Friðrik og Kjartan, sonur hans, voru um tíma samstúdentar í tölvunarfræði í Háskólanum. Þeir hittust í skólanum – það var skemmtilegt – sátu svo saman á sunnudögum, stunduðu dugnaðarlega kaffidrykkju, reyktu mikið og unnu saman dæmin, kepptu stundum um hvor væri á undan, fóru svo í skógarferðir út fyrir verkefnin, voru saman, hlógu, hugsuðu, tengdust – eignuðust tíma, sem er gjarnan kallaður gæðatími. Þetta líkaði Friðriki, að vera með fólkinu sínu, vinna að verðugu og erfiðu verkefni og geta blandað í hlátur og gleði.
Þrautir og lausnir
Hvernig er hægt að leysa þraut, hvernig er hægt að stilla hluti, þætti og víddir saman svo lausn finnist og verkefnið gangi upp? Friðrik var maður hinna flóknu verkefna í lífi og starfi, maður sem leitaði stöðugt lausna, lagði ómælt á sig til að tengja og uppskar eins og hann sáði og vann.
Foreldrar og heimili
Friðrik Adolfsson fæddist 6. júní. Hann var sumarbarn og fæddist á síðustu dögum dansks konungsdæmis á Íslandi, árið 1944. Nokkrum dögum eftir fæðingu hans varð Ísland svo lýðveldi. Foreldrar hans voru Adolf Guðmundsson, yfirkennari, (07.07. 1917, d. 26.08. 1965) og kona hans, Guðríður Oktavía Egilsdóttir, kennari (10.01 1920). Hún lifir son sinn og bróðirinn einnig. Hann er Þórður Adolfsson.
Faxaskjólið
Foreldrar Friðriks byggðu hús í Faxaskjóli 26. Þangað flutti fjölskyldan þegar Friðrik var á þriðja ári og þar var hann þegar hann var á Íslandi. Hann fór í Melaskóla eins og aðrir krakkar í hverfinu. Þegar Adolf fór til náms í Kiel fór fjölskyldan með. Friðrik var þar einn vetur í skóla, lærði þýsku, lærði að meta þýskt samfélag og þennan vetur var lagður grunnur að hinni “þýsku” framtíð hans, ekki aðeins varðandi verkfræðina, heldur líka menningu, mótun og hjúskap. Hann lærði meira að segja að dreyma á þýsku.
Fjölskyldan hélt svo heim frá Kiel, heim í Faxaskjólið og Friðrik fór eftir gagnfræðaskóla í MR, naut menntaskólatímans við nám og gleði og eignaðist vini, sem dugðu honum til ævigöngunnar.
Háskólanám
Friðrik varð stúdent frá MR árið 1964 og nam síðan mælingaverkfræði í Braunschweig í Þýskalandi og lauk fyrri hlutanum 1967 og síðan prófi í mælingaverkfræði frá Karlsruhe 1976. Friðrik bjó í Þýskalandi í yfir áratug, nam og vann. En svo þegar hann var búin með verkfræðina fór hann heim með allt það nýjasta í fræðunum.
Með snilli hins lausnamiðaða í farteskinu hóf hann störf hjá Íslenskum aðalverktökum, var svo um tíma verkfræðingur hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Starfaði svo hjá Forverk og frá 1994 vann hann sjálfstætt, sem byggingaverkfræðingur og síðustu árin hjá Íslenskum fyrirtækjum.
Hjúskapur
Friðrik giftist þann 30. ágúst 1977 Miriam Rubner leikskólakennara (04.07. 1949). Börn þeirra eru Agla Jael Rubner; Kjartan Jónatan Rubner og Egill Moran Rubner. Sonur Kjartans og Sigríðar Ásdísar Jónasdóttur er Dagur Benjamín Rubner, sem var afa sínum sólargeisli í lífinu. Friðrik og Miriam skildu. Sambýliskona Friðriks síðustu ár var Elke Herrel, sálfræðingur. Friðrik Adolfsson varð bráðkvaddur á heimili sínu í Faxaskjóli 5. apríl síðastliðinn.
