Hulda Gunnarsdóttir – minningarorð

Hulda GunnarsdóttirMyndir eru mikilvægar. Sögur líka. Hvaða myndir af Huldu vakna í þínum huga við kveðjuathöfn?Hvaða sögur sagði hún þér? Nokkrar myndir verða dregnar upp og sögur sagðar.

1. Hulda var eins og hálfs árs og byrjuð að ganga með. Hún hreifst af tóbaksklútum föður síns. Án þess að pabbinn tæki eftir tók hún klútinn hans og faldi og þótti skemmtilegt að faðir hennar hringsnerist og leitaði. Hann þusaði yfir hvað orðið hefði af klútnum – og uppgötvaði auðvitað þátt hinnar stuttu. Hulda lærði að saklausir hrekkir geta orðið til skemmtunar.

2. Hulda var glaðsinna og leiksækinn. Þegar hún var fermd dró Útskálaprestur í nokkrar vikur að taka hin nýfermdu til altaris. Hulda hafði verið ráðin í vist og vildi móðir hennar að hún færi í vistina strax. Það vildi stúlkan þó ekki og benti móður sinni á að hún færi ekki svona hálf-fermd og ekki búin að ganga til altaris! Og svo bætti hún við í minningum sínum: „Undirniðri vildi ég fá að vera einni viku lengur heima til að leika mér.“ Hulda var sniðug.

3. Hulda sagði skemmtilega frá. Hún hafði enga þörf fyrir að gera sig breiða og draga að sér athygli í fjölmenni. En heima og á fundum fjölskyldunnar var Hulda ávallt kát og gladdist í góðra vina hópi. Hún sagði skemmtilegar sögur – frá sérkennilegum körlum og eftirminnilegum konum, sérstæðum atburðum, dramatískum örlögum og fór með skemmtilegar vísur. Um helgar vöknuðu börnin hennar jafnvel upp við hlátrana úr eldhúsinu. Hún sagði bónda sínum frá og hlustaði á sögur hans, skellti sér á læri og hló hjartanlega. Það eru kjöraðstæður fyrir börn að alast upp í húsi þar sem nótt og dagur kyssast í hlátri húsmóðurinnar.

Hulda var framúrskarandi sagnakona – „frábær sagnamaður“ sagði Ingólfur, dóttursonur hennar og þótti ekki verra, að hún var sem þrautþjálfaður spunaleikari og breytti sögum að þörfum hnokkans. Hulda var lestrarforkur og drakk í sig ævintýri og bókmenntir, ræktaði næmi fyrir hinu mannlega, framvindu góðrar söguflækju og lagði svo til glettni og gáska. Örlagasögum fólks miðlaði hún við eldhúsborð eða barnakodda með innlifun og tilheyrandi látbragði.

4. Hulda vann í veitingastofu Alþýðubrauðgerðarinnar, Laugavegi 63. Hún segir sjálf frá í æviminningunum sem Pálmi, sonur hennar, skrifaði upp eftir henni (Ævi óbreyttrar alþýðustúlku á fyrri hluta tuttugustu aldar. Handritið er á Kvennasögusafninu): „Einn morguninn kom inn ungur maður í rykfrakka með brúnköflóttan trefil um hálsinn og með stúdentshúfu. Þetta var laglegur maður, góðlegur og kurteis. Hann pantaði mjólk og vínarbrauð og bað um „lakrís“ sem hann bar fram með norðlenskum hreim, sem mér fannst skemmtilegt og ég brosti dálítið. Við töluðum lítið annað saman þennan vetur. Hann pantaði og ég afgreiddi. Svo áttum við eftir að hittast á balli í Iðnó haustið eftir (1942). Hann bjó á Njálsgötunni. Ég vissi ekki hvað hann hét fyrr en Borgþór, bróðir minn og piltur, sem var með honm mættu honum í dyrunum. Hann spurði hvort þeir þekktu þessa stúlku sem var að afgreiða þarna inni. Já, já, þeir héldu það nú að þeir þekktu þessa. Þegar Borgþór kom inn sagði hann: „Við höfum líklega eyðilagt eitthvað fyrir þér. Ingólfur Pálmason var að spyrja hvort við þekktum þig, og létum líklega yfir því.“ Svo sagði Borgþór mér hver hann væri og að hann væri að stúdera íslensku við háskólann. Mér leist vel á manninn.“

Þannig sagði Hulda frá fyrstu kynnum þeirra hjóna. Hulda tók viðburðum daganna með gleði og þorði að lifa í drama lífsins.

