Erlingur E Halldórsson – minningarorð

Franska akademían heiðraði Erling og nýlega var honum boðið í ítölsku akademíuna í Róm til að heiðra hann. Aldrei sóttist Erlingur eftir skrumlofi og vegtyllum, aðeins því að vel væri gert og verk hans væru metin að verðleikum. Hann þýddi og var meistari. Erlingur samdi leikrit og leikstýrði einnig. Hann setti upp eigin verk og leikhúsfólkið vissi vel af getu Erlings.

Í síðustu bók Biblíunnar segir:

„Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Opinberunarbók Jóhannesar er merkilegt og margrætt rit. Þýðing hennar og túlkun er ekki einhlít? Bækur eru margar í heimi Biblíunnar. Orðið biblia er grískt og í ft og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók. Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Orð voru talin ávirk og Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar. Og við enda Ritningarinnar er þessi bóknálgun enn til íhugunar. Í forsæti himins er innsigluð bók, en þá bók á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?”Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers?

Hvað er innsiglað og hvað er opinbert? Maður orða og bóka, Erlingur Ebeneser Halldórsson, var í miðju menningarlífs Íslendinga en þó var hann líka utan við. Hann var í hópi fólks, en þó var hann líka þannig innréttaður að fáum hleypti hann nærri sér og enginn fékk að fara að baki innsiglum hans. Hann var opinn og félagslyndur sem barn, en svo lokaði hann gluggum smátt og smátt og við æfilok var sem hann hefði valið einveru. Hann átti sér vonir og þær urðu kannski í öðru en hann hafði ætlað sér. Hann stefndi að frama í leiritum en fékk viðurkenningu fyrir þýðngar.

Ævistiklur

Erlingur E. Halldórsson fæddist 26. mars árið 1930. Hann var sonur hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Halldórs Jónssonar á Arngerðareyri, í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Erlingur var næstyngstur í stórum systkinahópi. Foreldrar hans voru bændur og fjölskyldan hafði viðurværi af landbúnaði. Erlingi var haldið að vinnu samkvæmt því vinnulagi, sem tíðkast í sveitum landsins á þessum tíma. En að honum var líka haldið orðasókn og ritagleði íslenskar menningar. Erlingur var hneigður til lærdóms og eldri systkin gaukuðu að honum bókum. Þegar hann hafði aldur til fór hann í Reykjaskóla við Djúp. Svo lá leiðin suður í fjörið og fjölbreytileika borgar, sem hafði allt í einu bólgnað út í nýliðnu stríði. Hann hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík og naut þeirra þroska- og umbrotaára, sem hann átti þar og lauk stúdentsbrófi árið 1950.

Þá tóku forspjallsvísindin við, norræn fræði og síðan opnðust honum franskir og þýsk-austurrískir menningarheimar. Erlingur hóf nám í París árið 1952. Hann var í Sorbonne og einnig um tíma í háskólanum í Vínarborg og naut til náms stuðnings eldri bræðra sinna. Síðar var Erlingur við nám hjá Berliner Ensemble árið 1962 og svo við leikhús Roger Blanchon árið 1968. Erlingur naut því fangmikillar menntunar, varð Evrópumaður í viðmiðum og lærði að sjá og skilja með margsýni hins fjölmenntaða. Hann gat brugðið upp augum barns af hjara veldar við hið ysta haf, en líka séð frá sjónarhól tinda evrópskrar menntunar.

Leiklistin

Vísnakompan hans Erlings sýnir, að hann byrjaði snemma að skrifa, skrifa upp eftir öðrum og æfa sig í hrynjandi mál og flæði texta. Á menntaskólaárum skrifaði hann líka, ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur hafði ofurlitla atvinnu af. Leikhúsheimurinn heillaði hann snemma og hann ól með sér leikskáldadrauma. Nýstúdentinn skrifaði þegar árið 1951 leikritið Hinir ósigrandi. Og síðan skrifaði hann fjölda leikrita, mér er kunnugt um fjórtán en þau gætu verið fleiri.

Sum verka sinna setti hann upp í leikhúsi og önnur voru flutt í ríkisútvarpinu. Ragnar í Smára gaf út frægasta leikrit hans, Minkana, og Kristinn E. Andrésson lauk á það lofsorði. Og vert er að koma leikritum Erlings út í almannarýmið með einhverjum hætti, ef ekki á þrykk þá alla vega á veraldarvefinn. Grandskoða þyrfti handrit Erlings, tölvuna hans og halda þessum ritum til haga, koma afriti þeirra í hendur fagfólks til skoðunar á útgáfu og einnig afhenda þjóðskjalasafni til varðveislu og þar með síðari rannsókna. Hópur íslenskra leikskálda er ekki stór og vert að gæta vel að framlagi Erlings. Hann var án efa einn af framsæknustu leikhúsmönnum á sinni tíð, fulltrúi nýrra strauma frá og með sjöunda áratugnum.

