Unnur Guðmundsdóttir – minningarorð

Sálmabók Unnar var lögð á brjóst hennar áður en kistunni hennar var lokað í gær. Þessi bók söngsins fer með henni í hinstu ferð hennar. Í þeirri bók eru ljóð fyrir líf og eilífð. Unnur eignaðst ung sálmabók og hafði gleði af söng. Og svo þegar veröldin byrjaði að fljóta burt frá vitund hennar lifði þó söngurinn í henni. Eitt af því sem hvarf henni síðast í þesu lífi var raulið. Og það er eitt af gleðiefnum og undrum lífsins að þótt margt hverfi úr vitundinni, skammtímaminnið bresti, nöfn fólks hverfi úr sinni og margt bresti í vitundinni – þá getur fólk oft sungið og notið hljóma. Svo var um Unni. Sálmar, ljóð og söngvar glöddu hana og gerðu henni gott.

I sálmabók Jesú Krists, Davíðssálmum, er söngur. Í 146. sálmi segir:

Lofa þú Drottin, sála mín.

Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi,

lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

Hver er söngur lífsins – að syngja um gleðina, um fegurðina, um ljósið – og hver tekur við slíkum söng? Guð. Og sálmaskáldið hvetur til söngsins. Lofa þú Drottinn, sála mín. Og niðurstaðan er: „Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.“

Það er gott að syngja og það er mikil blessun þeim sem hafa mikið misst að geta og megna enn að lofsyngja Guði. Söngur lífsins lifir af minnistap og dauða. Lífssöngur brúar tíma og eilífðar.

Upphaf og fjölskylda

Unnur Guðmundsdóttir var hamingju- og sumar-kona. Hún fæddist um mitt sumar, 7. júlí, 1924 á Kvígindsfelli í Tálknafirði. Og svo hverfur hún inn í himininn í ljósleik og söng sumarsins. Hún lést á dvalar-heimilinu Grund 17. júlí síðastliðinn.

Heimilið á Felli var myndar- og dugnaðarheimili. Þar fæddust þeim Guðmundi Kristjáni Guðmundssyni og Þórhöllu Oddsdóttur sautján börn. Þau nutu ekki aðeins barnaláns heldur blessunar í uppeldi og heimilisstörfum.

Unnur  var sjöunda í röðinni. Eldri systkinin eru: Óskar, Svava, Hörður, Haukur, Svanborg, Reynir – og svo kom Unnur. Yngri eru Karl, Þuríður, Magnús, Gumundur, Oddur, Guðbjartur, Fjóla, Víðir, Helgi og Rafn sá yngsti.

Margir gimsteinarnir slípast í margmenni og víst er að þau systkin lærðu að taka tillit til annarra í hinum stóra hópi. Foreldrunum lánaðist að koma þeim öllum til manns. Þau voru samhent, mamman notaði skilvirkar uppeldisaðferðir skýringa og hvatningar fremur en að banna og skamma. Það skilaði hópnum vel. Öll lærðu þau snemma að bjarga sér, vinna og leggja til samfélags síns og fjölskyldu.

Búskapurinn á Kvígindisfelli varð dugmikill og væntanlega hefur þurft talsvert í og á stóran hópinn. Yfir hundrað var í fjárhúsi, jafnan nokkrar kýr í fjósi og svo var sjórinn stundaður.

Nám og störf

Í Tálknafirði var kennt til skiptis í þorpinu og út með firði. Unnur var í skóla viku í senn og svo næstu viku heima að störfum. Hún lauk grunnskólanámi í heimabyggð, lagði fjölskyldu sinni lið heima og hleypti heimdraga þegar fært var.

Um tvítugt fór Unnur á húsmæðraskólann á Staðarfelli á Fellsströnd, fékk viðbótarmenntun í listum eldamennskunnar og svo fékk hún þjálfun í hannyrðum, sem hún naut og stundaði með gleði. Unnur var huguð og þorði að leggja í óvissuferðir eins síns liðs. Svo var hún um tíma í Englandi og réði sig til barnfóstrustarfa. Hún var um tíma þerna á íslensku millilandaskipi og fór víða, austur á Svartahaf og suður um höf svo hún sá talsvert meira af veröldinni en margar íslenskar kynsystur hennar. Um tíma starfaði hún við matseld í franska sendiráðinu og hefur því væntanlega lært á foi gras og ostrur. Og af því Unnur hafði innsýn listaveröld hannyrða og góðra efna var hún ráðin til starfa í eðalverslunum kvenna í Reykjavík. Smekkur, mótun og reynsla skilaði líka að alla tíð var Unni umhugað um falleg föt og hún ræktaði smekk sinn.

