Margrét kom oft í Neskirkju. Hún kom inn í guðshúsið með virðulegum glæsileik, reisuleg og svipfalleg. Af henni stafaði elskusemi og hlýja í samskiptum. Hún brást við kveðju með geislandi brosi og fór svo til sætis síns reiðubúin og kunnáttusöm í að njóta helgi og næðisstundar í þessu hliði himinsins. Alltaf var kyrra yfir Margréti, alltaf reisn og birta.
Svo byrjuðu messurnar, blái glugginn hleypti bláma sínum inn í kirkjuna. Margrét var kona blámans og litur Maríu guðsmóðir í kirkjulistinni er blár. Og Margrét kunni ágætlega að meta Maríutónlistarhefðina. Við njótum þessa í dag. Svo klæddist hún gjarnan bláu sjálf og átti að auki í sjálfri sér margt, sem einkenndi Guðsmóðurina. Altarisglugginn veitir ljósríki inn í kirkjuna og leyfir táknmáli lita og listar að skapa ramma um minningu og útför Margrétar.
Upphaf og samhengi
Margrét Sigurðardóttir fæddist í janúarlok árið 1920 og lifði síðan í meira en níutíu og eitt ár. Hún lést 20. ágúst 2011. Sigurður Magnússon, faðir hennar, var læknir á Vífilsstöðum, einhleypur, fullþroska og kominn á fimmtuagsaldur þegar Sigríður Jónsdóttir kom til náms og starfa í Vífilsstaði. Hún heillaði hjartahlýjan en hlédrægan lækninn Sigurð. Og svo urðu þau hjón og varð fjögurra barna auðið. Drengirnir voru elstir, Magnús fæddist 1916 og Páll ári síðar. Margrét var sú þriðja í röð barnanna og Jóhanna fæddist tveimur árum síðar.
Heimilislífið var gjöfult. Pabbinn vann auðvitað langan vinnudag og hafði þörf fyrir næði þegar hann kom heim að kvöldi. Hann mat kyrru mikils og hafði lítinn áhuga á að útvarpsvæða heimlið þegar Ríkisútvarpið tók til starfa, en svo kom snúra og heyrnartól svo hægt var að skiptast á um að hlusta! Mamman var kraftmikil og smitaði fjöri og gleði allt um kring. Hún var félagslynd og dugmikill húsmóðir, hannyrðakona og garðyrkjukona. Stórfjölskyldan átti fastan samastað á Vífilstöðum og fór þangað gjarnan í sunnudagsbíltúra. Umhverfið skemmtilegt fyrir börn til útivistar. Bátur var á vatninu, sem hægt var að róa á, ásarnir römmuðu svæðið til norðurs, hraunið með kjarri var fallegt, gott útivistarland og berjaland síðsumars.
Mannlífið var fjölbreytilegt á Vífilsstöðum, læknirinn og hjúkrunarfólk reyndi að sinna hinum líkamlegu kvillum en líka hinum félagslegu og andlegu. Margrét og systkini hennar voru börn yfirlæknisins, sem hefur verið bæði kostur en vafalaust gert kröfur til barnanna um framferði á hælinu og í samskiptum við fólk. Foreldrar og uppeldisaðstæður skiluðu Margréti hæfni til að greina aðstæður, fólk og atferli.
Vífilsstaðir voru ekki á neinum útkjálka en þó var langt í skóla. Í stað þess að halda heimili í bæ eða koma börnunum fyrir hjá öðrum kom kennari til að kenna systkinunum og ungviðinu úr nágrenninu. Kennslan dugði Margréti vel og hún fór fram úr jafnöldrum sínum og var metin fær til framhaldsskólanáms ári á undan jafnöldrum. Eftir að hún byrjaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík fór hún með mjólkurbílnum að morgni í bæinn. Hún vann sína skólavinnu og naut skólatímans og lauk ung stúdentsprófi.
