Sorgin – skuggi ástarinnar

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Þau syrgja aldrei sem aldrei hafa elskað.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Við megum gjarnan íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð.

Viltu fara á mis við að elska? Fæst vilja afsala sér þeim glitrandi þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu afar dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum.

Sorgarferli er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa við missinn. Syrgjandi kemst á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarferlinu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi.

Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana og skakkt í tilverunni – eiginlega utan við sjálft sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar.

Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau. Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín?

Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. Dauðinn dó en lífið lifir. Því endar líf ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 3. nóvember, 2016