Móðir, faðir, vinur – Guð

blessi þig bróðrVertu Guð faðir, faðir minn / í Frelsarans Jesú nafni / Hönd þín leiði mig út og inn, / svo allri synd ég hafni.

Vertu Guð faðir, faðir minn. Hvað þýðir það og hvernig getur slíkt orðið? Jesús tala um föðurtengsl í guðspjalli dagsins. Hallgrímur Pétursson ljóðar svo fallega bænaversið, sem við biðjum gjarnan í messum, einnig í heimahúsum, með börnum og fullorðnum, gamalmennum og deyjandi. Vertu Guð faðir, faðir minn. Hvað merkir það?

Hvaða minningar áttu um mömmu og pabba? Staldraðu við og hugsaðu til baka. Hvaða mynd kemur strax í hugann af móður þinni? Hver er mynd þín af honum pabba þínum? Hugsaðu aftur um viðbrögð þín núna. Hvað tilfinningar vakna? Eru það hlýjar elskutilfinningar eða blendnar tilfinningar, jafnvel kuldi í garð annars þeirra eða beggja? Er einhver biturleiki eða sorg í þeirra garð, kannski líka hræðsla? Eða vanknar innan í þér sumarbjört gleðitilfinning, heit gleði og þakklæti?

Afstaða til foreldra er margþátta flétta af ýmis konar og jafnvel ólíkum tilfinningum mennskunnar. Og foreldrafstaða hefur mjög mikil áhrif á afstöðu fólks til Guðs. Ef þú átt vonda reynslu af öðru foreldrinu áttu vísast í erfiðleikum með Guðsímynd þína og tengslin við Guð. Það er þekkt að ef foreldrar hafa beitt börn og maka ofbeldi þá eiga börn ofbeldisfólksins í erfiðleikum með að hugsa um og ímynda sér Guð sem föður eða móður. Mæður rétt eins og feður geta lemstrað og marið tengsl. Þegar svo er komið er nauðsynlegt að nýta sér elskuímyndir einhverra annarra til að tákna hið guðlega í lífinu – t.d. ömmu, afa, fóstra eða stjúpu.

Íslenskar fjölskyldur eru ekki einfalt kjarnakerfi heldur oft raðfjölskyldur og þar koma við sögu svo margir, sum sem efla vöxt og þroska, en önnur sem hindra eða særa. Því er mikilvægt að við stöldrum við til að skoða hver við erum og undir hvaða áhrifum.

Pabbi
Hvað er minn faðir? Hver er mín móðir? Eiginlega eru þær spurningarnar um hvað ég er – hvað þú ert.

Í guðspjalli dagsins talar Jesús um samskipti sín og föðurins himneska. Við fáum ofurlitla innsýn í hvernig hann upplifir Guð föður – og hvernig hann er eða bregst við sem sonur. Allt er mér falið af föður mínum – sem sé þeir deila öllu … enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn. Gagnkvæmnin er bæði alger og eðlileg á milli þeirra.

Þessi tilfærðu orð Jesú standa í samhengi bænahalds. Jesús talaði við Guð og var ekki hljóður eða bíðandi í þeirri samveru. Jesús ræktaði sambandið við þann sem hann þekkti að því einu að vera honum góður og gjöfull faðir. Alla ævi tamdi Jesús opinská tengsl og tal við Guð, talaði frá hjarta til hjarta. Allt sem kom upp í lífsbaráttu Jesú – sem jafnframt var glíma hans við ógnvænlegt hlutverk – bar hann fram fyrir föður sinn, talaði hjartans mál sín. Jesús vissi vel til hvers orð og verk gætu leitt. Hvert orð hans var vegið og gæti leitt til dauða hans sjálfs og þeirra, sem fylgdu honum í fullkomnu trausti. Samtal Jesú var því mjög þrungið.

Jesús ávarpaði föðurinn með heitinu Abba. Það er sama nafnið og börn alls heimsins umla í frumtilraunum til að ávarpa heiminn og þau nánustu heima. Þegar Jesús talar við Guð er hann ekki aðeins að tala við frumkraft himingeimsins eða lífsmátt jarðar, heldur að tala við sinn besta vin sem er stórkoslega góður: Elsku, góði pabbi minn!

Afstaða barnsins
Jesús gerði ekki lítið úr viti, dómgreind og andlegri skerpu þegar hann segir að faðirinn himneski hafi ekki opinberað spekingum og hyggindamönnum viskuna, heldur smælingjum. Það er upplýsandi og hollt að skoða gríska textann að baki guðspjallinu. Það sem þýtt er með smælingjum er sama orðið og notað er um börn. Sem sé Guð kemur til barnanna, til þeirra sem eru minni máttar – til þeirra sem eru tilbúin að opna huga og líf fyrir undri lífsins. Jesús hafði reynsluna af að hyggindamennirnir báru fyrir sig alls konar fyrirvörum og undanslætti. Klókar konur og karlar munu alltaf finna sér undanbrögð og sjálfhverfar leiðir. En Jesús leggur áherslu á að við menn erum manneskjur, að við þörfnumst hlýju, trausts og erum nándarverur. Við erum börn inn í okkur – í því er fegurð okkar fólgin og möguleikar einnig. Við ættum að viðurkenna það eðli okkar og gæta að því að láta ekki klókindi afvegaleiða okkur.

