Fyrir viku síðan var ég í Stavanger í Noregi. Margir fiskibátar voru í höfninni rétt eins og í okkar borg og sjávarplássum um allt land. Sjávarfuglarnir voru alls staðar sýnilegir og heyranlegir. Í Stavanger hafa síðustu ár verið mikil útgerðarumsvif vegna olíuvinnslu. Stavanger er Texas norðursins. Stórir prammar, risa-dráttarbátar og stór þyrlufloti þjóna þeirri útgerð.
Í veislu, sem mér var boðið í, var ég settur niður við hlið framkvæmdastýru samtaka atvinnulífsins í Noregi. Þegar hún heyrði að sessunauturinn væri frá Íslandi vildi hún ræða um þá Íslendinga sem hún þekkti og hvað þjóðir okkar ættu sameiginlegt í atvinnumálum og þróun sjávarbyggða. Hún sagði mér að sjávarútvegur í Noregi nyti að bæði framleiðendur og kaupendur væru meðvitaðir um ýtrasta hreinlæti í framleiðsluháttum. Því mætti hvergi slaka á varðandi umhverfismálin. Gæðaeftirlitið tæki líka til umhverfisstaðlanna. „Við vöndum okkur í umhverfismálunum, kaupendur virða það og við seljum því á góðu verði“ sagði hún og bætti svo við: „Það gerið þið Íslendingar líka. Þið passið vatnið, umhverfisþættina og vandið ykkur í kvótamálunum.“ Og svo minnti hún á að það væri ekkert einfalt að halda jafnvægi í byggðamálum, framleiðslu, iðnaði og ábyrgri umhverfisstefnu. „Við verðum að gera okkar besta í að varðveita hreinleika náttúrunnar. Annars hrynur allt“ sagði hún.
Vatnið
Umhverfimálin eru stórmál sjávarútvegsins og þjóðlífs okkar og ástæða er til að nefna á sjómannadegi. Engin sækir sjó án þess að til sé vatn – lifandi og lífgefandi vatn. Á hátíðsdegi garpa hafsins minnum við okkur á stofna sjómennskunnar. Ég leiði því huga að náttúrunni og ræði um vatn í hugleiðingu dagsins. Alexía Ósk var skírð áðan. Hún var borinn að skírnarfontinum, hinum stórkostlega skírnarsá sem er hér í Hallgrímskirkju (ver Leifs Breiðfjörð). Hún var ausinn vatni og vatnið lék um hár hennar. Vitundin um blessandi vatnsbaðið og sjávarsókn Íslendinga um aldir hafa orðið mér til íhugunar um lífsbjörg en einnig lífsógn. Vatn getur verið lifandi vatn en líka mengað og deyðandi.
Ég er – eins og margir – heillaður af vatni, rennandi, streymandi, hreyfanlegu og lifandi vatni en síður að frosnu, fúlu vatni. Mér þykir skemmtilegt að ganga með lækjum frá uppsprettu til ósa, horfa í iðuna og leyfa vitundinni að flæða með straumnum og köstum. Vatnið er til lífs og við getum ekki lifað án vatns. Við erum að mestu leyti vatn og ef vatnið er ekki heilsusamlegt veldur það tjóni og jafnvel dauða. Hreint vatn er forsenda lífs en þó er mengun vatns heimsins skelfilega mikil og vaxandi svo æ minna er af hreinu vatni. Þess vegna er loflegt að Hjálparstarf kirkjunnar beitir sér fyrir að fólk hafi aðgang að hreinu vatni í Afríku og íslensk fermingarungmennin safna á hverju ári fyrir brunnum á því svæði.
Til að minna okkur á mikilvægi ábyrgðar manna gagnvart vatni – og einkum sjó – er á vegum Sameinuðu þjóðanna haldinn 8. júní á hverju ári alþjóðlegur dagur hafsins. Margt er gert til að brýna fólk til ábyrgðar og hvetja til heillavænlegra aðgerða. Á morgun verður t.d. sýnd á vegum Íslandsdeildar félags Sameinuðu þjóðanna – í Bíó Paradís á Hverfisgötunni – kvikmyndin Plaststrendur sem sýnir þá óhugnanlegu plastmengun sem orðin er í sjónum. Plastið brotnar seint niður og veldur gríðarlegum skaða. Viljum við að sjófuglarnir séu með plastbrot í gogginum eða hálffullan maga af plastúrgangi, deyji kvalafullum dauða? Viljum við að fiskarnir séu veiklaðir af plastáti og spendýrin margvíslega hamin af plastmengun? Plast er gott á sínum stað en plast á villigötum veldur dauða.
Og svo er vatnsbúskapur veraldar. Það er raunverulegt áhyggjuefni að æ minna er af hreinu vatni í veröldinni. Hvernig verður framtíð lífs á jörðinni ef hreint vatn er takmarkað? Mark Twain sagði hnyttilega fyrir löngu síðan að viskí væri til að drekka en menn berðust um og dræpu vegna vatns! Þegar hreint vatn er orðið dýrmætara en olía fara einstaklingar, hópar og þjóðir í stríð vegna vatns. Tuttugasta og fyrsta öldin er og verður tuttugusta og þyrsta öldin. Lífið lifir ekki án vatns. Við erum ekki aðeins kölluð til að hemja sókn í fiskstofna, heldur kölluð til heildrænnar ráðsmennsku.
