Bjarni Ólafsson – Minningarorð

Útför Bjarna Ólafssonar, lektors, var gerð frá Neskirkju fimmtudaginn 19. maí, 2011. Minningarorðin eru hér að neðan. 

 Bjarni Ólafsson brosti alltaf fallega og horfði á fólk með áhuga. Hann hafði sterka návist, var ræðinn, skarpur, næmur og einnig kvika tilfinninga. Hann var félagslyndur en gat líka farið einförum, ljúflingur og leiðtogi. Fagurkerinn Bjarni nýttist handverksmanninum vel í kennslu en líka í uppbyggingu. Hann fór víða, lagði á ráðin um viðgerðir á kirkjum, byggði hús og byggði upp fólk til átaka við líf og til velferðar undir stórum himni blessandi Guðs. Er þetta myndin, sem þú átt í huga þér og hjarta af Bjarna? Hver var hann? Hvað mótaði hann og af hverju var hann eins og hann var?

Lífsstefna og mótun

Ekki fór milli mála að trú Bjarna setti kúrs hans. Hann vildi lifa í samræmi við ramma trúar og kristins siðar. Því meir sem ég hugsa um Bjarna því áleitnari verður að skilja líf og lífshætti hans í ljósi mannmótunar iðnmeistarans en líka listamannsins. Í klassískri iðnmótun kennir meistarinn nemanum ekki aðeins handverk heldur afstöðu til iðnar, viðskiptavina, gildis og menningar. Í nútíma köllum við þetta fagmótun og fagvitund. Handverkið var aldrei skilið frá hinu andlega, hið andlega var aldrei fjarri lífinu heldur var lífið ein heild og mönnum var ætlað að lifa vel og með ábyrgð. Í lífi Bjarna má sjá þessa heildarafstöðu og mótun. Það var innra samræmi í því, sem hann var ungur og gamall, handverksmaður og Kristsvinur, andans maður og kennari. Hugur, hönd og hjarta voru eitt í Bjarna Ólafssyni.

Í heimi Biblíunnar, og þar með á smíðaverkstæðinu sem Jesús ólst upp í, var handverk fólks aldrei sálarlaus iðja heldur átti sér líka andlegar víddir. Þessi speki er hagnýt. Hin dýpsta speki er til lítils nema hún eigi sér skírskotun í lífi einstaklinga og samfélags. Handverk við tölvu, í eldhúsi, við sög, við bleyjuskipti, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Lífið er eitt og fólk fornaldar vissi, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt er tengt og allt er á hreyfingu. Lífið var og er gjörningur, og trúmaðurinn veit að lífið er Guðs og verk manna eru ekki aðeins í eigin þágu heldur í þágu lífsins. Það var í þeim heimi, sem Bjarni lifði og hrærðist. Það var í þeim anda, sem hann tók til sín erindi kristninnar, skírnarskipunina sem var lesin fyrr í þessari athöfn. Þess vegna fræddi hann og kenndi. Og hann vissi um nánd Guðs, talaði við Jesú sem vin sinn og félaga og vildi miðla visku meistarans áfram í þágu allra og til blessunar mönnum og lífi. „Sjá ég er með yður…” sagði Jesús.

Ætt og uppruni

Bjarni Ólafsson fæddist í Reykjavík 3. ágúst, árið 1923. Foreldrar hans voru Hallfríður Bjarnadóttir og Ólafur Guðmundsson, hún Reykvíkingur og hann fæddur á Eyrarbakka. Bjarni var næst-elstur fjögurra sona þeirra hjóna. Elstur var Friðrik, sem lést aðeins tvítugur að aldri. Fráfall hans breytti lífi allrar fjölskyldunnar. Guðmundur Óli var þriðji í röðinni og Felix yngstur og lifir hann bræður sína.

Heimilislífið var „dásamlegt” sagði Felix og bernskan var góð. Þegar Bjarni hafði aldur til fór hann í Austurbæjarskólann, sem var ekki aðeins splunkunýr heldur líka framsækinn skóli. Þegar Bjarni hafði lokið þar námi hóf hann smíðanám hjá föður sínum. Til að bæta atvinnnumöguleika sína fór Bjarni svo í Kennaraskólann og lauk sveinsprófi í smíðum og kennaraprófi á sama ári. Kennsla og smíðar héldust í hendur á blómaskeiði Bjarna.

