Hinrik Jónsson – minningarorð

Hinrik hafði gaman af kvikmyndinni Mamma mia með öllunum Abba-lögunum. Þegar hann átti erindi út setti hann gjarnan Abbadisk í spilarann í bílnum. Svo brosti hann breitt, leyfði tónlistinni að flæða um vel kynntan bílinn og í góðum takti ók hann það sem hann þurfti. Hinrik hafði lært á gítar ungur, fór með félögunum niður í bæ og keypti sér rafmagnsgítar. Svo færði Mary síðar músík í hans líf. Og sumt var árstíðabundið. Þegar fór að nálgast afmælið hans þann þrettánda og lýðveldisafmælið sautjánda júní fannst honum við hæfi að syngja eða spila: “Hæ, hó jibbí jei og jibbíjei…o.s.frv.”

Þegar við, sem upplifðum Abbaárin og abbabylgjuna á sínum tíma, horfum á myndina Mamma mia þá vakna ýmsar tilfinningar, upplifanir, minningar og líka stemming. Lífið er fjölskrúðugt, já vissulega flókið, margbreytilegt, alltaf eitthvað um að vera, stundum líka óhamingja og átök, en í bland með öllu þessu góða og stórkostlega, sem vert er að minnast og þakka fyrir.

Abba er eitt, og mamma mía er því tengt – nöfnin, heitin – hvað segja þau okkur? Mamma og pabbi. Jú, þau benda til upphafs okkar allra, en svo líka enn lengra og til þess sem er mun stærra.

Hvernig hugsar þú um Guð – er það ekki annað hvort í mynd eða gegnum mynd mömmu þinnar eða pabba eða einhvers sem hefur verið þér góður eða góð? Hvaðan kemur nafnið abba? Meðlimir söngflokksins eiga stafina sína þarna. En á bak við þau og nafnið er löng abbahefð, ekki bara í músík, heldur í bókmenntum, myndlist, kveðskap og trúarhefð. Af hverju? Vegna þess, að þegar Jesús Kristur kenndi vinum sínum og lærisveinum að biðja þá vildi hann kenna þeim að biðja persónulega og nákomið. Nafnið, sem hann vildi að menn notuðu til að ávarpa Guð var einfaldlega abba – þetta ávarp sem öll heimsins börn læra að nota á foreldri sitt. Abba- pabbi – þú sem ert mér svo nákominn. Það er risadýptin og hæðin í abbahefðinni.

Fjall – tjald Guðs

Hinrik kunni bæði að syngja abba og segja Guð, faðir í trúarlegum skilningi. Fólkið hans og fjölskylda hefur sagt mér, að Hinni hafi gjarnan lesið í Biblíunni. Og þegar henni er flett að honum látnum kemur í ljós, að hann átti sér ýmsa uppáhaldsstaði og uppáhaldsíhugunarefni.

Áðan las ég 15. Davíðssálminn sem var í sérstöku uppáhaldi hjá Hinna. Þetta er merkilegur sálmur og það er íhugunarefni af hverju hann hreifst af þessum sálmi framar mörgum öðrum í þessu merkilega safni sem Davíðssálmarnir eru. Þetta er ekki langur sálmur, en ristir djúpt – ristir allt í kviku veraldar og mannlífs. Þessi ljóðbæn byrjar með spurningu – og endar með svari. Á milli er síðan ígrundað hvað mannlífið er og hvernig það ætti að vera. Til hvers lifum við? Hvað erum við og hvað gerum við í lífinu svo við lifum vel? Þetta var það sem Hinrik Jónsson glímdi við alla tíð og þetta var það, sem hann varð svo sannarlega að svara og iðka þegar hann var borinn auri og varð að bregðast við ranglæti sem hann varð fyrir.

Upphafsspurning sálmsins er: „Drottinn, hver fær að leita hælis í tjaldi þínu, hver má dveljast á þínu heilaga fjalli.”  Í því felst spurningin: Þú, himneski pabbi alls lífs, hvernig á ég að lifa svo ég lifi vel? Og síðan kemur svarið skýrt og klárt: Þú skalt ástunda réttlæti, tala sannleika, forðast að vera rógberi. Gerðu ekki öðrum illt, gættu þess að vera sannur í iðju þinni, forðastu að þiggja mútur. Sérðu ekki Hinna í þessari speki sálmsins? Reyndi hann ekki alltaf að lifa vel og með góðum og ábyrgum hætti?

Hann var ekki alltaf heppinn í lífinu, stundum lenti hann í vandkvæðum, en hann reyndi alltaf að sjá hið góða í samferðafólki sínu, reyna að sjá betri hliðina fremur en illsku og pretti. Og svo segir í Davíðssálminum: „Sá, sem þetta gerir er óhultur að eilífu.”

