Í ofsa og ógn

Páll og strandHvað tekur kórfélagi með sér í upphitun fyrir messu? Í morgun sá ég að einn tók með sér bangsann sinn. Það hef ég ekki séð fyrr! En þau sem syngja í Neskirkju í dag eru ung að árum – sum mjög ung. Tveir barnakórar syngja, annar er Barnakór Neskirkju en hinn er frá Friðriksbergskirkjunni í miðborg Kaupmannahafnar. Danski kórinn er komin hingað vegna þess að Selma bjó einu sinni á Tómasarhaga og mikill samgangur var milli hennar fjölskyldu og minnar. En nú býr hún og fjölskylda hennar í Kaupmannahöfn og Selma syngur í Fredriksbergkirke Juniorkor. Þegar við, fjölskylda mín, vorum á ferð í Kaupmannahöfn, var okkur boðið að hlusta á kórinn syngja í kirkjunni. Þá kviknaði hugmyndin að hópurinn heimsækti Ísland. Nú eru þau komin, gista í kjallara Neskirkju, syngja í messu og á nokkrum stöðum höfuðborgarsvæðinu. Þau syngja um lífið, eilífðina og fegurðina. Bangsinn fær að vera með – á æfingu – og okkar eigin kór svarar með söngvum af sama tagi.

Það er dásamlegt að söngvar unga fólksins – raddir framtíðar – hljómi á sjómannadegi eftir kosningar – söngur um líf og von. Lítil stúlka með bangsann sinn á leið inn í kirkju er tákn um mannkyn í þörf fyrir öryggi. Dramatískir biblíutextar dagsins minna á að í lífi er Guð er alltaf nærri.

Guð – líka á kantinum

Í pistli sjómannadagsins er sagt frá viðburðaríkri ferð Páls postula. Hann var á ferð við eyjuna Krít. Hann hafði reyndar illan bifur á íbúum hennar. Fram kemur t.d. í fyrra bréfi hans til Tímótesuar þessi óskaplega umsögn: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar!“ Og gott fólk – þetta stendur í Biblíunni! En Páll átti ekki sökótt við Kríteyinga í þetta sinn. Hann var fangi Rómverja og um borð í rómversku skipi. Páll var vanur að fara beint á torgin til að tala um Jesú Krist, mesta kraftaverk heimsins. Þess vegna var honum oft kastað í fangelsi. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari átti að senda hann til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru farvegur í boðmiðlun milli himins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms- og huggunarorð, talaði kjark í áhöfn og lagði til góð ráð og stefnu. Mark var tekið á orðum hans og því fórst enginn þegar skipið strandaði.

Þessi magnþrungna saga í 27. og 28. kafla Postulasögunnar er merkileg og inntaksrík. Þetta er lítil saga af stóru skipi, fjölmennri áhöfn og úr öllum heimshornum hins þekkta heims þeirrar tíðar. Skip á siglingu frá útkjálka og á leið til miðjunnar í Róm. Sagan er smámynd um stóran heim. Í hættunni hljómar boðskapurinn um björgun.

Hver biblíutexti á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhól, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru máltíð með dásamlegum desert – bónus til lífs. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur fyrirmynd um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fordæmi um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heim speglast í þessu sögulega og biblíulega sjávarlöðri.

Einstaklingar og samfélög lenda í raunum. Enginn maður hefur lifað án átaka. Í sögunni um Pál kemur fram að í sjávarháskanum hafi mönnum fyrst dottið í hug að drepa fangana. En það er þó einn fanganna sem sér lausnina, leysir vandann og talar máli lífsins. Þannig er það oft. Í háska bregðast valdsmenn oft og björgun verður með óvæntu móti – að neðan. Í sögu dagsins – pistlinum – eru það fangarnir sem bjarga þeim sem gæta þeirra. Þannig starfar Guð gjarnan. Guð starfar ekki aðeins með viðurkenndum lögum og kerfistækni heldur opnar lífið, hjálpar með óvæntu móti og með hjálp hinna vanmetnu. Guð er líka neðst, á kantinum og meðal hinna fyrirlitnu. Hjálpin er að handan og verður til góðs ef menn opna í auðmýkt og virða heilagleika fólks og lífs. Sagan er þrungin merkingu og er til íhugunar.

Sjórinn

Já, í dag er sjómannadagur – merkilegur dagur sem minnir okkur á upphaf okkar Íslendinga, lífsbaráttu fólksins okkar og þjóðar. Við erum flest komin af sjósóknurum. Sjávarútvegur hefur verið Íslendingum mikilvægur og mun verða meðan menn spilla ekki lífríkinu. Hafið gaf og hafið tók – fæstar þjóðir í veröldinni hafa tapað eins mörgum hlutfallslega í stríðum og Íslendingar í glímunni við sjóinn. Neskirkjuglugginn – Stóribláinn – sem varpar lit á kórvegginn á sólardögum minnir á lífsbaráttu fólk við sjávarsíðuna, sjósóknina, lífsbjörgina og stóran himinn sem umlykur allt, allan heiminn og lífið.

Úrslitin

Svo er þetta dagurinn eftir kosningar. Margir hafa stundað atkvæðaveiðar síðustu vikurnar, reynt að skýra mál sín til að afla atkvæða til stuðnings. Stjórnmál er ein tegund útgerðar. Pólitíkin er mikilvæg og á að þjóna því göfuga markmiði að stýra málum samfélags til réttlætis og farsældar. Nú er dómur fallinn – hvort sem hann hugnast mönnum eða ekki. Síðan er að vinna úr og stýra vel og vinna úr aflanum til lífs.

Skip kirkjunnar

Í kirkjum eru oft skipstákn og við tölum um kirkjuskip. Í mörgum kirkjum heimsins eru skip hengd upp til að minna á að við erum fólk á ferð, við erum á siglingu frá tíma og inn í eilífð. Við erum á ferð – með bangsann okkar – þrána eftir öryggi og blessun sem Guð einn getur í raun gefið. Jesús Kristur lét sig fólk varða, kallaði til lífs og gleði og lofaði að vera með hvað sem kæmi fyrir. Pólitík, óveður, sjómennska, söngur og samskipti eru mál sem varða Guð. Hann vill vera með og býður alltaf til veislu.

Þegar Páll lenti í sjávarháska við Krít bauð hann til máltíðar, gerði sjálfur þakkir og braut brauðið. Þekkir þú orðalagið – þekkir þú aðferðina og gjöfina? Og þá erum við í skyndi komin heim, að altarinu, að borði Drottins, hingað. Við erum komin með þrá okkar um velferð, vináttu og öryggi. Um allan heim brjóta menn brauð, í snarvitlausu umhverfi, óskaplegum aðstæðum – undir góðri stjórn eða vondri og tjá með þessari táknathöfn að Guð kemur til manna, blessar og bjargar.

Textaröð: A

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31

Þakkið Drottni því að hann er góður,
 því að miskunn hans varir að eilífu.
 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
 þeir er hann hefur leyst úr nauðum sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni. 
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
 færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði. 
Þeir sem fóru um hafið á skipum 
og ráku verslun á hinum miklu höfum
 sáu verk Drottins 
og dásemdarverk hans á djúpinu.
 Því að hann bauð og þá kom stormviðri 
sem hóf upp öldur hafsins. 
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
 og þeim féllst hugur í háskanum. 
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður 
og kunnátta þeirra kom að engu haldi. 
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
 og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
 Hann breytti storminum í blíðan blæ 
og öldur hafsins lægði. 
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust 
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,

Pistill: Post 27.13-15, 20-25


Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af. 
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27


Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“