Þorsteinn Jónsson – minningarorð

Þorsteinn var góður flugmaður. Vinum hans og félögum ber saman um að hann hafi verið annað og meira en kerfisstjóri í háloftunum. Þorsteinn hafði margþættar flugmannsgáfur sem skapa listamann með vængi. Hann var veðurglöggur. Hann kunni að hemja dirfskuna og þorði að hætta við flug. Hann bar í sér þessa sókn upp í himininn, upp fyrir regnboga og ský, upp í heiðríkjuna.

Hér á eftir verður sunginn regnbogasöngurinn sem lengi hefur fylgt flugfólki. Ofar regnboganum: “Somewhere over the rainbow” – þar sem bláfuglar fljúga, í heimi unaðar, þar sem vonir rætast, ofar takmörkum manna og heims, þar sem tími og eilífð kyssast svo fallega. Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og hrifið barn, sem starir upp í glitrandi hvelfinguna. Í sálminum segir:

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”

Þetta eru grunnspurningar. Flughimininn er stór en stærri er geimurinn. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi? Erum við eitthvað meira en daggardropi í regnboga? Við lifum stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið?  Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg flugferð milli tveggja valla, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “flugfélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Skáld Davíðssálmsins var sannfært um, að stjörnur, tungl, fuglar himins og  menn nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið: 

„… Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri.“

Þetta er niðurstaða um að Guð er, að Guð gefur, að Guð umvefur veröldina og merkir líka að lífið er gott og gæðaríkt og að himinn er áfangastaður æviflugsins.

Upphaf lífs og flugs

Þorsteinn Jónsson fæddist í Reykjavík 20. desember árið 1942. Hann var eldra barn hjónanna Jóns Bergsveinssonar og Unnar Þorsteinsdóttur, sem voru svo samhent að þau áttu meira segja sama afmælisdag, 10. desember. Yngri systir Þorsteins er Hildur og fæddist 1944, tveimur árum á eftir bróðurnum. Jón, faðir þeirra, féll frá árið 1953, aðeins 39 ára gamall. Þorstein var enn barn að aldri og við getum rétt ímyndað okkur hve missirinn hefur níst alla fjölskylduna. Þau Hildur sóttu barnamessurnar hjá sr. Óskari og sr. Jóni Auðuns, einhver svör hefur Þorsteinn fengið um eðli dauðans og vonarmál á þeim samverum og hann hóf sína sókn til hæða.

Unnur var tengd heimili þess mikla flugjöfurs Þorsteins Jónssonar flugmanns og réttnefnds flugkappa og konu hans, Margrétar Thors. Þorsteinn eldri tók nafna sínum vel, fór með hann út á völl, kynnti honum undur flugs og véla, hrærði í sál barnsins og varð til að Þorsteinn yngri heillaðist af flugi og öllu því sem lyfti mönnum upp fyrir regnbogann. Þorsteinn fór ekki aðeins suður á Reykjavíkurvöll eins og við strákar í Vesturbænum höfum lengi gert, heldur fór að stunda ferðir upp á Lögberg og skokka síðan frá endastöð upp á Sandskeið til að snudda kringum sviflugmenn og vélar, læra handtök, fylgjast með, hjálpa til og svo fljúga þegar tímar liðu. 14 ára var hann kominn í svifflug og varð eins og margir, sem byrja flugið á Sandskeiði, betri flugmaður en ella. Oft gisti hann og félagar hans í köldum flugskálanum til að fullnýta tímann.

Þorsteinn var algerlega ábyrgur fyrir sínu flugnámi. Hann var duglegur í vinnu og safnaði námsfé, hentist með Alþýðublaðið á hjóli, vann í VÍR. Áætlun hans tókst, hann lauk atvinnuflugmannsnámi með blindflugsréttindum árið 1963. Siglingafræðingsprófi ásamt flugkennaraprófi lauk hann svo 1964. Síðan tók við skrautlegur og fjölbreytilegur flugferill. Hann fékk starf við flugskólann Flugsýn, fór svo til Lofleiða um tíma, var flugmaður hjá flugþjónustu Björns Pálssonar. Um tíma fór hann svo til starfa í Bandaríkjunum. Eftir heimkomuna vann Þorsteinn síðan fyrir ýmis flugfélög, m.a. leiguflug Sverris Þoroddsssonar, Arnarflug innanlands og Íslandsflug. Samtals flaug Þorsteinn um tíu þúsund tíma. Það er raunar furðulegt og segir kannski meir en flest annað hversu góður og öflugur flugmaður hann var að þrátt fyrir válynd veður og alls konar erfiðleika lenti hann sínum farkostum ávallt án áfalla. Það þarf snilling til. Og kannski naut Þorsteinn sín aldrei betur en við erfið skilyrði, sem reyndu á og kröfðust kunnáttu og getu.

