Það er friður yfir Ólafi á myndinni í sálmaskránni þar sem hann situr og gerir við netið sitt – situr í kyrrð og væntanlega með sjávarlykt í nefi. Svo notar hann tækifærið og hlustar á útvarpið. Kannski hefur Halldóra verið nærri, honum leið alltaf vel þegar hann vissi af henni. Svo þegar hann var búinn að festa teina og flot, tryggja alla möskva gat hann staðið á fætur, horft upp í himininn, skoðað skýjafar, litið til hafs og spáð í sjólag og hvernig viðraði til ferðar.
Ólafur var bóndi en ekki síður með hugann við sjóinn en heyið. Hann hafði lengstum lífsviðurværi af búskap en aukabúsílag úr hafi – og gleðiauka einnig. Myndi hann fara á bárufaldi á mið og ná heill til baka og með feng?
Biblíusaga
Þegar ég hlustaði á fólkið hans Ólafs lýsa sjósókn og sjávargleði hans urðu sögurnar eins og endurómur sagna í Biblíunni. Það var eins og Ólafur yrði í huga mínum frændi þeirra Símonar Péturs og Andrésar veiðimanna við Genesaretvatnið og Vatnsnesið væri við norðurhlutann og Jesús kæmi reglulega við til að halda fjallræður og síðan fara á sjó með Ólafi og þeim bræðrum á Ánastöðum. Og hvernig þau sögðu frá sannfærði mig um að útgerðarbóndinn Ólafur naut lífsins. „Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar. “ sagði Jesús forðum. Já, það er ráð að hlusta og hlýta boði meistarans sem kunni bæði á land og sjó, gleði og sorg, tíma og eilífð. Hann bauð til veiða. Hann gefur fisk úr sjó. Í hans hendi er líf þjóðar, Vatnsnesinga, Halldóru og Ólafs ekki aðeins kraftaverk heldur býður hann öllum þeim sem hlýta veiðiboðinu til veislu með sér í hásal himinsins – og við megum nota jarðneskar líkingar til að lita mynd gleðskaparins: Þar verður ekki aðeins “kjöt” á borðum, brauð og vín, heldur líka “ýsa og þorskur” – rétt eins og Ánastaðir væru himinmiðjan sjálf.
Ætt og upphaf
Ólafur Þórður Þórhallsson var sumardrengur, fæddist á Ánastöðum á Vatnsnesi 2. júní, áríð 1924. Hann var sonur Ólafar Ingibjargar Ólafsdóttur og Þórhalls Lárusar Jakobssonar. Ættarsagan er stórfelld. Það er nístandi að lesa frásögn Ólafs um ömmu og afa sem kynntust og ætluðu að fara að gifta sig en brúðguminn hvarf í hafið og barn þeirra, Ólöf, var í gerðinni í móðurkviði. Henni var ætlað líf því þegar hún – barn að aldri – fór í heimsókn til frændfólks í Önundarfirði geisaði svo skæð barnaveiki á Vatnsnesi að mörg börn dóu og þeirra meðal einnig börn á Ánastöðum. En mamma Ólafs var ekki feig, henni var forðað og óx úr grasi. Og amma Ólafs sá um dóttur sína á Ánastöðum og börn hennar síðan.
Ólöf var vel gerð og fagurkeri og hreifst af þeim fríðasta sem hún sá, Þórhalli Lárusi Jakobssyni og þau urðu bændur á Ánastöðum. Ólafur var elsta barn þeirra, en þeim fæddust átta börn, sjö drengir og ein stúlka. Þau eru Eggert Óskar, Jakob Gísli, Guðmundur Stefán, Ingibjörg Marsibil, Ingileifur Steinar, Jón Þór og Björni Ingi Guðmann. Af þeim eru nú fjögur, þ.e. helmingur, látin.
