Nú á eftir verður keppt til úrslita í Evrópukeppni kvenna í knattspyrnu. Þau sem hafa gaman af fótbolta hafa notið liðinna vikna, sem hafa verið spennandi. Íslenska kvennaliðið sló í gegn og margir sátu límdir við skjáinn. Þar á undan var álfukeppnin í karlaknattspyrnunni sem heillaði marga og um allan heim.
Knattspyrnan er umhugsunarefni. Ég man þá tíð að haft var fyrir satt að knattspyran væri íþrótt sem væri þannig, að tuttugu tveir leikmenn eltu bolta og Þjóðverjar ynnu alltaf. Þannig hefur það oft verið! Markmið eða tilgangur guðspjallsins þó ekki að ræða um boltaíþróttir, þjálfunaraðferðir eða fótafimi einstaklinga. Guðspjallið er á dýptina og varðar manneskjur og hlutverk.
Fyrirmyndir og líf
En áður en þar er komið langar mig til að rekja eigin þanka undanliðinnna vikna. Vegna uppeldishlutverks míns nýt ég þess að fylgjast með sjö ára drengjum mínum. Þeir hafa báðir heillast af knattspyrnu og ekkert í þeim fræðum er þeim óviðkomandi. Og þar sem pabbinn fylgist með í heimi fótboltans og hefur verið að frá bernsku fagna ég samtölum við þá um tækni og tæklingar, einstaklinga, þjálfara, lið og keppnir. Ég ræði hiklaust við karlana mína um Barcelona, Mörtu brasilísku, José Mourinho og sir Alex – og einnig hvort Pele var betri en Maradona, eða hvort Guðbjörg eða Þóra eigi að verja íslenska markið. Og ég kíki stundum yfir öxlina á þeim þegar þeir eru í sínum rannsóknum á Youtube og skoða fótafimi Zinedine Zidane eða Mörtu V. Da Silva. Og svo ræðum við um KR og drengirnir eru farnir að skilja stöðuröðun, alþjóðafótboltann og að til að verða góður knattspyrnumaður þarf maður að æfa a.m.k. tuttugu þúsund tíma – rétt eins og í öðrum greinum!
Samtöl um fótbolta eru áhugaverð og ég hef stundum spólað til baka og hugsað um samhengi. Knattspyrnuheimurinn hefur tilhneigingu til að verða trúarígildi og með einkennum átrúnaðar eða trúfélags. Í boltaheimi verða til hetjur sem eru hafnar á stalla, tilbeðnar og dýrkaðar. Knattspyrnugoðin eru nánast dýrlingar – og kannski dýrlingar nútímans?
Lið Jesú
Lærisveinar voru í aðalliði upphafsins. Þeir voru liði Jesú og sigruðu heiminn. Þeir voru fyrirmyndir frumkirkjunnar. Rit Nýja testamentisins veita innsýn í veröld þeirra. Á öllum öldum hafa síðan komið fram einstaklingar, konur og karlar, sem hafa þótt skara framúr í rækt og iðju trúarinnar. Þessir einstaklingar hafa verið fyrirmyndir. Um þau hafa verið sagðar sögur til að veita öðrum hugmynd um hvernig eigi og megi lifa og til að vel sé lifað. En dýrlingamyndir helgisóknar fyrri alda hafa misst samhengi. Og ef ofurhratt er farið í menningarsögu vesturlanda á tuttugustu öld þá féllu “heilagir sérvitringar“ úr tísku en aðrir tóku við.
Á öllum tímum verða einhverjir í úrvali athyglinnar. Slíkir þjóna einhverju hlutverki, ef ekki siðferðilegu eða þjóðernislegu þá peningalegu. Þegar ég var barn voru leikaramyndir algengar og við krakkarnir skiptumst á myndum af Brigitte Bardot, Roy Rodgers og Sophiu Loren rétt eins og fótboltakrakkar samtímans skiptast á myndum af Christiano Ronaldo og Wayne Rooney (en það vantar þó kvennamyndir og ég treysti alla vega KSÍ að bæta úr!). Og með því að einfalda skýringar á þróun má segja að dýrlingarmyndir miðalda eigi sér framhald. Dýrlingahefðin hefur verið endurmótuð – leikaramyndirnar eru afkomendur dýrlinganna. En íkónar samtímans eru fótboltakappar sem og aðrar ofurhetjur?
Þrá hjartans og þörf mennskunnar
En mannssálin er söm við sig. Börn leita þroska og við erum svo innréttuð að við leitum að merkingu og meiningu með lífinu. Allir krakkar og á öllum aldri þurfa eitthvað meira en ofurþjálfaða fótboltafætur, allir vilja og þarfnast meira en kikks af velheppnuðum vítaspyrnukeppnum. Allir leita hamingju og lífsfyllingar. Og hjörtun eru söm við sig í Súdan og Grímsnesinu – hjörtu okkar eru óró þar til þau hafa fundið hina dýpstu sælu sem seður sál og líf. Það er alveg sama hvað menn puða við að blekkja sig með ytri nautnum, ytri velsæld, völdum, sjálfsdýrkun og hossun eigin gildis. Strikamerki merkingarleitar mennskunnar er í okkur öllum.
Góður maður?
Þegar drengirnir mínir voru búnir að horfa á alla knattspyrnusnillingana – bæði í sjónvarpi, á vellinum og netinu – og móta sér skoðanir á færni þeirra á ýmsum sviðum knatttækni og hópssamvinnu komu næstu og djúptækari spurningar. Þær spurningar komu mér á óvart en staðfestu eiginlega fyrir mér að knattspyrnugoðin eru ein tegund af dýrlingum.