Þegar Sigurður faðir Margrétar fór á eftirlaun fluttu hjónin, já fjölskyldan, í bæinn og um tíma bjó Margrét hjá þeim á Laugaveginum. Sigurður sinnti fræðum og Sigríður varð forystukona í kvenréttindamálum, beitti sér í ýmsum félags- og framfara-málum og var meðal stofnenda hins merka félags Verndar.
Hjúskapur og fjölskylda
Eftir stúdentsprófið, sem var þá var ígildi háskólaprófs í nútíð, fór Margrét að afla sér tekna. Rafmagnsveita Reykjavíkur varð aðalvinnustaður hennar. Og í húsakynnum Rafmagnsveitunnar hófst nýr kafli lífs Margrétar. Það hefur ekki farið fram hjá ungkörlunum, að glæsileg, ung kona kom til starfa. Sjarmörinn og glæsimennið Einar Guðjónsson komst ekki hjá að sjá Margréti, enda vann hann á skrifstofu Rafmagnsveitunnar. Engum sögum fer af hvernig samdrátturinn varð, en væntanlega hefur verið stuð í félagslífinu hjá Rafmagnsveitunni – og þau Margrét og Einar urðu par og gengu svo í hjónaband í miðri heimsstyrjöld, árið 1943. Þið getið séð stemminguna í lífi þeirra á myndinni á baksíðu sálmaskrárinnar.
Margrét og Einar hófu búskap á Lokastíg 26, í kjallaríbúð í eigu tengdaforeldra Margrétar. Þegar börnin fæddust lét Margrét tímabundið af störfum hjá Rafmangsveitunni og sinnti börnum og búi. Sigríður fæddist árið 1944 og Guðjón tveimur árum síðar.
Maður Sigríðar er Sigvaldi Þór Eggertsson. Börn þeirra eru Einar, Eva og Margrét. Kona Guðjóns er Bryndís Jónsdóttir og börn þeirra er María Rán, Margrét Sara og Vilborg Ásta. Langömmubörn Margrétar eru fimm talsins.
Íbúðin á Lokastígnum var upphafsreitur fjölskyldu þeirra Margrétar og Einars. Svo voru þau svo heppin, að þeim hlotnaðist annar samastaður og raunar vettvangur ævintýra. Til að tryggja sem best heilsufar Sigríðar og að hún nyti heilsusamlegs lofts og sveitagæða festu þau sér reit í Kárastaðanesinu í Þingvallasveit. Einar átti í Guðjóni, föður sínum, öflugan smið, sem hjálpaði þeim að byggja sumarbústað fyrir austan. Þar undu þau hjón hag sínum vel og börnin nutu nándar við rismikla náttúru, lærðu á blóm, bláma, hættur, fjöll og ekki ónýtt að fjallakrans Þingvalla er dæmasafn allra eldjallagerða Íslands. Stórtilveran og smátilveran nærði lífið og fleytti gleði og þroska til þeirra allra. Sigríður og Sigvaldi tóku síðar til hendinni fyrir austan og hafa bætt aðstöðuna. Og Margrét naut þeirra í sveitinni, hafði sitt prívat áfram en gat verið og hvílt örugg í faðmi fjöskyldu sinnar.
Árið 1952 byggðu Margrét og Einar hús á Grenimel 39 og bjuggu þar síðan. Margrét fór svo að vinna að nýju hjá Rafmagnsveitunni. Einar lést árið 1998 en Margrét bjó áfram á sínum reit. Margrét sinnti útvist og hreyfingu alla tíð, naut góðrar heilsu og stælti sjálfa sig með göngum og á síðari árum fór hún gjarnan niður að sjó. Þegar hún var komin talsvert á níræðisaldurinn fór heilsa hennar að bila og leiddi að lokum til að hún fór á Grund og átti þar góða daga. Hún naut ástríkis og umhyggju starfsfólks og vistfólks, sem er þakkarvert.
