Sólborg Hulda Þórðardóttir – minningarorð

„Hvenær má ég koma? Hvenær get ég komið með teppið handa barninu?” spurði Sólborg Hulda Þórðardóttir.  Hún var alltaf með eitthvað á prjónum og heklunálin var líka á lofti. Hún elskaði fólkið sitt, fylgdist grannt með viðburðum, afmælum, gleðiefnum og veislum. Hún fagnaði þegar konurnar í fjölskyldunni urðu barnshafandi! Þá hófst hún handa og tók þátt í undirbúningnum, bjó til teppi, sem beið svo nýburans. Hún varð spennt og vildi gjarnan afhenda teppið sem fyrst.

Það er heillandi að hugsa um þessar nýburagjafir. Hvað vildi hún með þeim? Um hvað voru þær tákn? Voðirnar eru auðvitað umhyggjumál. Bogga vildi varna að litlu lífi yrði kalt. Og hún lagði ekki bara til það, sem var hægt að leggja í vöggur og sveipa um hvítvoðunga, heldur komu sokkar, vettlingar, milliverk, listaverk sem hannyrðakonan hafði gaman af að gera og gefa. Svo bjó hún til glermuni og fleira til gjafa líka. Ástargjafir Boggu bárust því víða og til margra. Þær eru vitnisburður um gjafmildi og lífsgleði. Afstaðan hefur erfst í fólkinu hennar. Ég var snortin af stórkostlegum sængurgjöfum sem sonardóttir hennar gaf vinafólki sínu.

Hvaða mynd áttu innan í þér af Sólborgu Huldu Þórðardóttur? Hvaða geislar stafa frá henni? Líf hennar er bæði táknrænt um sögu Íslendinga á 20. öld en líka boðskapur úr huldum dýptum og um visku lífsins. Hún fæddist snemma á liðinni öld, lifði svo lengi að hún náði nær tug í næstu. Hún fluttist úr dreifbýli í þéttbýlið hér fyrir sunnan og veitir innsýn í byggðaþróun þjóðarinnar. Hún ólst upp í þorpi og sveit, hóf búskap í sjávarplássi og neyddist til að fara suður til að sjá sér og sínum farborða. Hún missti marga og margt og hafði fáa kosti aðra en að rísa upp og láta ekki mótlæti hefta sig. Hún missti mann sinn en missti þó ekki móðinn, heldur þroskaði með sér lífsvisku, sem er aðdáunarverð og til eftirbreytni. Hún er sem lýsandi fyrirmynd um hvernig fólk getur lifað svo vel sé lifað, hvernig bregðast má við mótlæti og sorgum og vinna með til góðs.

Vandið ykkur við lífið, vandið lífshætti ykkar, gætið að lífshlýjunni eru sem sólstafir Boggu. Til hvers að lifa? Til að lifa vel. Hvernig eigum við að lifa vel? Með því að opna fangið gagnvart lífinu, möguleikunum – með því að elska fólk, þjóna öðrum. Í Jóhannesarguðspjalli er svonefnd Litla Biblía: “Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn…” Til að skilja dýpt ástarorða Litlu Biblíunnar er mikilvægt að skilja hina biblíulegu merkingu ástar. Vitringar fortíðar voru engu síðri en samtímafólk okkar og í sumu raunsærri. Ást í Biblíunni, og þar með Guðsástin, var ekki aðeins tilfinning heldur einnig athöfn. Að elska var ekki bara að leyfa glóðinni að streyma heldur að gera eitthvað í málum, leita hins elskaða, umlykja og faðma. Því svo elskaði Guð… Það er aldeilis ástarsaga að Guð sendir son sinn. Tilfinning Guðs er svo sterk og svo altæk, að það er ekkert minna en það að Guð komi sjálfur. Líf Sólborgar Huldu var líf athafna og hagnýtrar elsku.

