Myndir úr lífi Þórhöllu Gunnlaugsdóttur

ThorhallaGunnlaugsdottir-1 copyHér að neðan eru minningarorð í útför Þórhöllu Gunnlaugsdóttur 7. október, 2013. Hljóðskrá upptöku ræðunnar er að baki þessari smellu

Þórhalla vann fram á sjötugasta og fyrsta aldursár. Þá safnaðist starfsfólkið á Landspítalanum saman til að kveðja hana. Læknarnir héldu ræður og kaka var á borði. Þórhalla, sem aldrei hikaði við að segja skoðun sína, var hrókur alls fagnaðar, naut virðingar – og samstarfsfólkið vissi að þegar hún sagði skoðun sína var eins gott að hlusta því hún var frjáls, óháð og skörp.

Í viðbót við spítalamyndina eru allar hinar myndirnar. Þegar hún var læra að ganga austur á Bakkafirði. Svo þegar hún valhoppaði á Munkaþverárstræti á Akureyri eða sat hjá mömmu við orgelið og söng. Svo stóð hún við sjúkrabeð pabbans þegar hann lá banaleguna og hún var á barnsaldri. Kvennaskólastúlkan fyrir sunnan, félagslega kunnáttusöm þar sem fólk kom saman. Svo bráðung með barn á armi og mann við hlið. Örfáum árum síðar ekkja með þrjú börn.

Lífsmyndir Þórhöllu eru áleitnar. Og svo er myndin af stórfjölskyldunni, sumar helgimyndir, ættboginn – hópur af vænu og þroskuðu fólki sem gat, vildi og megnaði að opna fangið og vernda þau sem þurftu. Ættmóðirin Oktavía blessaði allt sem hún mátti og gat, Þórhalla speglaði og naut, og börnin hennar áttu alltaf bæði nærumhverfi og athvarf, sem varð þeim til góðs og eflingar. Að ala upp börn er aldrei eins manns verk heldur samfélagsverkefni.

Ætt og upphaf

Þórhalla Gunnlaugsdóttir fæddist austur á Bakkafirði – á bænum Höfn – þann 17. nóvember árið 1928. Foreldrar hennar voru hjónin Gunnlaugur Andreas Jónsson og Oktavía Stefanía Jóhannesdóttir. Þau áttu fimm börn og var Þórhalla yngst þeirra. Guðrún var elst, síðan kom Jón, þá Karl og Ottó var næstyngstur. Nú eru þau öll farin „upp til englanna.“

Gunnlaugur hafði mikið umleikis, stundaði verslun og innkoman var góð. Hann var ekki aðeins maður hins efnislega heldur opnaði huga mót menningu heimsins. Hann meira að segja talaði frönsku. Og Oktavía hafði notið þeirrar blessunar að fara suður á unga aldri og nam orgelleik hjá dómorganistanum í Reykjavík um tveggja ára skeið. Hún varð organisti fyrir austan og spilaði og söng alla tíð síðan. Þau hjón voru hinar bestu aðveituæðar menningar og mennta. En svo missti Gunnlaugur heilsu, hjónin brugðu búi og fluttu til Akureyrar þegar Þórhalla var fjögurra ára. Einu ári síðar, árið 1933, var Gunnlaugur allur, Oktavía ekkja með fimm börn á framfæri. Í nær áratug bjuggu þau nyrðra, hún kom börnum sínum til náms, vinnu, þroska og manns.

Þórhalla sótti grunnskóla á Akureyri. Og þegar hún – sú yngsta í barnahópnum – var fermd, kastaði Oktavía tengingum sínum, seldi húsið nyrðra og flutti suður. Þórhalla fór svo í Kennó eins og Gunna systir og fór síðan að vinna, leggja til heimilis og einnig grunn að eigin sjálfstæði. Hún vann um tíma í Reykjavíkurapóteki. Svo stundaði hún handbolta, naut lífsins og eignaðist vini. Meðal þeirra er Inga sem býr í Washington, lifir vinkonu sína og biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Fjölskylda og börn

Svo kom Guðmundur Þórir Elíasson inn á sjónsvið Þórhöllu. Hann hefur eflaust tekið eftir hve skemmtileg Þórhalla var. Hún sá líka hve glæsilegur hann var og hefur vafalaust fregnað um ógnarstyrk hans enda var hann kallaður Tarzan. Þau Þórhalla gengu í hjónaband árið 1923 og fóru að búa upp á Akranesi og nutu fjölskyldu Guðmundar á Skaganum. Svo komu börnin þrjú í heiminn. Guðmundur var netagerðarmaður og hafði líka atvinnu af að vera vélstjóri. Svo fór hann í afleysingaferð með togaranum Júlí frá Hafnarfirði en skipið sökk við Nýfundnaland í febrúar 1959. Áhöfnin hvarf í hafið og 39 börn urðu föðurlaus. Börnin hans voru þá 7, 4 og 2 ára.

