Núllstilla og endurræsa

Marta og MaríaSjónvarpstæki og tölvur á mínu heimili eru tengdar við háhraðanet í jörðu og tækin háð því neti. Einstaka sinnum kemur fyrir að sjónvörp ná ekki neinu merki og skjáirnir eru dauðir og tölvurnar virka ekki. Þegar svo varð á mínu heimili í fyrsta sinn var ljóst að eitthvað var að. Ég hringdi í fyrirtækið sem ég hafði keypt þjónustu hjá og leitaði ráða. Svarið var einfalt: „Prufaðu að slökkva á græjunnisem símalínan fer í og allir vírarnir fara úr sem tengjast í tölvu og sjónvarp.“ Já, ég mundi eftir stykki sem blikkaði upp á háalofti – fannst þetta heldur einkennilegt ráð því ég var búinn að athuga hvort tækið væri rafmagnslaust. En ég reif rafmagnssnúruna úr sambandi, beið í mínútu og tengdi svo aftur. Og viti menn, deilirinn virkaði, sjónvörpin ljómuðu og veraldarvefurinn var aðgengilegur að nýju í tölvunum. Til að laga bilunina varð einfaldlega að slökkva og kveikja aftur.

Þegar tölvur, símar og tölvutæki brenglast er oftast fyrsta ráðið að slökkva á þeim og endurræsa. Ruglið fer og græjan virkar. Það þarf stundum að endurræsa. Þannig er það líka í mannlífinu. Stundum þarf að nústilla, stoppa alveg til að bæta lífsgæðin. En málið er kannski svona einfalt í mann-lífi eins og raf-lífinu.

Marta, María og forgangsmálin
Skoðum guðspjallstexta dagsins. Hann er úr þeim hluta Lúkasarguðsppjalls sem við getum kallað reisubók Jesú. Þar segir frá ferðum, ferðaræðum og ferðarviðburðum Jesú. Meðal annars segir frá heimsókn Jesú sem kom til vina í þorpinu Betaníu sem var skammt frá höfuðborginni. Þar voru þrjú í heimili sem eru þekkt og nafnkunnug: Lasarus, sem er frægur fyrir að deyja en rísa upp; María fyrir að kunna að hlusta og svo Marta, hin dugmikla húsmóðir.

Til eru þeir fræðimenn sem telja að nafn hennar hafi ekki verið Marta, heldur sé nafnið eiginlega samheiti fyrir bústýrur. Hún gæti hafa heitið Elísabet eða Rut en verið kölluð Marta, þ.e. húsmóðir. En þessi mikla húsmóðir fer á “límingunni” þegar Jesús kemur – og kannski ekki vegna þess að hann kom – heldur vegna þess manngrúa sem jafnan fylgdi honum. Kannski hafa tugir manna komið með honum og þá varð pilsaþytur.

Mörtu húsmóður líkaði illa að María velhlustandi settist bara niður til að heyra hvað meistarinn hefði að segja. Hún hlammaði sér niður á meðal karlanna í stað þess að fara á yfirsnúning í húsverkunum, sem lá á að sinna. Það var jú margmenni í húsinu og þeim yrði að þjóna með mat og drykk. Hver átti að sjá um það mál? Þvert á almennar leikreglur hins karlstýrða, gyðinglega samfélags leyfði Jesús konum að sitja og hlusta. Í því var hann róttækur – eiginlega byltingamaður. Einhverjir voru óhressir með þá afstöðu Jesú, sem vildi, að konur – eins og karlar – fengju tækifæri til að hlusta á orð hans, njóta sömu andlegu réttinda og karlarnir.

Í því fáum við skilið grunnáherslu kristninnar varðandi mennsku allra. Mannvirðing kristninnar á sér fordæmi í höfundi kristninnar, Jesú Kristi, og hvernig hann umgekkst fólk. Engin kynjamunur var í Jesúafstöðunni. Það er því ekki einkennilegt heldur eðlilegt að kvenréttindi hafi sprottið upp í svonefndum kristnum löndum.

Áherslur
Ýmsir möguleikar eru í túlkun þessa texta, hvað hann merkir og hvernig eigi að skilja hann. En eins og allir góðir og klassískir textar lifir hann því hann gefur færi á ýmsum skýringum og útleiðingum. Við getum túlkað textann út frá mismunandi skaphöfn manna og að textinn sýni hinn virka annars vegar og óvirka hins vegar – „aktívistann“ og „kvíetistann“ eins og það var stundum kallað á fyrri tíð. Hina starfandi, iðjandi veru og svo hina íhugandi hugsandi veru hins vegar. Fyrr á öldum sáu klaustramenn í Betaníu-Maríu fyrirmynd sína og notuðu þennan Lúkasartexta til að rökstyðja mikilvægi klaustralífsins. En ég held þó að það sé beinlínis röng túlkun. Og þegar við erum að kynnast persónum í vinahópi Jesú kemur í ljós að rangt er að rugla saman Maríu Magdalenu saman við Maríu í Betaníu. Það var ekki María Magdalena sem settist í þetta sinn niður til að dást að meistaranum. Það voru margar konur sem vildu og fengu leyfi til að hlusta meðal karlanna sem vildu heyra hvað þessi merkilegi brautryðjandi, hugsuður og spekingur hafi að segja.