Sjómennska heimsins og einnig okkar þjóðar er háð því að vatn og sjór njóti umhyggju okkar. Einstaka mengunarslys eru hættuleg en stærsti og mesti vandi okkar er áframhaldandi mengun sem hinn ríki hluti heimsins veldur, okkar hluti jarðarinnar. Við viljum vera ábyrg í sjósókn okkar og samfara því verðum við að vera ábyrg í sjóvernd okkar og lífsafstöðu.
Áhrif á náttúru
Í guðspjalli dagsins fer Jesús á sjó með lærisveinum sínum. Þeir félagar hrepptu versta veður og voru í lífsháska. Og þegar Jesús vaknaði bjargaði hann. Hann hafði góð áhrif á náttúrukraftana og mennina sem hann var með. Jesús Kristur vill að við höfum góð áhrif á krafta náttúrunnar og mannfólkið. Við höfum hlutverkum að gegna. Hvað eiga þau sameiginlegt kirkja, börn, samfélag, fiskur og heimsbyggð. Þau þarfnast öll að Guð elski og veiti þeim líf og heilsu. Og við erum farvegir elsku Guðs í veröldinni. Við getum skemmt en við getum líka hlúð að lífinu, í nærumhverfi okkar en einnig fjarumhverfi. Kristin trú varðar ekki aðeins innri mann heldur allt líf okkar. Við erum ekki vegna trúar okkar á leið út úr heiminum heldur vegna trúar á leið inn í heiminn til að lægja öldur, minnka hættu, stoppa stormviðri mengunar og þess hluta iðnaðar og ómenningar manna sem spillir.
Blauta Biblían
Og vatn og sjór er elskaður af Guði og þeim mönnum sem vilja ganga erinda Guðs. Blóm og dýr eru ekki aðeins vatnssósa, heldur mennirnir einnig. Jafnvel Biblían er rennandi blaut. Vatn er nefnt – að því er mér telst til – um sjö hundruð sinnum í þeirri helgu bók.
Kristnir menn hafa um aldir talið að vatn væri helgað vegna þess að Jesús helgaði vötn heimsins í ánni Jórdan. Við menn erum hluti þess vatnsbúskapar. Við erum ekki geimgenglar á ferð um vetrarbrautina sem koma við á jörðinni, svona svipað eins og við stoppum í vegasjoppu á leið frá himni til himins. Við erum ekki heimsfjarlægir Guðstúristar heldur er líf okkar fólgið í að lifa á jörðu og lifa með ábyrgð. Við berum ábyrgð á bláu plánetunni. Já, við berum ábyrgð á fiskunum í sjónum, fuglunum, ströndum sem við viljum varna að verða plastinu að bráð. Jesús axlaði ábyrgð á hættu og beitti kröftum til góðs. Við njótum hans fyrirmyndar og að við erum kölluð til að beita mætti okkar til lífs.
Hver er náungi okkar?
Hver er náungi minn var spurt einu sinni. Foreldrar sem báru fallegu stúlkuna sína til vatnsbaðsins í dag óska henni gæfu og góðs lífs í framtíðinni. Þau vilja leggja allt það besta til sem þau mega. Alexía Ósk er eins og annað fólk okkur falin til verndar og eflingar. En svo er það náungi okkar – náttúran. Hvað ætlum við að gera til að líf samfélags okkar verði heilnæmt, að náttturuauðlindir okkar allar verði vel nýttar og með ábyrgð? Við höfum öll mikilvægum hlutverkum að gegna í þeim efnum. Heimurinn er ekki klofinn heldur einn. Einn er skaparinn og einn er lausnarinn og öll höfum við hlutverkum að gegna til góðs. Tuttugustu og þyrsta öldin þráir hreint vatn og þarfnast náttúruvæns Jesúfólks.
Amen.
Sjómannadagurinn, 7. júní, 2015.
Textaröð: B, 1. sd. eftir þrenningarhátíð.
Lexía: Slm 107.1-2, 20-31
Þakkið Drottni því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefur leyst úr nauðum sendi orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni. Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, færa honum þakkarfórnir og segja frá verkum hans með fögnuði. Þeir sem fóru um hafið á skipum og ráku verslun á hinum miklu höfum sáu verk Drottins og dásemdarverk hans á djúpinu. Því að hann bauð og þá kom stormviðri sem hóf upp öldur hafsins. Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið, og þeim féllst hugur í háskanum. Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður og kunnátta þeirra kom að engu haldi. Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra. Hann breytti storminum í blíðan blæ og öldur hafsins lægði. Þeir glöddust þegar þær kyrrðust og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu. Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna born.
Pistill: Post 27.21-25
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.
Guðspjall: Matt 8.23-27
Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“ Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“