Brynjólfur Vilhjálmsson – minningarorð

Brynjólfur var maður hinna íslensku vega. Hann kunni á vegi og færð þeirra. Hann hafði unnið að vegum, hann vissi hvernig átti að gera vegi, hann hafði – eins og vænta mátti – skoðun á hvaða malargerð ætti að vera í undirlagi og kornastærð í slitlagi – ekki meira en 19 millimetra.

Brynjólfur vissi líka hvaða þykkt átti að vera á ólíulaginu til að vegurinn yrði góður. Og svo kunni hann að keyra, hafði gaman af ferðum sínum, naut vinnunnar, axlaði algerlega ábyrgð á sínum hlut og verkum. Brynjólfur var einn af þeim mönnum sem lögðu grunn að gæfu Íslands, lögðu leiðir til Íslands nútímans og fóru þær.

Vegir og ferðir eru heillandi mál. Við menn erum ferðalangar – ekki aðeins í tíma heldur rými. Við hefjum för okkar í móðurkviði, reynum margt sem fóstur, förum “þrengslin” á leið úr móðurlífi. Síðan er ferðalag alla æfi og áfram til eilífðar. Stundum gengur vel en  lífsfærðin getur líka verið slæm og menn lenda í vegleysum. Hvað er svo í framtíðarlandinu? Eitt sinn vorum við fóstur sem fórum úr móðurhlýjunni inn í allt öðru vísi heim. Og svo verða önnur ofurskil þegar við förum yfir mæri tíma og eilífðar. En við megum alveg búast við að þar verði gott því þar er Guð.

Vegagerð Guðs

Vegir og vegagerð. Ég las áðan úr Jóhannesarguðspjalli. Jesús sagði: “Ég er vegurinn…” Og það merkir ekki að hann hafi útflatt sjálfan sig í kornastærð 10-19 eða hann hafi viljað að menn völtuðu yfir sig. Ég er vegurinn… Það merkir að hann gerði torleiði fært, opnaði það sem áður var lokað og mönnum ófært. Vegamenn íslands, Þróttarar og við öll ættum að meta og þakka svo góðan ásetning. Svo bætti Jesús við að hann væri sannleikurinn og lífið. Það er flottur vegur. Ekki einu sinni vegatollur, ekkert torleiði, bara vilji til að halda leiðina, taka þátt í ferðinni, njóta hennar og menn eru hvattir til að vera góðir og tillitssamir ferðafélagar. Og þar sem þetta flutningafyrirtæki himinsins er vel rekið mega menn gera ráð fyrir að tækin séu góð, stjórnin í lagi, vinnan skili og allt gangi upp. Himininn, já það er máttugt, já þróttmikið félag, sem ekki fer í þrot!

Ætt og upphaf

Brynjólfur Vilhjálmsson var sonur hjónanna Guðlaugar Jónsdóttur og Vilhjálms Þórarinssonar. Hann var þriðja barn þeirra. Samtals voru börn þeirra sex  og svo voru tveir hálfbræður að auki. Elstur alsystkinanna var Hörður og Grétar var næstur. Þeir eru báðir látnir. Yngri en Brynjólfur voru Ingi, sem lést í fyrra og yngst eru Vilhjálmur Þórarinn og Marta, sem gat ekki verið við þessa athöfn og biður fyrir kveðju.