Sókn Hinriks til ljúfmennsku, löngun til að hjálpa, vilji til að sjá hið góða einkenndi hann. Þannig stimplaði hann sjálfan sig inn í hið eilífa Abba, hið vonarríka mamma mía himinsins, hina eilífu tjaldbúð.

Verk mannsins skila mönnum ekki sjálfkrafa inn í himininn. “Do it yourself” var einu sinni áherslan. Við smíðum þó ekki sjálf lyklana að gullna hliðinu. En við menn ákveðum sjálf hvernig við lifum. Hinni hafði ákveðið gerð lífsins og vildi lifa til góðs.

Æfistiklur

Hinrik Jónsson fæddist 13. júní árið 1961. Foreldrar hans eru Jón Hinriksson og Unnur Sigríður Björnsdóttir. Faðir hans er látinn. Systkini hans eru Björn, Ragnheiður og Garðar. Hinrik ólst upp á Seltjarnarnesi, sótti þar skóla, naut útivistarmöguleika og samfélags á Nesinu til fullnustu. Fjaran, hæðin og holtin voru stórkostlegur vettvangur leika. Skólarnir voru góðir og mannlífið fjölskrúðugt. Hinrik var strax dugmikill, hugumstór, verkafús og kröftugur strákur. Þær persónueigindir fylgu honum til fullorðinsára. Foreldrarnir lögðu dug til síns fólks og barnahópurinn var nægilega fjölbreytilegur til að skerpa línur. Hinrik var bráðþroska og uppátækjasamur. Mamman hélt vel um barnahópinn og pabbinn varð þeim fyrmynd sjálfbjarga dugnaðar og þors. Þann arf tók Hinrik til sín og veitti áfram.

Vinir Hinriks voru líka sjálfbjarga hópur. Þegar þeir komust yfir do it yourself – bók um bátasmíði tóku þeir við sér. Svo voru þeir í langan tíma að smíða haffæran spíttbát, sem þeir kölluðu því stóra nafni “Gyðjan.” Þegar búið var að ganga frá öllu, tengja stýrið, koma fyrir mótor og fara í vestin var ekkert að vanbúnaði. Svo var bara stímað til hafs. Þeir félagar voru ekkert að tilkynna stefnuna hugsanlegum bannvöldum, eins og mömmu eða pabba, en lengst fóru þeir alla leið til Keflavíkur.

 Gyðjan hefur því verið gott skip og haffærnin og lægnin nægileg til að allir komu þeir aftur. Það hefur ekki farið hjá því, að þeir æskufélagar uppgötvuðu hæfileika sína, hvað góðir smíðisgripir gátu þjónað vel og veitt mikla skemmtun. Sporjárn, hefill og hamar heilluðu. Það var engin efi í huga Hinna – hann vildi gjarnan leggja smíðar fyrir sig.

Eftir skólagöngu á Nesinu fór hann, Theodór, vinur hans, og fleiri í Iðnskólann haustið 1977. Hinni eignaðist þar góða vini og varð hluti af hóp, sem síðan hélt vel saman. Hinrik naut þeirra allt til enda og hópurinn biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Vert er að nefna nöfn nánustu vina Hinna, þeirra Theodórs, Kjartans, Guðmundar og Víðis og þakka þeim vináttu og ræktarsemi alla tíð. Lof sé ykkur.

Hinrik lagði húsgagnasmíði fyrir sig, varð völdundur, hafði síðan atvinnu af smíðum, kom víða við, og varð ekki aðeins húsgagnasmiður heldur líka húsasmiður og meistari í sínum greinum.

Hinrik var hugmyndaríkur og fljótur til framkvæmda. Hann hafði jafnan trú á fólki, valdi að sjá möguleika og björtu hliðarnar. En það kom honum stundum í koll að treysta orðum fólks, að trúa því að aðrir væru eins vel innrættir og hann sjálfur. Við getum sett okkur í þau spor, við erum sem samfélag og þjóðfélag að súpa kreppuseiði þess konar trausts gagnvart fólki sem reyndist ekki traustsins vert.

Hinrik var kunnur fyrir dugnað sinn og í minnum er haft hve afkastamikill hann var. Hann setti t.a.m. upp innréttingar í blokk hér í Vesturbænum ásamt félaga sínum. Og það munu ekki margir leika eftir þeim að setja upp allar innréttingar í þrjár íbúðir á einum degi. Það gerðu þeir dag eftir dag svo verklægnin hefur stýrt og hraðinn hefur verið mikill!

