Ein leið til að lesa Biblíuna er bókstafshyggja. Hún hefur lítinn áhuga á túlkun og táknrænum boðskap og leitar fremur að óskeikulli leiðsögn. Bókstafstrú hefur lítið umburðarlyndi gagnvart því, að samfélag og gildi hafi breyst og sér í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Lúthersk kirkja fer aðra leið og hefur lagt áherslu á, að Biblían skuli lesin út frá persónu og lausnarverki Jesú Krists og boðskapur hennar túlkaður í ljósi reynslu manneskjunnar. Þannig þjónar Guðs orð velferð og frelsi manneskjunnar og líka hvernig við umgöngumst hvert annað og förum með gæði heims, líka náttúruna. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega. Túlkun Biblíunnar í samtíma varðar, að orð hennar veki líf og verndi. Biblían er ekki handbók um siðferði, heldur farvegur lifandi orðs Guðs.