Lygi eða sannleikur?

vitringarSagan um vitringana er ekki goðsaga heldur helgisaga. En er helgisagan lygi eða sannleikur?

Jólatímanum er að ljúka og við jólalok er sagan um vitringana gjarnan íhuguð. En hvers konar saga er hún og hvað merkja vitringar og atferli þeirra? Er saga þeirra goðsaga, helgisaga, dæmisaga eða eitthvað annað – eða kannski bara lygisaga, bull og vitleysa?

Það skiptir máli hvernig lesið er til að fólk greini með viti og skilji þar með. Í Biblíunni – og líka í trúarbrögðum og menningarhefðum – eru margar sögur sem kallast kallast helgisögur. Þær eru oft nefndar með slanguryrðinu legendur því þær kallast á ensku legends og eru ólíkar og gegna öðru hlutverki en svonefndar goðsögur um uppruna heimsins.

Helgisögur eru gjarnan um efni á mörkum raunveruleikans. Þær eru oft sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á nákvæma rás viðburða og söguferlið sjálft, staðreyndir eða ytra form atburðanna, heldur fremur á dýpri merkingu og táknmál. Svona greining á formi og flokkum skiptir máli til að merking sögunnar sé rétt numin og skilin. Bókmenntafræðin, þjóðfræði og greinar háskólafræðanna eru hjálplegar til að skilja svona sögur. Inntak og form verður að greina rétt. Inntakið kallar alltaf á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Reglan er einföld: Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og skilja þær í ljósi eigin forsendna. Svona sögur á ekki að kreista því þá brotnar allt, líka skilningurinn. Og vitringasagan er helgisaga en ekki goðsaga.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa vitringa sem komu til Jesú? Af hverju var sagan sögð af þeim? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hvað voru þeir margir?

Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir taldir allt að tólf. Ekkert í guðspjöllunum er heldur um nöfn þeirra.

Voru þetta konur eða karlar – eða bæði? Um það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni, að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesús myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit margra kristinna manna í Kína, að einn vitringanna hafi verið frá Kína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magos (μάγος) og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Líklega ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið fræðimenn, kunnáttumenn í stjörnufræði og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna. Kannski hafi þeir verið úr þeim væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu hins guðlega.

Víkkun – fyrir alla

Matteus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni sem lesin er á aðfangadegi úr Lúkasarguðspjalli. Af hverju sagði Matteus aðra útgáfu jólasögunnar? Ástæðan varðar stefnu og tilgang rits hans. Í guðspjalli Matteusar er áhersla á opnun hins trúarlega. Matteus taldi að Jesús Kristur og kristnin ætti ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð væri ekki smásmugulegur heldur stór. Guð veldi ekki aðeins litinn hóp heldur hugsaði vítt og útveldi stórt. Guð léti sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Vegna þessa er eðlilegt, að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega. Hrepparígur og bókstafstrú passar ekki við trú þessarar gerðar, trúin er fyrir alla. Guð starfar í þágu allra. Guð er alveg laus við snobb og er ekki hrifnari af sumum en síður af öðrum. Guð er ekki bara Guð einnar þjóðar heldur allra manna.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmál vitringasögunnar, stækkað hana og lesið í hana. Kóngavæðing sögunnar er einn þáttur flókinnar túlkunarhefðar. Þegar veraldlegir konungar fóru að trúa á Jesú Krist var að vænta, að kóngarnir vildu koma sér að í guðssríkinu – valdið vill alltaf meira. Sögur fengu byr um að hinir vitru og gjafmildu ferðalangar hlytu að hafa verið konungbornir. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan skrifað (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið kóngar og eðli og tilgangur gjafa þeirra breyttist þar með. Danska biblíuhefðin var í anda þessarar konungatúlkunar. Á dönsku er t.d. talað um þrettándann sem helligtrekongersdag. En ég held þó að ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum en magos og magoi í Biblíunni.

Íslenska hómilíubókin, sem er prédikanasafn frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, segir berlega að komumenn hafi verið “Austurvegskonungar.” En hins vegar þýddi Guðbrandur Þorláksson orðið magos með orðinu vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar en ekki kóngar í núgildandi Biblíuþýðingu. 

Hvenær?

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldinu í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir, sem við setjum upp t.d. helgileikur Melaskólans sem sýndur hefur verið í marga áratugi hér í kirkjunni. En ekkert er sagt í guðspjallinu um, að vitringarnir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt að þeir hafi opnað hirslur sínar og gefið góðar gjafir.

Lestur helgisögunnar

Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að sagan er kennslu- eða mótunarsaga. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér hugsanlega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo er eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa, að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við verðum ekki að trúa þessari sögu frekar en við erum neydd til að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og aðrar mikilvægar sögur mannkyns. Helgisaga er ekki lygi heldur opnar möguleika í lífinu, varðar sannleik viskunnar. Hlutverk helgisagna – eins og annarra klassískra sagna og þmt skáldsagna – er ekki að lýsa staðreyndum eða segja nákvæma frétt á vefnum heldur segja segja sannleikann á dýptina, lýsa því sem er mikilvægt og hjálpa fólki við að lifa vel.

Að lúta barninu með vitringunum

Hin táknræna merking helgisögunnar um vitringana er m.a. að menn séu – og það á við okkur öll – ferðalangar í tíma. Lífsferð allra manna er lík langferð vitringanna til móts við barnið. Aðalmál lífs allra manna er að fara til fundar við Jesú. Okkar köllun eða hlutverk er að mæta honum og gefa það, sem er okkur mikilvægt, af okkur sjálfum, okkur sjálf – eins og vitringarnir – og snúa síðan til okkar heima með reynslu og lífsstefnu í veganesti.

Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa og helgisöguna að okkar hætti, en tilvera þeirra er eins og tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Engin nauðsyn knýr að þú trúir að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra og með þeim.

Þegar þú íhugar og innlifast helgisögunni um vitringana er þín eigin saga endursköpuð. Þegar þú lýtur Jesú í lotningu – eins og þeir – breytist líf þitt með þeim. Helgisaga er utan við lífið og lygi – ef hún er skilin bókstaflega – en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu – veruleika Jesú Krists – verður þú einn af vitringunum. Þá verður lífið töfrandi – ekki bull eða lífsflótti – heldur undursamlegt. Helgisagan er til að efla fólk til lífs – skapa farveg fyrir heill og hamingju.

Hugleiðing við lok jóla.