Uphaf og lífsstiklur

Norðanvert Snæfellsnesið var heimur Boggu fyrsta hluta ævinnar. Hún fæddist á Hellissandi í lok júní árið 1914 og hefði því orðið 95 ára gömul innan nokkurra daga – hefði hún lifað. Foreldrar hennar voru María Guðbjörg Sigurgeirsdóttir og Þórður Árnason. Bogga átti fimm systkini. Hún var næstelst og öll systkinin eru nú látin. Pabbinn féll frá aðeins liðlega fertugur og Sólborg ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Guðríði og Sigurgeir. Þar kynntist hún mannlífi sveitarinnar, atvinnuháttum, viðfangsefnum og verkum ársins og fékk æ næmari skynjun á hversu mannlífið er dýrmætt og kannski líka tæpt. Líf og dauði, en lífið er betra en dauðinn, lífið er sterkara en dauðinn.

Bogga naut hefðbundinnar menntunar þessa tíma. Adólf Ásbjörnsson varð hennar lífsást og þau áttu heimili sitt í Ásbjörnshúsi í Ólafsvík. Þau eignuðust fjögur börn. Fyrst komu tvær stúlkur, Guðríður árið 1936 og síðan Ragnheiður ári síðar. Báðar dóu þær í frumbernsku. Drengirnir áttu hins vegar líf í vændum, þeir Þórður Marteinn og Adólf. Þegar Þórður var þriggja ára og Adólf á leiðinni veiktist Adólf maður Sólborgar, fór suður til lækninga en lést skömmu eftir að Adólf yngri fæddist. Sá stutti fékk því nafn föður síns, sem féll frá aðeins 32 ára gamall, og var skírður við kistu föður síns.

Það er mikil saga sögð í þessum fáu setningum. Líf og dauði, líf þrátt fyrir dauða. Hvað hugsar móðir með látnar stúlkur í fangi og síðan lítið líf en látin mann á börum? Sólborg ekki þrítug í þessum dramatísku aðstæðum. Hvernig verður líf við slíka áraun? Þegar áföllin verða svo stór verða kostirnir aðeins tveir, að lúta eða lifa. Svo eignaðist hún stúlku sem hún lét frá sér síðar til góðs fólks og í góðar aðstæður.

Hvaða leið fór Sólborg Hulda? Hvernig lifði hún? Hún talaði ekki um áföllin, brotnaði ekki og hún rétti úr sér. Hún vék sér ekki undan ákvörðun. Hún kippti upp sínum tjaldhælum í lífinu, kom syni sínum, Adólf, fyrir hjá afa og ömmu sem ólu hann upp. Ragnheiður Guðjónsdóttir, Ranka amma, var líka mikilvæg og skal henni þökkuð elska hennar við Adólf, Sólborgu og fjölskylduna.

Suður

Sólborg fór til starfa í Reykjavík og vann lengstum við sauma, m.a. við gerð tískufatnaðar hvers tíma. Bogga saumaði draumaflíkur margra. Kannski væri ráð næst þegar þú ferð fataskápinn að skoða handbragðið og íhuga hvort hendur og natni Boggu eigi þar einhver merki og spor! Barnabörnin hennar nutu þess, að amma var í miðri hringiðu tískubransans og gat saumað handa þeim það, sem var flottast á hverjum tíma. Sólborg Hulda varð að gera upp lífið á erfiðum tíma og hún var kannski algerlega í réttum aðstæðum, að sauma spjarir, sem voru tengdar tímanum. Hún gerði sér grein fyrir að best væri að njóta augnabliksins og stundarinnar, grípa daginn, lifa vel en draga hvorki fortíð á eftir sér né láta áhyggjur – af því sem við fáum ekki ráðið í framtíð – hemja núið.

Sjálfstæðið var Sólborgu mikilvægt. Eftir að hafa búið í leiguhúsnæði, m.a.s. í kjallara Háskóla Íslands, keypti hún sér íbúð í Stigahlíð 18 og bjó þar í nær hálfa öld. Hún var frumbyggi í blokkinni sinni og kunni margbýlinu vel. Hún laðaði að sér börnin, gaf þeim ís og dekraði við þau. Hún lagði gott til nágrannana, sem minnast hennar fallega og studdu hana þegar hún eltist. Bogga gekk gjarnan til vinnu og naut þar með hreyfingar og útivistar. Svo varð stigagangurinn í blokkinni ljómandi trimmstigi fyrir hana þegar hún eltist.

