Skammt frá Stykkishólmi er hið forna höfuðbýli Helgafell. Sveitin umhverfis fær nafn af staðnum. Í Helgafelli var klaustur af Ágústínareglu frá árinu 1184, sömu reglu og Marteinn Lúther tilheyrði. Norðan bæjar og kirkju er fagurlega mótað Helgafellið, sem rís þokkafullt upp úr flatlendinu umhverfis og er líka fagurt að sjá frá sjó.
Á tvo vegu er fellið bratt en auðvelt að klífa það frá vestri og suðri. Norðan við kirkjuna er afgirt og greinilegt leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur, kunnustu skvísu Laxdælasögu. Þaðan er auðvelt að ganga upp á fellið og að svonefndri kapellu. Sagan segir að hún sé rúst helgistaðar – væntanlega munkanna í klaustrinu. En byggingin gæti allt eins hafa verið skýli varðmanna sem fylgdust með umferð manna en kannski líka búpenings.
Göfgun og gönguhvati
Menn hafa löngum gefið ferðum sínum tilgang og reynt að göfga verk og daglegt atferli og séð í lífinu dýpri merkingu. Svo hefur verið gert við leiðina frá Helgafellskirkju og leiði Guðrúnar og upp á fellið. Hún varð að óskaferð, eins konar pílagrímsferð eða leið fyrir persónulega kyrrðargöngu.
Sagan segir að ef rétt sé farið að megi óska sér þrenns í þessari ferð. Til að vænta megi uppfyllingar óska eru skilyrðin að signt sé yfir leiði Guðrúnar, síðan verði gengið í algerri þögn upp stuttan stíg á fellið, ekki sé litið aftur á leiðinni og förumaðurinn snúi síðan í austur þegar upp er komið og beri fram óskir sínar með góðum huga.
Óskaganga
Fyrr í þessari viku fór ég í þessa pílagrímsgöngu með konu minni og yngri drengjum. Það var gaman að útskýra fyrir strákunum hvers konar ganga þetta væri, gera grein fyrir kröfunum sem gerðar væru fyrir göngumenn, hvers eðlis óskirnar gætu verið, hvað maður þyrti að gera á leiðinni og hvað maður mætti ekki gera. Ekki væri leyfilegt að tala, kvarta, spyrja, masa, hlægja eða gráta – ekki mætti horfa á annað en leiðina, hugsa um óskirnar með góðum huga, reyna að hreinsa þær þannig að þær væru raunverulega mikilvægar og maður gæti sjálfur unnið að því eða hjálpað til að þær rættust.
Síðan var hægt að tala um helgistaðinn, bænastaðinn, kirkjustaðinn, bænaiðju munka – sem synir mínir kölluðu nunnukalla á síðasta ári – en hlægja nú að því orði. Þeir og kona mín voru sammála um skilmála, aðferð og tilgang. Svo krossuðum við yfir leiðið, gengum í þögn og með hæfilegu millibili í góðviðri, með fuglasöng í eyrum, ilm jurta og sjávar í nösum og fundum fyrir örum hjartslætti í brjósti. Við orðuðum óskirnar í kyrru hugans og stóðum svo í kapellunni efra, horfðum í austur og bænir flugu í nafni Föður, Sonar og heilags Anda. Svo var þögnin rofin.
Merking óskagöngu
Hvað merkir svona ferð? Hvers eðlis er bera fram óskirnar? „Er þetta satt pabbi?“ spurðu drengirnir og ég skýrði út fyrir þeim eðli þjóðsagna, hlutverk þeirra, merkingu og hvað væri hvað? Er Helgafell töfrastaður, er þar styttra í svarstöð himins en annars staðar? Ef maður klúðrar einhverju rætast þá ekki óskirnar og snúast jafnvel í andhverfu sína? Ef maður lítur óvart aftur eða gleymir að signa yfir leiðið er þá ferðin til einskis eða jafnvel ills? Svona spurningar eru þarfar og mikilvægt að ræða. Einu gildir á hvaða aldri maður er. Svona spurningar eru mennskar og mikilvægar.