Jesús vildi að báðar Betaníukonurnar gætu notið friðar frá hlaupum. Svo kemur önnur þeirra og vill að hann skipti sér af og sendi Maríu í aðkallandi húsverk. Nei, Jesús lætur ekki narra sig í að verða refsari eða tyftari og fara að skipa konu til eldhúsverka. Nei, hvað skiptir máli? Allir mega hlusta á orð Guðsríkins. Jesús vildi og vill að allir staldri við og hugsi um að stóru málin. Andleg fæða á undan líkamlegri fæðu. Hugsa áður en hlaupið er til vinnu. Hver er hindrunin, þarf að mola hana niður eða má láta hana detta?

Núllstilla
Eitt mikilvægasta verkefni hvers manns er að iðka frelsi, nota frelsi til að velja milli mismunandi kosta. Við tölum við fólk okkar á heimili okkar, eigum samskipti við aðra á vinnustað, að okkur berst efni sem við veljum úr. Við ákveðum hvort við ætlum að gera þetta eða hitt. Innan í okkur hrærast tilfinningar, ótti, von, löngun, hrifning, andúð. Við verðum fyrir reynslu, til góðs, ills, til eflingar eða veikngar. Líkami okkar er ekki aðeins hulstur heldur stórveldi í hvort okkur líður vel eða ekki.

Hvernig líður okkur best? Hvað er mikilvægast fyrir okkur og hvernig getum við best unnið úr áreiti að utan og innan? Við verðum öll fyrir skyndilegum viðsnúningi af einhverju tagi þegar við fáum mikilvægar fréttir sem varða okkur miklu – hvort sem það nú er til góðs eða ills. Og getum við brugðist við með því að fara í yfirsnúning og hamast eða setjast niður og hlusta vel. Við gerum áætlanir sem bregðast og eru jafnvel til ills. Við vöndum okkur að taka ákvarðanir sem geta reynst til ófarnaðar. Hvað þá? Hvað getum við þá gert?

Og nú vil ég biðja þig að hugsa um hvað er þér erfiðast? Hvað veldur þér áhyggjum? Hvað óttastu mest?

Getur verið að þú þurfir að endurræsa? Er komið að því að núllstilla eða endurstilla í lífi þínu til að þú getir vaxið? Til að þér líði vel og lifir í samræmi við skapað eðli þitt, djúpþrá og köllun þína?

Dæmi Jesú varðar alla
Jesús bauð uppá endurskoðun, endurmat og nýja stefnu. Hann dó vegna staðfestu sinnar við að þjóna fólki, færa það til lífs. Í gröfina fóru með honum brestir alls mannkyns – þínir líka – og þeir mega liggja þar áfram þó hann hafi risið upp.

Jesús vildi og lifði í þágu frelsis fólks – ekki bara í eilífðarmálum heldur líka í menningu, málum og lífi þessa heims. Jesús kallaði fólk frá önnum og þjónustu til að setjast niður og hlýða á orð sín. Þar er boðskapur himinsins, á hann skulum við hlýða. Þar er mennskun nútímafólks líka.
Þarftu að núllstilla eitthvað? Endurræsing þýðir ekki að deyja heldur að eitthvað deyji í þér sem er til ills – fari – svo þú megir blómstra. Hvað vill Jesús segja þér um þig og þér til góðs?
Amen

Prédikun í Neskirkju, 15. sd. eftir þrenningarhátíð, 8. sept. 2013. B-röð texta kirkjuársins.

Lexían: 5M 4.29-31
Þar munt þú leita Drottins Guðs þíns, og þú munt finna hann, ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
Þegar þú ert í nauðum staddur og allt þetta kemur yfir þig, þá munt þú, á komandi tímum, snúa þér til Drottins Guðs þíns og hlýða hans röddu. Því að Drottinn Guð þinn er miskunnsamur Guð. Hann mun eigi yfirgefa þig né afmá þig, og hann mun eigi gleyma sáttmálanum, er hann sór feðrum þínum.

Pistillinn: Fil 4.11-13
Ekki segi ég þetta vegna þess, að ég hafi liðið skort, því að ég hef lært að láta mér nægja það, sem fyrir hendi er. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

Guðspjallið: Lk 10.38-42
Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér. En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.