Hvernig var heimilislíf með sjö kraftmiklum strákum og einni systur? En efa fjörugt og foreldrarnir stefndu þeim í fjöruna til leika. Þar lærðu þau að gæta sín og virða ofurmagn sjávar og annarra náttúrukrafta. Bræðurnir lærðu að lesa sjó, í ský og hvernig smáar mannverur gætu lifað og sótt björg í bú þrátt fyrir hætturnar.
Ánastaðafjölskyldan dafnaði. Foreldrar Ólafs vissu að hann axlaði eðlilega ábyrgð og honum mátti treysta. Systkinahópurinn naut ömmunnar á heimilinu og Ólafur fékk sinn skerf af umhyggju hennar og foreldra. Honum voru gefnar góðar gáfur í vöggugjöf og naut góðra uppvaxtarskilyrða.
Menntun og skóli
Ólafur var alla tíð námfús. Hann var fljótur til bókar, bráðger og fékk að hefja skólagöngu fyrr en flestir aðrir. Svo kom í ljós að hann gat liðsinnt og stutt sér eldri nemum. Ólafur lauk grunnnámi á Hvammstanga. Hann vildi gjarnan auka við og fór – þegar hann hafði aldur til – í Reykholtsskóla í Borgarfirði og lauk þaðan héraðsskólaprófi árið 1945. Ólafur var kennari frá 1947 og næstu níu árin þar á eftir. Tvo vetur störfuðu þau Halldóra við skólann á Laugabakka í Miðfirði. Þegar Ólafur hætti kennslu fóru þau hjón í Ánastaði og bjuggu þar í tvíbýli við foreldra Ólafs til ársins 1983. Þá fluttust þau suður og Ólafur vann hjá afurðasölu SÍS þar til hann lauk störfum fyrir aldurs sakir.
Hjúskapur, börn og heimili
Hjúskapur Ólafs og Halldóru Kristinsdóttir stóð í 62 ár. Þegar Ólafur var spurður um hvenær hann hefði kynnst henni svaraði hann fallega: „Við þekktumst alltaf.“ Ólafur vissi því hvaða mann Halldóra hafði að geyma. Halldóra og Ólafur gengu í hjónaband 2. janúar 1951 og svo áttu þau hvort annað og elskuðu til hinstu stundar.
Það var hrífandi að fylgjast með þeim Ólafi og Halldóru, hve góð þau voru við hvort annað, hve virðingin var gagnkvæm og elskan flærðarlaus. Hún talaði yndislega um Ólaf sinn og hann vissi enga konu betri en hana Halldóru sína. Og svo fór hún á undan honum og hann varð fyrir áfalli – það var sárt að verða vitni að nístandi sorg hans og hve lífið fjaraði út. (Minningarorðin um Halldóru eru að baki þessari smellu).
Þau Halldóra og Ólafur eignuðust fimm börn.
Þorbjörg Jóhanna fæddist 1950. Hún er ljósmóðir að mennt. Maður hennar er Jón M. Benediktsson. Þau eiga þrjú börn; Þórólf, Ragnheiði og Þórhildi.
Ólöf Þórhildur fæddist árið 1953. Hún er yfirmaður deildar mennta- og æskulýðsmála hjá Evrópuráðinu í Strassbourg. Maður hennar er Necmi Ergün og þeirra dóttir er Özden Dóra.
Halldór Kristinn var þriðji í röðinni. Hann fæddist árið 1956 og starfaði sem vélstjóri. Kona hans var Gunnhildur Hlöðversdóttir og þau eignuðust Bergrúnu og Halldóru. Kristinn lést árið 1985, aðeins 28 ára að aldri.
Bergur Helgi var fjórði, fæddist 1960. Hann varð flogaveikur þegar sem barn og þau Halldóra og Ólafur brugðu búi til að flytjast suður til að geta sinnt honum sem best og tryggt honum sem besta læknisaðstoð. Bergur lést árið 1988 og var 28 ára þegar hann dó, eins og Kristinn, bróðir hans.