Upphaf og ævi

Málfríður Hulda Gunnarsdóttir kom í heiminn síðla vetrar meðan enn geisaði stríð í Evrópu. Hún fæddist á Gerðabakka í Garði þann 18. mars 1917 og var því á 97. aldursári þegar hún lést 22. janúar síðastliðinn.

Hulda var dóttir Guðrúnar Jónsdóttur (1895 – 1971) og Gunnars Jónssonar (1886 -1975). Móðir hennar var húsmóðir og faðir hennar sjómaður. Á heimilinu var barnafjöldi. Hulda var elst níu systkina og þar af lést eitt þeirra í fæðingu. Eftirlifandi er aðeins Jóhannes. Hin systkinin eru öll látin. Þau eru Ásta, Helga, Borgþór Valtýr, Sigurlaug, Jónfríður og Sigríður.

Hulda var skírð í lok apríl og nefnd Málfríður Hulda. Fyrra nafnið kom úr mannheimum en hið seinna úr draumheimi. Móðir hennar var send til vandalausra ung að árum. Sex ára var hún í hjásetu vestur á Mýrum, leiddist og sofnaði einu sinni við klettaborg. Hulda segir svo í minningum sínum: „Dreymdi hana þá að hún væri fyrir framan bæ og var gluggi á stofunni. Sér hún inn um gluggann unga stúlku sem er að sandskúra borð undir baðstofuglugganum og syngur hún svo yndislega að þegar mamma vaknaði þá er henni horfin leiðindi og kvíði. Mörgum árum seinna er hún var gift kona í Garðinum og nýbúin að eiga sitt fyrsta barn, þá 21 árs var hún í döpru skapi, því hún horfði með kvíða til framtíðarinnar af ýmsum ástæðum. Var hún milli svefns og vöku og fannst þá að inn kæmi kona og þekkti hún aftur ungu stúlkuna sem hana dreymdi í hjásetunni. Henni fannst hún ganga að vöggunni og færi að syngja gæfuljóð yfir barninu. Henni fannst að konan hefði elst eftir því sem árin sögðu til frá draumnum í hjásetunni. Mamma ákvað að barnið skyldi heita í höfuðið á huldukonunni og einnig Málfríður í höfuðið á vinkonu sinni sem dó ung.“

Huldunafnið festist svo við hana og var hún ánægð með nafn sitt.

Hulda sótti skóla í Garðinum, var fljót til bókar og naut hvatningar heima. Hún laumaðist gjarnan í bókakistilinn til að afla sér andlegrar næringar. Heimili Huldu var bókaheimili og hún var jafnan fyrst til að lesa bækurnar sem þangað komu. Móðir Huldu hvíslaði líka að Ingólfi, mannsefni hennar, að hann yrði að gæta þess að Hulda týndist ekki alveg í bókunum, svo bóksækinn hafði hún verið.

Foreldrar Huldu, sem höfðu bæði átt erfiðan uppvöxt, vildu tryggja börnum sínum góða æsku. Hulda fékk því líklega lausari taum í uppvexti en mörg önnur börn og naut elskusemi. Sjálf andaði hún ekki í hálsmálið á börnum sínum, heldur veitti þeim frelsi og óskaði þeim aga og hamingju. Af æviminningum er ljóst að Hulda fékk í æsku næði til leikja, tilrauna, þroskaverkefna og gleðiferða. Garðsminningar hennar eru bjartar, gleðilegar og góðar. Og í þessu minningasafni kemur vel fram fásinnisminni hennar, tilfinning fyrir veðri, litum og þeirri menningu sem miðlað var.

