Einu sinni var sat gyðinglegur fræðari með nemahóp og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“
Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt er að greina að hunda og kindur.“
Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“
Meistarinn brást við og sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“
Og þar með lýkur þessari sögu. Hvernig líkar þér svarið? Sagan er alls ekki um skepnur eða tré, birtu eða myrkur, heldur varðar samskipti og mennsku. Að dagur byrji, þegar ókunnugur maður kemur og við sjáum í honum bróður, systur og vin og að deilur gufa upp og hverfa. Er þá endir nætur – afturelding?
Símon Peres er látinn. Hann lést í liðinni viku. Hann var einn áhrifaríkasti leiðtogi Ísraela og kom til Íslands árið 1993. Hann var eftirminnilegur, leiftrandi skarpur, áhugasamur maður, opin kvika og ræðinn. Peres kom til Íslands í leyniferð um Norðurlönd til að afla fylgis friðaráætlun fyrir stríðandi þjóðir fyrir botni Miðjarðarhafs. Leyniförin bara árangur. Oslóarsamningurinn var undirritaður skömmu síðar. Nokkrum árum eftir þessa friðarför sagði Símon Peres viskusöguna um dagrenningu á leiðtogafundi í Davos. Hún á enn við.
Friður verður aldrei tryggður aðeins með undirritun og handsali. Þessa daga eru almennir borgar drepnir í Aleppo. Þegar dagur rís í þeirri borg vakna stríðsmenn en ekki systur og bræður. Um síðustu helgi féllu tæplega hundrað börn á aðeins tveimur dögum í Aleppo. Nóttin verður bara svartari. Hvenær dagar? Einstaklingar, hópar og þjóðir geta haldið áfram að stríða, deyða og eyða – en líka orðið fólk friðar, mennsku og elsku. Sýn trúar er að aðrir eru líka djásn og dýrmæti. Trúmenn eiga grunn í elsku og sköpunargerningi Guðs sem býr til veröld og fólk sem hefur gildi í sjálfu sér. Trúlaus sem trúandi megum við elska og virða í stað þess að óttast og hata. Dagur er á lofti þegar við virðum aðrar hefðir og óttinn minnkar. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina og vitjaði hennar. Amen.
Biðjum:
Guð dags og nætur, jarðar og himins, tíma og eilífaðar.
Hjálpa okkur að sjá bræður og systur hvern dag.
Gef okkur gleði himins í veröld jarðar, visku eilífðar í heimi tíma,
og dagssjón við næturlok. Amen
Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 6. október, 2014.
Meðfylgjandi mynd tók ég í Jerúsalem í dagrenningu í maí 2023.