Júlíus Heimir er yngstur þeirra systkina og fæddist árið 1965. Hann starfar sem kennari í Melaskóla. Kona hans er Vigdís Guðmundsdóttir. Dætur þeirra eru Jóhanna og Matthea. Sonur Júlíusar og Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur er Ólafur.
Fráfall bræranna var þeim Halldóru – eins og ástvinum öðrum – mikil raun og sorgarskugginn varð langur. En börnin, ástvinir og afkomendur urðu þeim hjónum hvatar til lífs. Af þeim Halldóru og Ólafi eru lifandi afkomendur á þriðja tug – slíkt var lán þeirra þrátt fyrir áföll.
Nokkur hafa beðið fyrir kveðjur til ástvina og þessa safnaðar. Afabarnið Özden Dóra í London biður fyrir kveðjur sínar. Faðir hennar og tengdasonur Ólafs, Necmi Ergün biður sömuleiðis fyrir kveðjur sínar og þakkir til Halldóru og Ólafs fyrir hve góð og hlý þau voru honum ávalllt. Helgi og Dóra á Hvammstanga biðja fyrir kveðjur, ennfremur Anna Þóra Þórhallsdóttir á Akureyri, Jakob og Helga frá Árbakka og vinnufélagar Ólafs, Árni Sveinn Pálsson og Páll Einarsson.
Eigindir og Ólafsverkin
Það var gaman að tala við Ólaf og augu hans blikuðu þegar hugðarefni bar á góma. Alla tíð var hann fróðleiksfús, las, hlustaði, fylgdist með og sökkti sér í áhugaefni. Þegar í bernsku var hann fréttafús og Ólafur naut jafnvel sérstaks leyfis foreldranna til að fara frá verki til að hlusta á hvað var efst á baugi þjóðar og heims.
Ólafur var vel heima í þjóðlegum bókmenntum og fróðleik og þar með sögu Íslendinga. Hann lærði eiginlega að lesa þegar hann komst í Grettissögu. Hann vissi vel hvernig ástir og örlög Laxdælu voru og hreifst af Njálu. Ólafur var vel heima í sagnfræði, ekki síst mannkynssögu fornaldar. Hann var einnig vel lesinn í landafræði og hafði mikinn áhuga á þjóðflokkum heimsins og menningu þeirra. Hann hlustaði grannt eftir ferðasögum fólks og spurði svo upplýstra spurninga að þegar barnabarn Ólafs kom í heimsókn spurði forviða vinur sem var með í för: „Er eitthvað sem afi þinn veit ekki?“ Og Ólafur notaði jafnvel girðingavinnu til að uppfræða börnin sín í sögu landa, þjóða og menningar.
Ólafur var virtur af sveitungum og samferðafólki og valinn til trúnaðarstarfa í heimabyggð. Hann var jafnvígur á sviði efnis og anda. Hann hafði ekki aðeins afskipti af kirkjumálum heldur endurskoðaði reikninga kaupfélagsins og í því verki skipti vandvirkni miklu máli. Hann sat í stjórn sparisjóðsins. Hann lagði margt og gott til samfélags. Hann fylgdist alla tíð með fólki af Vatnsnesinu, lífi þess og störfum. Og áhuginn skertist ekki þó hann flytti suður. Hann aflaði sér frétta um veðurfar, sauðburð, heyskap, snjóalög, sprettu og annað sem laut að búskap sem og mannlífi.
Ólafur var umtalsfrómur og sá það sem vel mátti fara og sagði frá því en síður hinu. Honum fór vel að stýra hvort sem var á sjó eða landi. Hann var reglumaður og þroskaður félagsmálamaður.
Ólafur hafði mikinn, jafnvel geysilegan áhuga á samfélagsmálum, nær og fjær. Hann fylgdist grannt með stjórnmálum til hinstu stundar og tók sér stöðu með þeim sem hallað var á. Ólafi var umhugað um réttlæti og samábyrgð. Hann var samvinnumaður í besta skilningi þess orðs og hikaði ekki við að benda til þess vegar sem yrði til að bæta samfélag manna. Í því speglaði hann og studdi hið samvinnu- og samheldnissamfélag Vatnsnessins.