Erlingur samdi ekki aðeins leikrit heldur leikstýrði einnig.  Hann fór víða um land og stýrði áhugaleikhúsum. Hann setti upp eigin verk og vöktu þau athygli og leikhúsfólkið vissi vel af getu Erlings. Þá setti hann upp ýmis kunnustu leikverk samtímans, t.d. sló Biderman og brennuvargarnir í gegn vestur á Flateyri, var sýnt fyrir fullu húsi vikum saman og svo var það sýnt víðar á Vestfjörðum. Erlingi hafði lánast að kveikja svo í fólki í leikfélaginu, að athygli vakti og blöðin fyrir sunnan sögðu vel frá. Og ég hjó eftir að Erlingur vildi leyfa Helvítissenum í leikriti Frisch um Biderman og brennuvargana að fljóta með í Flateyraruppsetningunni og það varð m.a.s. til þess að einu sinni kviknaði í. Erlingur var dramatískari en aðrir leikstjórar, sem bara slepptu þessum þætti í mörgum uppsetningum. Hann hafði auga fyrir hinu ýtrasta.

Leikstjórn gat ekki orðið Erlingi lifibrauð, hvort sem hann sótti í yfirheima eða niðurheima og hann lagði því stund á kennslu – og kom víða við sögu, fyrir vestan, norðan og austan. Meðfram kennslu hafði hann svo tómstundir til skrifta, sem voru honum ekki innkomulind heldur lífsnauðsyn.

Fjölskylda

Fyrri kona Erlings var Hrafnhildur Gunnarsdóttir, lögfræðingur. Þau skildu.

Vestur á Flateyri hitti Erlingur svo seinni konu sína, Jóhönnu G. Kristjánsdóttur. Hún var ellefu árum yngri en Erlingur og þau voru hjón í ellefu ár. Börn þeirra Jóhönnu eru tvö, Kristján og Vigdís.

Kristján er desembermaður, fæddist á fullveldisdeginum árið 1962. Hann er framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis í Úganda. Kona hans er Lesley Wales. Þau eiga tvíburadætur, sem heita Jóhanna Guðrún og Katherine Barbara.

Vigdís fæddist í febrúar 1970. Hún er skrifstofumaður. Börn hennar eru: María Rut sem á Þorgeir Atla. Annað barn Vigdísar er Alexía Rós, síðan kom Júlia Ósk og yngstur er Hörður Sævar.

Erlingur og Jóhanna skildu árið 1973. Þá hófst nýtt skeið í lífi hans. Hann stundaði kennslu, en auk leikritunar var þýðingarferill Erlings hafinn. Og fyrir þann orðabúskap hefur hann hlotið lof og verðlaun. Hann var ekki bara bundinn við einn bókakikma, heldur þýddi m.a. hinn portúgalska Quiros, hinn þýska Dürrenmatt, ameríska Steinbeck, norður-írann Bernhard Mac Laverty, þjóðverjann Berthold Brecht, frakkann Rabelais, Rómverjann Petronius að ógleymdum ítölunum Dante og Boccacio. Þýðingar Erlings eru agaðar og vandvirkar og viðfangsefnin voru jafnan stórvirki heimsbókmenntanna.

Honum leið væntanlega vel við það mikla djúp mannsandans, kunni vel sýsli með orð og þótti eflaust sá heyskapur enn skemmtilegri en á þufnapuð og hrífupot fyrir vestan í bernsku. Hann var alinn upp við mikla vinnu og eljan skilaði honum og íslenskri menningu stórvirkjum, sem fagmenn á engi bókmenntana lofa einum rómi. Afrek Erlings á sviði orðlistarinnar barst út fyrir landsteina og fallegur er verðlaunapeningur frönsku akademíunnar, sem hann hlaut fyrir þýðingu á Gargantúa og Pantagrúl.