Heilsuglíman

Um miðjan aldur kenndi Unnur sér meins í mjaðmaliðum, sem hafði mikil áhrif á líðan og heilsufar hennar. Hún tók áföllum og þrautum með æðruleysi. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði eða gefi nokkuð gott. Í endurhæfingu á Reykjalundi árið 1969 hitti hún Svein sinn, sem varð hennar ævifélagi upp frá því. Sveinn Jónasson reyndist Unni stuðningur og hollur kærasti, samferðamaður og ferðafélagi. Þau eignuðust í hvoru öðru sálufélaga, studdu hvort annað og efldu allt til loka þegar Sveinn lést árið 2004. Unnur og Sveinn gengu í hjónaband árið 1994.

Börn og fjölskylda

Unnur var barngóð og mikil barnagæla og skildi vel hvað Jesús átti við með: „Leyfið börnunum að kom til mín.“ Unnur átti ekki börn sjálf en opnaði heimili og fang mót þeim börnum sem þangað sóttu. Unnur hafði í mörg ár atvinnu af því að gæta barna, hún var dagmamma fjölda þeirra og þau Sveinn urðu sem afi og amma sumra. Rebekka Ragnarsdóttir hefur beðið fyrir kveðjur og þakkir sínar fyrir hve vel þau önnuðust hana.

Unnur hafði röð og reglu á sínu heimili og miðlaði vel til barnanna sem hún gætti. Hún kenndi þeim að taka til eftir sig, gæta að skipulagi og því var heimilisbragurinn á barnmörgu og mannmörgu heimili góður og börnin fengu gjöfulann ramma um líf sitt og uppvöxt.

Og Unnur fagnaði fólkinu hans Sveins heils hugar og eignaðist í þeim vini og gat alveg stækkað fjölskylduhringinn til að spanna þann hóp einnig. Hún var svo lánssöm að tengjast vel börnum Sveins af fyrra hjónabandi. Hún naut samskipta við fjölskyldu hans og þau voru henni góð. Unnur eldaði fyrir fólkið sitt, opnaði heimili fyrir þeim sem þörfnuðust skjóls eða styrks. Alltaf var hún bóðin og búin að liðsinna og hjálpa.

Eigindir og áhugaefni

Unnur var dugmikil, ósérhlífin, umhyggjusöm og kærleiksrík. Og Unnur kunni að hlusta sem er dyggð mannvirðingar. Hún hafði yndi af ferðalögum og saman fóru þau Sveinn víða.

Unnur hafði í foreldrahúsum lært að meta mikilvægi góðs mataræðis og hollustulífs. Það voru ekki aðeins fjallagrös sem hún vissi að voru til heilsueflingar heldur alls konar nýgræðingur, líka í náttúru íslands. Hún varð löngum að glíma við þrautir og gæta að heilbrigði sínu og var ávallt meðvituð um hollt mataræði. Hún var opin fyrir áherslum síðari ára fyrir heilsufæði. Já, grænt er sálarvænt. Svo kunni Unnur að meta bænaiðju, starf mannræktarhópa, og tók meðal annars virkan þátt í starfi Al Anon hóps sem fundaði í Hallgrímskirkju.

Síðustu árin misstu þau Sveinn og Unnur heilsu og fóru á dvalar- og elliheimilið Grund, Unnur fyrst og síðan Sveinn í kjölfarið. Grundarfólkið reyndist vel og við þessi tímamót er vert að þakka allt það góða sem þau hafa gert fyrir Unni fyrr og síðar.

Við þessi tímamót hef ég verið beðinn fyrir kveðjur frá Sillu og börnum á Akureyri og Brynjari og börnum í Danmörk.

Mót eilífð

Við útför Sveins fyrir níu árum var lesið úr ljóði Davíðs Stefánssonar og m.a. þetta:

Ennþá, á óskastund,

opnaðist faðmur hans.

Berast um sólgyllt sund

söngvar og geisladans.

Nú hefur Unnur farið um sólgyllt sund söngva og geisladans himinsins. Við megum trúa að þar opnist henni ekki aðeins faðmur Sveins heldur faðmur hamingju í stórríki Guðs. Leyfið henni að hverfa í þann faðm. Lífsboðskakur kristninnar er um að Guð elskar, ber umhyggju fyrir öllum, varðveitir líf og fólk.

Unnur hossar ekki lengur Guðmundi bróður og tekur ekki lengur á móti litlum börnum til að gera vel við og veita þeim kærleika. En við henni er tekið, um hana er hugsað, faðmur eilífðar varðveitir hana. Og þar er allt bjart, þar er dansað á geislum og þar hljómar ekki aðeins sálmur tímans heldur tónlist eilífðar sem tekur öllu fram. Á því Felli eilífðar má hún njóta, vera og gleðjast heil og fagnandi.

Guð geymi Unni og Guð geymi þig.

Amen

Minningarorð við útför Unnar Guðmundsdóttur í Neskirkju, 25. júlí, 2013.