Til lærdóms

Hvernig minnistu Sólborgar Huldu Þórðardóttur? Hvað viltu muna? Hvað eflir þig og verður þér lífshvati? Hún var glaðsinna og tók eftir því fagnaðarríka. Er það ekki til eftirbreytni?

Hún var alltaf til í ævintýri – bílferð, matarboð, afmæli. Hún lét aldrei neitt smálegt hindra kátínu og gleði. Er það ekki okkur til íhugunar?

Hún lét ekki áföll og skelfingar slá skugga yfir líf sitt. Hvað getum við numið af slíkri afstöðu?

Hún var tilbúin til að opna fang og huga gagnvart sambýliskonu Þórðar, sem þakkar innilegt viðmót. Hvað getum við lært af því?

Hún elskaði fólkið sitt, börnin, ykkur öll sem kveðjið. Hún viðurkenndi margbreytileika og umbar mismunandi skoðanir. Er það ekki veganesti okkur í heimi, sem er fjölbreytilegur í hugmyndum og trú?

Þurfum við ekki Sólborgarsýn og Sólborgarelsku í lífinu? Hún var engin vingull, vissi nákvæmlega hvað hún vildi, gat og megnaði, hún var heilsteypt – og er ekki mikilvægt að stæla stefnufasta sjálfsmynd með vitund um hvar mörk liggja og að annað fólk hefur líka þarfir sem ber að virða. Getur Bogga orðið okkur hvati til að fara vel með líf okkar, virða þarfir en láta þær ekki flæða yfir aðra? Hún var kunnáttusöm í samskiptum og leitaði mannfagnaðar og tjáði skýrt jákvæðni og elsku sína. Er ekki í því fólginn hvati og viska til eftirbreytni? Hún kunni að þakka fyrir sig. Hvernig umgöngumst við fólk, sjálf okkur og gæði lífsins? Þurfum við ekki að æfa okkur svolítið betur í þeirri sjálfsögðu og mikilvægu lífskúnst – að þakka?

Sólborg himins

Nú eru skil orðin. Sólborg Hulda Þórðardóttir lést 11. júní síðastliðinn á heimili sínu í Sóltúni. Hún smellir sér ekki lengur í ferð með þér, hún kemur ekki lengur niður, hún laumar ekki kjötbita til ferfætlinganna eða sokkum á kalda barnafætur. En hún verður áfram fordæmi, vefur þig umhyggju og elsku. Vettlingarnir og værðarvoðirnar eru hljóðlát tákn um afstöðu til lífsins, um að lífið er til að lifa því og lífið er sterkara en dauðinn.

Hún bar í sér, nafni sínu og verkum afstöðu himinsins, að lífið er borg sólar, er ætlað að vera sólfang til góðs. Nú er hún sjálf í himinljósinu. Gagnvart mörkunum miklu er það til styrktar að hugsa um hana með Adólf, með dætrum sínum, með ættboganum öllum á þeim miklu Hulduhólum eilífðar, í Sólborg himinsins.

Guð geymi Sólborgu Huldu Þórðardóttur. Guð geymi þig í sorg þinni og lífi.

Minningarorð í Háteigskirkju 24. júní, 2009. Duftker jarðsett í Ólafsvíkurkirkjugarði.

Æviyfirlit

Sólborg Hulda Þórðardóttir fæddist á Hellisandi 28. júní 1914, hún lést fimmtudaginn 11. júní síðastliðinn á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Foreldrar hennar voru María Guðbjörg Sigurgeirsdóttir, f. 2. júní 1885, d. 28. maí 1967 og Þórður Árnason, f. 23. mars 1880, d. 30. nóvember 1922. Hún var alin upp hjá móðurforeldrum sínum Guðríði og Sigurgeir.

Systkini Sólborgar voru: Guðlín Laufey Þórðardóttir, f. 1912, d. 2006. Olgeir Guðberg Þórðarson, f. 1915, d. 1997. Ólafur BjartdalÞórðarson, f. 1917, d. 1995. Árni Bergmann Þórðarson, f. 1919, d. 1985. Sigurgeir Þórðarson, f. 1922, d. 1922.