En eins farsæll og Þorsteinn var í flugmannssætinu var hann ekki jafn lánsamur í stjórn eigin lífs. Í fluginu var aðalatriði að halda sér á lofti og lenda vel. En í einkalífinu datt hann stundum illa í það og olli sér og sínum vanlíðan. Hann tók virkan þátt í AA-hreyfingunni, lærði vel á veilur sínar og eðli sjúkdómsins. Þökk sé félögum hans fyrir stuðning fyrr og síðar. Þrátt fyrir að Þorsteinn ynni ýmsa sigra í baráttunni við að láta flöskuna vera hindraði áfengissóknin hann frá fastráðningum og að njóta til fullnustu hæfileika sinna í flugmannssætinu.

En fyrir bragðið nutu margir flugnemar hæfileika hans og Þorsteinn var orðlagður fræðari, miðlaði nemendum sínum skilningi, þekkingu og virðingu fyrir fluginu. Og hann kenndi stórum hópi flugmanna Íslendinga fyrr og síðar. Fyrir það þökkum við.

Frá 1978 til 2008 vann Þorsteinn samhliða fluginu hjá Optima. Hann hafði kynnt sér ljósritunarvélar vestan hafs og fór að selja þær þegar hann kom heim. Hann var annálaður sölumaður, naut sín í starfi og naut trausts sem fagmaður í greininni.

Á síðari árum flaug hann oft með vísindamenn við rannsóknir og Þorsteinn naut þess að vera með í fræðaferðum við talningar á lífverum í náttúru Íslands. Svo lokaðist spírallinn í lífi hans með því að hann var farinn að sækja upp á Sandskeið að nýju og miðla yngra fólkinu af reynslunni. Líf okkar er ekki hringsól heldur spírall, við vitum fortíðar og megum gjarnan koma til baka með visku, reynslu og miðla henni.

Eigindir

Þorsteinn var snyrtimenni allt frá bernsku, hafði reyndar ekki langt að sækja það, því uppvaxtarheimili hans bar allt vitni um fágun. Ég þekkti Unni móður Þorsteins og hún var smekkvís fagurkeri og þær eigindir erfði sonur hennar. Þorsteinn klikkaði aldrei á skóburstun né að búa sig vel og heimli hans vitnaði um kunnáttusaman húsbónda.

Þorsteinn hafði næmi á góðar sögur, hafði gaman að segja frá, kveða fast að orði, halda fram málstað með ákveðni og miðla því sem honum þótti mikilvægt. Hann fylgdist vel með málum samfélagsins. Svo var hann líka veiðimaður og undi sér vel á vatnsbakka og í glímunni við vatnabúa. Þorsteinn flaug ekki aðeins heldur hafði gaman af ferðalögum innan lands og utan. Á síðari árum dvaldi hann langdvölum í Asíu, lærði að meta þann hluta heims og eignaðist vini.

Þorsteinn var drátthagur og listrænn, handlaginn, flinkur og var meira segja fenginn til að kenna unga fólkinu föndur og smíðar við Fríkirkjuveg. Hann hafði gaman af tækjum og tólum. Kunni snemma að fara vel með viðkvæm módel og skildi vel mikilvægi þess að fara vel með til að þau entust honum lengi og vel. Góð meðferð var honum bæði innrætt heima og svo lærði hann af mistökum hvað miklu skipti að hann færi vel með sjálfur. Við lokadægur átti hann jafvel sumar fermingargjafir sínar, svo góður vörslumaður var hann.

