Esther Þórðardóttir – minningarorð

Sumar umvefur okkur öll. Plöntur brosa mót himni og hita. Tré breiða út fangið. Fuglamömmur fljúga yfir felustaði ungviðis og reyna að villa um fyrir þeim, sem koma nærri. Ábyrgir foreldrar verja afkvæmi sín.

Vestur í Ólafsvík léku börn út í móa og stelkmamma reyndi að draga athygli þeirra frá felustað litla ungans, svanaforeldrar vörðu ungana sína. Ung stelpa lærði lexíur fyrir lífið, lærði að mömmur halda fast og verja afkvæmi. Lífið verður best þegar börnin lifa, ekkert verður til að spilla og dauðinn kemur ekki of snemma. Mömmur gleyma ekki, brjóstabörnin týnast aldrei. En hvað gerist þegar slitið er á milli?

Fjölskylda og uppvöxur

Í dag kveðjum við Esther Þórðardóttur. Hún fæddist í Ólafsvík 5. janúar árið 1921. Foreldrar hennar voru Þórður Kristjánsson (f. 23.7. 1891, d. 28.9. 1980) og kona hans, Svanfríður Una Þorsteinsdóttir ( f.  21.12.1888, d. 8.5. 1960). Þau hjónin eignuðust 13 börn og fyrir hjúskap þeirra Þórðar átti Svanfríður dótturina Önnu Lárensínu, sem féll frá aðeins sex ára (f. 26.5. 1915, d. 9.7. 1921). Systkinahópurinn var stór og Esther var næstelst þeirra systkina, sem náðu fullorðinsaldri. Systkinin eru:  Ellert Kristján f. 24.7. 1916, d. 13.1. 1918; Elín Kristín f. 19.12. 1917, d. 21.6. 2006; Ebba f. 13. 10. 1919, d. 4.8. 1921; Ebba Anna f. 12. 12. 1921, d. 18.11. 1923; Þórður f. 1. 11. 1923; Aðalbjörg f. 11. 12. 1924, d. 28.3. 1925; Sigrún f. 5. 6. 1926; Rafn f. 4. 12.1927, d.13.7. 1996; Hrafnkell f. 3.1.1929 d. 23.07. 1935; Lilja f. 12. 9. 1930; Rakel f. 6. 10. 1931, d. 23.12. 1975; Unnur f. 25.8. 1933. 

Missir og líðan

Fjögur systkinanna lifa Esther, hin eru öll látin. Þau Þórður og Svanfríður nutu barnaláns en ekki lífsláns þeirra að sama skapi. Þegar rýnt er í æviskrárnar kemur í ljós, að þau misstu fimm börn á barnsaldri. Ellert Kristján dó eins árs árið 1918, Ebba var ekki tveggja ára þegar hún fór 1921, tæplega mánuði á eftir hálfsystur sinni Önnu Lárensíu. Ebba Anna var ekki tveggja ára þegar hún lést 1923, sautján dögum eftir að Þórður fæddist. Aðalbjörg var aðeins fjögurra mánaða þegar hún féll frá árið 1925. Foreldrar, sem staðið yfir moldum barna sinna hafa löngum stunið upp – með tár í augum, að það eigi ekki að leggja á nokkurn að grafa barnið sitt. Það er satt. Hvernig geta menn glímt við sorg barnmissis, hvernig er hægt að lýsa upp þann skugga svo hann verði ekki að innanmeini og þar með fjölskylduvoða? Það er skelfilegt að missa barn og fullkomlega óskiljanlegt hvernig er hægt að sjá á bak fimm börnum í dauðann. Hvernig farnaðist þeim Svanfríði og Þórði með þann bagga? Hvernig gátu þau unnið úr áfallinu.

Allar fjölskyldur eiga sér leyndarmál, sem seint verða opinberuð. Fjölskyldan á Fagrabakka bjó við sorgargímald. Foreldrar áttu gullin sín bæði þessa heims og annars, á Jaðri tveggja veralda. Það er eins öruggt og að sólin kemur upp og hnígur til viðar, að barnsmissir fyrstu áranna hefur haft mikil áhrif á líf og líðan þessa fólks og næsta örugglega mótað anda og skaphafnir meira en börnin á heimilinu gerðu sér grein fyrir á fyrri árum. Þegar börn fæðast er glaðst og þeim fagnað. En þau koma þó ekki í stað hinna, sem deyja. Hver einstaklingur er einstakur, sorgin eftir hann eða hana er einstök og sefast ekki þó ný augu horfi og litlir puttar leiki sér og munnur leiti að móðurbrjósti. Móðir og faðir gleyma ekki.

