139

Byrjum á vitund þinni? Ertu hér? Fylgja þér einhverjar hugsanir úr lifun morgunsins sem hindra að þú komir? Lentir þú í einhverju sem þú ert enn að vinna úr? Sagði einhver eitthvað við þig sem þú ert enn að greina og skilja?

Ertu hér eða ertu þar? Margir rýna í símann í messu eða á kyrrðarstundum. Horfðu í kringum þig, fjöldi er að taka myndir og senda. Í sumum dönskum kirkjum kíkir meira en helmingur kirkjufólksins í símann í hverri messu. Fyrir skömmu síðan sá ég konu vafra í miðri prédikun. Á að banna síma í kirkju og láta alla setja símana í kassa við innganginn eins og í dönskum barnaskóla? Nei. Símnotkun vex alls staðar og kirkjurýmið er næðisrými sem hentar vafrinu. Og þar sem síminn er á lofti er víða farið að nota hann sem skjá fyrir sálmabók og biblíutexta. Þau sem koma í messu í Hallgrímskirkju geta flett á hallgrimskirkja.is í messunum til að veiða sálmanúmer, sálma og bilíutexta.

En hver er nálægð þín? Hvað fangar hug þinn? Er það netið, at morgunsins, reynsla daganna eða nærðu að vera í núinu? Hvað er næst þér? Viltu dýpra í þér? Alla leið?

Marteinn Lúther sagði að Davíðssálmarnir næðu að tjá allar tilfinningar manna. Allt sem menn reyndu í lífinu væri orðfært í þessum sálmunum. Það er rétt. Í sálmi 139 segir:

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni 
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst 
og hönd þína hefur þú lagt á mig…

Hvað er innst í þér? Hvað um guðlega alnánd? Guð er svo nærri þér að ekkert fer fram hjá þeirri vitund. Engar hugsanir eru Guði óþekktar. Þú segir ekkert sem elskunæmni Guðs nemur ekki. Þú gerir ekkert svo kvika Guðs verði þess ekki áskynja. Nándin er alger. Guð er þér nær en kvíði daganna. Þó þú lyftir þér á vængi netsins eða morgunroðans er Guð þar. Þegar þú forðast kirkjur, guðshús og heilaga staði heimsins er samt guðlegur meðhlaupari nærri. Og ef þú rásar burt frá þínu persónulega altari – er Guð þar – nær en sjálf þitt.

Hvert get ég farið frá anda þínum, 
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig 
og hægri hönd þín halda mér…“

Guð er þér nærri – alls staðar – alltaf – hér og líka í þér.

Íhugun í kyrrðarstund 5. október, 2017.