Maður Sólborgar var Adólf Ásbjörnsson, sjómaður í Ólafsvík, f. 27. október 1910, d. 13. febrúar 1942. Foreldrar hans voru Ragnheiður Eyjólfsdóttir, f. 1877, d. 1959 og Ásbjörn Eggertsson, f. 1874, d. 1957, Sólborg og Adólf áttu fjögur börn:

Guðríður, f. 1936, d. 1936

Ragnheiður, f. 1937, d. 1937

Þórður Marteinn, f. 14 nóvember 1938. Hann var kvæntur Hönnu Jónu Margréti Sigurjónsdóttur, f. 13. febrúar 1942, d. 6. maí 2005. Sambýliskona hans er Elsa Jóhanna Gísladóttir, f. 24. janúar 1941.

Börn Þórðar og Jónu eru: Margrét Þórunn, f. 26. febrúar 1960, d. 3. desember 1960. Sólborg Hulda, f. 10. júní 1961, gift Atla Karli Pálssyni,  f. 5 maí 1963, dóttir þeirra er Margrét Heba, f. 30. október 1997. Sigurjón, f. 8. mars 1963, kvæntur Hrafnhildi Garðarsdóttur, f. 9. mars 1962, börn þeirra eru Garðar Hrafn, f. 12. mars 1985, Kristinn Örn, f. 29. ágúst 1992 og Hanna Jóna, f. 20. ágúst 1999. Ragnheiður Margrét, f. 2. júlí 1964, d. 28. júlí 2008, gift Jóni Oddi Magnússyni, f. 31 október 1959, börn þeirrraeru: Margrét Þórunn, f. 26. janúar 1981, sambýlismaður hennar er Björgvin Fjeldsted, f. 26. september 1976, synir þeirra eru Óliver Dofri, f. 27. nóvember 1998 og Mímir Máni, f. 22. maí 2004 og Þrymur Orri, f. 2. nóvember 2005.

Þórður Ingi, f. 22. október 1988. Áslaug Þóra, f. 22. september 1992. Sigrún Ósk, f. 17. september 1995 og Hanna María, f. 5.desember 1996.

Gróa María, f. 16. júní 1967, gift Baldvini Kárasyni, f. 7. nóvember 1967, synir þeirra eru Páll Helgi, f. 22. mars 1999 og Gísli Marteinn, f. 12. febrúar 2002

Adólf, f. 4. janúar 1942, kvæntur Moniku Magnúsdóttur, f. 11. nóvember 1942,

Börn þeirra eru: Ragnheiður María, f. 11. júli 1967, gift Brynjari Guðbjartssyni, f.  19. janúar 1966, börn þeirra eru Iðunn, f. 18 nóvember 1993 og Ari, f. 7. mars 1996.

Magnús Már, f. 9. mars 1970, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur, f. 17. febrúar 1970, börn þeirra eru Óttar Már, f. 11. ágúst 1994 og Ólöf, f. 26. júní 1997.

Steinunn. f. 7. nóvember 1972, sambýlismaður hennar er Valdemar Sæberg Valdemarsson, f. 22 júlí 1971, dóttir þeirra er Ída María, f. 1. janúar 2008.

Soffía, f. 3. október 1983, sambýlismaður hennar er Ólafur Sverrir Kjartansson, f. 7, desember 1983, dætur þeirra eru Saga Guðrún, f. 29. október 2004 og  Arney Vaka f.  22. mars 2007.

Sólborg ólst upp hjá móðurforeldrum sínum á Hellisandi. Hún var búsett í Ólafsvík þar til maður hennar lést en eftir þann tíma bjó hún í Reykjavík. Frá 1959 var heimili hennar í Stigahlíð 18 þar til hún fluttist í Lönguhlíð 3 fyrir tveimur árum síðan. Síðustu sex mánuðina naut hún umönnunar að Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Sólborg starfaði ung við ýmis þjónustu- og fiskvinnslustörf en lengst af við saumastörf  í saumaverksmiðjum eftir að hún fluttist til Reykjavíkur.

Útför Sólborgar Huldu frá Háteigskirkju miðvikudaginn 24. júní, 2009.