Friðrik stóribróðir var alla tíð heilsuveill. Bjarni deildi áhyggjum með foreldrum um velferð hans. Friðrik var efnismaður, kennari að mennt. Hann var einnig brautryðjandi í KFUM og hafði m.a. hafið starf í þágu félagsins í Laugarneshverfi. En þessi ungi maður framtíðar var skyndilega allur. Fjölskyldan var skekinn og leitaði styrks í trú. Bjarni axlaði ábyrgð á skyldum hins elsta í bræðrahópnum. Bjarni hafði þegar hafið smíðanám en ákvað að fara í kennaranám einnig. Hann vildi ekki gera drengina hans Friðriks, bróður, munaðarlausa í kristindómsmálum. Bjarni axlaði því líka ábyrgð á KFUM deildinni í Laugarnesi og varð hinn öflugasti leiðtogi stórs hóps drengja, sem áttu í honum fyrirmynd, kennara, leiðbeinanda og vin. Þegar á árunum um tvítugt voru eigindir Bjarna skírðar í eldi reynslu, sorgar, trúar, baráttu og ábyrgðar. Áskorunin var mikil, áraunin sömuleiðis, en Bjarni stóðst prófið. Hann var fullveðja dugmenni.

Heimili og afkomendur

Einhverju sinni sáu drengirnir hans Bjarna að dama var komin í Víponinn við hlið hans. Þeir hlupu á eftir trukknum til að fylgjast með og kanna stöðuna. Bjarni hafði kynnst Hönnu Arnlaugsdóttur og svo hófst skeið, sem ekki aðeins náði til þeirra tveggja og ættingja heldur varðaði fjölda fólks, líka KFUM drengina í Laugarnesinu. Hanna var röntgentæknir og vann á Landspítalanum. Bjarni sagðist hafa orðið ástfanginn af fallegusu konunni. Allir sem þekktu Hönnu vissu líka að hún var valmenni. Ökuferðirnar gengu vel, drengir og unglingarnir voru ekki mótfallnir og Bjarni var hrifinn. Svo gengur þau Hanna í hjónaband í janúar árið 1948. Þau bjuggu fyrst á Laugateig, fóru síðan í  Gullteig 18. Þaðan lá leiðin í Sigtún 27 og síðan í Bauganes í Skerjafirði þar sem Bjarni og þau fjölskyldan byggðu sér glæsilegt hús.

Hanna og Bjarni eignuðust þrjú börn. Gunnar, húsasmíðameistari, er elstur. Kona hans er Kristín Sverrisdóttir. Þau eiga Sverri. Ólafur er miðbarn þeirra Hönnu og Bjarna. Hann er lærður bifreiðasmiður og börn hans eru Fríða, Óskar og Minna. Yngst er Hallfríður, iðjuþjálfari og kennari. Hennar börn eru Hanna, Jón og Lísa og maður hennar er Terje Fjermestad.

Heimilislífið var gjöfult og glaðsinna. Pabbinn var virkur í félagsstarfi svo Hanna stóð vaktina heima og opnaði heimilið. Unglingarnir rötuðu þangað úr hverfi og kirkjustarfi. Pabbinn breiddi vængi sína yfir unglingana og mamman bætti útlendingum við svo heimilið var gestkvæmt. En svo varð Hanna og þau öll fyrir áfalli. Hún fékk heilamein þegar hún var aðeins 27 ára gömul og fór í uppskurð í Danmörk. Skurðurinn tókst og hún náði heilsu. Bjarni hafði alla tíð búið við heilsuleysi eldri bróður og nú hafði kona hans orðið fyrir áfalli. Bjarni beit á jaxlinn, vann eins vel úr og hann mátti, var duglegur og kraftmikill í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, kenndi á vetrum, byggði á sumrin og þjónaði Guði með margvíslegu móti. Svo vildi hann vera börnum sínum góður og skilvís uppalandi. Börnin uxu upp en svo reið annað áfall yfir. Heilasjúkdómur Hönnu tók sig upp að nýju. Hún fór í margar aðgerðir en henni fór aftur. Heimilislífið leið því fyrir veika mömmu. Að lokum missti Hanna sjón, henni hrakaði og lést svo í ársbyrjun 1984. Þá urðu alger skil í lífi Bjarna og vík ég síðar að næsta lífskafla hans. En fyrst um verkefni og störf hans. 

