Það var undursamlegt að sjá fingur Lauga fara fimlega yfir hljómborðið. Lag hljómaði, einbeittni einkenndi spilarann og gleðibros færðist yfir andlitið. Músíkin í Lauja snart okkur sem fengum að njóta. Tónlistin var sumpart lykill að sál hans og lífi. Hann vakti snemma athygli fyrir tónlistargetu og fór ungur til náms í tónlist. Og Laugi var fjölhæfur, í honum bjó listræn næmni sem fékk útrás með ýmsum hætti í samskiptum, handverki og gjafmildi.
Í módelsmíðinni samþættaði Lauji smekkvísi og smíðagetu. Módelin hans voru listasmíði sem löðuðu fram tilfinningu, ekki aðeins fyrir húsum eða mögulegum húsum, heldur líka fyrir honum sjálfum og lífinu. Módelin hans urðu til að fólk fékk vitund um hvernig form og útlit húsa yrði. Teikningar eru ekki öllum skiljanlegar en módel sýna afstöðu, hlutföll og útlit. Módel eru oft mikilvægir skilningsvakar og tilfinningahvatar. Lauji megnaði því að koma hinu ósegjanlega og nánast yfirskilvitlega í heim upplifunar. Og það þarf snilld til.
Lauji varð eins og meðalgangari milli hugarheims og raunheims. Með módelum hans byggði hann brýr milli heima. Það sem hafði verið hugsað og skissað fékk mynd meðal manna. Og ég efast ekki um að sumar byggingar voru byggðar vegna þess að Lauji hafði með líkönum sínum opnað leið fyrir skynjun og innsæi.
Módel vekja skilning, en líka tungumál og tónlist. Maðurinn er ekki einnar víddar heldur margra. Við látum okkur ekki nægja bara vatn og brauð. Við, menn, þurfum næringu á svo mörgum sviðum til að við getum höndlað hamingju og notið hennar. Þess vegna er til tónlist, ljóðlist, ritlist og myndlist. Þess vegna komum við saman til að syngja eða segja sögur. Þess vegna er til menning. Og þau okkar, sem eru músíkölsk á sviði trúarinnar, leitum í dýptir sálar og hlustum eftir tónlist himinsins. Við þráum að réttlæti ríki í heiminum, að fólk virði dýrmæti lífsins, fólks, allra. Við viljum að óréttur sé gerður upp og hið góða gildi – ef ekki fyrir mannlegum dómstólum – þá fyrir æðri og eilífum hæstarétti sem við köllum Guð. Við leitum að lífshamingju, þráum hið góða, viljum að lífið sé ekki bara mál tíma heldur vefur hamingju sem teygi sig inn í heim handan dauðans. Og þá erum við komin inn í himininn.
Ástvinur Lauja skrifaði í bréfi að himnaríki væri hægt að lýsa sem bestu tónleikum sem maður getur ímyndað sér. Er það ekki eitthvað fyrir Lauja – að vera á aðaltónleikunum, alfrjáls, alglaður – og það sem meira er – að hann fái sjálfur að músísera á þessum stórkostlega konsert, njóta alls innan frá og með allri næmni, gleði og unaði. Og svona lýsing á himni er ekki annað en ofurlítið orðamódel um lífið og veröldina sem Guð hefur skapað. Heimur trúarinnar er með því sniði. Guð elskar fólk og veröld. Saga Jesú Krists er frásögn um að Guð sættir sig ekki við sundrað mannkyn heldur þráir góð tengsl við alla menn og að allir fái notið lífs og komist á besta konsertinn. Trúir þú því? Viltu að Lauji lifi þá dásemd, fái notið alls sem hann hafði í sér – og með fullkomnu móti? Hann trúði því, ég trúi því einnig. Þú mátt fá þinn miða á þá tónleika líka – ef þú vilt.
Ætt og upphaf
En þá að músík mannlífs og dásemd náttúru við Steingrímsfjörð. Guðlaugur Heiðar Jörundsson var sumardrengur. Hann fæddist 12. ágúst árið 1936 og var því 78 ára þegar hann lést. Foreldrar Lauja voru hjónin Elín Sigríður Lárusdóttir og Jörundur Gestsson. Guðlaugur var yngstur þeirra systkina sinna. Ingimundur var elstur og hin voru Ragnar, Lárus, Guðfinna og Vígþór. Fóstursystir þeirra var Elenóra. Magnús var hálfbróðir Guðlaugs og samfeðra. Hann er látin. Vígþór einn lifir systkini sín.
