Geir Jóhann Geirsson

„…það síðasta sem hvarf í djúpið var íslenski fáninn – og það get ég sagt þér að það var ógleymanleg tilfinning. Því verður ekki með orðum lýst – maður varð á einhvern hátt svo tómur allur saman. Allt var svo snautt og autt og manni fannst maður vera svo mikill einstæðingur á þessu augnabliki…” Útför Geirs Jóhanns Geirssonar, Hagamel 30, var gerð frá Neskirkju 9. ágúst 2005. Minningarorðin fara hér á eftir.

Ógn seinni heimstyrjaldar náði líka út á höfin. Geir var á Dettifossi, sem fór sinn síðasta túr frá Belfast í febrúarlok 1945. Hann var sofandi í klefa sínum miðskips þegar hann hrökk upp við þetta feiknarlega “dúndur” eins og hann orðaði það sjálfur. Hann snaraðist í lopapeysu, þykkar vaðmálsbuxur og svo í lífbelti. Síðan tók við barátta að komast uppá dekk. Með snarræði tókst að koma báti út og losa. Skipið sökk á innan við tíu mínútum. Festilínu úr skut björgunarbáts og yfir í brú var höggvin rétt áður en skipið fór niður, engu mátti muna.

Geir stóð svo í björgunarbátnum, horfði á eftir skipinu niður, heyrði sprengingar, fann loftþrýstinginn frá skipinu. Á niðurförinni snérist skrúfan enn. Geir vissi, að einhver höfðu ekki komist á fleka eða í bát. Hann sagði síðar svo frá: “…það síðasta sem hvarf í djúpið var íslenski fáninn – og það get ég sagt þér að það var ógleymanleg tilfinning. Því verður ekki með orðum lýst – maður varð á einhvern hátt svo tómur allur saman. Allt var svo snautt og autt og manni fannst maður vera svo mikill einstæðingur á þessu augnabliki…”

“Úr djúpinu ákalla ég þig.” Þegar allt er rifið burt, allt er á hverfanda hveli, vinir hverfa, félagar fara, skelin um lífið sekkur knýr á spurningin um lífið. Geir lýsir vel þessu ósegjanlega, tómur allur, allt snautt og autt. Þetta er harmurinn, þessi lamandi tilfinning fyrir dauðanum, sem slær. Þögnin eftir ofsann verður djúp. Þegar allt er rifið burt verður hún áleitin og fer inn í kvikuna.

Lífsstiklurnar

Geir Jóhann Geirsson fæddist á Siglufirði 31. október 1917. Foreldrar hans voru Geir Hróbjartsson, járnsmiður og sjómaður, og Helga Sigurðardóttir, húsmóðir. Faðir hans fórst áður en hann fæddist og því ber Geir nafn föður síns. Helga átti athvarf á Hraunum í Fljótum eftir að mannsefni hennar dó og drengurinn þeirra fæddist. Þar var hún í nær sex ár eða þar til þau Jón Guðjónsson hófu hjúskap á Hesteyri við Ísafjarðardjúp. Þar voru þá mikil umsvif, m.a. síldarverkun og Jón var loftskeytamaður á staðnum. Geir eignaðist fjögur hálfsystkin. Þau eru Pálína Jónsdóttir, Guðjón Jónsson, Kristjana Jónsdóttir og Jóhanna Edwald. Þau lifa öll bróður sinn.