Stiklur vinnu og verkefna Bjarna

Starfs- og félagsmálaferill Bjarna er víðfeðmur og fjölbreytilegur. Afköst hans voru mikil, hann þjónaði mörgum, leiðbeindi, benti til vegar, beitti sér fyrir nýungum af ýmsu tagi og var forystumaður hvar sem hann fór og var. Bjarni var kennari í Laugarnesskóla á árunum 1944-70. Hann vann fyrir Þjóðminjasafnið að viðgerðum og ráðgjöf á árunum 1959-76. Hann fór um landið og var eftirlitsmaður prestsestra og kirkna 1959-60. Bjarni var námsstjóri í smíðum á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og síðan var hann lektor við Kennaraháskólann á árunum 1976-87.

Bjarni vildi nýta það, sem best var í smíðakennslu á Norðurlöndum og hikaði ekki að beita sér fyrir nýungum. Hann fór á námskeið og ferðaðist um til að afla hugmynda, aðferða, stefnu, tækja og efnis. Hann horfði opineygur á það, sem efst var á baugi í hans greinum og fræðum erlendis, flutti t.d. inn efni og aðferðir við smelt í handavinnukennslu. Bjarni hafði sjálfur áhuga á flugmódelsmíði og svifflugvélum og naut auðvitað hrifinnar lotningar drengja, sem fengu að upplifa undrin sem hann smíðaði og sýndi. Ekki var verra, að drengirnir fengu svo sjálfir að smíða þessa fleygu furðugripi.  

Bjarni þjónaði KFUM hreyfingunni lengi, fyrst með deildastarfinu í Laugarnesinu en síðan í stærra samhengi sem leiðtogi, fræðari, frumkvöðull. Hann stofnaði m.a. kristniboðsflokkinn Kátir drengir og eru kátir allt til þessa og þakka gleðigjafaranum. Kristniboð var áhugaefni alla tíð og Bjarni var um tíma í stjórn kristniboðs meðal Gyðinga ásamt með bróðurnum Guðmundi Óla í Skálholti. Allt starf Bjarna var sjálfboðið og alveg ljóst, að Hanna studdi við bak hans og hún og börnin sáu á eftir honum að loknum vinnudegi til félagsstarfa á kvöldin og um helgar.

Stöðugt var verið að byggja hús guðsríkisins, bæði í bænum og líka í sumarbúðum. Oft kom Bjarni við sögu, var ræstur út og ræsti aðra út til átaka. Smíðaþekking, verksvit og fegurðarskyn hans naut sín sjaldan betur en þegar gera þurfti við eða byggja kirkjuhús. Eyrarbakkakirkja, Skeggjastaðakirkja, Viðeyjarkirkja og Breiðabólstaðakirkja á Skógaströnd bera Bjarna fagurt vitni. Kapellan í Vatnaskógi er dýrgripur, sem Bjarni skapaði og hafði lag á að kalla til verka fagmenn, sem gátu unnið til fullnustu einstaka verkþætti. Bjarni var einnig áhugasamur um uppbyggingu sumarbúðanna í Vindháshlíð og varð um tíma n.k. framkvæmdastjóri bygginga. Íþróttahúsið naut krafta hans ríkulega.

Bjarni og Gunnar, sonur hans, urðu samverkamenn við byggingu þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Auk viðgerða á gömlum byggingum, kirkjulegum og borgarlegum, byggði Bjarni fjölda húsa, m.a. í uppsveitum Árnessýslu. Í tengslum við smíðarnar stofnaði Bjarni ýmis fyrirtæki, m.a. einingahúsaverksmiðu og innflutnigsfyrirtæki í þágu handavinnukennslu og svo flutti hann inn hátalara og m.a.s. spænsk mótorhjól!

Já, Bjarni var áræðinn og hugmyndaríkur. Hann var höfðingi í samskiptum, gestrisinn, veitull, stefnufastur, rásfastur, rausnarlegur, hugmaður, fylginn sér, söngvin og músíkalskur. Hann var óhræddur að brjóta nýjan akur og skoða nýja möguleika ef einhverjir opnuðust. Var jafnvel að velta vöngum yfir fiskútflutningi um tíma. Bjarni var áhugasamur um listamenn og handverksmenn og keypti muni og verk þeirra til að styrkja þá til dáða. Hann var reiðubúinn að þjóna nemendum sínum langt umfram skyldur, opnaði smiðju sína fyrir þau sem vildu smíða meira, prufa nýtt, þróa hæfni sína og halda á ný mið. Bílskúrinn hans iðaði oft að lífi hinna ungu. Bjarni var eiginlega alltaf ungur, vildi vera með ungu fólki, hreifst af krafti, dug og hispursleysi æskunnar.

