Líf eftir dauða?

Trúirðu að foreldrar þínir og ástvinir lifi eftir dauðann? Hvert ferð þú þegar þú deyrð? Ferðu til Guðs eða eitthvað annað eða bara ekki neitt? Telur þú að lífið slokkni þér endanlega þegar þú tekur síðasta andvarpið og þú sameinist bara moldinni eftir greftrun og framhaldslíf þitt sé minning ástvina og efnið í moldinni? Og ekkert meira en það?

Skelfilegt?

Fyrir rúmlega einni öld síðan var maður á ferð austur í Skaftafellssýslu. Karlinn var slompaður á hestbaki. Hann kom að stóru fljóti og ætlaði yfir. Ekki tókst þó betur til en svo, að hann datt af baki og í ána. Samferðamönnunum tókst að ná manninum upp úr vatninu, en þegar hann var kominn á þurrt hafði hann misst meðvitund. Farið var með manninn heim í næsta bæ. Blaut fötin voru dregin af honum og svo var honum skutlað upp í rúm í hvítmálaðri stofu á bænum. Allt í einu bárust skerandi skelfingaróp úr rúminu í stofnni. Heimamenn spurðu: „Hvað er að, hvað er að?“ Karlinn lét af ópunum og svaraði stjarfur: “Þegar ég vaknaði í þessari hvítu stofu varð ég svo hræddur – hræddur um að ég væri dáinn og kominn til himins. Þess vegna æpti ég.”

Skaftfellskum heimildarmanni mínum fannst hlálegt, að maðurinn skyldi vera svona skelfdur yfir vera kominn inn í himininn.

Ertu hræddur eða skelfd? Við himininn eða við dauðann? Svo getum spurt okkur um hvaða mynd menn gera sér af himneskum vistarverum. Eru þær hvítar eða annars litar?

Systkinin í Betaníu
Systkinin í guðspjallssögu dagins bjuggu í þorpinu Betaníu og höfðu tilefni til að endurskoða hugmyndir sínar um líf og dauða. Lasarus, bróðir hinna frægu systra Maríu og Mörtu, dó. Jesús hafði vitað af dauðastríði vinar síns en flýtti sér þó ekki. Þegar hann kom loks var nályktin megn. Marta var Jesú reið og ávítaði hann: „Ef þú hefðir verið hér, væri hann ekki dáinn.“ Síðan kemur þetta kostulega samtal þar sem Marta, sem er fulltrúi heilbrigðrar skynsemi og lækninga, talar á svig við Jesú, sem var með hugann við allt öðru vísi lækningar en syrgjandi systirin. Jesús beindi sjónum að því, sem er að baki sjúkrablæjum og líkklæðum, já veröldinni allri. Beint inn í kjarnann, að því sem öllu skiptir og svo kom hin altæka yrðing: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyji.“ Og þar með er tvennan ljós, annars vegar maður og hins vegar Guð-maðurinn. Marta var á slóðum tímans en Jesús var með hugann við hvernig eilífðin hríslast inn í atburði tímans. Marta slengdi upp mynd hins hversdagslega vísdóms en Jesús lyfti upp tjöldum eilífðar.

Elífa lífið
Hvernig hugsar þú um eilífa lífið? Einstaklingsmiðaðir gera sér einstaklingsmiðaðar myndir. Aðrir taka túlkunum og myndum, sem umhverfið hefur þegið í arf og gera að sínum. Það eru hefðbundnar eða hefðartengdar myndir. Og þar kennir margra ólíkra túlkana, sem eru tilraunir til skilnings og tjáningar. Semítar, íbúar á því svæði sem nú er Írak og Sýrland og víðar í Austurlöndum nær, gerðu sér dapurlega mynd af dauðraríkinu og þær hugmyndir höfðu áhrif á trú hinna fornu Hebrea. Egyptar gerðu rosalegar dauðamyndir, sem eru síst eftirbátar hryllingsmynda nútímans. Stríðshetjur í norðri vildu gjarnan halda leikum áfram í Valhöll. Bændur aldanna hafa séð í hringrás ársins mynd endurlífgunar. Indjánarnir töluðu um hinar eilífu veiðilendur. Spíritistískir yfirstéttar-Bretar á 19. öld þráðu himnaríkistúrisma, að ferðast um í veröldum himnanna þegar þeir dæju. Aðkrepptir múslimar vonuðu fangbragðasælu og kvennafjöld í þægilegu hitastigi handan mæranna miklu. Hvað þráir hinn svangi? Auðvitað að framtíðarlífið verði matarríkt. Hinn kaldi eða brenndi að hiti í dauðaríkinu verði bærilegt. Hinn auðmýkti þráir hásætið, hinn niðurlægði þráir hefnd. Hinn myrti og píndi, að réttlætið sigri. Þetta eru vonarmyndir og þær eru tjáning á þrá fremur en lýsingar á himni. Við hugsum og trúum í ljósi aðstæðna og reynslu. Og svo kallar hver tími og þarfir á nýjar nálganir. Tölvuvæðingin er dæmi um tækni, sem getur opnað nálgun og nýja himintúlkun. Nútíma tölvufólk getur skilið himininn sem ofurgerð vefs, sem sálirnar flakka á. Tölvunördinn getur varpað vonum sínum inn í sýndarheima, sem væru án nokkurra takmarkana og bandvíddarteppu. Allt vonarvísanir en ekki raunlýsingar. Hver er kjarni málsins?

