Hvernig er ellefta boðorðið? Eru einhver hér sem muna um hvað það er hvernig það hljómar? Dr. Þórir Kr. Þórðarson var guðfræðikennari og kom víða við og m.a. lagði grunn að félagsþjónustu Reykjavíkur. Hann mótaði prestastéttina því hann var frábær kennari og varpaði ljósi á torskilin mál. Einu sinni spurði hann í tíma guðfræðideildinni: Hvernig er ellefta boðorðið? Og þar sem við nemendur urðum heldur álkulegir svaraði hann sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðininleg!“ Ég er sammála og hef síðan kennt fermingarunmennum þessa mikilvægu viðbót. Hún er eðlileg túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra, sem er hver? Jú, á lífið. Við lifum í frelsi og megum velja. Hvort veljum við það sem verður til ills eða það sem verður til góðs? Að velja gleðina er ekki að velja aulahúmor heldur lífið, hamingjuna.
God’s chosen – God’s frozen
Lexía dagsins eru lífsorðin sem kölluð eru boðorðin tíu, viska hinna fornu hebrea sem hefur gagnast allri heimsbyggðinni við mótun samskiptareglna. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi einstaklinga um allar aldir og við menningargerð okkar. Orðin tíu eru byggingarefni löggjafar heimsins og hafa skilað sér í endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur skilað sér í gildandi mannréttindabálkum, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.
Saga Íslendinga og Ísraela er ótrúlega lík. Löggjafarsaga þjóðanna er ekki bara áhugaverð og með ýmsum sameiginlegum einkennum. Báðar þjóðir einangruðust í baráttu aldanna frá öðrum þjóðum. Menning beggja varð einsleitt. Söguskema beggja er líkt. Flótti frá vondu yfirvaldi er upphaf sögu beggja þjóða. Á eftir kemur svo langvinn barátta. Byrjun löggjafar beggja er tengt undri, annars vegar á Sínaí og hins vegar á Þingvöllum, ekki síst tengt kristnitöku. Söguskemað segir frá landgjöf til ættbálks og hvernig stöðugt varð að berjast fyrir lífinu í rás tímans.
Báðar eru þjóðir bóka og menntunaráherslu. Þær eru söguelskar, ljóðrænar og dramatískar. Þær gengu báðar margar aldir afturábak inn í framtíðina og voru uppteknari af glæstri fortíð en opinni framtíð.
Margt líkt! Ég hitti einu sinni hinn heillandi stórpólitíkus Simon Perez, síðar forseta Ísraels, þegar hann var á ferð á Íslandi. Í ræðu sem var haldin honum til heiðurs kynnti forsætisráðherra Íslands mun þjóða Íslands og Ísraels og á ensku: „Israel is God’s chosen people but the Icelanders are God’s frozen people!” Guðs útvalda þjóð og hin freðna!
Orðin tíu
Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi… Sem sé, Guð er Guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunveruleika þeirra. Og mörg okkar muna að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma, að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.
Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra um menn? Boðorðin eru eiginlega í tveimur hlutum. Fyrstu boðorðin fjalla um Guð og afgangurinn um mennina. Jesús var vel heima í lögum Ísraels. Hann var ekki fastur í formi eða smáatriðum heldur snillingur sannleikans, lífsstefnu. Jesús dró saman öll boðorðin og setti þau fram í tvöfalda kærleiksboðinu. Og hvernig er það? Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig. Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Seinni hluti boðorðanna fjallar síðan um mannvernd – að við virðum og elskum fólk – alla.
Svo minna allir krossar heimsins á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur á tengslin til Guðs annars. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og ég minni á að náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur fólk, alla menn og lífríkið allt. Okkur er falið að vernda náttúruna sem djásn í sköpun Guðs.
Lögin verða til
Ég hafði í nokkur ár atvinnu af að fræða gesti á Þingvöllum. Á þeim tíma tók ég á móti þúsundum skólabarna og fræddi um sögu lands og þjóðar. Þegar börnin voru spurð um af hverju fornmenn hefðu farið um langan veg að heiman og þingað á Þingvöllum þá svöruðu þau eitthvað á þessa leið: Stundum förum að rífast. Við þurfum reglur til að lífið virki og hvernig eigi að leysa rifrildi. Svo bættu þau við að það væri svo fallegt á Þingvöllum og það væri gott að ræða um reglur á fallegum stað! Þér skuluð gæta að fegurð löggjafarinnar!
Fermingarungmenni Hallgrímskirkju hafa ljómandi regluvit. Í síðustu viku spurði ég þau hvað myndi gerast ef engar reglur væru í fótbolta? Svarið er einfalt þá yrði allt vitlaust og leikurinn myndi snúast upp í ofbeldi. En hvað myndi gerast ef engar reglur væru í þjóðfélaginu? Þá myndu frumskógarlögmálin taka yfir.
Ungt fólk á Íslandi skilur og veit að reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð fólks. Þau vita vel hvar mörkin liggja og að til eru grá svæði. Og það þarf þroska til að velja lífið.
Íslensk saga og orðin tíu
Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til fjallsins Sínaí. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.
Ekkert þjóðfélag er hlutleysisþjóðfélag vegna þess að hefðir eru menningarvefur sem hefur áhrif. Íslenska ríkið er bundið af stjórnarskrá, sem kveður á um, að evangelísk-lúthersk kirkja sé þjóðkirkja Íslands. Það ákvæði var ekki aðeins lögformlega ákeðið við stjórnarskrárgerð við lýðveldisstofnun heldur hefur nýlega verið stutt með miklum meirihluta í opinberri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Áhersla stjórnarskrár er bindandi stefna og varðar hvaða siður og siðferði skuli gilda í samfélagi okkar. Stjórnarskrá ríkis er ekki puntplagg heldur varðar uppistöðu menningarinnar. Það er svo annað og mikilvægt mál hvernig við eigum að þróa samfélag okkar. Ég hef löngum verið efins um að eitt trúfélag eigi að tilgreinast í stjórnarskrá, en álít það hins vegar mikilvægt að hið opinbera styðji og verndi trúariðkun í landinu. Gildir einu hvort menn eru kristnir, trúlausir, múslimar eða búddistar. Í þeim efnum eigum við að vanda okkur og læra óhikað af mistökum nágrannaþjóða.
Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta boðorðið því það varðar meginstefnu. Ellefta boðorðið er í hinu fyrsta. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.
Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. “Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hvað segið þið um það?
Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa með ábyrgð og iðka trú í samfélagi – leggja lífinu lið. Þú, Guð og náunginn. Bráðskemmtilegt, gott líf. Amen
Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 8. mars, 2015, 3. sunnudagur í föstu.