Lauji fæddist á Hellu við Steingrímsfjörð. Heimilið var dugmikið menningarheimili og Hella var sem afleggjari himins í heimi. Lauji var alla tíð tengdur sínum stað og fólki og sótti ávallt heim í Helludýrðina. Elín sá um heimilisstörfin og Jörundur var – auk bústarfanna, hreppstjóri, hagyrðingur og halgeiksmaður og smíðaði báta. Meðal Strandamenn hafa um aldir verið góðir bátasmiðir og þjóðhagar. Lauji ólst upp við að hugur og hönd verða að vinna saman til að smíðisgripurinn yrði góður. Lauji lærði einnig að aga innri mann og í fjölskyldu hans var höfð fyrir honum reglusemi, natni og heillyndi. Hann lærði einnig af ástvinum sínum að betra er að vera umtalsfrómur en leggja öðrum illt til. Og svo þáði hann gamansemi í arf frá sínu fólki og sveitungum.
Íbúum í Kaldrananeshreppi fjölgaði mjög um miðja tuttugustu öldina og skóli var byggður í Drangsnesi og var tekinn í notkun árið 1944. Í skólanum var bæði kennt og messað – og svo er enn. Í þennan fjölnota barnaskóla sótti Lauji menntun sína.
En svo kallaði tónlistin – drengurinn var músíkölsk kvika. Foreldrar hans afréðu að hann færi aðeins 12 ára gamll til náms í tónlistarskóla Ísafjarðar. Þar nam hann auk þess að ljúka grunnskóla. Halldóra og Walter Knauf urðu honum ekki aðeins músíkforeldri heldur fóstruðu hann með nærfærni og elskusemi á Ísafirði.
Eftir að Lauji var útskrifaður úr Tónlistarskóla og hafði lokið bóknámi hafði hann atvinnu af tónlistariðkun. Hann spilaði ekki aðeins á piano og orgel heldur var einnig harmoníkuleikari. Lauji var um tíma kirkjuorganisti í Strandasýslu. Svo fór hann – að undirlagi Jónasar Tómassonar – til Siglufjarðar og var þar skólastjóri tónlistarskólans.
Á Siglufirði staldraði Lauji stutt við og fór uður. Tónlistin varð honum mikilvæg aukabúgrein. Hann hafði líka þörf fyrir að spila og músísera. Lauji var í hljómsveitinni Skuggum og þeir félagar voru öflugir tónlistarmenn, vönduðu til flutnings og sungu raddað sem er ekki sjálfgefið þegar einnig er leikið á hljóðfæri. Eftir að Lauji hætti í Skuggum spilaði hann fyrir sjálfan sig og Bíbí, fyrir veislugesti heima og í samkvæmum vina þeirra, ávallt auðfúsugestur og metinn fyrir hinar músíkölsku kærleiksgjafir.
Lauji sat ekki aðeins og spilaði annarra lög heldur samdi einnig tónlist. Og sumt af þessum lögum rötuðu síðan til annarra og sum þeirra hafa notið þeirrar gæðstimplunar að hafa verið síðasta lag fyrir fréttir!
Módelin
Svo var það handverkið. Eftir að hafa starfað um tíma hjá tollstjóraembættinu í Reykjavík var Lauji ráðinn á teiknistofu Borgarverkfærðings. Þar vann hann með teikningar og hreifst m.a. af hangýtu gildi módela. Smáhúsadjásnin urðu til að hann fór til starfa á sérstakri módelvinnustofu Reykjavíkurborgar. Lauji stofnaði síðan eigin vinnustofu, smíðaði fjölda listilega smíðaðra módela, var samverkamaður arkitekta og fékk bestu meðmæli þeirra – eins og sést vel á kynningarblöðungi Módelstofu Guðlaugs H. Jörundssonar.
Lauji hafði vinnustofu í Bolholti og þar var slíkt safn af verkfærum til smíða að mörgum þótti sem þeir kæmu í himnaríki smíðanna.