Hulda var elst í stórum barnahópi og axlaði leiðtogahlutverk sitt vel. Hún var áttviss í lífi og störfum. Hún hafði enga þörf fyrir að trana fram sínum skoðunum en átti heldur ekki í neinum erfiðleikum með að setja mörk, hvorki sjálfri sér, vinnuveitendum eða viðmælendum. Hún vissi hvað hún vildi og kunni sig vel, fékk fram það sem eðlilegt var og svo kryddaði hún með kímni eða leik ef með þurfti. Þegar Hulda hafði aldur til fór hún í vist til að gæta barna og sinna bústörfum. Hún var barnagæla, kunni að lúta að ungviði og efla til manns. Hún sótti ekki aðeins vinnu í Garðinum heldur réði Hulda sig til vinnu víða um land til að geta skoðað sem flesta hluta Íslands.

Haustið 1936 fór Hulda norður á Blönduós og hóf nám í Kvennaskólanum. Þar var hún til vors og raunar tók hún svo þátt í námskeiði haustið 1938 eftir kaupavinnu í Langadal um sumarið. Hafi hún ekki verið góður kokkur fyrir Blönduóstímann var hún það síðan. Næstu ár urðu vinnuár. Sumarið 1941 réðust hún og vinkona hennar til hótelstarfa austur á Reyðarfjörð – „tækifæri til að sjá landið“ segir í Hulduminningum. Ekki var staðið við samninga um kaup, kjör og vinnu. Og Hulda átti ekki í neinum erfiðleikum með að horfast í augu við mál lífsins og vinkonurnar sögðu strax upp vinnunni. En þær voru þó endurráðnar, á mun hærri launum og fengu að auki nokkra frægð af framgöngu sinni. Áratugum seinna frétti Hulda að sagan um „þær fínu“ sem ekki vildu vinna bretavinnuna hafi meira segja borist upp á Hérað. Þær vinkonur voru því í frásögur færðar.

Svo fór Hulda suður, með drýgri peningasjóð en hún hafði átt von á og hótelstjórinn gaf henni að skilnaði Hundrað bestu ljóð á íslenskra tungu. Hún var fullveðja. Minningin um ákveðnu stúlkuna með gulgrænu augun lifði þar sem hún hafði verið.

Hjúskapur

Og svo kom Ingólfur til hennar með bestu skáldsögur heimsins og ást sína. Hann kom í veitingastofuna á Laugaveginum með brúnköflóttan trefilinn. Svo dönsuðu þau síðar saman í Iðnó. Hulda lýsti fótaburðinum með orðinu „kálfastikl“ – að það hafi verið hjá þeim eitthvað „kálfastikl!“ Og drengurinn að norðan – frá Gullbrekku í Saurbæjarhreppi – átti einhvert gull í buddunni því hann bauð Huldu upp á kaffi á ballinu. Síðan röltu þau og nokkrir vinir upp á Smáragötu til að rabba saman. Ingólfur stundaði sitt íslenskunám í háskólanum, þau Hulda færðust nær hvoru öðru og svo urðu þau par.

Hulda og Ingólfur gengu í hjónaband 23. apríl árið 1948. Pálmi fæddist á sólríkum degi 19. júní sama ár. Gunnar fæddist svo tæpum fjórum árum síðar, 2. febrúar. Guðrún er yngst, fæddist 1. maí árið 1959. Pálmi starfar sem rannsóknarmaður hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Gunnar – sem var örverufræðingur – lést árið 1990. Hann var kvæntur Liv Ringström Hansen. Þeirra dóttir er Marianne Tonja Ringström Feka. Hún er gift Daniel Feka og eiga þau soninn Dennis. Guðrún er íslenskufræðingur og doktor í sínu fagi. Eiginmaður Guðrúnar er Eiríkur Rögnvaldsson og sonur þeirra er Ingólfur.

Huldu var mjög annt um fólkið sitt og ræktaði það hið besta og tók fagnandi við ömmuhlutverkinu og þjónaði fús ungviðinu. Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju Marianne sem er búsett í Noregi og er ekki við þessa athöfn.