Trúir þú þessu?
Systkinin í Betaníu vissu hvað kennimenn Gyðinga höfðu að segja um eilífðina. Sumir gyðinglegir trúflokkar gerðu ekki mikið úr framhaldslífi. Aðrir kenndu, að maðurinn lifði áfram. Marta trúði, að bróðir hennar mundi rísa upp á efsta degi. En Jesús var ekki upptekinn af því að uppfræða um eilífð, heldur tengja tíma og eilífð. Hann sagði einfaldlega: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyji.“ Og svo spurði hann Mörtu þeirrar spurningar hvort hún tryði þessu. Þá kemur játning hennar, sem hugsanlega á sér einhverja stoð í guðsdýrkun safnaðar frumkristninnnar: „Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“ Síðan vaknaði Lasarus. Í þeim gjörningi braust eilífa lífið inn í tímann og staðfesti trú Mörtu.

Sálarspeglar og manngildi
Jesús sá manneskjurnar að baki ásýnd þeirra og grímum. Hann lét aldrei ímyndir fólks blekkja sig eða hugmyndir þess rugla sig og aldrei kenningar þess flækja sig. Hann lagði lífsvísdóm í brjóst fólks, hann miðlaði siðviti og kenndi bænir. Hann sagði sögur um lífið – en svo kom hið sértæka, algera og altæka. Hann sagðist ekki aðeins vera fulltrúi eilífa lífsins, kennari í ferðafræðum himinsins eða gúrú í andlegum æfingum. Og það merkir að hann væri ekki aðeins vegvísir heldur vegurinn sjálfur. Hann væri ekki áttaviti eilífðar, heldur væri hann sjálfur upprisan og lífið. Þar skilur á milli kristni og annars átrúnaðar. Jesús Kristur er ekki draumur hins fátæka, ekki hitastillir hins brennda eða kalda, ekki dyravörður mustera munúðarinnar og ekki netþjónn sálarvers handanverunnar. Hvað þá? Hann sjálfur  er lífið, sjálfur leiðin. Í þessu er fólgin krafan um guðdóm og ávarpið til þín um trú.

Trúir þú þessu? spurði hann Mörtu. Sú spurning er jafngild núna og hann beinir henni til þín? Trúir þú þessu? Þú, sem átt bróður eða barn sem deyr, vini sem hverfa, maka sem fellur frá og foreldra sem deyja. Þú hverfur um síðir líka. Hver er ferðaleið þín og markmið? Trúir þú þessu, sem Jesús segir? Það skiptir máli hvaða mynd þú gerir þér af eilífa lífinu, hverju þú trúir og hverjum þú vilt treysta á leiðinni. Hver er þinn sannleikur, vegur og líf?

Frummyndin
Við gerum okkur myndir af lífi og eilífð. Er kannski ástæða að fara að baki bæði einstaklingsmyndum og líka menningarmyndum og inn í djúpmyndir, sem varða Guð?

Jesús opnaði algerlega nýja himinmynd og leiðina þangað með ummælum sínum: „Ég er upprisan og lífið.“ Í honum er eilífa lífið. Í því felst, að hann segir sig sjálfan vera frummyndina – hina eiginlegu mynd Guðs, sem við megum hverfa inn í og lifa í.

Guð stressar sig ekki yfir hvaða hugmyndir eða ranghugmyndir við gerum okkur. Guð leysir upp blekkingar þínar en heldur í þig – sér þig renna saman við frummynd Jesú Krists. Þegar Guð horfir á þig sér Guð þig í gegnum Jesú, sem segir enn: „Ég er upprisan og lífið.“ Hann segir, að hann sé frummyndin eina, sem allar myndir eru kópíur af. Getur þú játað með Mörtu? „Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“

Amen

Prédikun í Hallgrímskirkju 20. september, 2015, 16 sd. e. þrenningarhátíð. B-röð.

Lexían er úr Davíðssálmum

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.
Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.
Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.
Ó, Ísrael, bíð þú Drottins
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
Hann mun leysa Ísrael
frá öllum misgjörðum hans.

Páll postuli skrifar í Filippíbréfinu:

..lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa. Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.

Guðspjall: Jóh 11.19-27
Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“ Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“