Smíðavinnan var oft flókinn og reyndi gjarnan á Lauja að finna hæfileg efni, lýsa upp og leysa þrautir. Hann hafði þjálfast í nýta hluti við Helluströndina og á strönd Reykjavíkurheima lærðist honum að nýta ný efni og það sem rak á fjörur hans í nægtaheimum nútímans. Og hann var vandvirkur og valdi efnin vel. Lauji lokaði vinnustofu og fyrirtæki sínu árið 2004.
Bíbí
Og svo var það Bíbí, Guðrún Valgerður Haraldsdóttir. Við, sem kynntumst Lauja á síðari árum, kynntumst líka konunni hans. Hann sóttist eftir að vera nálægt henni og fór aldrei langt án hennar. Og tengsl þeirra hrifu okkur vini þeirra og það var vermandi, vekjandi og hrífandi að fylgjast með hve góð þau voru í samskiptum og hve hlýjan í hjónabandinu var mikil og nándin ræktuð.
Þau Bibí og Lauji kynntust á balli Áttahgafélags Strandamanna í skátaheimilinu við Snorrabraut. Guðrún var þá sautján ára og sá þennan glæsilega og fallega mann og hreifst af. En svo fór hann út á land aftur – tíminn leið en svo var haldið annað Strandaball. Þá sá Bíbí hann aftur og reyndar stórfjölskyldu hans líka. Og ekki var það verra. Ættboginn hreif hana og hún átti eftir að verða vinur þessa fólks og njóta samvista við þau, bæði í Reykjavík og síðan á Hellu.
Og smekkmaðurinn og fagurkerinn Lauji mundi alla tíð eftir hvernig Bíbí var á Strandaballinu – ljóshærð þokkadís í himinbláum flauelskjól. Þau heilluðust af glæsileik og mannkostum hins, urðu blússandi ástfanginn og héldu trúlofunarveisla 7. Mars árið 1958. Hún fékk hann í afmælisgjöf þegar hún var átján ára. Þau gengu svo í hjónaband í Neskirkju 11. Júní árið 1960. Hann var dökkur og hún ljós – falleg, hrífandi hjón.
Alla tíð síðan var Bíblí engillinn hans Lauja. Hann var bæði blíðlyndur og rómantískur og tjáði greiðlega tilfinningar sínar til Bíbíar. Auk rósanna á föstudögum sem hann færði henni stráði hann rósablöðum orðanna yfir Bíbí og rómantík tónanna einnig.
Jólapakkarnir hans til hennar voru svo stórkostlegir að þeir rötuðu á forsíðu vikublaðs. Og að hann var Bíbí helgaður og hafði sagt já við hana var skýrt í bréfunum til hennar. Laugi hafði mjög einfaldan smekk gagnvart konu sinni, hann vildi bara að hún fengi það besta og að umbúnaðurinn yrði fagur. Alla tíð skrifaði hann til hennar: „Þinn eilífur Laugi.“ Og samband þeirra var samofið úr ást og tryggð af eilífðartagi og er eilíft.
Þau Bíbí og Lauji voru samhent og oftast sammála og vönduðu til alls sem þau höfðu í kringum sig og gerðu sér fallegt heimili. Eftir upphafssambúð í forstofuherbergi á Fornhaganum hjá foreldrum Bíbíar, Valdísi og Haraldi, sem Lauji tengdist vel og varð þeim sem hinn besti sonur og þau honum sem foreldrar. Þau Bíbí bjuggu síðan í Álftamýri áður en þau fengu sjávarlóð og byggðu við Bollagarða. Þar leið þeim vel, Lauji var nálægt sjónum, naut þess að vera í nábýli við litríkt og síkvikt lífríki – nánast eins og hann væri heima á Hellu. Og þau Lauji eignuðust vini í nágrönnum, buðu heim til sín stórum vinahópi, voru ávallt veitulir gestgjafar og lifðu fallegu og inntaksríku lífi.
Þau eignuðust ekki börn en urðu hins vegar mörgum nánir ástvinir. Sif og Auður Edda urðu þeim t.d. sem dætur – einkadætur eins og þau Bíbí orðuðu það. Og Klara og Tómas urðu afabörnin hans Lauja. Og mörg ykkar sem kveðjið í dag eru að kveðja einn af sínum nánustu. Guð geymi ykkur í sorgarvinnu ykkar.
Mér hefur verið falið að bera ykkur kveðju frá Vígþóri Sjafnar, Ashley og Bríma sem eru í Bandaríkjunum og geta ekki komið til þessarar athafnar.
