Hanna Soffía Blöndal – minningarorð

Hanna hlær ekki lengur en gleðin hennar lifir. Hanna horfir ekki lengur ástaraugum á þig en elskan lifir samt í þér, í veröldinni.

Gleðin

Hanna Soffía Blöndal. Hvernig var hún? Hvernig minnistu hennar? Mannstu eftir henni í mannfögnuði, þegar útgeislun hennar var slík, að hún var sem segull og dró að sér glatt fólk. Hanna var ekki fyrr komin en gáskinn jókst, sögur flugu og hlátur hljómaði. Hanna var svo skemmtileg, hún sagði svo vel frá, hún var svo fyndin eru umsagnirnar sem berast mér. Það er merkilegt, að hlusta á sögurnar um Hönnu og vermir hve mikil hlýja býr að baki. Sammerkt er öllu hennar fólki, að þegar það talar um Hönnu fæðist bros, augun þeirra lifna, svo kemur skemmtileg saga, og svo kannski elskutár sem fylgja. Já Hanna Soffía Blöndal var sem engill gáska og elsku í lífi sinna og þeirra mörgu, sem kynntust henni. Hennar hringur spannaði lífsgleði, lífsgæði og hlátur.

Svo hittir sorgin, hið skyndilega fráfall er ykkur þungbært. En þegar við missum sækja að áleitnar spurningar um til hvers við lifum. Er ekki sú gleði, sem Hanna tjáði og miðlaði mikilvæg lífinu? Jú, svo sannarlega, slík gæði eru alltaf nauðsyn en lífsnauðsyn þegar saumað er að okkur og hriktir í hring og vörn mannfélags.

Hvernig viljum við lifa? Enginn sleppur við áraun og erfiðleika. En það tekur heldur enginn frá okkur réttinn til að ákveða hvernig við bregðumst við. Við getum tekið ákvörðun um að lifa með hamingjuna að förunaut, að ganga ljóssins megin á götu lífsins en ekki “fortóinu” skuggamegin.

Biblían er lífsbók

Hvað um lífsskoðanir og trú? Frá fyrstu blaðsíðu staldrar Biblían við hið jákvæða og bregst við hinu neikvæða. Táknmálið er allt um að gleðin sé mál Guðs. Ljós skín í myrkri, líf rís upp af dauða, grösin spretta upp úr auðn, elskan er sterkari en hatrið. Guð berst alltaf gegn eyðingunni. Í Biblíunni er hláturinn tákn lífsins. Kátínan hljómar jafnvel í nöfnum blíuhetjunnar Ísak, sem þýðir Guð hló. Og gegn voða heimsins elskar Guð. Saga Jesú Krists er ástarsaga, – það er saga um að Guði þykir svo vænt um þig, um veröldina. Og nafnið Hanna þýðir Guðs elskaða og blessaða. Soffía er viska og hin mesta viska lífsins er að þekkja Guð.

Getur verið að hugsanir þínar um Hönnu, minningar um gæði, vinsemd, elsku og fögnuð séu rödd Guðs, hvísl Guðs til þín? Var ekki líf hennar ljósbrot himinsins, eitthvað dásamlegt við gjafir hennar, hispursleysi og kátínu?

Upphaf og fjölskylda                

Hanna Soffía Blöndal fæddist í Reykjavík 13. september árið 1933. Hún lést á heimili sínu 31. október síðastliðinn, aðeins 75 ára. Foreldrar hennar voru Ragnar Blöndal og Ilse Blöndal Luchterhand. Hún var af íslenskum og þýskum ættum komin, heimur hennar var stór þegar í kynfylgju hennar.

Hanna ólst upp í fjölskylduhúsinu á Túngötu 51. Systkini hennar eru Valdís og Kjartan Blöndal. Fjölskyldan varð fyrir þungu áfalli þegar Ragnar lést liðlega fertugur. Börnin voru ung en amman sterk og naut stuðnings fjölskyldunnar, Valtýr, bróðir Ragnars, reyndist þeim mikill stuðningur og Rósa, vinnukonan á heimilinu, umvafði ungviðið.