Svo var hann útivistarmaður, hljóp á fjöll og fór á skíði. Áður en hann fór til messu var hann jafnvel búinn að ganga á Esjuna. Bjarni var því fram á gamals aldur afar vel á sig kominn líkamlega og fór eiginlega ekki að gamlast fyrr en hann hætti að hlaupa á fjöll. Ég mætti honum einu sinni á haustdegi þar sem hann kom stormandi upp Almannagjá. Þá var hann einn á för og fór hratt yfir upp brattann í átt að Hakinu. Upp kom hann á spretti og blés ekki úr nös en augun leiftruðu. Hann naut átaka í útivistinni.

Svo var hann fagurkeri á tæki og hafði t.a.m. yndi af fallegum bílum. Bjarni var vel ritfær og skrifaði fjörlegar greinar sem hann kallaði “Smiðjan” og birti í Morgunblaðinu. Margir þorðu að smíða vegna þess að Bjarni skrifaði svo hvetjandi texta. Hann var drátthagur og málaði gjarnan vatnslitamyndir og teiknaði mikið.

Bjarni kom líka við sögu þessarar kirkju. Hann var varamaður í sóknarnefnd kirkjunnar um árabil og m.a. formaður Bræðfélags Nesssóknar. Vil ég fyrir hönd Neskirkju þakka honum þjónustu hans. Ég vil líka fyrir hönd kristinnar kirkju þakka Bjarna alla þjónstustu hans í þágu kristni og kristniboðs. Þá skulu þakkaðar viðgerðir hans á kirkjuhúsum og kirkjuleg menningarþjónstu hans um land allt.

Nýtt líf

Heilsuleysi Hönnu og dauðastríð gekk nærri Bjarna. Hann var komin að lokum opinberra starfa og skil urðu í lífi hans þegar Hanna féll frá. Dyr lokuðust og aðrar opnuðust. Bjarni kynntist Sigrúnu Steingrímsdóttur austur í Skálholti. Hún var á þröskuldi nýs tíma í eigin lífi og var á leið í orgelnám í Danmörk. Sigrún og viðfangsefni hennar heilluðu Bjarna. Hann seldi húsið sitt í Skerjafirðinum, pakkaði saman og fór með henni. Þau voru svo í Danmörk í fjögur ár. Bjarni hafði áhuga á kirkjutónlistinni og samhengi hennar, studdi organistanemann og Völu dóttur Sigrúnar. Öll höfðu þau styrk og hag af þessu þríbýli og opnuðu dyr og glugga hverju öðru í fjölbreytilegum skilningi. Þau stunduðu útivist og fjallaferðir af miklum krafti. Þessi tími var Bjarna endurnýjunar- og lærdómstími. Eftir sjö ár slitu Bjarni og Sigrún sambúð, en héldu í vinskap til lokadægurs. Þau Vala ræktuðu sömuleiðis samband og Bjarni fylgdist með börnum hennar.

Akademían

Síðasta skeið Bjarna var hafið. Hann hafði aldrei elst, heldur varðveitt lífsmátt æskunnar. En nú leið að skilum tíma og eilífðar. Kannski er stórkostlegasti þáttur þessa lokaskeiðs vináttan, sem hann átti í Bjarna Bjarnasyni og Gunnari Árnasyni. Þeir voru kollegar hans í Kennaraháskólanum og náðu svo vel saman, að þeir urðu sem þrenning. Þeir hittust flesta virka daga, voru hinir frjálsu andar, nutu listar orðræðunnar og trausts. Þennan þrennufélagsskap kölluðu þeir akademíuna. Lof og þökk sé þeim Bjarna og Gunnari.  

Guð völundur

Nú er komið að lokum. Nú gleður Bjarni ekki lengur ástvini sína og vini. Nú beitir hann sér ekki í þágu framkvæmda. Líf hans er farið inn í himininn. Þar er góð smiðja, þar verður örugglega smíðað, rætt frjálst, hlegið og glaðst. Þar er vináttan rækt, elskan dýpkuð og gleðin aukin. Þar verður gildi meistarans mikla fullkomnað og allir sveinar og nemar fullnuma. Og fagnaðarerindið er hinn mikli gjörningur Guðs, lífið er vettvangur elskunnar. Þegar lífi lýkur er þessi völdundur mættur, opnar fangið og leyfir öllu fólki, já allri sköpun sinni inn í himininn. Í þeirri smiðju má Bjarni Ólafsson vera og iðja og í þeirri akademíu má hann ná öllum sínum markmiðum og vonarefnum. Veröld Guðs er mögnuð og Guð er hrífandi. Líf Bjarna var endurskin undursins. Guð geymi hann um alla eilífð. Guð varðveiti þig.