Maðurinn hennar Huldu

Ingólfur og Hulda voru sálufélagar. Hún hafði áhuga á viðfangsefnum hans, kennslu og þýðingarverkefnum. Hún ræktaði ekki aðeins tengsl við vinkonur sínar heldur tók skáldum og bókajöfrunum, vinum Ingólfs, hið besta og gerði vel við þá. Hulda hafði gaman af manni sínum og gerði líf hans ævintýralegt. Hann naut hennar og hún átti í engum vandræðum með að gera grein fyrir hvað hann var að sýsla. Ef ekki með nákvæmri útlistun þá með kátlegu móti. Þegar hún var spurð um hvað Ingólfur væri að aðhafast í Kaupmannahöfn eftir stríðið svaraði hún skýrt og ákveðið að hann væri að ná í handritin. Þótti erindi hans því stórmannlegt. En Ingólfur var alsaklaus við nám en heim komu handrit um síðir.

Ingólfur bara alla tíð mikla virðingu fyrir kostum og hæfni konu sinnar. Þau deildu jafnan skoðunum um menningarmál, stór mál og smá. Þau gengu erinda réttlætis í samfélagsmálum og voru samstiga í fjölskyldumálum sínum.

Þegar Ingólfur var að þýða eitthvert stórvirkið í bókmenntum heimsins leitaði hann til Huldu með vandasöm úrlausnarefni. Hún brást vel við, varð honum innblástur og sagði óhikað skoðun sína. Heimilislífið var gleðilegt, frjálslegt og jafnan var glatt á hjalla og mikið rætt.

Laglegi, góðlegi og kurteisi Ingólfur lést fyrir aldur fram í nóvember árið 1987.

Mannvinur

Frá 1963 vann Hulda á næturvöktum á Kleppsspítala. Hún lét af störfum þar í júní 1992 – þá 75 ára að aldri. Hulda varð sem lífsengill vistmönnum og hafði lag á góðri reglu og samskiptum. Hún þurfti ekki að aga sjúklingana, heldur gaf þeim sem ekki gátu sofið mjólkursopa eða sígarettu. Vinnustíll Huldu þótti helst til frjálslyndislegur og yfirvaldið óskaði að hún hætti aðferðinni “sopi-sígaretta.” En Hulda var lagin, líka við þau sem ætluðu að sveigja hana. Nei, það mætti alveg segja henni upp, en hún hefði ekki hugsað sér að svipta vini sína og skjólstæðinga því sem sefaði og friðaði. Síðan var ekki meira rætt um hennar hátt – en sjúklingarnir prjónuðu marga sokka og vettlinga handa börnum Huldu og voru plöggin sem tákn um hæfni hennar í samskiptum. Þetta þykir mér vera helgisaga um Huldu.

Að leiðarlokum

Nú eru skil. Sú Huldusaga sem hófst í Garðinum fyrir nærri öld er lokið. Hulda steikir ekki lengur schnitzel eða býr til eðalkjötsúpu fyrir sitt fólk. Hún dramatíserar engar örlagasögur og fer ekki í dagstúra lengur með Pálma austur fyrir fjall. Hún hlýðir engum framar yfir námsbækurnar, hvíslar ekki skemmtiyrði í eyra eða rifjar upp kátleg atvik frá síldarævintýri á Sigló forðum. Engir bókakassar koma lengur frá Borgarbókasafninu til hennar. Hún gefur ekki oftar stórmannlegar gjafir en minningar lifa. Ekki situr hún framar á leikhúsbekk, opineyg og næm kvika.

Nú er það stóra leikritið, stóra sviðið, stærsta sagan. Hún kenndi börnum sínum bænir, kunni að signa sig og þekkti Jesúsöguna vel – stóra dramað sem Guð segir mannkyninu um sig. Hulda naut þess að upplifa sögur, ferðast og vera með fólkinu sínu. Ferðin inn í himininn fléttar saman það sem gladdi hana. Og þið megið sleppa, leyfa Huldu að fara inn í ljósið þar sem allt er gott – inn í Garð eilífðar. Þar er fullkomið skjól og þar eru börnum manna sungin gæfuljóð.

Guð geymi hana alla tíð – Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð við útför Huldu Gunnarsdóttur. Kapellan í Fossvogi, 31. janúar, 2014.

Bálför – jarðsett á afmælisdegi Huldu 18. mars. Eftir útfararathöfnina verður erfidrykkja í Víkingasal 4 á hótel Natura.