Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir – minningarorð

Getur verið að elska Guðrúnar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að faðma komi úr lífsmiðjunni sjálfri? Útför Guðrúnar var gerð frá Neskirkju 27. maí 2008.

 Elskaði Guð

Í Jóhannesarguðspjalli standa orð, sem margir þekkja og Lúther kallaði Litlu Biblíuna. „Því svo elskaði Guð…” Hvað elskaði Guð? „Því svo elskaði Guð heiminn…” Af hverju? „…til að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.”

Þetta er jákvæðni Guðs að meta alla, elska fólk, gæta veraldarinnar og vekja hug fólks til góðs lífs. Svo opnar Guð fangið gagnvart öllum og þannig var Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir líka.  

Samband Guðs við veröld og menn er ástarsaga, saga um lífsgleði, sem umvefur allt og líka þessa góðu konu, sem við kveðjum í dag. Hún var boðberi þeirra góðu afstöðu, að þessi heimur er gerður fyrir líf og gleði þrátt fyrir, að margir gleymi því í erli og átökum daganna.

Ætt og uppruni

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir fæddist á Ferjubakka í Öxarfirði 27. maí 1920 og er jarðsett á afmælisdegi sínum.

Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Mikael Gamalíelsson og Aðalheiður Björnsdóttir. Hún var miðbarn þeirra. Elst er Birna og yngstur var, Arnbjörn, sem er látinn. Birna lifir ein systkini sín.  

Guðrún ólst upp í Öxarfirði. Ferjubakki var menningarheimili. Þegar foreldrarnir, Ólafur og Aðalheiður, hófu búskap þar var ekki lengur þörf á að ferja fólk og fé yfir Jöklu því  hún var þegar brúuð og hafði verið frá upphafi 20 aldar. Ferjubakki var í þjóðbraut. Stutt var einnig í prestssetrið á Skinnastað. Systurnar áttu oft leið þangað og pössuðu börn prestshjónanna. Sr. Páll Þorleifsson, sá merki klerkur, hafði ekki ætlað að vera lengi í Öxarfirði, en sagði síðar að þegar hann hafði kynnst menningarbrag fólksins  hafi hann uppgötvað að hann hefði ekkert betra að sækja burt. Þetta segir það, sem segja þarf til skilnings á uppeldisumhverfi. Sveitarbragur í Skinnastaðaprestakalli var rismikill. Bækur veraldar áttu leið í Öxarfjörð og rötuðu líka í Ferjubakka. Foreldrarnir tóku vel við, voru bókhneigð og börnunum var innrættur manndómur, fróðleikssókn og ljóðelska. Pabbinn var hagmæltur. Heimilisbragurinn var hlýlegur, hjónaband foreldranna var gott. Tengsl voru því gjöful. Guðrún gerði sér æ betur grein fyrir hvað gott heimilislíf merkir þegar hún bar rótslitin heimili við lífið heima. Á Ferjubakka var lögð áhersla á að fólk ekki aðeins borðaði saman heldur deildi geði, hugmyndum, tilfinningum og sögum. Þegar úti- eða heimilis-verkin kölluðu ekki var setið lengi og mörgu miðlað.

Auk hefðbundins búsmala átti Ferjubakkafólkið geitur, sem ungviðið á bænum kunni vel að meta og þótti gaman að fara uppá hól og kalla „kiða kið” sem skepnurnar gegndu.

Skóli og vinna

Skóla sótti Guðrún í Lund. Þar réð ríkjum Aðaldælingurinn, Dagur Sigurjónsson frá Sandi. Í skóla var Guðrún í þrjá vetur og lauk sínu grunnnámi fyrir fermingu. Hún var síðan heima og þjónaði sínu fólki.