Minningarorð flutt við útför í Neskirkju 19. maí 2011. Myndina tók ég af Bjarna í ágúst við húsbyggingu 2002. Að baki sést í Gunnar, son Bjarna. 

Æviágrip Bjarna Ólafssonar

Bjarni Ólafsson fæddist í Reykjavík 3. ágúst 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund þriðjudaginn 10. maí s.l. Foreldrar Bjarna voru Hallfríður Bjarnadóttir húsfreyja frá Eskihlíð í Reykjavík f. 16. 8. 1901, d. 3.7. 1973, og Ólafur Guðmundsson frá Ægissíðu í Holtum, húsgagna- og húsasmíðameistari í Reykjavík, f. 24.7. 1894, d. 2.5. 1976. Bræður: Friðrik, kennari f. 17.7. 1921, d. 18.12. 1942, Guðmundur Óli, prestur, f. 5.12. 1927, d. 12. 5. 2007, Felix, prestur, f. 20.11. 1929. 9. janúar 1948 kvæntist Bjarni Hönnu Arnlaugsdóttur frá Reykjavík, röntgentækni og húsfreyju, f. 29.7. 1928, d. 13.1. 1984. Foreldrar hennar voru Guðrún Guðmundsdóttir, f. 1884, d. 1943 og Arnlaugur Ólafsson f. 1888, d. 1971.

Börn Hönnu og Bjarna eru: 1. Gunnar f. 1949, húsamíðameistari, kvæntur Kristínu Sverrisdóttur. Sonur þeirra er Sverrir f. 1982. 2. Ólafur f. 1953, bifreiðasmiður, búsettur í Svíþjóð. Börn hans eru: Fríða f. 1987, Óskar f. 1990, Minna f. 1996. 3. Hallfríður f. 1957, iðjuþjálfari og kennari, búsett í Noregi, gift Terje Fjermestad. Börn hennar eru: Hanna f. 1985, Jón f. 1987, Lísa f. 1989.

Bjarni tók sveinspróf í húsasmíði 1944 frá Iðnskólanum í Reykjavík og handíðakennarapróf sama ár. Kennari í Laugarnesskóla 1944-1970, námsstjóri í smíðum á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og síðan lektor í handmennt við K.H.Í. 1976-‘87. Hann kynnti sér nýjungar í smíðakennslu á Norðurlöndum og var brautryðjandi í handmenntum. Hann stofnaði heildverslun og flutti inn efni fyrir m.a. handmennt. Einnig stofnaði hann byggingarfyrirtækið „Stokkahús“ ásamt öðrum sem flutti inn og framleiddi timburhús. Vann fyrir Þjóðminjasafnið 1959-76 við ýmsar viðgerðir og ráðgjöf.Eftirlitsmaður prestssetra og kirkna 1959-60. Sat í skipulagsnefnd kirkjugarða 1964-’88.  Var í sóknarnefnd og formaður Bræðrafélags Nessóknar 1976-82.

Hann tók mikinn þátt í starfi KFUM og KFUK. Hann var forstöðumaður KFUM í Laugarnesi frá 1943, brautryðjandi og forystumaður í drengja- og unglingastarfi félagsins. Söng í Blönduðum kór KFUM og KFUK. Sat í stjórn Skógarmann nokkur ár. Teiknaði og hannaði kapellu í Vatnaskógi. Var sæmdur gullmerki Skógarmanna. Hann sá um byggingu íþróttahússins í Vindáshlíð ásamt margvíslegum framkvæmdum þar.

Hann naut þess að ganga um landið og var oft leiðsögumaður. Hann hélt áhuga sínum fyrir söng og tónlist allt sitt líf sem leiddi m.a. til búsetu í Danmörku um árabil. Í mörg ár skrifaði Bjarni greinar í Morgunblaðið undir heitinu „Smiðjan“ sem fjölluðu aðallega um viðhald húsa og muna. Bjarni var fjölhæfur listamaður, einstakur fagurkeri, sérlega uppörvandi og hvetjandi maður.