Eybjörg Sigurðardóttir – minningarorð

Við sátum í fallegu stofunni hennar Eybíar síðastliðinn mánudag, hugsuðum um uppvöxt og líf hennar, rifjuðum upp atvik úr lífi þeirra Geirs, hvað hún gerði, hvað gladdi hana og hvernig hún umvafði allt sitt fólk til hinstu stundar. Fallegar sögur voru sagðar og hlýja skein úr augum ástvina hennar. Svo þurfti að ákveða hvaða mynd skyldi sett á sálmaskrána. Þungbúin mynd af Eybí kom ekki til greina. Nei, myndin skyldi tjá hlýju hennar. Og brosið er fallegt sem blasir við okkur.

Hver er mynd þín af Eybí? Er það elskusemin, augun hennar eða hendurnar sem þú manst? Eru það fallegu fötin hennar? Koma fyrst í huga þinn eigindir eða það, sem hún gerði þér til góðs? Minnistu þess að hún kom með ömmutertu í boð eða spilaði við þig? Staldraðu við og leyfðu huganum að fara til baka, vitjaðu þinna eigin mynda og leyfðu þeim að vinna djúpvinnu í sálinni þér til eflingar.

Myndirnar

Myndir eru merkilegar. Menningin er sneisafull af myndum sem túka, móta, hafa áhrif og skilgreina líf og fólk. Biblían er myndarík. Í fyrsta kafla hennar segir: “Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd.” Við erum því öll í mynd Guðs – og sú mynd er ekki eins og afsteypa, heldur varðar það sem er mikilvægara en útlit – varðar sálargáfur, dýpt og anda en ekki ásjónu. Að menn séu ímyndir Guðs, tenglar hins guðlega, kemur síðan fram í biblíuefninu. Að menn stóðu sig ekki, fóru villur vega, var túlkað sem skemmd þeirrar myndar Guðs, sem menn væru kallaðir til að vera.

Þessi myndaspuni verður áleitinn þegar við hugsum um hvern mann sem listaverk, stórbrotið djásn sem fagurkerinn Guð hefur gert til að gæða veröldina fegurð, gleði og lífi. Þegar áföll hafa orðið í veröldinni er þetta listagallerí heimsins flekkað og saurgað. Inn í þá veröld kom síðan hinn hreini og fallegi Jesús Kristur, sem stókostleg ímynd og fegurð, Guð í heimi. Þess vegna töluðu höfundar Nýja testamentisins um að Jesús Kristur hafi fullkomnað myndina, sem menn voru skapaðir í. Og það er síðan verkefni allra manna, hvort sem þeir trúa eða ekki, hvort sem þeir sækja kirkju eða ekki, hvort sem þeir eru konur eða karlar, eldri eða yngri, að meta og virða sjálf sig sem dýrmæti, mynd Guðs, lifa þannig að lífinu sé vel lifað og í samræmi við fegurð og verkefni Guðsmyndarinnar, lífsins og veraldarinnar. Við erum kölluð til að vera falleg mynd Guðs í veröldinni.

Hver er mynd þín af Eybí? Og hver er þín eigin mynd? Ertu sáttur eða sátt við myndina, sem þú hefur af þér? Er það í samræmi við hvernig þú gætir lifað vel og með visku og fegurð? Myndin af Eybí kallar á að þú hugsir um þína eigin mynd bæði gagnvart þér og Guði.

Upphaf og fjölskylda

Guðrún Eybjörg Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 10. apríl árið 1926. Foreldrar hennar voru Sigurður Bjargmundsson og Valgerður Júlíana Guðmundsdóttir. Vegna veikinda móður Eybíar var henni nokkurra mánaða komið í fóstur til Lovísu Bjargmundsdóttur og Þorvaldar Egilssonar. Þau voru þá barnlaus og tóku kornabarnið í fangið með getu, ábyrgð og elskusemi. Lovísa, fósturmóðir Eybíar, og Sigurður, blóðfaðir hennar, voru systkin og fjölskyldurnar voru samþættuð stórfjölskylda svo hliðrun Eybíar varð henni skaðlaus. Sjö systkini Eybíar voru Friðþjófur, Gunnar, Björn Jóhann, Bjargmundur, Erna, Dagbjört og Erna Sigrún, sem öll eru látin. Fóstursystkini Eybjargar eru Guðríður Stefanía og Sigurður Egill og þau lifa bæði systur sína.

