Myntuhlaup

Við ræktum myntu í garðinum. Hún vex frábærlega vel, skýtur öngum í allar áttir og er fjölær. Það var því eins gott að finna einhverja aðra notkun en tilfallandi kryddun og te-uppáhellingu. Myntuhlaup er ljómandi gott t.d. með steiktu lambakjöti eða ofan á brauð. Það er líka gaman að vinna hlaupið, setja það í litlar krukkur og gæða sér á því með lambinu. Myntuhlaup er tilvalið til gjafa og þmt. jólagjafa!

1 kg græn epli eða 6 stykki

1 dl vatn

1/2 bolli sítrónusafi

2  1/2 bolli myntublöð

1/2 bolli fínsöxuð myntublöð

2/3 bolli sykur á móti hverjum bolla safa

Þvoðið eplin og skerið í sneiðar. Merjið stærstu eplabitana. Setjið eplin, vatnið, sítrónusafann  og heilu myntulaufin í stóran þykkbotna pott. Látið suðuna koma upp, minnkið hitan og setjið lok á og sjóðið 10  – 15 mín.

Hellið blöndunni í gegnum sigti í skál og náið safanum úr blöndunni. Geymið í kæli yfir nótt. Hendið hratinu. 

Mælið síaða safann  og setjið aftur í pott. Fyrir hvern bolla af safa setjið 2/3 bolla sykur. Hræra skal í blöndunni við vægan hita án þess að láta suðuna koma upp þar til sykurinn er allveg uppleystur. Látið þá suðuna koma upp og sjóðið í 20 mín við vægan hita.

Bætið fínt söxuðu myntunni út í og hrærið vel. Taka pottinn af hellunni og látið standa í 5 mínútur. Hellið í sótthreinsaðar, volgar litlar krukkur og loka skal vel þegar vökvinn er farinn að kólna. Njóta á köldum vetrarhelgum með vel hvítlauksstungnu lambakjöti!