Þau Þórhalla og Guðmundur eignuðust þrjú börn:

1. Elst er Oktavía, fædd í september árið 1951. Hún er félagsráðgjafi. Eiginmaður hennar er Ólafur Torfason. Synir hennar og Kristins Karl Guðmundssonar eru Davíð Guðmundur og Gunnar Andreas. Sonur hennar og Ólafs er Torfi Karl.

2. Gunnlaugur Guðmundsson fæddist í apríl árið 1954. Hann er stjörnuspekingur og rithöfundur. Eiginkona hans er Svanborg Marta Óskarsdóttir og uppeldisdóttir Birgitta Ósk.

3) Yngstur er Elías Þórður, júnídrengur sem fæddist árið 1957. Hann er atvinnubílstjóri. Kona hans er Hafdís Ólafsdóttir. Börn hans eru, Eva Björk Naji, Rakel og Bjartur.

Lífið og störfin

Hvað gerir 29 ára gömul ekkja með þrjú börn? Kostir í þeirri stöðu eru líklega aðeins tveir, að bjarga sér eða bíða ósigur gagnvart aðstæðum. Og Þórhalla valdi betri kostinn og naut tilstyrks sinna. Hún fór að vinna á slökkvistöðinni á Keflavíkurflugvelli og börnin nutu skjóls hjá ömmum og afa. Elías og Oktavía voru fyrst um sinn á Skaganum í skjóli Ólínu ömmu og afans Elíasar, en Gunnlaugur fékk að fara í fjölskylduhúsið á Lynghaga til Oktavíu ömmu, Gunnu, Karls og Ottós. Oktavía vildi gjarnan í bæinn líka og eftir ítrekuð strok af Skaganum fékk hún vilja sínum framgengt og fór á Lyngahagann og byrjaði í Melaskóla þar sem Gunnlaugur var fyrir.

Þórhalla var þá orðin búsett á Lynghaga og þar voru eldri systkinin en Elías ílentist á Skaganum en kom síðar suður í mömmuskjólið.

Þegar Þórhalla hætti vinnu í Keflavík fór hún að vinna í Laugavegsapóteki og síðar á Ríkisspítölum. Hún kom sér vel, var glögg, fljót að skilja og snögg til verka. Og hún naut félagsfærni sinnar þar sem hún fór og þar sem hún vann. Ein lífsmyndin af Þórhöllu að vélrita miða á meðalaglös og afhenda lyfin yfir skenkinn. Svo önnur þar sem hún var á Landspítalanum að tala skýrt við spítalalækni sem vissi að Þórhalla stóð með fólki, kunni til verka og vissi hvenær læknir misskildi. Hún var fljót, talaði ekki mikið um tilfinningar en átti ekki í neinum erfiðleikum að tala skiljanlega þegar þörf var á.

Um tíma bjó Þórhalla á Ægisíðu með börn sín. Svo flutti hún upp í Breiðholt og var á Teigaseli. Þegar hún lét af störfum var hún vel á sig komin en langaði ekki að hætta að vinna. Svo þegar heilsan brást fór hún á Landakot og síðan á Droplaugarstaði. Þar lést hún þann 26. september síðastliðinn. Þeim er þakkað sem þjónuðu henni fyrr og síðar og hjúkruðu.

Eigindir

Myndirnar úr lífsgöngu Þórhöllu eru merkilegar. Og svo hafið þið, ástvinir, minningar í huga, myndir úr lífssögu hennar og af tengslum við hana. Hvernig var hún, hvernig manstu hana?

Manstu augnsvipinn? Tilsvörin kannski? Manstu hversu öguð Þórhalla var? Hún kvartaði ekki, ekki út af peningum, fólki, heilsu eða öðru. Hún bað aldrei um neitt. Hún tók ekki lán og skuldaði því engum neitt. Hún var stolt, sjálfstæð og vammlaus.

Þórhalla gat verið ein og var sjálfri sér nóg og engum háð. Hún hafði húmor og skemmti sér við ef einhver toppaði hennar eigin. Hún var fróðleiksfús og gefin til bókar – og hafði áhuga á gagnverki lífsins og sálarferlum fólks sem m.a. kom fram í að hún hafði gaman af og las bækur um fólk og flækjur mannssálarinnar, krimmar meðtaldir. Og hún átti jafnvel til að lesa ekki aðeins íslensku útgáfu bóka Arnaldar Indriðasonar heldur þá ensku líka. Geri aðrir betur.

Hún var heiðarleg og hreinskilin og pakkaði skoðun sinni ekki í óþarfa umbúðir og klisjur voru henni fjarri skapi. Hún sagði óhikað sannleika eða skoðun við viðmælendur sína og svo smitaði þögn hennar hljóðlátum kærleika. Þórhalla kom eins fram við alla og ávann sér virðingu fólks sem mátu manngildi og jöfnuð mikils. Hún hafði sterka nærveru og var flestum eftirminnileg í samskiptum. Hún bjó að smitandi kærleika fjölskyldu sinnar og vandamanna og ræktaði með sér þakklæti til þeirra sem sneru góðu að henni, studdu hana og börn hennar fyrr og síðar.