Eybí óx upp í vesturbænum og Brunnstígur var nafli alheims. Hún tiplaði niður í bæ í Miðbæjarskóla og fór svo í Kvennó og fór því í gegnum miðbæinn og rölti fram hjá þinghúsinu daglega meðan á heimsstyrjöldinni stóð. Kvennó var dýrlegur skóli, sem fröken Ragnheiður stjórnaði. Eybí þótti gaman og lærði vel og var greinilega góður ambassador síns skóla því bróðir hennar þráði fátt heitar en fá að feta í fóstpor hennar – en það var áður en karlaveldi og kvennaveldi fortíðar tóku að riðlast. Eybjörg lauk námi frá Kvennaskólanum árið 1944. Hún hélt góðu sambandi við margar vinkonur úr Kvennó alla tíð. Þegar skóla lauk fór fór Eybí að vinna á Morgnblaðinu, var þar á árunum 1944-52.

Geir og börnin 

Eiginmaður Eybjargar var Geir Jóhann Geirsson. Hún sá glæismennið fyrst í Kaupmannahöfn og það var vel við hæfi að það var niður við höfn. Eybí naut danskrar menningar löngum og í Danmörk átti hún eftir að vera með manni og börnum eitt sumar í Köge. Þau Geir hófu hjúskap í Sörlaskjóli og börnin fóru að koma í heiminn. Heimilið var sjómannsheimili og Eybí hætti að vinna úti og sinnti börnum og búi. Þau Geir og Eybí voru alla tíð samhent hjón og studdu og efldu hvort annað.

Fyrstur í barnaröðinni var Þorvaldur og hefur verið fóstri Kochkorn Min Sádu. Næstur var Geir Helgi sem lést fyrir tæpum þremur árum. Ekkja hans er Helga Guðjónsdóttir. Þau áttu fjögur börn og tvö barnabörn. Eftir að þeim Eybí höfðu fæðst tveir strákar komu svo tvær dætur, Lovísa og Valgerður. Lovísa á tvö börn og Valgerður á tvær dætur. Maður hennar er Viktor Arnar Ingólfsson. Dóttir Geirs af fyrra hjónabandi er Nína, sem er búsett í Kaupmannahöfn. Hún á tvo syni.

Þegar byrjað var að byggja á Melunum tóku Geir og Eybí ákvörðun um húsbyggingu á Hagamel. Þau voru í samfloti með vinafólki, Bjarna og Áslaugu, sem urðu frábærir nágrannar þeirra í áratugi. Húsið var ekki aðeins vel byggt heldur fyllt góðvild og lífskrafti. Það varð hamingjuhús, mikill og góður samgangur var milli hæða – svo náinn að börnin gengu inn í hinar íbúðir hússins – og raunar í báða hluta hússins, næsta haftalaust. Og til að dyrnar út á gang væru ekki alveg galopnar allan sólarhringinn kom Geir einu sinni með löm frá útlöndum sem var þeirrar náttúru að hún hallaði hurðarspjaldi að stöfum. Þetta var auðvitað þarfaþing þegar barnaskarinn þaut milli hæða og í asanum gleymdist að loka. Enn er lömin þarna sem hljóðlátur vitnisburður um þetta fallega mannlífsþorp, sem myndaðist á fjórum hæðum. Það þarf þorp til að ala upp barn hefur oft verið sagt og þökk sé öllu þessu góða fólki, sem bjó til fallegt mannlíf og studdi að styðjandi lífsháttum sem fór vel með fólk. Gott nábýli er ekki sjálfsagt heldur þakkarefni og dýrmæti og að fá að lifa eins og í ítalskri stórfjöskyldu á Hagamel er ekkert minna en undur og kraftaverk.

Eigindir

Eybí var alla tíð mikil hannyrðakona. Hún prjónaði, saumaði og skapaði. Hún var fáguð í framkomu og svo mikil dama, að hún var ekki sátt við að taka á móti fólki til sín nema hún væri komin úr morgunfötunum og búin að punta sig. Eýbí hélt vel utan um hópinn sinn og þurfti ekki að byrsta sig til að börnin skyldu hvað til þeirra friðar heyrði. Hún sá um húshaldið og uppeldið, trúarfræðsluna, bænalífið, þvottana, eldhúsverkin, kenndi börnunum að spila á spil, ókjör af söngvum og leikjum. Hún hlustaði á sögur þeirra og svo las hún fyrir sitt fólk, bæði börn og barnabörn Óla Alexander Fílíbommbommbomm, um selinn Snorra, Dúmbó og Dimmalimm, þessar og aðrar sögur sem bæði skemmta en miðla líka margvíslegri visku til lífs og gerða.

Eybí var heimakær, leið vel með sínu fólki og í sínum ranni í hamingjuhúsinu á Hagamel 30. Henni þótti líka gaman að fara í fjölskylduferðir. Hún var félagi í kvennafélaginu Keðjunni, félagi kvenna vélstjóra, sem átti sér athvarf í sumarhúsi við Laugarvatn. Þangað fór Eybí og þau af hópnum hennar, sem áttu heimangengt í það og það skiptið. Og þar eystra var hamingjan stælt og iðja gleðinnar stunduð, fjallgöngur, ólsen-ólsen og samtöl.