Og svo snýr Jesús sér til allra mannabarna og segir: „Komið til mín, ég mun veita ykkur hvíld.“ Þessu kalli hans hafa menn hlýtt um aldir, fallið í faðm hins góða sonar, hins góða föður, horfið í hinn hlýja fjölskyldufaðm himinsins.

Móðir, faðir, vinur og lífgjafi
Í guðspjalli dagsins er talað um föðursamband Jesú. En Biblían er ekki kynlega einsýn! Mótunarlíf og reynsla fólks er ekki aðeins bundin hinu föðurlega, heldur einnig hinu móðurlega. Á þessum degi þegar kirkjan íhugar frumtengslin og faðerni þar með – er móðerni ennfremur til skoðunar. Lexía dagsins er í spádómsbók Jesaja. Þar eru brjóst til að sjúga og hvíla við í velsæld. Þar er hossað á hnjám og boðið til burðar á mjöðminni. Það er hið kvenlega myndmál sem einnig er notað til að virkja tilfinningar og skilning fólks á guðlegum veruleika. Samhengi fólks í öllum myndum verður til að menn skilji samhengi sitt og tengsl við Guð betur.

Mamma og pabbi
Ég var svo lánsamur að eiga góða foreldra og jákvæð tengsl við þau. Þau höfðu bæði mikil áhrif á mig og lögðu bæði vel til míns þroska og persónumótunar.

Þegar móðir mín var var orðin háöldruð gerðist eitthvað í höfði hennar. Skerpan fór og það sem hún sagði var ruglingslegt. Rannsóknir sýndu að tappi hafði farið í heilann og skammtímaminnið brenglaðist. Það var átakanlegur tími að horfa á bak góðri dómgreind hennar, uppgötva að hún mundi ekki lengur hvað var hvað og hver var hvurs. Ár og áratugir verptust og brengluðust í gríðarlegum tímagraut. Ég sat hjá henni, hlustaði og hugsaði um þessa konu og hvað væri einkenni persónu hennar. Hún var ekki lengur aðeins þessi yndislega mamma, einbeitt í uppeldi, staðföst í lífinu og rismikil í skoðunum. Varnir hennar voru farnar og dómgreindin gölluð en þá fengum við, ástvinir, að sjá betur kjarna hennar. Þegar við misstum hana frá okkur sem persónu, þá sáum við betur persónudýpt hennar. Þegar varnarhættir hennar voru farnir og ættingjarnir komu í heimsókn breiddi hún út faðminn og fagnaði svo innilega að við upplifðum óflekkaða og hreina elsku. Þegar minni og varnir hurfu – hvað var þá eftir? Það var ástin hrein. Þá uppgötvaðist hve ævirækt hennar í samskiptum við Guð skilaði henni ást ellinnar. Bænir hennar um að hún mætti vera Guðs barn var svarað með undursamlegri elsku líka í elli hennar. Þegar sorgin nísti okkur vegna þess að persóna hennar brenglaðist var gott að upplifa að kjarni hennar, innræti hennar var elska – af því að hún ræktaði elskuna alla ævi, kunni að biðja: Vertu Guð faðir, faðir minn…og naut þess síðan sjálf á ævikvöldi.

Guðstengsl þín
Hver er mynd þín af pabba og mömmu? Það eru myndir sem hafa mótast af reynslu þinni af þeim, góðri eða vondri. Ef þú átt bága reynslu af öðru hvoru þeirra muntu draga hana með þér allt lífið og inn í samskipti þín við Guð. Ef þú hefur átt trausta bernsku, traust í foreldrum í hvívetna áttu festu í þér til að ganga inn í Guðssambandið. Ef faðir eða móðir voru fjarlæg þér í bernsku verður Guð þér fjarlægur og erfiður. Ef þú naust elsku getur þú betur skilið elsku himinsins.

Hver er minning þín um tengsl við foreldra? Svarið við þeirri spurningu áttu innan í þér. En lyftu þessum minningum upp, vegna þess að nú er þér boðið til nýrra tengsla, nýrra samskipta. Jesús býður þér að ganga inn í Guðstengsl sín, læra að tala við Guð sem elskuveru, Guð sem föður, Guð sem móður, Guð sem vin. Þú mátt fella klókindi þín og fordóma um Guð, gera upp við reynslu fortíðar og bernsku og ganga algerlega inn í nýtt samband við Guð. Þú mátt vera barn Guðs. Þar er aðeins elska sem stendur þér til boða – en aðeins ef þú vilt.

Lof sé þér sem ert Guð faðir, móðir og elska. Amen.

Neskirkja, 17. nóvember, 2013

Textaröð: B

Lexía: Jes 66.10-13
Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

Pistill: Opb. 15.2-4

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins:
Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Guðspjall: Matt. 11.25-30
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“