Geir sótti skóla á Hesteyri, en fór sextán ára til Þingeyrar við Dýrafjörð, hóf þar vélsmíðanám og lauk þeim hluta sem hann gat vestra. Eftir fjögur ár á Þingeyri fór hann suður og hélt námi áfram í Reykjavík, fór á sjó, á síld, var jafnvel kyndari á togara um tíma í stríðsbyrjun. Á togaranum Júpiter var Geir í tvö ár, fór svo einn túr á Dettifossi til Ameríku og frá vordögum 1943 var hann síðan á því skipi og sigldi á Ameríku og Bretland, allt þar til skipið var skotið niður tæplega ári síðar. Síðan var Geir ráðinn 1. vélstjóri á Selfoss og Kötlu og var starfsmaður Eimskips í samtals 40 ár. Honum var treyst og var n.k. sendiherra Eimskips í Danmörk meðan tvö skip voru smíðuð þar á sjöunda áratugnum. Geir kom í land 1982 en sinnti nokkrum útköllum eftir það. Á árunum 1982-86 starfaði Geir svo hjá Nóa-Siríus.

Eybí og börnin

Eybjörg Sigurðardóttir sá glæsimennið Geir fyrst í Kaupmannahöfn og hvar annars staðar en niður við höfn. Það er rómantískt, að þau hittust þarna í þessari fyrrum höfuðborg okkar við Sundin. Þau hófu hjúskapinn í Sörlaskjólinu og börnin fóru brátt að koma í heiminn. Þegar farið var að byggja á Melunum tóku hjónin ákvörðun um húsbyggingu á Hagamel. Í því voru þau í samfloti með vinafólki sínu, Bjarna og Áslaugu, sem urðu frábærir nágrannar í áratugi. Geir og Bjarni gengu sem hamhleypur í verkin og létu ekki kranaleysi aftra sér. Byggingavinnan var að mestu með gamla talíuhættinum og steypuhræringu á staðnum. En upp fór húsið og Geir gat líka mótað að sínum hætti, jafnvel komið fyrir márískum bogum í stofu eins og hann hafði séð í Casa Blanca. Á Hagamel 30 hefur síðan fjölskyldan búið og þar lést Geir 2. ágúst síðastliðinn, áttatíu og sjö ára að aldri.

Elsta barn Geirs er Nína, sem hann átti fyrir hjónaband, og er hún búsett í Danmörk. Börn Geirs og Eybjargar eru: Þorvaldur, Geir Helgi, Lovísa og Valgerður. Barnabörnin og langafabörn eru samtals 12. Geir var lánsmaður í fjölskyldumálum, Eybí var honum öflug einkona og maki. Geir studdi sitt fólk, hafði gleði af afkomendum sínum – þau hafa öll misst mikið.

Myndin

Hvernig var hann Geir? Hvaða mynd áttu í hug þér? Jú, hann var afar þægilegur í samskiptum, alltaf tilbúinn til samræðu, fylginn sér í umræðum og skoðanaskiptum. Vegna samskiptahæfni kom hann sér hvarvetna vel. Og hann var flottur þegar hann klæddi sig í yfirvélstjórabúninginn og fór í land. Kíktu bara á myndina á sálmaskránni og ekki einkennilegt að vinkonur systra hans héldu að myndin af honum væri af Hollywoodleikara! Gott ef hann var ekki svolítið líkur Charlton Heston? Þegar hann gekk uppábúinn um eitthvert landleguplássið með glettni í augum og dulúðuga brosvipru fór ekki milli mála að þar var maður, sem varpaði ljóma á farmennsku. Og Geir tengdist fólki vel, hafði gaman af samskiptum við fólk og eignaðist stóran vina- og kunningjahóp.

Lífið nú á forsendur í fortíð

Alla tíð hafði Geir gaman af að bera saman tímana. Hann sagði fólkinu sínu frá kolamokstursþrældómi til að minna á að velferðin er ekki sjálfsögð, hann gat tíundað vélaþróun og ekki síst til að minna á að framfarir nútíma eiga sér fortíð og vinnu kynslóða að baki. Velsæld nútíðar er grundvölluð á fólki og vinnu í fortíð.