Saga gefur
Hvert er eðli og tilgangur þjóðsögu? Í þessari sögu er hægt að merkja að atferli leiðir til íhugunar og hreinsunar, að bænir eiga sér ytra form, að göngur hafa fengið dýpri skýringu, endurtúlkun og göfgun, að frátekin staður og guðsmenn hafa kallað á vitund um hið heilaga og skýringaþykkni. Og svo lifir saga um dásemd, möguleika, mikilvægi, merkingu og tilgang. Þjóðsögur eru ekki aðeins skemmtisögur heldur má fara inn í þær og skilja erindi þeirra á dýptina og hlusta eftir boðskap þeirra. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur vinsamlega – leyfa þeim að tjá gildi, dýpri mál, hlutverk og möguleika sem geta haft svo mikil áhrif að líf okkar breytist. Saga gefur, veitir fyrirmyndir, miðlar visku og styður því líf.
Guð kallar
Ytri skilyrðin voru okkur hinum fullorðnu ekki aðalatriði eða forsenda að óskir rættust. Ég rölti með mínu fólki upp á Helgafell í fullri vissu um að ég þyrfti ekki að lúta þrældómi aðferðar heldur væri annað mikilvægt. Aðferðirnar væru tæki til að opna djúp. Göngu og atferli væri ætlað að opna fyrir möguleika, kalla fram nýjar hugsanir, við mættum hlusta eftir djúpröddum hjartans sem er tjáning Guðsandans. Allt sem skiptir máli í lífinu krefst einhverrar fyrirhafnar. Guð er ekki utan við veröldina heldur talar í gegnum raunveruleika lífsins, hvort sem það er nú í golu í hríslum og blábergjalyngi, fuglasöng eða samskiptum við fólk. Guð kallar til lífs og vaxtar.
Pílagrímaganga – samfylgd Guðs og manns
Helgafell er vissulega áhrifaríkur sögustaður, vermireitur bókmennta og minnir á átakanlega ástarsögu Laxdælu. Helgafell er kirkjustaður, samkomustaður safnaðar til að biðja og syngja Guði lof. En svo gerir göngusagan Helgafell einnig að vettvangi pílagrímagöngu. Það er því hægt að nota staðinn til að gera upp mistök og sorgarefni og stafla þeim í grjótvegg kapellunnar efra og skilja þar eftir það sem miður fer og má hverfa í lífi fólks. En í staðinn koma gjafir Guðs til góðs.
Og til hvers eru pílagrímagöngur, eingöngur, kyrrðargöngur? Þær eru til að vinna með merkingu mannlífs, lífs okkar mannanna. Þær eru til að skilja við það sem dregur úr fólki gleði og lífskraft – allt sem splundrar okkur og sundrar sambandi við sjálf okkur og Guð. En þær eru líka til að kalla okkur til sjálfra okkar, leyfa þrá okkar að koma fram, dýpstu löngun okkar að hrópa til sjálfra okkar, leyfa óskum okkar að fljóta upp í vitundina og taka flugið til hæða. Pílagrímagöngur verða gjarnan til að við vöknum til að Guð fái talað við okkur. Þegar svo verður fyllumst við krafti til endurnýjunar. Þá fara bænirnar að rætast og við lifnum og eflumst.
Textar dagsins eru ferðatextar fyrir lífið. Og hverjum mætum við þegar við verðum fyrir mikilli reynslu á leið okkar? Guði. Það var vitnisburður ferðamannsins Páls sem lenti á sínu Helgafelli. Það var reynsla vina Jesú sem urðu vitni að því að veröldin er mikið Helgafell sem Guð á og gefur okkur til búsetu og líflistar.
Tilgangsferðir og trú
Á leiðinni ofan af fjallinu hjöluðu drengirnir mínir. Þeir höfðu beðið bænir sínar og tjáð óskir sínar og við hin eldri einnig. Þjóðsaga og helgisaga höfðu orðið okkur til góðs. Við höfðum fundið til helgi lífsins á Helgafelli. Sumarferðirnar eru ekki aðeins ferðir út í buskann heldur ferðir með ríkulegum tilgangi. Ég hafði ekki skipulagt pílagrímagöngu þennan dag, hún kallaði okkur til sín, kom okkur á óvart. Og við nutum hennar og hún hafði áhrif á okkur öll. Lífið er dásamlegt og þegar við leyfum ævintýri dýptanna að vitja okkar verður lífið skemmtilegra og eiginlega marglaga undur og óvæntir viðburðir til að gleðja og kalla til dýpta. Og það besta er að óskirnar rætast. Sumarferðir og kannski allar lífsleiðirnar mega verða okkur Helgafellsgöngur. Við megum bera fram óskir í góðum huga og þá göngum við inn í ósk Guðs, sem ann okkur mest og er okkur bestur.
Amen
Íhugun í Neskirkju 30 júní 2013