Konur og börn

Sjarmerandi og vel til haft flugmannsefni, sem kunni að segja sögur, varð auðvitað kvennaljómi. Þegar þær systur Mjöll Hólm og Svala unnu í Vinnufatagerð Íslands í kringum 1960 og þá var Þorsteinn á sendibílnum. Hann sagði þeim skemmtilegar sögur, heillaði þær og svo fóru þau að skjóta sér saman hann og Svala H. Friðbjörnsdóttir. Svo hófst hjúskapur hjá þeim. Þau bjuggu í Mávahlíð og fóru svo yfir í Álfheima. Þau giftu sig 1965 og þeim fæddust þrjú börn. Sigurbjörn Þór fæddist 1964, Jón Bergsveinn ári síðar og Unnur árið 1966. Þrjú börn á þremur árum, álagið var auðvitað mikið, mikil vinna og mikil gleði, en líka óregla sem ekki hentaði barnalífinu. Úr hjúskapnum slitnaði og svo fór Svala alfarin til Danmerkur með börnin. Fjarlægð og félagsaðstæður urðu til að milli Þorsteins og barnanna myndaðist stærri gjá en þau kusu. Í því var fólginn annar stóri sársaukavaldur í lífi Þorsteins. Honum þótti mikilvægt að fylgjast með sínu fólki, hann spurði frétta af þeim, heimsótti Unni gjarnan í Danmörk á seinni árum og hengdi upp myndir af afkomendum sínum á heimili sínu sér til gleðiauka.

Börn Þorsteins eru öll búsett í Danmörk og barnabörnin eru samtals sex talsins. Tvíburasysturnar Tanja og Jannie eiga afmæli í dag og mér var falið að bera þessum söfnuði kveðju þeirra.

Seinni kona Þorsteins var Sólveig Friðfinnsdóttir. Hún og fjölskylda hennar veittu Þorsteini athvarf og samhengi. Sólveig lést árið 1996, fyrir aldur fram, aðeins 54 ára að aldri. Og fjölskyldu Sólveigar og börnum er þökkuð hlýja, rækt og elskusemi í garð Þorsteins fyrr og síðar.

Yfir regnboga

Í sumar átti ég því láni að fagna að vera í nokkrar vikur í bústað sem stóð hátt og sá yfir undirlendi Suðurlands. Stundum sá ég “Þristinn” og naut hins þunga gnýs. Á hitadögum var uppstreymið mikið, skýjaborgir voru gjarnan í ofurstærð og svo gerði hitaskúrir síðdegis. Regnbogar mynduðust og litaspilið var stórkostlegt. Ég hugsaði stundum um hvort fólkið vissi af regnboganum yfir sér og vissi að nú væri stundin til að óska.

Fólk allra tíma hefur horft á litafurður regnboga og undrast. Biblían geymir íhugunarsögu um mikla ferð Nóa og að Guð hafi gert tákn á himni til að minna á sátt milli Guðs og manna. Síðan er regnboginn tákn um frið himins og jarðar, heims og Guðs.

Somewhere, over the rainbow. Þorsteinn hefur nú lokið síðustu flugferð sinni og haldið inn í land hins eilífa regnboga, þar sem friður og sátt ríkja. Himininn, stjörnurnar, tákn náttúru, gæska manna, – allt eru þetta tákn og vísanir í dýpri veruleika og djúpa þrá. Hvað er maðurinn? Í lífi okkar allra, líka Þorsteins, verða skin og skúrir, ljósadýrð en líka myrkur. Hvað gerum við þá? Hvernig er líf okkar og til hvers lifum við?  Ferðin undir og yfir regnbogann eru leiðir til gæða og óska. Við erum ábyrg að mestu um hvernig við spilum úr en svo er þessi dásamlegi boðskapur regnbogans, lífsins, trúarinnar, að þegar við viðurkennum vanmátt okkar þá er æðri máttur sem hjálpar, leggur til þetta aukalega, þetta mikilvæga sem þarf til að ferðin verði til góðs og lendingin hinum megin verði ekki hrap heldur til lífs.

Það er í þeim anda sem við megum kveðja Þorstein Jónsson, rifja upp eftirminnilegan mann, sem gerði öðrum það gott sem hann mátti. Þakkaðu í þínum huga það sem hann var þér, lyftu því sem var gott og gerðu upp við skuggana. En leyfðu honum að lifa í minni þér sem manni sem flaug yfir regnbogann í lífinu, hefur haldið inn í eilífð þar sem alltaf má fljúga, enginn er grándaður fyrir mistök og allir mega gleðjast. Frá flugturninum á þeim velli koma bara  góðar fréttir og greiðar heimildir, engum ferðum aflýst og bara gaman. Guð blessi Þorstein Jónsson, Guð blessi þig.

Neskirkja, 4. ágúst 2010.