Ein af merkilegustu bókum sem ég las í vetur er Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Ég heillaðist af hugmyndaauðgi og dýpt þessarar skáldsögu. Söguþræðinum verður ekki lýst í nokkrum setningum, en þó hægt að upplýsa að í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins eða fara, engin skip heldur. Öll fjarskiptasamskipti rofna og Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma, sem leiddi til hruns, raunar algers og rosalegs kerfishruns.
Eyland er vel heppnuð bók um risastóra hugmynd, saga á mörgum plönum og um mörg mál. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða siðferði býr í menningunni? Eyland lýsir vel að menning verndar líf en líka hvað stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menningin er viðkvæm og brotnar auðveldlega.
Boðorði tíu
Lexía dagsins talar inn þetta spurningaflóð. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði upplifað langvarandi kerfishrun. Og slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og jafnvel hryllilega reynslu. Þessi texti dagsins er um það sem við köllum boðorðin tíu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á Sínaífjalli. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur eru samandregnar og einfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kemur á undan ritverkum. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, orðið fyrir hruni, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin í mann-og dýraheimum valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Og hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Menning er alltaf þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.
Boðorðin urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, samskipti, landbúnað og samskipti við aðrar þjóðir. Og þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur haft áhrif á gildandi mannréttindabálka, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.
Um hvað?
Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Og mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.
Eining en samt tvær víddir
Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að skoða hið gamla efni og færa í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samdráttur eða samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum setti hann saman í það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvirðingu og mannvernd – að við eigum að virða og elska fólk – alla.
Kærleiksboðið í krossinum
Og krossar heimsins minna á það sama – á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin til Guðs. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur um fólk, alla menn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim, en líka náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.
Lögin verða til
Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, reglum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.
Orðin tíu í þágu okkar og lífsins
Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.
Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.
Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fortíð. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!”
Ertu sammála? Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, elska – sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa í þeirri lífsafstöðu og leggja lífinu lið – sem er mál seinni orðanna. Það er til að hindra kerfishrun, að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða.
Amen
Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 19. mars, 2017, 3. sunnudagur í föstu.