Mér er ekki kunnugt um að franska akademían hafi heiðrað aðra landa okkar með svipuðum hætti. Og nýlega var Erlingi tilkynnt, að honum væri boðið í ítölsku akademíuna í Róm til að heiðra hann. Aldrei sóttist Erlingur eftir skrumlofi og vegtyllum, aðeins því að vel væri gert og verk hans væru metin að verðleikum. Hann var bóndi orðanna sem gekk til verka sinna. Oft hafði frænka hans Auður á Gljúfrasteini sagt við hann að koma en ekki fór hann þangað fyrr en hann fékk íslensku þýðingarverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir þýðingu á Gleðileiknum guðdómlega. Þá var tími til kominn til ferðar í Mosfellsdalinn.

Hver dýptin?

Hver var þessi maður? Engin ævi er opinber, við getum aðeins leitt líkum að ýmsu í lífi Erlings. Hann var sem fjölmenntaður endurreisnarmaður. Hann drakk í sig það, sem hann náði í af bókum á unga aldri. Hann gerði íslenskt menningarefni að sínu og meira segja skrifaði vísur og ljóð í kompu sína, eflaust til að eiga aðgengilegt og kannski læra í fásinninu. Svo las hann bókmenntir og alltaf stækkaði heimur orðanna. Og drama bókanna fór inn í hann og kannski breytti honum. Leikverkin runnu í hann og stórbækur heimsins urðu heimur hans.

Hverju skiluðu allar bækurnar Erlingi? Vökulum huga, útsýn og innsýn í menningarsögu Vesturlanda. Hvernig er lífið og hvað skiptir mestu? Hann átti í spekingum og höfundum vini og lærimeistara og gat vel samsamað sig orðum Grikkjans og Krítverjans Nikos Kazantzakis í verkinu um hina grísku ástríðu: Faðir minn hvernig ættum við að elska Guð? Með því að elska mennina. Og hvernig ættum við að elska mennina? Með því að reyna að vísa þeim áleiðis á réttri braut. Og hver er rétta brautin? Sú bratta.”

Þetta er vel orðað. Erlingur gat alveg skilið þessa speki um að himinn er meðal manna, að hlutverk okkar er í þágu lífsins og að ekkert verður úr neinu nema að fara erfiðu leiðina. Og Erlingur fór bratt og gerði hvorki sjálfum sér né sínu samferðafólki auðvelt fyrir. Hann sleit sjálfum sér út við hugaðefni sín. Sú fórn var vart svo stór, að ekki væri réttlætanleg fyrir andans verk og vegir Erlings voru stundum um klungur og hálendi andans og hann varð stundum viðskila við ferðafélagana á leiðinni. Hann átti jafnan sálufélag í listamönnum og fylgdist með menningarlífi. Hann hafði áhuga á myndlist, kvikmyndum og augljóslega helst á þeim listum sem tengdsut orðum, bókmenntum og leiklist.

Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. Nú hefur allt verið leikið og þýtt. Erlingur gerði sér alla tíð grein fyrir að ekki verður allt séð eða skilið. Lífsbókin er ekki einnar víddar og svo er hinn guðdómlegi gleðileikur margflókið ferli. Hver er maklegur að opna? Er lífi Erlings lokið við dauða eða er það kannski eins og hvert annað undursamlegt upphaf? Getur verið að þessi divina comedía haldi nú áfram, nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings, nú njóti hann betri útsýnar, megi opna hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði?

Margir hafa þjónað Erlingi um dagana. Auk fjölskyldu hans er vert að minnast á Sigrúnu Jónsdóttur, systurdóttur Erlings, sem var honum lipur og sparaði ekki sporin þegar börn hans voru fjarri. Þau Kristján og Vigdís þakka henni umhyggju hennar gagnvart Erlingi.

Lífsbók Erlings er nú blað í lífsbók veraldar. Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megni að opna er svarað með þeim boðskap að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur. Kristnir menn trúa, að höfundur hins mikla klassíksers heimsins heiti Guð og hafi birst í honum, sem skrifaði í sand og leysti lífsgátuna með því að ganga út úr grjótinu. Við sjáum sem í skuggsjá, en í hinu nýja lífi er allt ljóst, höfundurinn gengst við verkinu og opnar faðminn.

Erlingur fæddist við Djúp og nú er hann farin inn í hið mikla djúp sem heitir eilífið og er himinn. Guð opni þá veröld, þýði líf hans inn í sinn gleðileik og verndi ávallt og ævinlega.

Þökk sé Erlingi það sem hann var og gaf.

Þökk sé þeim sem urðu Erlingi athvarf og styrkur á lifsgöngunni.

Guð geymi hann um alla eilífð og Guð geymi þig.

Neskirkja, október 2011.