Fyrir einu ári birti Sigurður Bogi, eðalblaðamaður Moggans, viðtal um kirkjuna og hlutverk hennar. Tilefnið var vistaskipti mín. Viðtalið við nafna minn er hér að neðan:
“Kirkjan hefur orðið fyrir gagnrýni og þarf að þola hana. Hlusta vel þegar fólk talar af sársauka og réttlætisþrá. Kirkjan þarf líka að vera tilbúin að breyta starfsháttum. Stofnanaóþol í samfélaginu er útbreitt. Allar hreyfingar, líka kirkjan, eiga á hættu að frjósa í stofnanafjötrum. Það er hins vegar er eðlið að endurnýjast,” segir sr. Sigurður Árni Þórðarson.
Á morgun, sunnudag, kveður Sigurður söfnuð sinn í Nessókn í Vesturbæ Reykjavíkur eftir tíu ára þjónustu þar. Og um næstu helgi, 30. nóvember, verður hann settur í embætti sóknarprests í Hallgrímskirkju. Valnefnd við sóknina kaus á dögunum að þau sr. Sigurður og Irma Sjöfn Óskarsdóttir yrðu prestar kirkjunnar, embætti sem biskup Íslands hefur nú skipað þau í.
Hallgrímskirkja skipar sess í borginni. Er þjóðarhelgidómur og miðstöð kirkjutónlistar á Íslandi. Fjölsóttir tónleikar og athafnir eru í kirkjunni sem erlendir ferðavefir hafa útnefnt hana sem eina merkilegustu í heimi, enda er hún mikið aðdráttarafl túrista. En þeta er jafnframt sóknarkirkja íbúa á Skólavörðuholti og nærliggjandi hverfum.
“Miðbæjarkirkjulíf er öðru vísi en safnaðarstarf í hverfiskirkjum eða dreifbýlinu. Kirkjan þarf því að mæta misvísandi og fjölbreytilegum óskum,” segir Sigurður Árni sem telur að nú þurfi að fara yfir áherslur og leggja nýjar ef þarf. Kirkjan eigi að vera í sókn en ekki í vörn. Almennt starf og tónlistarlíf í Hallgrímskirkju hafi notið krafa góðs fólks á öllum sviðum – en allaf megi brydda upp á einhverju nýju. Í þessu sambandi víkur Sigurður að hinu sérviskulega áhugamál sínu, mat. Því þeim áhuga deila þeir Jesús Kristur, en sá síðarnefndi gerði borðið að miðju kristninnar á þann veg að söfnuður Jesú er samfélag fólks um veislu.
“Mig dreymir um að fá bestu kokka þjóðarinnar til að elda með mér á kirkjuhátíðum. Vonast líka til að í framtíðinni verði Hallgrímskirkja og veraldarvefurinn enn betri vinir og helgihaldinu verði fjölmiðlað. “
Sigurður Árni Þórðarson hefur þjónað sem prestur í um þrjátíu ár. Þjónustu sína hóf hann í Skaftártungu, var seinna prestur norður í Þingeyjarsýslum, rektor Skálholtsskóla, fræðslustjóri í Þingvallaþjóðgarði og er þá sitthvað ónefnt. Við Neskirkju hefur hann þjónað frá vormánuðum 2004. Hann segir prestsstarfið og menninguna á stöðunum þar sem hann hefur starfað gjörólíka. Samfélagið hafi sömuleiðis breyst mikið síðustu ár.
“Í þéttbýlinu er vitund um hið sameiginlega að hverfa og einstaklingshyggjan vex. Fólk er æ sjálfmiðaðra í neyslusamfélagi nútímans og þar með berskjaldaðra. Í dreifbýlinu er víða varðveitt styrk samfélagvitund, að enginn er eyland og fólki er þörf á að vinna vel saman. Presturinn hefur tengsl við flesta og það er ómetanlegt á stóru stundum lífsins,” segir Sigurður Árni og heldur áfram.
“Í stóru þéttbýlissöfnuðunum þekkir presturinn ekki nema hluta sóknarfólksins vel. Í athöfnum, áföllum og þjónustu eru þó sömu kröfur gerðar til presta.”
En þótt fjölmenningarsamfélag nútímans sé í stöðugri deiglu og staða kirkjunnar talsvert breytt frá því sem áður var, segir Sigurður Árni fólk þó jafnan leita mikið til kirkjunar í gleði sem sorg. Fermingarbörn sín í Vesturbænum á síðustu tíu árum séu orðin nærri þúsund. Velvilji fólks gagnvart hverfiskirkjunni sinni sé mikill
“Ég hef engar áhyggjur af framtíð kristninnar því lífið hríslast í fólki – og allt líf er frá Guði. Þau sem verja aðeins stofnun daga uppi og Guð stendur alltaf með lífinu. Boðskapur Jesú Krists er í þágu gleði og hamingju lifandi fólks, “segir Sigurður Árni og heldur áfram. “Þjóðkirkjan er ekki lengur í bakslagi heldur sókn. Hún er kölluð til að breytast, vera kraftmikið þátttökusamfélag sem gleðst yfir fjölbreytileika, heldur vel utan um fólk, er rammi um mestu gleði og sorg þess og mætir fólki með trú, góðu viti, hlýju og fagmennsku.”
Sigurður Bogi Sævarson