Fjölskyldan og börnin

Hinrik var sá lánsmaður, að eiga góða fjölskyldu og góða að. Foreldrarnir veittu börnum sínum gott veganesti og hann varð sjálfur natinn faðir fjögurra barna. Elst er Mirjam og síðan kom Ramona, sem Hinrik eignaðist í fyrra hjónabandi sínu. Hann gladdist mjög við fæðingu stúlknanna, en móðir þeirra meinaði honum eftir nokkurn tíma að njóta samvistanna með þeim. Það varð honum mikið sorgarefni. Dætur hans hafa lengstum búið í Noregi. Hinrik eignaðist síðan Auðunn Þórarinn með Friðrikku Guðnýju Guðnadóttur. Auðunn er búsettur í Svíþjóð, en var gjarnan með föður sínum þegar hann var á Íslandi.

Hinrik kynntist á örlagatíma ævinnar Mary Campell, þá fiðluleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands og síðar skólastjóra Suzukiskólans. Hinrik bauð henni upp á Þórscafé og síðan vildi hann gjarnan fá að vera með henni og dansa lífsdansinn. Þau gengu svo í hjónaband í september árið 1989. Mary reyndist Hinna hið besta, færði honum útsýn, írska festu, umhyggju og nánd og fæddi honum líka soninn Jón, sem varð Hinna þeim mun mikilvægari þegar hann var bundinn heima vegna fötlunar sinnar.

Hinrik lenti í slysi í febrúar 1996, sem væntanlega allir viðstaddir vita um. Á hann var ekið þegar hann var að ganga yfir götu í miðbænum. Afleiðingarnar voru skelfilegar, hann höfuðkúpubrotnaði og varð fyrir margháttuðum skaða, sem varð til að honum voru allar atvinnnubjargir bannaðar, hann var sárþjáður og þjakaður. Mary reyndist honum stórkostlega og er henni þökkuð öll þjónusta hennar fyrr og síðar við Hinrik, ósérplægni og umhyggja.

Heilsuleysið reyndist Hinrik þungbært og erfiður krossburður. Ýmsir líkamskvillar ágerðust og hann gerði sér grein fyrir að heilsa hans var á hættumörkum. Svo ýtti hann á öryggishnapp sinn sjálfur hálfum mánuði fyrir 48 ára afmælið, en þegar hjúkrunarlið bar að var hann allur.

Hinrik elskaði börnin sín, elskaði lífið, unni sínu fólki, naut Mary, sá inn í eilífðina, hafði auga fyrir fegurð og samhengi hluta og forma. Hann var vænn vinur, góður félagi, verkmikill í vinnu og góðgjarn maður. Hann rækti fjölskyldutengslin eins og hann mátti og gat. Hinni þakkaði alltaf vel fyrir sig, tjáði skýrt þakkir sínar, faðmaði með ákefð og tók fast í hendur.

Ýmsir hafa haft samband og beðið fyrir kveðjur: Miriam, dóttir Hinriks er í Noregi og ber ykkur kveðju sína. Jóhann Guðmundsson og Valgerður Guðmundsdottir, frændsystkin Hinriks, komust ekki heldur til þessar kveðjuathafnar en biðja fyrir kveðjur. Margrét Garðarsdóttir er og fjarri og biður fyrir kveðju.

Elífðin

Nú eru hin algeru skil: „Drottinn, hver fær að leita hælis í tjaldi þínu, hver má dveljast á þínu heilaga fjalli?” Sá sem gengur í flekkleysi og ástundar réttlæti og talar sannleik af hjarta, sá sem ekki ber út róg með tungu sinni, gerir náunga sínum ekki illt…Sá sem þetta gerir er óhultur að eilífu.”

Hverju skilar vinnan? Jú, gleði, en kannski ekki alltaf mikilli eftirtekju. Hverju skila gæði lífsins, jú ánægju en ekki endanlegri. Öllu eru nokkrar takmörkunarskorður settar. Og hvað er þá eftir? Það er eilífðin. Hinrik hafði þegar vendilega mælt út skika lífs og hamingju. Og hann bæði trúði og vissi að meira var, hið heilaga fjall, flott bygging, glæsilega snikkuð, með handverki fullkomnunarinnar, vonarland. Þangað stefndi Hinrik. 

Ekki veit ég hvort abba hljómar í tjaldi hinnar eilífu sumarhátíðar en ég get fullvissað ykkur um að abba er á himnum. Hinni þekkti sinn föður, kunni sitt trúarabba og bænamál – vissi alveg hverju kristin kenning heldur fram um dýrðina hið efra. Við vitum ekki hvernig himinlífið er í smáatriðum en við vitum að þar er abba og mamma mía trúarinnar, þar er Jesús og þá er allt sagt sem máli skiptir – Guð.

Guð faðir, sonur og heilagur Andi geymi Hinrik í eilífu ríki sínu. Guð geymi þig, styrki og verndi. Amen  – í Jesú nafni.

Minningarorð í Neskirkju við útför Hinriks Jónssonar, 11. júní 2009.