Minningarnar
Hvaða minningar áttu um Lauja? Manstu hve vandvirkur hann var – hversu mikið hann lagði á sig til að allt sem hann gerði mætti verða sem best? Hann vann kvöld-og næturvinnu til að tryggja að geta skilað verkum á tilsettum tíma og að allt væri eins vel úr garði gert og hægt var.
Og hann var með huga við að verka hans nyti lengi við. Og hann hafði auga fyrir lit, áferð og pensildráttum við málningarvinnu.
Manstu músíkina hans? Fegurðarskyn hans og stíláherslur? Hvernig hann umvafði aðra með blíðu sinni í hjúp tónlistar? Manstu fagurkerann?
Manstu náttúrubarnið í honum? Að fuglarnir hændust að honum og aðrir málleysingjar. Það voru ekki aðeins hundarnir þeirra sem urðu þeim hjónum náin. Jafnvel fuglarnir urðu honum sem vinir. Sömu endurnar komu ár eftir ár á pollinn á lóð þeirra Lauja. Þegar ég fór frá húsi þeirra hjóna nú í vikunni sat þröstur á grein við útidyrnar og horði á mig, fullkomlega rólegur og óhræddur. Það var gott að sjá til hans og merkja hve vel ræktaður hann var og eins og hann spyrði: Hvað er orðið af Lauja?
Manstu hve natinn Lauji var við ungviðið. Börn hrifust af honum, fundu traust hjá honum og hann tók því vel þegar litlar hendur laumuðust í lófa hans. Og æ síðan var hann vinur þeirra sem sýndu honum traust.
Manstu veiðimanninn Lauja? Þau Bíbí höfðu gaman af veiði, stundum fóru þau í laxveiði og Lauji var veiðinn. Á fyrri árum lögðust þau út við fjallvötn í Strandasýslu. Af þeim ferðum sögðu þau heillandi sögur með „súrreal“ ívafi að ættingjar komu jafnvel keyrandi á dráttarvél um langan veg til að færa þeim pönnukökur!
Manstu þegar Laugi fór að missa og að hann dró sig smátt og smátt í hlé og byrjaði að hverfa inn i himininn. En fallega konan í himinbláa kjólnum tryggði að hann gat verið vonum lengur heima. Þökk sé henni og þökk sé starfsfólki Fríðuhúss þar sem Lauji naut góðar aðynningar í eitt og hálft ár sem er þökkuð. Síðasta mánuðinn sem hann átti ólifaðan dvaldi hann svo í Sóltúni og naut þakkarverðrar hlýju.
Manstu hógværð hans, seiglu og glaðværð? Manstu hve skemmtilegur hann var, fyndinn og góður sögumaður? Manstu hve vænn hann var í samfélagi, jákvæður og blíðlyndur? Og að hann hafði í sér svo mikinn sjálfsstyrk að hann gat hrósað öllum. Manstu hve þakklátur hann var?
Og nú er Lauji farinn – horfinn inn í eilfífðina og tilfinningarnar vaka. Lauji spilar ekki aftur fyrir þig, þú séð hann aldrei framar fara fingrum um hljómborð og séð ekki ljúflegt brosið breiðast yfir ásjónu hans. Hann týnir ekki aðalber lengur af fullkomnu listfengi. Hann baðar hvorki þig eða Bíbí með kærleika sínum. „Guð er góður“ sagði Lauji gjarnan.
Já, hann er farinn inn í Hellu himinsins þar sem allt er gott, allt er heilt, stórkostleg músík hljómar, besti konsertinn. Þar er Guðlaugur H. Jörundsson í sínu fínasta pússi og í essinu sínu, altengdur og alglaður. Hann var vinur Guðs, vinur Jesú, skildi hvað páskajátning fornkirkjunnar merkir: „Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.“ Lauji var maður páskana og nú er hann horfinn inn í ljósabað á stórtónleikum lífsins. Þar er hann á Hellunni, glaður. Lof sé Lauja og lof sé Kristi. Og „Guð er góður.“ Guð geymi hann og Guð geymi þig.
Minningarorð við útför í Neskirkju, 26. mars, 2015.
Jarðsett í Gufuneskirkjugarði, erfidrykkja á Hótel Sögu.