Þegar Hanna var útskrifuð úr Kvennaskólanum opnaðist veröldin henni. Hún ákvað að fara á góðan húsmæðraskóla í Holte í Danmörk. Addý systir hennar og Birgir, maður hennar, höfðu verið í námi ytra og Birgir bað bróður sinn, Hörð Frímannsson, sem var byrjaður í verkfræðinámi á Danmarks Tekniske, að líta eftir Hönnu. Já, Hörður hefur alla tíð vandað sig í lífinu og svo vel leit hann eftir Hönnu, að þau gengu í hjónaband 11. apríl 1953.

Þeim, Hönnu og Herði varð fjögurra barna auðið. Elsa er elst. Hennar maður er Pietro Schneider. Þau eiga tvö börn. Næst kom Hjördís, gift Guðmundi Tómassyni. Börn þeirra eru þrjú. Björn er þriðji í röðinni, kvæntur Bryndísi Ólafsdóttur og þau eiga fjögur börn. Kristín Erla er yngst, gift Stefáni Erlingi Helgasyni. Þeirra börn eru tvö. Afkomendur þeirra Hönnu og Harðar eru sautján og þar af tvö langömmubörn, sem glöddu ömmuna ósegjanlega. Þau Hanna og Hörður nutu því barnaláns, fjölskylduláns en líka fjölskyldufagnaðar.

Lífsstiklur

Fyrstu árin bjuggu þau í Kaupmannahöfn. Hörður lauk námi og Hanna fór að vinna. Svo fóru þau heim. Meira nám var í vændum, MIT, sem Hörður kallaði reyndar hnyttilega Almighty, var í sikti. En Elsa var á leiðinni og hún skipti sér ekkert af þótt pabbinn ætti að vera mættur í skóla vestur í Ameríku og kom með sínum hætti. Engar fortölur dugðu á hana og ekkert þýddi að hristast með hana í bíl yfir þvottabrettin. Hún kom í heiminn eftir upphafsdaga pabbaskólans í ágúst 55. Glaður pabbinn gat svo drifið sig vestur og farið að reikna. En Hanna var heima, en fór svo á eftir bónda sínum. Svo komu þau aftur, börnin komu í heiminn eitt af öðru, lífið varð skemmtilegra og fjölbreytilegra – og auðvitað annaríkara.

Ýmis störf

Þau Hanna hugsuðu vel um bú og börn. Hún var glaðsinna, kraftmikil, fús til samskipta, skapaði kjöraðstæður fyrir sína, veitti tilfinninganánd og hlýju. Börnin uxu svo úr grasi, Hanna fór að vinna utan heimilis. Vegna félagsfærni hennar var eftir kröftum hennar leitað. Rauði krossinn og góðgerðafélagið Hringurinn nutu starfa hennar. Um tíma afgreiddi Hanna í sölubúðinni á Landspítalanum og tók þátt í söfnunum með krafti. Fólkið hennar lærði takt Hringsins og heyrir kallið þótt Hanna sé fallin frá. Hringskonur sjá á eftir styrkum félaga og þakka þjónustu hennar.

Í Sóltún

Þegar Hörður missti heilsu sína á besta aldri var Hanna honum stoð og styrkur. Svo fluttist hann á hjúkrunarheimilið Sóltún. Þar hefur honum liðið vel og notið aukinna lífsgæða. Íbúar og starfsfólk á þriðju hæð hjúkrunarheimilisins hafa beðið fyrir kveðjur og þakka samfylgdina. Hanna bjó um tíma áfram í Skaftahlíðinni þar sem hún var í 45 ár, en flutti svo í Sóltún til að geta verið nær Herði, sem nú sér á bak konu sinni eftir meira en hálfrar aldar gæfuríkan og góðan hjúskap.

Blöndalssystur

Þáttur Valdísar og Hönnu er sérstakur kafli í lifi beggja sem og fjölskyldna þeirra. Þær systur giftust bræðrum. Samgangur fjölskyldnanna var ætíð mikill, samvinnan góð og kraftur systranna duldist engum. Þær systur nutu gleðisóknar bernskuheimilisins, lífmikillar móður, kunnáttu til að hleypa heimdraga og hæfni í samskiptum. Þær fóru að ferðast meira saman á síðari árum og höfðu styrk af hvor annarri. Blöndalssysturnar voru í uppáhaldi, hrókar fagnaðar, alltaf glæsilegar. Þær voru svo  nánar að þær notuðu jafnvel vísakort hvor annarrar. En ekki hafa þær átt I neinum erfiðleikum með að gera upp! Missir Addýjar er mikill og margþættur.