Ánastaðaheimilið var um áratugi viðkomu- og áningarstaður fólks á Vatnsnesi. Þau Ólafur og Halldóra voru veitul og gestrisin og löðuðu til sín fólk. Því var jafnan gestkvæmt hjá þeim. Þegar þau fluttu suður hljóðnaði bærinn á vetrum. En svo drekkhlóðu þau kerru og bíl á vorin og lögðu í’ann. Barnabörnin minnast brottferðar inn í ævintýr sumarsins eins og senu úr kvikmyndinni Börn náttúrunnar. En þau voru ekki týnd í draumheimi – fjölskyldan kom til þeirra um langan og skamman veg. Og Ánastaðabærinn lifnaði.
Svo greiddi Ólafur netin sín. Sjórinn heillaði, færið fór í vatn, lína líka og net. Þegar Ólafur fékk rígaþorsk kom hann alsæll inn í kokkhúsið til Halldóru sinnar og skellti stórfisknum á bekkinn. Og svo mátti þukla og dást að, gleðjast og fagna.
Fræðandi sagnamaður
Ólafi sagðist vel frá. Hann hafði unun af miðlun fróðleiks og ármaður menningar og arfs spratt fram í rithöfundinum Ólafi sem á síðari árum skrifaði sögur, minningar og hélt til haga fróðleik úr ætt og samfélagi. Halldóra hvatti bónda sinn og Ólafur skrifaði minningar um ömmu sína, sögur og fleira sem hann gaf út. Ég veit um óútgefna sögu hans sem á sér baksvið og að einhverju leyti stoð í fólki og atburðum á Vatnsnesi. Nafn hennar er Á bárufaldi og þess má vænta að hún verði gefin út. Og það er vel. Ólafsskrifin eru merkileg og þakkarverð. Efnið sem Ólafur hefur fært á blað er þess eðlis að vert væri að varðveita á veraldarvefnum til að allir sem eru að vinna með Vatnsnessögu, Húnvetnska sögu, atvinnusögu, byggðasögu og mannlíf á síðari hluta nítjándu aldar og þeirri tuttugustu hafi greiðan aðgang að þessu vel unna og skuplega skráða efni. Ég hafði bæði gagn og gaman af og svo mun um fleiri einnig.
Inn í eilfíðina
Nú er bátur Ólafs í nausti, net í húsi og bærinn lokaður. Ólafur lést inn í haustið, sunnudaginn 18. ágúst síðastliðinn. Hann spyr ekki framar um aflabrögð fyrir vestan eða austan eða fjarstýrir netalögn í gegnum síma. Hann finnur ekki mið lengur út frá nybbu í Kárastaðalandi sem ber við aðra í fellinu og sker línu í fjall og viðmið fram í sveit. Hans persónulegu GPS-punktar verða viðmið og stjörnur í víddum himinhnitanna. Ólafur hefur farið á eftir drengjunum sínum og Halldóru. „Legg þú út á djúpið,“ sagði Jesús Kristur. Nú er það ekki Miðfjörðurinn heldur himinmið. Þar má sækja sjóinn stíft og sigla á bárufaldi alls þess sem best er. Og ef Ólafi þótti gaman á sjó máttu trúa að hann muni njóta þeirrar farar. Enginn hætta verður fyrir framan Flúruna né ógn af ofsaveðri á norðan. Þar er allt öruggt því þar er siglingameistarinn Jesús Kristur, þar er Guð.
Góður Guð geymi Halldóru og Ólaf og allt þeirra fólk – líkni þeim sem lifa og blessi þig.
Amen
Minningarorð við útför Ólafs Þórhallssonar, Neskirkju, 30. September 2013. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.