Geir hafði sjálfur orðið að vinna sig til manns og þroska. Hann varð að standa á eigin fótum í vélsmiðju Guðmundar á Þingeyri. Á bátum og togurum lærði hann að vinna, bæði skipulega, hratt og markvisst. Hann lærði líka að hlýða og varð það að orði síðar að sá gæti ekki verið yfirmaður, sem ekki hefði lært að hlýða. Undirmenn Geirs bera, að hann hefði verið bæði fær í faginu en einnig góður yfirmaður.

Verkmaðurinn öflugi

Geir var alla tíð verk- og eljumaður jafnframt því að vera nákvæmnismaður með verkskil. Hann var heilshugar fylgismaður vinnuafstöðu fyrri tíðar, að vanda skyldi það sem lengi ætti að standa, að gera eins vel og hægt væri, að verkin væru tákn innri manns. Hann beið helst alls ekki til morguns með það sem gera mátti samdægurs.

Honum lét vel að vera í khaki-gallanum í hópi manna í átaksvinnu. Honum þótti gaman að aðstoða sitt fólk í byggingarvinnu, var velvirkur og afkastaði oft meiru en þau sem voru helmingi yngri. Honum þótti gaman að hlaupa um í stillönsum við nýbyggingu sinna, vildi strax uppá þak heima ef grunur lék á viðgerðarþörf. Geir þótti miður þegar þrekið minnkaði. En auðvitað hélt hann sjó, var einbeittur í hverju sem var, hélt reisn sinni til hinsta dags og sló sinn túnblett tveimur dögum áður en hann lést.

Handarverkin

Það er ljóst af handarverkum Geirs að hann var völundur. Þegar hann var kominn í land og hafði ekki rennibekk eða aðstöðu til málmsmíða fór hann að smíða í tré. Ættmenni hans eiga fallega muni, sem sýna vel hve oddhagur hann var. Fánastengurnar, sem hann smíðaði úr málmi eru vönduð smíð. Vitinn, sem hann gaf Vélstjórafélaginu, er kjörgripur frá hans hendi. Margir þessara gripa hafa merkingu, því Geir lét sig lífið og tákn þess varða. Hann skildi vel táknmál einkennisbúninga, honum var annt um merki þess félags sem hann þjónaði í fjóra áratugi og hann smíðaði umgjörð um það tæki sem telur tímann, þ.e. klukkur. Hann smíðaði líka umgjörð um barómet, sem voru svo sannarlega öryggistæki, stangir fyrir borðfána en svo var auðvitað vitinn tákn, tákn um boða eða nes og viti var á tímanum fyrir GPS nýtanlegur sem stefnuviti, viðmið. Það sem hann vann var ekki tilgangslaust heldur með vísan í inntak og líf. Og svo smíðaði hann auðvitað brúkshluti til að bæta og fegra líf sinna.

Leikföng og lífsgleði

Hvað var nú skemmtilegast í lífi fjölskyldunnar á Hagamelnum? Jú, eins og í öðrum farmanns- og sjómanns-fjölskyldum var stórhátíð þegar skipið hans pabba kom. Þau fóru þá öll til ömmu og afa nálægt höfninni til að fylgjast með þegar tollskoðun lauk og skipinu var siglt að. Þá var fagnað, síðan farið heim í leigubíl, með kost og fangið fullt af gjöfum. Þá var hátíð, allir fengu eitthvað, enginn var útundan, þetta voru stóru stundirnar.

Djúpið

“Úr djúpinu ákalla ég þig Guð,” segir í Davíðssálmum. Það voru mörg djúpin í lífi Geirs Jóhanns Geirssonar. Ekki þekki ég þau öll. Enginn er svo opin und eða sál að allt verði séð. Geir var um margt dulur, var á dýptina og inná við eins og margir næmir menn, sem hafa orðið fyrir áraun.

