Ég á mér draum

DSC00964„Það sem mig langar mest að fá að vera í framtíðinni er hamingjusöm manneskja – þar sem vinir, fjölskylda og ég sjálf hafa langt og sjúdómalaust líf. Ég vil líka vinna í górði vinnu og verða vel menntuð.”

Fimmtíu ár eru liðin frá því Martin Luther King stóð við Lincoln-minnisvarðann í Washington og hélt draumaræðu sína: „I have a dream“ kallaði hann – út yfir mannfjöldan – draum fyrir börn, draum fyrir fólk, draum um réttlæti og gott líf. Ameríski draumurinn um gott líf hafði aðeins ræst sumum en ekki öðrum. Og hvernig getur draumur fyrir alla bara varðað hluta mannkyns?

Fermingarfræðsla Neskirkju er hafin. Hópurinn er frábær og það eru hrein forréttindi að vera með og vinna með svona þroskuðu og öflugu fólki, sem er draumafólk.

Verkefni vonanna
Á þriðjudaginn var fór ég með þeim í gönguferð niður að sjó. Veðrið var yndislegt, sjórinn sléttur, fjaran var draumastaður. Við stoppuðum við grásleppuskúrana og ég sagði frá sjósókn fólksins á Grímsstaðaholti, einnig fisklistaverki Steinunnar Þórarinsdóttur og lífsbaráttu fólksins (og verkið var ekki það sem kallað er hands-on heldur feet-on!). Svo fengu þau blað til að skrifa á en máttu alls ekki skrifa nafnið sitt á það – aðeins drauma sína um framtíð. Engin tvö eða fleiri máttu vinna saman því verkefnið var persónulegt. Og svo safnaði ég saman blöðunum og hreifst af dýptinni, einlægninni og fegurð draumanna. Svo voru þessar vonarskrár lagðar á altarið í byrjun messunnar og svo biðjum við fyrir þeim. Óskir og vonir eru eitthvað sem Guð hlustar vel á.

Hverjir haldið þið að séu draumar unga fólksins hér í kirkjunni í dag? Þið foreldrar og ástvinir megið vita að fólkið ykkar dreymir vel. Þau hafa fengið gott veganesti til lífsins og nú er að hjálpa þeim til að leyfa draumum að rætast.

Íþróttir og heilbrigði
Við byrjum á sportinu og líkamshreysti. Mörg vilja ná langt í íþróttum. Fimm vilja spila körfu og nokkur þeirra vilja í atvinnumennsku. Sex vilja gera það gott á knattspyrnuvöllum heimsins. Svo eru enn fleiri sem vilja gjarnan ná í fremstu röð í handbolta eða 9% svarenda. Nokkur vilja verða dansarar, eitt dreymir um að góðan árangur í fimleikum, eitt að verða atvinnumaður amerískum fótbolta og eitt að verða heimsmeistari í hlaupum.

Starfahugmyndir eru fjölbreytilegar. Átta úr hópnum vilja starfa við skapandi og góð störf. Flugmennirnir eru tveir, þrjú vilja verða dýralæknar og ellefu mannalæknar. Tveir lögreglumenn eru að undirbúa starf sitt og þar af ætlar annað að vera í New York-lögreglunni. Og svo verða fimm lögfræðingar, eitt vill verða framkvæmdastjóri Landsbankans, tvö arkitektar og sömuleiðis tvö verkfræðingar. Svo eru þarna forritarar, eðlisfræðingur, viðskiptafræðingar, hönnuðir, hvorki meira né minna en sex leikarar og leikonur, fimm söngvarar, fiðluleikari, dansari, fjórir kokkar, bakari með eigin kökubúð, fatahönnuður, flugstjóri, snyrtifræðingar, tamningamaður, ljósmyndari – og ég hreifst af þeim persónulega metnaði og draumi – að einn hefur það markmið að verða formaður KR. Ég styð það og veiti mitt atkvæði. Og það verður ekki prestslaust hér í Vesturbænum, því eitt af þeim sem er hér í kirkjunni í dag dreymir um að verða prestur í þessari kirkju, gifta sig hér og starfa. Neskirkjuástin er skýr því þessi verðandi prestur ætlar að óska eftir að eigin útför verði gerð frá þessari kirkju. Það er óþarfi að panta kirkjuna strax til þeirrar athafnar. En ég er til í að víkja fyrir svona einbeittri köllun til prestsþjónustu.

Nám og skóli
Mörg minnast á menntun og skóla. Mörg þrá skólavelgengngi og langar til útlanda í framhaldsnám, þar af eitt í Yale og annað í Harvard. Nokkur tjá ótta sinn við félagslega útskúfun og vera á röndinni. Nokkur nefna það sérstaklega að þau vilji vera vinsæl í Hagaskóla. Draumurinn hefur verið nefndur. Við höfnum einelti en vinnum að draumnum um gott líf.