Þegar Messi og Ronaldo voru búnir að heilla drengina algerlega komu dýpri spurningarnar: „Pabbi, er Messi góður maður?“ „Er Ronaldo góður maður?“ Og af spunnust miklar umræður. Þeir vildu fá að vita um félagsþroska, hjúskaparstöðu og barnamál. Og í samtölunum kom berlega fram að þeir voru að máta sig, móta sér skoðanir um hvað væri hvað, hvað væri eftirsóknarvert, hvernig víddir og eigindir rímuðu eða færu saman. Fyrirmyndin var metin og til að móta eigið sjálf og markmið. Og svo var rætt um hvað það væri að vera góður maður og til hvers.
Á öllum sviðum erum við að taka út þroska, stælast, þjálfast. Og þegar vel tekst til náum við þroska í framhaldi og meðfram ánægju af iðkun þess sem hugur stendur til. Og siðfræðin er komin inn í umræðu þegar hjá sjö ára strákum sem glíma við stóru málin, líka á vellinum í baráttu, tæklingum og tilraun við að teyja reglurnar. Góður maður? hvað er það og til hvers? Er þetta mál og spurning sem varðar þig og þitt líf?
Guðspjallið
Og þá að inntaki guðspjalls dagsins – að vera manneskja. Jesús, liðsstjórinn snjalli, sagði liðinu sínu snilldarsögur til að skerpa þjálfunina. Hvernig liðsmaður viltu vera og hvaða hlutverki gegnir þú? Og sagan er um að einn er skipaður fyrirliði og fær stjórnunarhlutverk. Og svo þegar viðkomandi eru orðinn stjóri þá vakna siðferðisspurningar, lífsspurningar og ýmsir möguleikar gefast til að misnota aðstöðu sína og stöðu. Hvernig er innrætið þá? Hvað ætti viðkomandi að gera? Misnotar ekki fólk yfirleitt stöðu sína og vald? Alla vega þau sem aldrei hafa fengið önnur skilaboð en þau, að markmið lífsins sé að afla sér mestra peninga, sinna hvötum þegar færi gefst og reyna að koma sér sem best fyrir án þess að vera gómaður. Jesús Kristur var meistari í að greina þau sem vildu einspila, sóla og vera sjálfhverfar stjörnur. Jesús vildi liðsheild, hópsamleik, að allir sæju sig í liðssamhengi og væru sér fyllilega meðvitaðir um eigin takmarkanir en líka eigið gildi. Og gildi einstaklinga er ekki einskorðað við innangildi heldur tengslagildi.
Manneskjan er dásamleg sem einstaklingur en verður þó ekki til nema í tengslum. Þau tensl varða jafnvægistengsl hins andlega og líkamlega, einstaklings og hóps, manneskjulífs og lífs í náttúrunni, sem heitir sköpun á máli trúarinnar. Og enginn verður alheill – skv. túlkun kristninnar – nema í heilum tengslum við lífgjafarann sjálfan, Guð. Þetta er inntak, andi og leikreglur “lífsboltans.”
Guð elskar og Guð hvetur okkur til að horfast í augu við að við klúðrum öllum leiknum nema við lifum í því ljósi. Við föllum úr keppninni ef við viðurkennum ekki leikreglurnar og klúðrum þá okkar málum. Og mikilvæg skilaboð dagsins er að hlutverk okkar í lífinu er ekki að þjóna eigin nafla og eigin hag heldur vera í liði lífsins, sjá okkur í heild, gegna stöðu okkar með stæl og snilld – en njóta þess að þjóna heild og þörfum heildarinnar. Og endanlega erum við tengd lífinu, gegnum ábyrgð og eigum ekki að drottna heldur þjóna. Það er skikkanin og þannig fer best. Allt hitt eru brot, misnotkun, ofbeldi, vonska.
Hvernig fer?
Hvernig fer leikurinn á eftir? Vísast vinna Þjóðverjar. En eitt er fótbolti og á bak við hvern fót og hvert andlit er manneskja sem þarf að glíma við stóru mál lífsins. Og aðalmálið er að vera góð manneskja. Eru íslensku landsliðskonurnar og meistaraflokkssnilingar KR góðar manneskjur? Þroskuð og öflug? Kunna þau skil á réttu og röngu, stilla eigin þörfum í hóf og taka tillit til annarra, maka, ástvina og samfélags? Við höfum hlutverk í lífinu og þurfum að læra og æfa vel lífsleiknina.
Og það eru ekki aðeins litlir drengir sem eiga að átta sig á og spyrja stóru spurninganna. Þú þarft að heyra spurninguna: Ertu góð kona? Ertu góður karlmaður? Hvað viltu? Að lifa sem manneskja er m.a. fólgið í að vera ábyrgur. Lífskostur þinn, hlutverk þitt er að hætta að lifa í sjálfhverfu núi, læra að njóta hins mikilvæga og axla ábyrgð og iðka lífsholla og lífseflandi ráðsmennsku.
Í allri lífsreynslu og átökum hljóma spurningar sem þú mátt heyra og taka mark á: Ertu góð kona? Ertu góður karl? Þetta eru sömu spurningar og Jesús spyr þig og einnig samfélag þitt.
Jesús segir líka: Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.
Amen
Prédikun í Neskirkju 28. júlí, 2013.
9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. B-röð.
Lexía: Am 5.14-15
Leitið hins góða en ekki hins illa, þá munuð þér lifa og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður eins og þér hafið sagt. Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu. Þá má vera að Drottinn, Guð hersveitanna, miskunni sig yfir þá sem eftir eru af ætt Jósefs.
Pistill: 2Tím 4.5-8
En ver þú algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína. Nú er svo komið að mér verður fórnfært og tíminn er kominn að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.
Guðspjall: Lúk 12.42-48
Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum. Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.