Rist þig á lófa mér

Elskan vaknar alls staðar þar sem líf kviknar. Fuglarnir elska afkvæmi sín, dýrin sömuleiðis. Tengslin eru ekki aðeins verndartilfinning, það vita allir sem hafa séð dýr sem hafa misst, kveina – já eiginlega æpa af harmi. Þar sem mannslíf kviknar verður ást – og sorg þegar lífið slokknar að nýju. Biblían er sneisafull af orðum um lífskveikjur, lífslát og átökin, sem verða hið innra af söknuði.

Í spádómsbók Jesaja er minnt á hversu sterk tengslin eru milli móður og barns. Þar er spurt – og ég les úr 49. kafla Jesajabókarinnar: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína…” Jesaja 49.15-16

Og þannig er Guð, sem talar skýrt. Lífsbarátta er söm hvort sem er á hæðunum norður af Jersúsalem eða í víkinni austan við Enni. Móðurástin er sterk, en ritari Jesajabókarinnar ber mönnum og heimi þá stórfregn að enn sterkari sé ást Guðs. Menn geta gleymt, en Guð ekki. Svo stefnuföst er Guðselskan, að mennirnir eru skráðir á lófa Guðs. Ekki vitum við hvernig hinn oddhagi hefur farið að, en líkingamálið er skýrt, með oddi hefur nafn manns, mynd manns, líf manns verið rist á lófa Guðs. Ekkert er gleymt, ekki Ellert Kristján, ekki Ebba, Anna Lárensía, Ebba Anna, Aðalbjörg, já eða Þórður og Svanfríður, – ekki heldur Elín Kristín, Rafn; Hrafnkell og Rakel. Hinn kristni boðskapur minnir á, að ekkert er glatað – fólkið, sem dó, er ekki gleymt þó við gleymum. Guð man – Guð varðveitir, Guð sér, Guð umvefur þig – hvort sem þú ert hérna megin við jaðar lífsins eða hinum megin í Guðsfanginu. 

Uppvöxtur

Ólafsvíkin var uppvaxtarreitur Estherar. Hún naut margmennis og fjölbreytileikans, nábýlis við frændfólk og góða granna og lærði á lífið. Hún gekk í skóla á bernskuslóð. Þegar hún var ung var pabbinn á sjó, skipstjóri á bát. Hann var því löngum fjarri heimili. Það kom í hlut Estherar að aðstoða móður sína á stórheimili og við margvísleg störf. Því sinnti hún með dugnaði og kappi.

Stríðið breytti Íslendingum og líka Esther. Hún fór suður – fyrst til Hafnarfjarðar og vann á Vífilstöðum og svo síðar á Reykjalundi. Hún flutti svo til Reykjavíkur og starfaði í Reykjavíkurapóteki í nokkur ár. Var í kjallaranum og vann m.a. við lyfjavinnslu og pökkun. Þaðan fór hún svo á Grund og vann þar á “frúarganginum.” Esther bjó þá á Ljósvallagötunni og þótti gott að geta hlaupið í og úr vinnu.

Hrafn

Já stríðið breytti Esther. Hún sá og hreifst af glæsimenni í bandaríska setuliðinu, sem bar nafn stórskáldsins William Blake og átti að auki fjölskyldunafnið Warren (f. 22.8.1916, d. 15.11. 2006). Þau eignuðust soninn Hrafn Unnar Björnsson árið 1944 (f. 22.1.).

Í fjölskyldunni voru deildar meiningar um hvernig best væri að sjá fyrir drengnum og koma honum til manns. Svanfríður, móðir Estherar og fjölskyldan, beittu sér fyrir að hann færi til Elínar Kristínar, sem var eldri en Esther og barnlaus. Svo varð og Hrafn var alinn upp hjá þeim Elínu og Birni Sæmundsyni. Enginn veit nákvæmlega hvernig barnsflutningurinn var ræddur, hvaða sár urðu af né heldur hvernig tengslin breyttust. En víst er, að Esther leið fyrir og tengsl milli móður og sonar breyttust og trosnuðu. Hvernig getur móðir gleymt brjóstabarni sínu? Hrafn er kvæntur Guðrúnu Biering (f.13.11.1945). Hann hamingjumaður í lífinu og þau Guðrún eiga tvo syni. Sá eldri er Arnar (f. 25.12. 1971). Sambýliskona hans er Dagný Laxdal (f. 1.8.  25.11. 1977). Sonur þeirra er Franklín Máni (f. 2004). Yngri sonur Hrafns og Guðrúnar er Þröstur (f. 28. 12. 1973).

