Boðskapur þessara jóla. Hver er hann? Ástin og ástalífið!
Hefur þú elskað? Strák eða stúlku, konu eða karl, mömmu eða pabba, barnið þitt, fólkið þitt? Hefur þú orðið fyrir ástarsorg – og þótt lífið hryssingslegt? Á þriðja aldursskeiði æfinnar er ég frjáls, get ég horft til baka og að fenginni reynslu viðurkennt að það besta og dýrmætasta í lífinu er að elska og vera elskaður. Saga mín er margvísleg en svo sé ég þegar ég horfi til baka að hún er ástarsaga. Ég veit það því ég hef lært að horfa með augum ástar og túlka út frá lífssýn kærleikans.
Hvernig líf þráir þú? Hvers konar lífspakka viltu taka upp, þetta kvöld og alla daga? Hvaða gjöf þráir þú? Eru það hlutir eða upplifun? Getur verið að þú viljir vera umvafin/n ást – og að þú lifir eigin sögu sem ástarsögu?
Stórríkið
Jólasagan, jólaguðspjallið, er saga tveggja vídda. Annars vegar er pólitík og hvernig stórveldi stýrir venjulegu fólki. Rómaveldi píndi þungaða konu til ferðalags rétt áður en hún átti að fæða. Ástæðan var skattgírugt valdakerfi sem ekki leið undanskot og skattaskjól. Keisarinn vildi allan skattinn. Og parið varð að leita að hvíldarstað því útvíkkun og hríðir voru skýr teikn um að barnið væri að koma. Bóndi konunnar var umhyggjusamt góðmenni, handlaginn smiður og djúpvitur draumamaður, sem ekki brást. Og svo eru það hinar persónurnar, skattheimtumenn, hótelhaldarar og bændur í nátthaga. Jafnvel á jólunum erum við ekki laus við skattinn!
Undrið
En svo er það hin víddin, að lífið er meira en bara efnaferlar, strit og stríð. Undrið og töfrarnir breyta alvöruheiminum svo hann mýkist, dýpkar og ummyndast. Lífið er alltaf í plús og veitir möguleika. Glufa opnaðist inn í himininn, sendiboðar Guðs sögðu góðar fréttir. Barnið kom þrátt fyrir vont yfirvald. Ljósið er sterkara en myrkrið, barns-skinnið mýkra en skrápur keisarans. Lífið er ekki bara ríkisvald heldur ríkidæmi. Hin vídd lífsins er undur og möguleikar.
Lífið í plús
Og barnið sem fæddist sætti sig aldrei við það næst-besta og eftirlíkingar hamingjunnar. Upphafssaga hans er andsaga kúgunar og bælingar. Saga hans er um að myrkrið fær ekki að stjórna. Ofbeldi, hernaður og stríð eru ekki aðalmál lífsins.
Við þurfum ekki að trúa einföldustu útfærslu jólasögunnar. Helgisaga er aldrei bara umbúðir heldur miklu fremur inntak. Helgisögur hafa glit og glans eins og flottir jólapakkar og það er betra að taka utan af slíkri sögu og skoða innvolsið. Jesúsagan er ekki um hvernig heldur til hvers, ekki um hvað heldur hvers vegna, ekki um yfirborð heldur merkingu. Jólasagan er ekki frétt í blaði heldur frétt um tilgang alls sem er. Jólasagan tjáir að tilveran er björt og góð. Hún er ekki viðskiptasaga eða stjórnmálasaga, ekki spekisaga né heldur dæmisaga, skáldsaga eða ljóð. Sagan um fæðingu Jesú er fyrst og fremst ástarsaga.
Starfandi elska
Þegar talað er um ást í Biblíunni er ástin ávalt annað og meira en tilfinningamál. Ást er alltaf athöfn. Að elska að biblíuhætti ekki bara að leyfa glóðinni að lifa heldur að gera eitthvað í málum, leita hins elskaða, faðma og gera gott. Í ástarsögu Guðs til veraldarinnar er tilfinning Guðs svo sterk og sagan svo róttæk að ekkert minna dugar en að Guð komi sjálfur. Það er aldeilis heit saga.
Af hverju varð Guð maður? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu jólaboði eilífðar heldur lætur sig þig varða, hugsar um þig, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú ert kominn í strand, í öngstræti og á enda? Það er vegna þess að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð leitar því út í ástalífi sínu. Guð er ekki innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur, gefandi og fangvíður. Sagan af Guði er góð ástarsaga.
Hefur þú elskað? Þú ert ekki bara umbúðir heldur inntak – þú ert til fyrir ást og tengsl. Jólaguðspjallið segir: Þú ert elskaður – þú ert elskuð. Það er eldrauð saga að Guð umfaðmar lífið, heiminn og þig.
Amen – og gleðileg ástarjól.
Hugvekja við aftansöng í Neskirkju 24. Desember 2013.
Bænirnar sem beðnar voru við aftansönginn eru hér að neðan.
Kollektubæn
Dýrð sé þér Guð í upphæðum. Þökk fyrir friðinn sem þú gefur, réttlætið sem þú ræktar, elskuna sem þú miðlar og draumana sem þú vekur. Þökk fyrir soninn sem kemur okkur til lífs.
Ríki hann með þér í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Amen.
Almenn kirkjubæn
Dýrð sé þér Guð í upphæðum, sem kemur til manna.
Við fögnum þér. Þökk fyrir að þú varðst barn meðal okkar, fyrir okkur.
Kenndu okkur að lifa ástarsögu þína og trúa að við erum elskuð og megum elska.
Blessa þau sem líða, eru sjúk og aðþrengd á þessum jólum
Við nefnum nöfn þeirra í hljóði í huga okkar ——-
Umvef þau – Guð.
Vitja fjölskyldna okkar, vitja okkar sem hér erum í þínum helgidómi, blessa hin fátæku, kúguðu og rétt hlut þeirra.
Kenndu okkur ábyrgð í verki.
Dýrð sé þér Guð í upphæðum og verði þinn friður á jörðu.
Faðir vor þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji. Svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.
Amen.