Þegar búið er að veiða silung eða lax úr ómengaðri á (eða góðu fiskborði) er hægt að búa til tartar sem gleður og gælir við bragðlauka. Gerið svo vel að nota ekki eldisfisk í þennan rétt því villti fiskurinn hentar betur, bragðið er meira. Þetta er frábær forréttur og wasabi gefur skemmtilega vídd og rífur í.
- silungs- eða laxaflak roðflett og beinhreinsað
- sjávarsalt
- safi úr 1 límónu
- ½ agúrka, kjarnhreinsuð og skorin í smáa teninga
- ¼ lítill rauðlaukur, fínsaxaður
- 1 handfylli ferskt kóríander, saxað
- 1 lárpera, skorin í smáa teninga
- 1 kúla mozzarellaostur, skorinn í smáa teninga
- Stráið sjávarsalti yfir laxaflakið og látið standa í kæli í klukkutíma.
- Skafið saltið af og skerið laxinn í smáa teninga. Hellið límónusafanum yfir.
- Blandið öðrum hráefnum saman við fiskinn og dreypið yfir með wasabi-sósu (um leið og borið er fram, ekki láta standa of lengi).
Wasabi-sósa
- 1 msk wasabi
- 1 msk tamari-sósa
- 1-2 msk límónusafi
- 1 msk sesamolía
- sjávarsalt
- svartur pipar
- Hrærið öllum hráefnum saman og smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar.Borðbæn: „Fyrir heilsu, gleði og daglegt brauð við þökkum þér ó, Guð. Amen.“