Það er áleitin spurning, sem enginn getur svarað og aldrei verður skýrð nákvæmlega, hvaða afleiðingar það hafði, að Geir missti föður sinn þegar hann var í móðurkviði. Hvaða áhrif hefur það á ófríska konu að missa mannsefnið sitt? Hvaða áhrif hafði það síðan á viðkvæman uppvöxt hinna fyrstu ára? Það var Geir lán, að eignast góðan stjúpa sem var honum traustur vinur og faðir. Hann fór að heiman þegar á unglingsárum og varð að leggja á sín djúp sjálfur, treysta sitt sálarfley og bera vanda sinn og vegsemd einn og með fullri ábyrgð. Heimilisbragurinn á Hesteyri var léttur og Geir hafði gaman af hinu kátlega, því sem létti lund og líf.

Til lífs

Enginn veit betur en sjómaðurinn hversu þunn skelin er milli brimskafla og káetu, hversu örstutt er milli lífs og dauða. Fimmtán fórust með Dettifoss, “…maður varð á einhvern hátt svo tómur allur saman. … manni fannst maður vera svo mikill einstæðingur á þessu augnabliki…” Það er þessi tómi skuggi einstæðingsins sem teygir sig út yfir líf og vitund á skyggnistundum. Hvað er maðurinn þegar náttúruöflin eða hernaðarófreskjan slær hala sínum í allt kvikt, brennir allt sem fyrir verður, eirir engu, eyðir öllu. Þegar Dettifoss fór niður, vinirnir líka, upplifði Geir sína helför rétt eins og íbúar Hiroshima og Nagasaki fáum mánuðum síðar. Það var ekkert skrítið að hann neitaði alltaf að gefa drengjunum sínum byssur. Sá sem hefur upplifað stríð gefur ekki stríðstól og vill engum manni svo illt að veifa slíkum að óþörfu hvorki til leika eða alvöru.

Sá sem hefur lifað af slíka dauðans ógn veit hvað lífið er viðkvæmt. Geir vissi hvað gott líf er undursamlegt, hvað góð fjölskylda er mikil blessun, barnalán undur lífsins, kraftur til starfa mikilvægur, hversu skemmtilegt er að sýna sig og sjá aðra, eiga góða félaga og félagsskap, hvað vinnuþrek er til mikils unaðar og hvað hún Eybí var alla tíð góður vinur og lífsstoð.

Hvert?

Hver er áfangastaðurinn í þeirri för sem lagt er í þegar við deyjum? Hvert fór Geir faðir hans, hvert Helga móðir hans? Hvert fóru þau sem voru honum kær fyrr og síðar. Það er þetta lífshvísl sem Geir, ég og þú heyrum á skyggnistundum. Atlantsálarnir eru djúpir en þó er djúp elsku himinsins meira. Vegalengdin til Casa Blanka eða Bergen er talsverð en þó ekkert hjá víddum himinsins. Vélarhljóðin í skipsvélunum frá Burmaister & Wain eru fögur, en þó ekkert hjá hljómhviðum í hinni miklu vélasamstæðu, sem sköpunarverk Guðs er, hvað þá þeirri vel smurðu eilífðarvél sem kann ekkert nema líf og gleði.

Geir var munstraður í hina eilífu ferð á snöggu augabragði. Og þú mátt trúa því að það er ferð til góðs. Dragðu upp í vitund þína minningar þínar um öflugan mann, styrkan eiginmann, góðan dreng, kíminn afa, glaðan félaga og völund. Blessaðu myndina í huga þér og mundu að Guð elskar, umspennir Geir ávallt. Þar er enginn tómleiki, ekkert snautt eða autt, því þar eru aðeins fossar úr ljósi, gleði og gáska eilífðar.

Heimildir:

“Ánægður með lífsstarfið” Sjómannablaðið Víkingur, 6 tb. 1981, s. 11-13.

“Skrúfan snerist enn þegar skipið stakkst niður” Sjómannablaðið 1995, s. 49-54.

Minningarorð við útför Geirs Jóhanns Geirssonar, sem gerð var frá Neskirkju 9. ágúst 2005.