En svo fóru þær systur að sækja suður. Þær unnu um tíma í Farsóttarhúsinu, hjá Maríu Maack, en smituðust af mislingum og fóru heim. En svo gerðu þær aðra tilraun, og fengu vinnu í West End í Reykjavík, sem var auðvitað vestast á Vesturgötunni. Brynja var í sjoppunni á jarðhæð en Guðrún vann við matsölu í sama húsi. Um þetta leyti hófst þrautaskeið í lífi Guðrúnar. Hún fór að finna til í baki, en enginn læknir fann ástæðu verkjanna. Að lokum og eftir ítrekaðar skoðanir kom í ljós, að hún var með berkla. Guðrún fór á Landakot. Þegar hún komst til nokkurrar heilsu fór hún heim í Ferjubakka til að ná sér. En síðan veiktist hún aftur og var ár á Landakoti. Víst er, að verkirnir hafa verið reynt í henni stálið. Og þá lærði Guðrún að stjórna geði sínu og tilfinningum og varð stillt og æðrulaus.

Steinþórunn – sólargeislinn

En meðfram líkamsáraun styrktist Guðrún hið innra og þroskaðist. Hún var tilbúin til að takast á við stórvirki ævi sinnar. Steinþórunn Karólína Steinþórsdóttir, frænka hennar kom barnung í Ferjubakka og Guðrún, ásamt gömlu hjónunum, tóku hana að sér. Guðrún varð svo ábyrg fyrir þeirri stuttu, sem kallaði hana Guldu. Og Steinþórunn var sólargeislinn hennar og Gulda varð samhengi hennar, fang og móðir.  

Framnesvegurinn

Fyrstu árin voru þær fyrir norðan heima á Ferjubakka til 1964 er þær fóru suður, bjuggu fyrst á Smáragötunni og svo keypti Guðrún íbúð vestur í bæ, á Framnesvegi 10. Foreldrar Guðrúnar brugðu búi, komu suður og saman fluttu þau öll inn í íbúðina á Framnesvegi.

Þjóðleikhúskjallarinn og Grund

Áður hafði Guðrún unnið á prjónastofu en fór svo að vinna í Þjóðleikhúskjallaranum. Frá 1967 vann hún svo á elliheimilinu Grund, líkaði vel vistin og kærleiksþel hennar fékk notið sín við þjónustu við gamla fólkið. Á Grund vann Guðrún þar til hún var orðin 71 árs, eða 24 ár.  

Elskusemin

Það er gott að hlusta á fólkið hennar Guðrúnar tala um hana og eigindir hennar. Eldri sem yngri ber saman um elskusemi hennar. Hún var dýravinur og lagði áherslu á helgi lífsins og vel væri farið með allar skepnur. Og hún var mannvinur. Allir voru velkomnir í hennar hús, krakkarnir í hverfinu sóttu í að fá að koma til Guldu og hún átti oftast kakó og bakkelsi handa þeim.

Faðmur kynslóða

Hún endurgalt uppeldi og elsku foreldrahúsa og studdi foreldra sína aldraða. Guðrún kom Steinþórunni til manns, studdi hana með öllum sínum ráðum og dáð. Svo þegar hún stóð á krossgötum í lífinu tók hún við henni með tvö börn. Guðrún Heiða og Ólafur Fáfnir nutu Guldu. Hún hafði þol og langlyndi til alls, sem bernska þeirra bar með sér. Svo þegar þau uxu úr grasi opnaði hún fangið gagnvart enn nýrri kynslóð. Ólafur og Sigrún eiga Snorra Má. Og Guðrún Heiða og Bjarni maður hennar eiga Alexöndru og Sindra Frey. Þau urðu Guðrúnu augasteinar. Og þau missa líka mikið. Þau hafa mikið að þakka og einnig átti Guðmundur Valberg, maður Steinþórunnar, góð samskipti við Guðrúnu. Öllu þessu fólki er við leiðarlok þakkað allt það góða sem það tjáði Guðrúnu og endurgalt í samskiptum.

Styrkur og tengsl

Guðrún var seig, elskuleg, stóð með öðrum, ekki síst sínu fólki. Hún var glaðlynd og spaugsöm. Hún var skapstyrk en skapgóð, rólynd, vann vel úr málum, jafnlynd, trygg og samviskusöm. Hlý og góð við alla, bæði menn og málleysingja. Hún hugsaði ógjarnan um sjálfa sig, kvartaði ekki, vildi ekki að aðrir hefðu áhyggjur af sér.