Elskuleg Margrét
Margrét var elskuleg kona, alltaf hlý og hógvær, æðrulaus og gjöful. Alls staðar kom hún sér vel. Þau Einar ferðuðust víða erlendis meðan hann lifði og á síðari árum hafði hún gaman af innanlandsferðum og fór meðal í alls konar safnaðarferðir þessar kirkju. Margrét sótti alla tíð í fróðleik og fræðslu, fór með dóttur sinni á námskeið um tónlist og sögu. Hún hafði lært ofurlítið á píanó sem barn og tónlistin vitjaði hennar síðan fullorðinnar. Hún sótti sinfóníutónleika í marga áratugi. Þau Einar voru messusækin og meðan Margrét hafði getu og möguleika til kom hún í messur í Neskirkju, átti sér sinn stað og settist gjarnan hjá sama fólkinu. Oft sat hún nærri Ármanni Snævar enda höfðu þau gaman að ræða saman, voru bæði skemmtileg og fróðleiksfús.
Það var gaman að sjá til Margrétar koma á mannamót. Hún var smekkvís í fatavali og allt frá bernsku vildi hún bláu klæðin. Á sálmaskránni er mynd, sem ber fatalínu hennar vitni. Það var kannski ekki einkennilegt, að hún var hrifinn af blágresi og bláma náttúrunnar. Litur Þingvallasvæðisins er gjarnan blár og bláir tónar teikna og lita allt svæðið vegna vatns, himins og fjalla. Litakort Þingvalla passaði því litakorti Margrétar ágætlega. Hún var náttúruunnandi, naut sín í lautinni sinni og íhugaði undur lífsins.
Margrét var ljúf í samskiptum en var jafn staðföst í lund og hún var viðræðugóð. Þegar Einar, bóndi hennar, vildi haga málum með ákveðnu lagi tók Margrét því, en ef hún var ósammála gat hún haldið sínu með seiglu, en ljúfmennsku og lagni. Margrét var opin og til í að skoða mál frá sem flestum sjónarhornum, hlustaði vel og íhugaði sitt. Hún horfði jafnan á það jákvæða og vildi og valdi hið eflandi. Hún var jafnan kjarkmikil og bjartsýn. Og sú jákvæða lífssýn styrktist með aldrinum, sem er athyglisvert. Jafnvel þegar Margrét var búin tapa minni, missa manninn og styrkur í hnjám var orðinn lítill gat hún sagt með sannfæringu að hún væri heppinn. Svo horfði hún á fólkið sitt, sem hún var svo heppin með og bætti við: “Við erum nú lukkunnar pamfílar.” Er það ekki stórkostlegt að geta minnst heppni hennar og verið líka heppin að hafa kynnst svo lífssækinni konu, sem vildi og valdi sjá hið bjarta, góða og fagra? Lífsafstaða skiptir máli og við getum valið hvort glas okkar er hálffullt eða hálftómt. En Margrét var hin heppna kona, sem leyfði sér að hrífast. Því var hún svo gjöful okkur öllum.
Margrét kom í kirkjuna sína þegar hún gat. Nú er hún komin hinsta sinni og héðan hefur hún lagt í sína hinstu för. Í skini frá bláum glugga Neskirkju hverfur hún inn í himininn. Aldrei aftur verður hún nærverandi í bláma Þingvallasveitar. Hún gengur aldrei niður á Ægissíðu, brosir ekki við okkur eða snýr góðu að okkur. En við erum þó þeir lukkunar pamfílar, að hafa fengið að njóta elskusemi og jákvæðni hennar. Hún gaf og elskaði og hverfur svo inn í himininn. Í dag er gleðidagur, því hún er heppin og við henni er tekið og allt er gott. Þannig umvefur jákvæðni og trú hið góða og má gjarnan veita þér blessun þegar þú kveður Margréti. Guð geymi Margréti Sigurðardóttur, Guð geymi börn hennar og ástvini og Guð geymi þig.
Minningarorð flutt við útför Margrétar í Neskirkju, 26. ágúst, 2011.