Heba

Esther var ferðafluga og fór víða, ekki síst um hálendið á árunum fyrir 1960. Á þeim ferðum kynntist hún eða tengdist Helga Enokssyni, rafvirkjameistara í Hafnarfirði (f. 27.11.1923, d. 6.8. 1999). Þau eignuðust Hebu árið 1961 (f.  23.7.). Esther söðlaði um og helgaði henni líf sitt þaðan í frá. Hún hafði misst Hrafn úr móðurfangi sínu og vildi allt fyrir kraftaverkabarnið Hebu gera. Esther og Helgi voru náin í nokkur ár, en svo slitnaði bandið á milli þeirra og mæðgurnar bjuggu í Skaftafelli á Grímsstaðaholti fyrstu árin en fóru síðan á Grettisgötu. Þaðan lá leið Estherar niður á Vatnsstíg og síðustu sex æviárin bjó hún á frúarganginum á Grund, sínum gamla vinnustað. Mennskan verður oft lifuð í hringjum og spíral.

Heba er hamingjukona. Hennar maður er Kristján Ívar Ólafsson (25 12. 1964), og synir þeirra eru Stefnir Húni, (f 21. 07. 1989) og Dagur Fróði (f. 21. 1. 1996).

Hugðarefni og gleðigjafar

Esther var margt til listar lagt. Hún var lestrarforkur og hélt upp á Sigrid Undset og Margit Söderholm. Svo féllu í kramið bækur bandarísku skáldkonunnar Pearl S. Buck, sem sagði svo eftirminnilega, að alltof margir biðu í lífinu bara stóru tækifæranna og í biðinni tækju þeir ekki eftir smágæðum lífsins.

En Esther kunni að meta og njóta hins smá- og fín-gerða, laut að blómi, hreifst af fugli, vindi sem gældi við kinn og dýrmæti núsins, sem hún upplifði. Hún hafði gaman af matseld og heimilisfegrun. Esther hafði áhuga á ljósmyndun og lét laga eða bjarga ýmsum fjölskyldumyndum, sem hún kom í viðgerð eða stækkun, eins og bréfin að vestan sýna og sanna. Svanfríður, mamma hennar, hreifst af ljósmyndunum, sem hún sendi. Esther var gjarnan með eitthvað í höndum, prjónaði og heklaði og skemmti sér við að sauma dúka, myndir og annað það sem fegraði eða var hagnýtt á barnafætur eða hendur. Hún var líka tónelsk og til er falleg myndin af henni við harmóníum og með Orgelskólann fyrir framan sig.

Ég man eftir Esther á Grímsstaðaholtinu á sjöunda áratugnum. Hún fór fram í garðinn sinn á Arnargötu 4, sem heitir Skaftafell, hugaði að blómgróðri og grænmeti. Sá um Hebu sína með einbeittri móðurást, en átti líka tíma og umhyggju aflögu fyrir annarra börn. Hún passaði fyrir kunningjakonur sínar, þegar hún var orðin heimavinnandi og varð þeim og börnunum mikil hjálp. Hún fór í smáferðir með Hebu til að kenna lífið, kenna ást á fuglunum, ekki síst svönunum, kenna að njóta hinnar látlausu fegurðar í náttúru og líka manngerðu umhverfi.

Á þrítugsaldri varð Esther fyrir að botnlangi sprakk og varð hún aldrei heilsuhraust eftir það. Á sjötugsaldri fór að halla undan – ekki síst eftir að minni hennar fór að förlast. Við það varð hún hræddari um sjálfstæði sitt, hvarf æ meir á vit eigin heima, en komst í góðar hendur þegar hún fór á Grund. Þar naut hún góðrar aðhlynningar, sem er þökkuð. Esther Þórðardóttir lést á dvalar- og hjúkrunar-heimilinu Grund þann 6. júlí síðastliðinn.

Lífsundrin

Við kveðjum Esther. Hún mætti mörgum mærum í lífinu, varð fyrir margs konar mótlæti. En hún ræktaði með sér elskuna til sinna, til barnanna sinna. Nú er hún öll. Minnstu hennar og heiðraðu minningu með því að rækta með þér virðingu fyrir gæðum lífsins. Bíddu ekki eftir stóru vinningunum, stóru tækifærunum heldur ræktaðu með þér, eins og Esther, næmi fyrir stund og stað, fyrir smáundrum lífsins og þá verður lífið að samfelldu stórundri. Hún ólst upp á Fagrabakka sem varð svo Jaðar. Hún hefur nú farið yfir mörkin, inn í Fagrabakka himins. Þar tekur við henni og umfaðmar hana Guð, sem hefur nafnið, mynd hennar, já líf hennar rist á lófa. Guð gleymir aldrei og í veru og vitund Guðs er eilífðin. Guð varðveiti þig sem lifir og minnist Estherar. Guð blessi Esther Þórðardóttur.

Neskirkja, júlí 2007.