Guðrún var bóksækin, fróð og vel að sér um flest. Hún sinnti símenntun, var t.d. í námsflokkunum, lærði ensku og fleira. Kunnáttan skilaði sér í uppfræðslu ungmenna, sem henni stóðu nærri. Hún kenndi börnunum á bók og miðlaði þeim fróðleik, kenndi þeim lífskúnstir, hvort sem það var nú að reima skó eða lesa. Hún var góður kennari og verðlaunaði þegar nemendum hennar tókst vel. Hún hafði hæfni til að umgangast alla aldurshópa. En hún naut líka samskiptanna við fólkið sitt og þær systur, Birna og hún, töluðu saman á hverjum degi, jafnvel oft á dag.  

Hún tók eftir því sem var gott, var sjálf vitnisburður um, að lífið er skemmtilegt. Guðrún var fólki vottur um þann meginboðskap, að lífið er gott.  

Á Hjallaveginn

Guðrún bjó á Framnesvegi til ársins 2000. Þá flutti hún til dótturdóttur, Guðrúnar yngri, á Hjallaveg 4. Þar bjuggu kynslóðir saman. Guðrún eldri fékk notið sín, tók til hendi, naut samvista við sitt fólk og hafði hlutverk. Börnin nutu hennar, hún gaf þeim tengsl við ættarsöguna, fortíðina, menninguna, og gaf þeim innsýn í hvernig fyrri kynslóðir hugsuðu og jafnvel elduðu heimilismat 20. aldarinnar. Unga fólkið gaf henni hlutverk og hún gat stutt þau í námi, tekið á móti þeim þegar þau komu úr skóla og veitti þeim nánd og öryggi.

 Guðrún naut góðrar heilsu lengstum og var ern til lífsloka, fór sinna ferða og oft með strætó niður í miðbæ Reykjavíkur. Hún var á leið heim úr innkaupaleiðangri 2. maí síðastliðinn þegar hún fékk áfall, fór á sjúkrahús og lést svo 13. maí síðastliðinn.

Táknsaga og lífháttur

Við sjáum á bak konu, sem ber líka í sér táknsögu Íslands, – flutti úr sveit í borg og birtir með búsetusögu og atvinnusögu sinni líf- og breytinga-sögu þjóðarinnar á tuttugustu öld. Hún var fjölskyldu sinni samhengi og tengdi saman eldri og yngri kynslóð og var fastur punktur tilverunnar.  

En svo var hún í lífsháttum sínum líka fulltrúi fyrir þroskaða afstöðu. Hvað er það í lífi Guðrúnar, sem þú getur lært af? Þú getur rifjað upp minnisstæð atvik úr samskiptum ykkar. En getur verið, að þú lærir svolítið um Guð í leiðinni? Getur verið að elska hennar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að faðma, fegurðarskyn komi úr næmu hjarta lífsmiðjunnar sjálfrar?

Því svo elskaði Guð

Er ekki lífið fyrir elskuna? Munum, að Guð er einskær ást, umhyggja. “Því svo elskaði…” elskaði hvað? Því svo elskaði Guð Guðrúnu… að hún speglaði elsku til allra. Því svo elskaði Guð þig…. til, að þú verðir farvegur lífsins, ástríkis, birtu og vona.

Hendurnar hennar faðma ekki lengur. Fallegu augun hennar horfa ekki lengur í augu þín. Þú getur ekki lengur hringt í hana eða farið til hennar. Hún er horfin – inn í hina eilífu elsku, inn í hinn stóra ástarfaðm, sem Guð er. Hún er hinum megin við brúna miklu, í Ferjubakka himinsins, þar sem er bara hlátur, góðar fréttir, birta og gaman. Leyfðu minningunni um Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur að lifa í huga þér og næra lífsmátt þinn.

Því svo elskaði Guð, elskaði svo mikið að Guð kom sjálfur til að brúa jöklur heimsins, bjarga okkur öllum. Guðrún minnir okkur á, að Guð er elskhugi, horfir á okkur ástaraugum. Þegar við hugsum um hana má hugur alltaf nema þá hvatningu, að við ættum líka að lifa vel, muna að lífið er ástarsaga. Með því minnumst við vel og leggjum okkar í ástarsögu Guðrúnar.

 Líkræða: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir.  

Útför frá Neskirkju 27. maí 2008.