Vegabréfið

Myndir úr lífinu – margvíslegar og litríkar. Þegar Þórhalla Gunnlaugsdóttir flutti frá Akureyri, fjórtán ára gömul, suður til Reykjavíkur fékk hún vegabréf. Hún þurfti vegabréf í eigin landi enda landið hernumið. Þetta vegabréf er enn til og hægt að skoða það í safnaðarheimilinu í erfidrykkjunni á eftir.

Og nú eru orðin skil – hún fer úr ríki tímans inn í ríki eilífðar. Vegabréf hennar í eilífðarförinni er í fullu gildi – í fjölskyldu hennar hefur trú aldrei verið launungarmál og traust til Guðs verið jafn sjálfsagt og að anda og vera. Nú er hún farin inn í himininn, ríki gleðinnar, þar sem allt er gott.

Myndir úr lífinu – áhrifaríkar Þórhöllumyndir. Hún var færð úr fæðingarsveit bernskunnar og í nýtt byggðarlag. Hún missti föður í æsku, síðan uppeldisreit fyrir norðan, svo mann úr fangi og frá ungum börnum. Hún varð að beita öllu sínu til að sjá sér og sínum farborða – en aldrei brotnaði hún – vann sín verk, beitti kunnáttu og var til fyrir börnin sín.

Nú verða engar myndir lengur til af Þórhöllu – þær eru allar innan í þér, í ástvinum og samferðafólki. Og mynd hennar er varðveitt – hún sjálf – í faðmi Guðs, sem ekki lætur sér nægja eftirgerð heldur aðeins frumgerð, elskar og sættir sig ekki við nema það besta. Þar má hún vera, þar má hún búa og þú mátt treysta að þar ríkir listrænn gleði Bakkafjarðar-Akureyrar-Lynghaga-fjölskyldunnar. Þar á hún heima – eftir æviferð hefur hún náð höfn eilífðar.

Guð geymi Þórhöllu að eilífu – og Guð geymi þig.

Amen

Þórhalla Gunnlaugsdóttir. Fædd í Höfn í Bakkafirði, N-Múl. 17. nóvember 1928.

Andaðist í Reykjavík 26. september 2013.

Maki:

Guðmundur Þórir Elíasson

Fæddur í Hafnarfirði 27. júlí 1928

Vélvirki, netagerðameistari, sjómaður

Látinn 8. febrúar 1959. Fórst með togaranum Júlí frá Hafnarfirði, við Nýfundnaland.

Börn:

Oktavía Guðmundsdóttir

Fædd í Reykjavík 9. september 1951

Fyrrum eiginmaður:

Kristinn Karl Guðmundsson 1951

Davíð Guðmundur Kristinsson 1971

Gunnar Andreas Kristinsson 1976
Núverandi eiginmaður:

Ólafur Torfason 1951

Torfi Karl Ólafsson 1992

Gunnlaugur Guðmundsson

Fæddur í Njarðvík 28. apríl 1954

Eiginkona:

Svanborg Marta Óskarsdóttir 1953

Birgitta Ósk Anderson 1974 (uppeldisdóttir)

Elías Þórður Guðmundsson

Fæddur á Akranesi 9. júní 1957

Núverandi eiginkona:

Hafdís Ólafsdóttir

Halla Ólöf Kristmundsdóttir 1957 Barnsmóðir

Eva Björk Naji Elíasdóttir 1978

Ásta Jóna Guðjónsdóttir 1961 Barnsmóðir

Rakel Elíasdóttir 1981

Kristín Valgerður Gísladóttir 1960

Foreldrar

Gunnlaugur Andreas Jónsson

Fæddur í Höfn, Skeggjastaðahreppi, N.-Múlasýslu. 23. október 1876

Látinn á Akureyri 13. maí 1933

Verslunarstjóri í Kaupmannshúsi, Bakkafirði. Bóndi í Höfn og Dalhúsum í Bakkafirði og Vopnafirði.

Oktavía Stefanía Jóhannesdóttir

Fædd í Dalhúsum, N.Múlasýslu 21. desember 1889

Látin í Reykjavík 2. ágúst 1969

Systkini: 

Guðrún Gunnlaugsdóttir 14. febrúar 1913 – 20. febrúar 1977.

verslunarmaður

Jón Gunnlaugsson 08. maí 1914 – 14. apríl 1997

læknir á Reykhólum, Selfoss og Reykjavík.

Karl Gunnlaugsson 17. desember 1915 – 10. apríl 1989.

klæðskeri og bókavörður

Ottó Gunnlaugsson 24. júní 1922 – 20. maí 1991

myndlistamaður