Dýrmæti lífsins

Hanna var fagurkeri og heimili þeirra Harðar var glæsilegt og allt gott í umhverfi Hönnu. En mestur auður hennar var í fólkinu hennar. Hennar gæfa og gleði var í börnum, velferð þeirra, að styðja þau til manns, benda þeim til vegar, segja þeim skoðanir sínar með lagni og gera það sem hún gæti til að tryggja hamingju þeirra. Hanna gat meira segja sagt ástföngnum karli kosti og lesti á dóttur sinni, en það hindraði hann ekki í að sækja enn fastar. Og svo þegar barnarbörnin komu var Hanna alla tíð reiðubúin að þjóna þeim með sömu lífsgleðinni og foreldrum þeirra. Og alltaf átti hún eitthvað handa þeim, til að gefa, gleðja eða næra með. Fyrir það allt þakka þau og stórkostlegt er það að eiga svona mömmu, tengdamömmu og ömmu, sem tjáir með lífi sínu hver verðmætin í veröldinni eru og hvernig skal með þau farið. Lífið er til að njóta og rækta hamingjuna. Hanna var boðberi, sendiboði, já engill gleðinnar.

Fólkið hennar þakkar Hönnu samfylgdina. Kveðjur hafa borist frá ættingjum og vinum, sem ekki geta verið við þessa athöfn. Frímann Ólafsson og Margrét Þórarinsdóttir, sem eru í Perú, biðja fyrir kveðjur. Og kveðjur hafa borist frá Fríðu, Gunnari og fjölskyldu í Ástralíu.

Hringurinn lokast

Hringurinn er lífs- og eilífðartákn. Nú er hringur lífs Hönnu lokaður. Nú er líf hennar innrammað og himlað eins og sagt var á heimilinu. Hanna var stolt og vildi ekki vera öðrum háð. Hennar háttur var fremur að gleðja, þjóna og fagna. Hennar verklag var að ljúka sínu með fegurð og stíl. Æfi hennar lauk skyndilega, án fyrirvara en með skýrleik. Hispurleysi var Hönnu eiginleg alla tíð og líka í dauðanum. Kvöldið fyrir dauðann fagnaði hún haustinu með Herði í veislu á hjúkrunarheimilinu, svo fór hún heim og á morngi nýs dags mót vetri fór hún inn í ljósið.

Hanna hlær ekki lengur en gleðin hennar lifir. Hanna horfir ekki lengur ástaraugum á þig en elskan lifir samt í þér, í veröldinni. Hanna skutlar þér ekki lengur neitt, en þú veist hvernig á að þjóna fólki. Hanna miðlar ekki lengur upplýsingum um fjöslkylduna, en þú veist að lekaliður og miðlun um lífið er nauðsynleg til að fólk sé meðvitað og geti líknað. Hanna styður ekki Hringinn lengur en allt hennar fólk veit um mikilvægi sjálfboðastarfa og að heimurinn þarfnast hlýrra handa og nándar. Hanna spanar ekki ættbogann með elsku sinni, ekki Hörð, ekki Addý, ekki börnin sín og tengdafólkið en elskan lifir. Miðvikudagsboðin verða skrýtin án Hönnu en viskan rikír áfram um að maður er manns gaman og enginn lifir sem eyland og einstæðingur. Hanna, Guðs elskaða, hin blessaða, er farin í sína hinstu ferð. Lífið hennar var gott og ferðirnar hennar góðar. Þessi ferð er líka góð því það er ferðin inn í hið stóra samhengi himinsins. Og þar ríkir gleðin hrein. Í því sóltúni himsins á þessi engill gleði og elsku heima.

Guð geymi Hönnu Soffiu Blöndal. Guð geymi þig.

Nóvember 2008.