Kæra fjölskylda þið hafið misst mikið. Nú er tekið fyrir allt það, sem þið áttuð í vonum. Lífsbókinni hans er lokað, en felið Friðrik elskufaðminum stóra, Guði. Þar allt gott, þar ganga málin upp, þar eru stærstu verkefnin stórfengleg. Þökk sé ykkur fyrir ástríki, umburðarlyndi, þolgæði og allt það, sem þið hafið verið Friðriki.
Þekkingaröflun
Fróðleikssókn, hagræðing og þekking er einkenni hinnar opnu mennsku. Í Orðskviðum Gamla testamentisins segir: „Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.“ Orðskv. 18.15
Aflar – leitar þekkingar. Hvernig var Friðrik? Hvernig manstu hann? Þú átt þínar minningar og farðu vel með þær. Mundu eftir dýrmætum í samskiptum og leyfðu hinu að fara, jafnvel leka niður í gólf kirkjunnar. Ég man, að augu Friðriks leiftruðu þegar hann kom í nýja safnaðarheimili Neskirkju. Hann horfði í kringum sig, las allt fljótt og snögglega, hús, fólk og mál. Það var gaman að vera með honum og upplifa snerpu hans, spuna og sköpunarmátt.
Friðrik var blíðlyndur fjölvíddarmaður. Hann var öflugur í flestu sem hann gerði, gat tölvulaust leyst þá flóknu þraut og reiknisdæmi að setja upp mælingalíkan þegar Vestfjarðagöng voru á hönnunarstigi. Tölvurnar í Karlsruhe staðfestu svo reikning hans. Friðrik var eðlilega spenntur þegar komið var að síðustu sprengingunni fyrir vestan. Allt var rétt og verkið gekk upp.
Jarðbinding
Flókin verkefni voru Friðriki ögrandi gleðigjafar. Hann, sem var mikill tilfinningamaður og stundum að springa af innri glóð, var líka afar jarðbundinn. Hann gat skilið skapandi listamenn, sem fóru með himinskautum í hugarflugi, en vissi manna best að hugmyndir yrðu ekki að veruleika, hversu flottar sem þær væru, nema hægt væri að jarðbinda, allt væri rétt mælt og í samræmi við lög og reglur.
Verkfræðingurinn týndi sér þó ekki í hinu praktíska eða tölunum heldur. Hann tengdi allt til enda, gat auðveldlega gert við tækin, hvort sem það voru nú bílarnir hans eða barnanna. Úr tveimur ónýtum þvottavélum bjó hann svo til eina nothæfa! Hann hafði gaman af að taka í sundur það, sem ekki gekk, finna veiluna, gera við og setja svo saman. Hann íhugaði stöðugt, hvernig væri hægt að bæta hönnun tækja og tóla, hvernig væri hægt að bæta nýtingu græjanna og hvernig væri hægt að breyta þannig að þær yrðu betri.
Friðrik var alla tíð opinn fyrir nýjungum. Þegar hann fékk eitt af bernskutólum tölvutímans, Hewlett Packard-tölvu í fangið í fyrsta sinn, varð hann sem barn og gleymdi stað og stund og hvarf inn í heima undra og stórmerkja. Alla tíð hreifst hann af tæknilegum nýjungum og hafði því afstöðu og opinn huga hins unga manns.
Listfengi
Í tæknihyggju blandaði hann síðan næmi, fegurðarskyni og mannvitund. Friðrik var góður ljósmyndari. En hann var ekki á kafi í ljósmyndun tækniundra. Hann tók ekki síður myndir af fólki. Hann hafði áhuga á mannlífi, sá fólk, kunni að meta hið kúnstuga og litskrúðuga líf.
