigin lífi. En ólíkur var hann þeim þó og fór sínar eigin leiðir.
Nú er Helgi farinn upp á Rima eilífðar og við hinir pílagrímar lífsins þökkum samfylgdina. Þökk sé Guðrúnu Agnarsdóttur, konu Helga, fyrir alúð hennar við ættfólk hans. Hún gekk hiklaus með manni sínum í heimum manna og fjalla, þjónaði fólkinu hans og annaðist hann síðan stórkostlega síðustu veikindaárin. Við leiðarlok vil ég tjá þakklæti mitt fyrir ræktarsemi þeirra Helga í garð móður minnar, móðursystur og fjölskyldu. Guð gangi kindagötur eilífðar með Helga Þresti Valdimarssyni og geymi ástvini hans.
Minningargrein mín um Helga í Morgunblaðinu 17. ágúst 2018. Meðfylgjandi mynd tók ég af Helga á Hvarfshnjúk í Svarfaðardal.