Skaphöfn Eybýar var kyrrlát og styrk. Hún var skýr í skoðunum en umgekkst fólk ljúflega, orðaði elskulega og hafði því lag á góðum samskiptum við börn sem fullorðna. Eýbí lagði gott til annarra, talaði vel um og var því hamingjustoð ástvina sinna. Hún rækti vel sitt fólk, börn sín og fjölskyldur þeirra. Hún vakti yfir velferð stórfjölskyldu sinnar og reyndi að gera öllum gott sem hún gat. Svo sá Eybí til að börnin áttu gott samband við þrjú sett af öfum og ömmum, sem var auðvitað sérstakur bónus í tilverunni.

Þegar börnin flugu úr hreiðri fór Eybí að starfa utan heimilis að nýju. Hún var starfsmaður á leikskólanum Brekkukoti, Landakotsspítala, á árunum 1981-1994.

Stórfjölskyldan kom saman fyrir þremur vikum og hélt veislu. Eybí naut hennar og samfélagsins við margt af sínu fólki. Fögnuðurinn varð rammi um síðustu minningu margra þeirra um Eybí. Það er góður rammi um fallega mynd. Eybjörg Sigurðardóttir lést á heimili sínu 26. október síðastliðinn. Nú er hún farin inn í stórhús á gleðimel himinsis þar sem hamingjan á upphaf sitt, allt er gott, samgangur er greiður og engar lokur milli hæða!

Þakkir

Margir þakka Eybí samfyld og blessun lífs hennar. Hildur Sveinsdóttir og Ásthildur og Þóra, dætur hennar í Svíþjóð, biðja fyrirr kveðjur, Júlíus Bjarnason sömuleiðis. Frá Danmörk hafa borist kveðjur frá Nínu Geirsdóttir sem og hjónunum Dóru Gunnarsdóttur og Pétri M. Jónassyni.

Gott fólk eflir aðra til dáða og margir voru Eybí elskusamir í lífinu og vert að þakka þeim. Áslaug Stefánsdóttir var Eybí vinkona til lokadags. Þær studdu hvor aðra með hlýju og elsku. Guðríður systir Eybíar fylgdist grannt með velferð hennar. Stella, Didda, Hanna og Kalla voru oft á ferð til að gleðja Eybí. Siggi og Gurrý voru alltaf til stuðnings. Þeim og öllum öðrum sem hafa verið henni til styrks og gleði skal þakkað að leiðarlokum. Guð geymi ykkur og Guð laun.

Myndin í lífinu

Hver er myndin af lífinu? Þegar ég er búin að hlusta grannt á ástvini hennar er myndin af Eybí í mínum huga sem fögur helgimynd. Hún geymdi líka í sínum huga myndina af þér. Hún fylgdist vel með þér, þínu fólki, blessaði þig í huganum, ól önn fyrir þér. Hún var fulltrúi Guðs í mannheimum.

Þegar við kveðjum góða konu höfum við tækifæri til að staldra við og þakka, en líka spyrja spurninga um eigið líf, okkar eigin mynd. Guðsmynd þín er ekki ásjóna, hvernig þú vilt að lúkkið sé í lífinu. Guðsmynd þín verður aldrei sett í myndaalbúm – Guðsmynd er lifuð. Þú ert meira en það sem aðrir sjá. Þú ert það, sem þú gerir úr guðsmynd þinni. Þér eru gefnar gjafir til að fara vel með í þína þágu, en líka annarra. Þínar gáfur eru til fyrir fólk, veröld – og fyrir Guð.

Hvernig viltu lifa? Ekkert ykkar kemur lengur í mat til Eybíar, engir Hersheys súkkulaðikossar eru frambornir, ekkert barnabarna fær að sofa á spítunni eða spila ólsen-ólsen við hana. Hún hefur lokið þessu lífi, lokið ævistarfi, en mynd hennar lifir í tíma og hjörtum ykkar en sjálf lifir hún í eilífð Guðs í hamingjuveröld með ástvinum.

Lærðu af Eybí að lifa vel, efla aðra, brosa við börnum, tala vel um fólk, lifa með reisn. Lærðu að lifa hvern dag í þakklæti og gleði, lærðu að láta ekki sorgir eða áföll gærdagsins skemma þig. Þú ert falleg mynd, sem Guð hefur skapað, þú ert dýrmæti sem ekkert kemur í staðinn fyrir. Eybí var það dýrmætasta, sem Guð átti og þú ert það dýrmætasta sem Guðs sér og elskar. Og hvernig viltu að myndin þín verði? Farðu vel með lífið og lifðu til eilífðar eins og Eybí – og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Eybjörg Sigurðardóttir, Neskirkju, 3. nóvember, 2010.