Fjölskyldan bjó fyrst á Hverfisgötu 88c og húsið þeirra stendur enn. Brynjólfur fór því í Austurbæjarskóla. Síðan keyptu Guðlaug og Vilhjálmur íbúð á Holtsgötu 19. Þegar Brynjólfur var kominn með bílpróf og leyfi til þungaaksturs glímdi faðir hans við veikindi og var frá vinnu um skeið. Hann var atvinnubílstjóri og gerði út vörubíl og Brynjólfur hljóp í skarð hans. Þegar pabbinn kom til baka var sonurinn búinn að gera sér fullkomlega grein fyrir að aksturinn væri hans áhugamál og lagði hann fyrir sig og þjónaði mörgum með akstri. Um tíma var hann hjá Völundi og síðar hjá Áhaldahúsinu. Árið 1967 varð hann félagsmaður í Þrótti, fékk sér Dodgebíl og seinna Benz en svo urðu Volvo-bílarnir hans tæki og mörgum þjónaði hann áður en yfir lauk. Og sem næst engin takmörk voru fyrir því sem hann flutti, möl og vikur en líka hvalinn Keikó.

Þróttur var Brynjólfi mikilvægur félagsskapur og var honum til styrks fyrr og síðar. Ástvinir Brynjólfs hafa beðið mig að færa félagsmönnum og stjórn þakkir. Og söfnuðurinn sér félagsfánann hér í kirkjunni.

Fjölskylda og heimili

Hulda Guðmundsdóttir og Brynjólfur sáu hvort annað á rúntinum og kynntust árið 1951. Hulda ólst upp í þeim hluta bæjarins, sem við Vesturbæjarbörn höfum kallað stóra Skerjafjörð. Þau hófu búskap á Laufásveginum og keyptu síðan hús, sem þau fluttu á blett í túni foreldra Huldu í Skerjafirði. Síðan byggðu þau hús sem síðan er Fáfnisnes 14. Þeim Huldu fæddust þrír drengir:

Guðmundur fæddist árið 1953. Hans kona er Björk Hjaltadóttir. Þau eiga tvö börn og 4 barnabörn.

Gísli fæddist 1959. Hans kona er Jónína Margrét Ingólfsdóttir. Þau eiga þrjú börn og barnabörn þeirra eru tvö. Magnea og hennar fjölskylda, sem búsett er í Noregi hefur beðið um að flutt verði kveðja þeirra hér.

Skúli fæddist þeim Brynjólfi og Huldu árið 1973.

Brynjólfur og Hulda komu á ákveðnu vinnulagi við uppeldi og rekstur heimilis og bílaútgerð. Hún sá um það, sem reyndist Brynjólfi óhöndugt, m.a. bókhaldið, og allt gekk vel meðan hún hafði heilsu til. Þegar heilsa Huldu bilaði varð bílaútgerðin jafnframt Brynjólfi erfiðari og hann eins og allir atvinnubílstjórar mátti búa við niðursveiflu í efnahagslífi þjóðarinnar á síðasta áratug liðinnar aldar, sem hitti bíljstórana illa. Um svipað leyti slitu þau Hulda samvistir.

Svo kom Eygló í líf Brynjólfs og opnaði honum nýja glugga eins og sonur hans sagði vel. Hann flutti vestur á Skeljagranda til Eyglóar og þau áttu saman góðan áratug. Nýtt líf og nýtt fólk opnaði Brynjólfi faðminn. Eygló á tvo drengi sem Brynjólfur tengdist, Harald Elfarsson, sem kvæntur er Bergþóru Kristínu Grétarsdóttur og Gunnar Þór. Barnabörn Eyglóar eru 6 og Brynjólfur átti margvísleg samskipti við þau og vert er að minna á hversu vænir og góðir þeir voru við hvor annan Brynjólfur og Elfar Haraldsson, sem nú hefur misst vin sinn.

Eigindir

Brynjólfur var þróttmikill frá upphafi. Já, vissulega var hann einn af Þrótturunum, en hann hélt mætti sínum og styrk allt til enda. Þó Brynjólfur væri hálfslappur fyrir vestan í sumar óraði ekki fólkið hans að hann væri að dauða kominn. En þegar hann vildi ekki einu sinni wiskýlögg var ljóst að af honum var dregið og full ástæða til að skoða málin! Brynjólfur hafði enga löngun til að láta leggja sig inn á spítala á Ísafirði. Nei, hann ók suður sjálfur, væntanlega þjáður og gekk beinn í baki inn á Landspítalann. Hann vildi ganga mót sínum málum með reisn, axla ábyrgð á sínu með þrótti og æðruleysi.