Friðrik var það, sem heitir á kjarngóðri íslensku, greindur. Eðli greindar er, að kunna að taka hluti rétt í sundur, og það merkir að greina. En það er ekki nóg að kunna að rífa hlutina í sundur ef menn geta ekki sett saman að nýju. Snillin kemur best í ljós þegar menn geta sett hluti, atriði, mál svo saman að nýtt tæki, ný merking eða ný hugsun verði. Friðrik megnaði að sjá lausnir í flóknum málum, setja saman þannig að nýtt varð til. Hann hafði áhuga á skapandi hugsun.
Gildin og lífið
Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar – það gerði Friðrik alla ævi. Hann var opinn, hafði opin eyru og augu. Hann hafði sín grunngildi, var alinn upp í gildaarfi sr. Friðriks Friðrikssonar, stofnanda KFUM, sem hafði fóstrað Adolf, föður hans.
Friðrik Adolfsson var heillyndur, heiðarlegur, trúfastur og réttsýnn. Hann var ekki fullkominn fremur en við hin. Hann var sér sárlega meðvitaður um sprungurnar hið innra, gerði sér alveg grein fyrir eigin beyglum, reyndi að höndla tilfinningaglóð og tókst betur eftir því sem árin liðu. Síðustu árin varð hann æ uppteknari af grunngildunum og fjölskyldu sinni. Hann hafði ekki aðeins unun af að reikna dæmin með syni sínujm, heldur vildi helst fá að vera sem mest með börnunum.
Verkefni, vandkvæði eða þrautir voru ágætt tilefni til samvista og samveru. Þegar einhver þurfti einhvers með var hann mættur. Einu gilti hvort það var að skipta um þak eða ditta að einhverju smálegu.
Undrið og opnun
Maðurinn er mikið undur og lífið er okkur flestum flókin gáta. Öll erum við kölluð til að vinna úr arfi og aðstæðum, innri glóð og ytri kröfum. Við erum hluti flókins en heillandi vistkerfis. Friðrik vissi vel um ólíkar hugmyndir og hefðir, var óhræddur að tengjast fólki, sem hafði annan bakgrunn en hann sjálfur. Hann þorði það, sem við erum öll kölluð til í nútíma, að ganga á vit fjölbreytileika, læra af öðrum, halda því besta úr eigin hefð og ranni en þola og þora að opna.
Í trúarefnum, í náttúrunni, í lífinu er fjölbreytileiki, sem getur verið til góðs og eflt. En svo eru á samskiptum fólks, í samskiptum þjóða, í átökum einstaklinga og innan í okkur sjálfum veilur, vandkvæði, afbrot og áföll, sem er hægt að kalla ýmsum nöfnum. Friðrik hefði eflaust haft gaman af að ræða um hvernig væri hægt að ímynda sér Guð sem vísindamann.
Hinn lausnamiðaði Guð
Hvernig átti að mæla fyrir vestan ef allir hefðu verið búnir að gefast upp? Jú, Friðrik hefði farið sjálfur, gengið í verkið ef allt hefði verið komið í strand. Þannig er koma Jesú Krists túlkuð í veraldarsamhengi. Guð er lausnaleitandi vera, sem er annt um þennan fjölskrúðuga heim. Veröldin, sem þraut eða gáta, sem ekki var hægt að leysa öðru vísi en með því að Guð kæmi sjálfur, ekki til að mæla eða búa til módel heldur til að laga og tengja, gera heilt það sem brotið var og beyglað.
Við kveðjum öflugan mann í dag sem þorði að skoða, leitaði þekkingar, leitaði visku. Hann hefur lokið sínum mælingum, er hættur að reikna og mun ekki keppast við börn sín í reiknisnerpu. En reikniævintýrið heldur áfram því heimurinn er ekki lokað kerfi, heldur með víddum og því sem nefnt er eilífð. Treystið því, að sál Friðriks lifi, andi hans fái notið fallegra lausna, sem taka fram öllum reiknimódelum og mælingakerfum, ganga algerlega upp og eru líka falleg og skemmtileg. Þannig er Guð.
Neskirkja, apríl 2006.