Útþrá og ferðir
Þetta unga fólk hefur útsýn. Það kemur knnski ekki á óvart að nokkur hafa hugsað sér að búa í útlöndum einhvern tíma. Tæland er nefnt, Bandaríkin og Bretland. Þrjú hafa hugsað sér að stunda hjálparstarf ytra. Þetta framtíðarfólk vill ferðast um heiminn og í skrifunum kemur orðið heimsreisa fyrir í fimmtán skipti. Nærri fimmtungur nefna þetta orð – heimsreisa. Menningarstíll heimsborgarans þroskast hér í vesturbænum í Reykjavík.

Og umhyggja er ríkuleg í þessum hópi. Mörg biðja um að ástvinir þeirra læknist og svo nefna nokkur eigin áhyggjuefni og sjúkleika sem þau vilja að lagist.

Alls konar langanir og draumar eru opinberaðir. Tvo langar í sportbíl, einn að rúnta um á Range Rover. Nokkur þrá dýr, að eignast kött, folald, hest og hund. Eitt þráir að komast á ólympíuleika. Og þrjú nefna að þau vilji búa í Vesturbænum. Takk – við þurfum að fjölga íbúðum og af öllum stærðum og gerðum hér á þessu svæði.

Hamingjan og lífið
En hvað skyldi unga fólkið í þessari kirkju nefna sem aðalmál. Mörg þeirra skrifa að þau þrái að vera góðar og hamingjusamar manneskjur. Mörg tala um tengslin við ástvini sína og að sambandið í fjölskyldunum verði gott. Fimmtán prósent þeirra skrifa að þau óski eftir að fólkið þeirra lifi heilbrigðu lífi. Svo mikill fjöldi sýnir þroska og umhyggju.

Nærri fjórðungur þeirra nefnir sérstaklega að þau vonist til að fá að lifa heilbrigðu og góðu lífi. Þrjú þeirra segja svo fallega sláandi að þau dreymi um – að fá að elska og vera elskuð. Tæplega tíu prósent drengjanna dreymir þegar um hjúskap, að þeir eignist eiginkonu – og sumir segja góða konu – og einn vonast til að eignast “fallega konu” og “falleg börn.” Sjö stúlkur tjá drauminn um góðan eiginmann. Ein vill frábæran mann og önnur skrifaði að hún vilji ástríkan eiginmann – og karlar heimsins heyri. Og svo er ein mjög skilvís því hún vill ekki bara góðan kall heldur á hann að vera bæði skemmtilegur og fyndinn.

Já, karlar í Vesturbænum takið eftir: Það er óskað eftir að kátína ríki í hjúskapnum. Og ég nota tækifærið og vek athygli á að í haust munum við í Neskirkju efna til stefnumótakvölda sem hjálpa ykkur foreldrum við að efla ástalífið og jafnvel gera karlana ofurlítið fyndnari!

En aftur að unga fólkinu: Um tuttugu og fimm prósent dreymir um að eignast eigin fjölskyldu – stráka og stúlkur dreymir að eignast born. Stóran hóp dreymir um að eignast mörg og þau nota sum orðið yndisleg börn! Ég veit meira að segja þegar um nöfn á tveimur af þessum ófæddu börnum en ég ætla ekki að kjafta frá! Og vonirnar um að standa sig vel í uppeldinu koma skýrt fram, fjórar skrifa að þær vilji verða góðar mömmur. Í framhaldinu koma óskir um að þetta fjölskuldufólk eigi rúmgott húsnæði, líka flott og það sé ekki bara pláss fyrir öll börnin heldur nefnir einn að það verði að vera pláss fyrir einkaþyrluna líka.

Ég á mér draum sagði Martin Lúther King. Börnin í Neskirkju, unga fólkið í Vesturbænum dreymir hið góða líf. Ég er búinn að gera svona draumakönnun í níu ár í söfnuðinum og alltaf kemur í ljós að flestum umhugað um raunveruleg lífsgæði. Það er blekking að fermingarungmenni séu aðallega með hugann við hluti og yfirborðsgæði. Þau þrá lífshamingju, lífsgæði, gott samband og nærandi samverustundir, heilbrigðar fjölskyldur, góða menntun, gefandi störf og efnisleg gæði til að skapa fólki gott umhverfi og forsendur til góðs lífs. Þau dreymir drauma. Okkar er að styðja þau í að þessir draumar rætist.

Á einu draumblaðinu segir: „Það sem mig langar mest að fá að vera í framtíðinni er hamingjusöm manneskja – þar sem vinir, fjölskylda og ég sjálf hafa langt og sjúdómalaust líf. Ég vil líka vinna í górði vinnu og verða vel menntuð.”

Ég á mér draum, unga fólkið dreymir draum. Og svo dreymir Guð veröldina og um velferð hennar. Og draumar Guðs koma fram í draumum unga fólksins og þínum eigin draumum. Viltu gott líf, viltu efla lífsgæði þín og þinna, veraldarinnar? Það er líka draumur Guðs. Guð þráir gott samband í fjölskyldum, heilbrigði, góða menningu, góða pólitík svo allir fái notið réttlætis og velferðar. Guð dreymir draum um þig. Því er Jesús Kristur og því er kirkja. Dreymi þig vel og láttu draumana þína rætast. Guð er líka í góðum draumum.

Amen

Hugleiðing í messu við lok sumarnámskeiðs fermingarungmenna í Neskirkju, 25. ágúst, 2013.