Já, vegagerðarmálin í lífinu. Brynjólfur trúði því að lífið hefði rennslismátt eins og vatnið, það færi í farvegi og síðan rynni það inn í haf eilífðarinnar. Svo trúði hann á hringrás og endurkomu. Það er lífræn hugsun og í þeim efnum á Brynjólfur sér skoðanabræður. Allt er tengt og þegar dýpst er skoðað – með augum trúar – er það elska Skaparans sem tengir. Og þeir gagnvegir eru mál elskunnar, lífsins. Á lífsförinni má hafa stuðning af þeim anda, sem blæs mönnum þrótt í brjóst þor til verka, ást til tengsla og fólks – og getu til sóknar áfram veginn.

Hamingja Brynjólfs var margvísleg, hann naut lífsgæða. Hann kunni að skemmta sér, naut unaðssemda og gat líka gengið í endurnýjun lífdaga í nýjum aðstæðum og með nýju fólki. Það var gott og gjöfult fyrir Eygló og hennar fólk. Fyrir það hve vel þau fögnuðu Brynjólfi er þakkað.

Brynjólfur var glaðsinna, hafði gaman af glöðu fólki. Hann sagði gjarnan sögur og kunni ágætlega að lita þær vel. Hann var opinn og óhræddur við tækninýungar. Hans heimili var opið fyrir nútíma hverrar tíðar.

Brynjólfur var sjálfstæðissinnaður í pólitík. Í sjálfboðavinnu vann hann við grunn miðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, Valhöll. En hann var ekki hrifinn þegar honum þóttu stjórnmálamenn ótryggir og segja skilið við grunn stefnunnar.

Brynjólfur hafði alla tíð gaman af kántrímúsík. Sú grein tónlistar er gjarnan tengd einhvers konar frásögn. Það eru sögur sem sagðar eru, sögur um lífið, sögur um baráttu, sögur um fólk á ferð. Vegir liggja til allra átta vissulega, en það er best þegar menn vita hvert þeir stefna.

Gullvagninn

Nú er skarð fyrir skildi. Þeir bræður, strákarnir hans Brynjólfs, hafa þegar kvatt móður og eiga ekki lengur í föður sínum viðfang til að takast á við. Nú eiga Eygló og Elfar engan Binna að lengur. Nú eru bílarnir hans Brynjólfs hættir að ganga, vegirnir eiga sé ekki lengur umboðsmann í honum. En þó vegir veraldar liggi til allra átta, er alveg víst að vegir til himins eru til. Ég er sannleikurinn og lífið sagði Jesús í viðbót við að vera vegameistari veraldar. Með í för Brynjólfs, hans kortamaður er þessi meistari frá Nasaret sem kann líka á vegi upp á Íslandi, vegi hjartans og er ágætur í öllum kornastærðum mannssálarinnar. Í honum á Brynjólfur traustan ferðafélaga, sem aldrei þrýtur mátt þótt þróttur Brynjólfs sé nú að engu orðinn. Á vegum Jesú brotna engar fjaðrir né fara bremsuklossar.

Og þá er það gullvagninn, þessi sem er best nothæfur til þeirrar miklu ferðar yfir mæri lífs og dauða. “Gættu mín, geymdu mig, gef mér frið,” segir þar. Og það er satt og gengur eftir. Ferðin hefst, vegurinn er góður og reikningurinn er greiddur með sannleika og til lífs. Guð geymi Brynjólf á eilífðarför hans. Guð geymi þig á þessari umferðarmiðstöð tíma og eilífðar og styrki þig.

Brynjólfur Vilhjálmsson f. 25. janúar 1934, d. 10. ágúst 2010. Útför frá Neskirkju 20. ágúst.