Haraldur Karlsson – minningarorð

Líf Haraldar Karlssonar var dramatískt. Afköst hans í lífinu voru óvenjumikil, lífshlaupið fjölbreytilegt, hæfileikar hans ríkulegir og víðfeðmir, sjarminn óumdeilanlegur og tilfinningarnar djúpar. Margt er óvenjulegt og íhugunarvert, en ekkert er þó eins sláandi og barnríki hans. Tveir barnahópar, tvær mæður, tvennar sjöur – fjórtán börn. Raunveruleikinn er oft ótrúlegri en skáldskapur. Saga og líf Haraldar Karlssonar ristir dýpra en skáldsaga, er áleitnari en flækja í bók. Haraldarsaga er lífsgjörningur.

Að ljóða er að gera

Hann var framkvæmdamaður, eins og Magnús, tengdasonur hans, skýrði vel. Og stöldrum við og hugsum um eðli framkvæmda, merkingu þeirra. Margir í þessum hópi þekkja orðið “póesía,” sem áhugafólk um bókmenntir notar oft og slangrað er með í tímum í skólum okkar og annarra vestrænna þjóða. Þetta orð er notað í flestum vestrænum tungumálum um ljóðlist. Og orðið, sem notað er um ljóð í mörgum tungumálum, er af sömu rót. En að baki öllum þessum póetísku ljóðnefnum og ljóðafleggjurum er hið fallega gríska orð poiesis, ποίησις. Það er ekki aðeins snoturt á blaði, heldur þrungið fallegri merkingu. Það táknar ekki aðeins það að raða orðum í ljóð, heldur líka hitt að búa til með höndum, gera hluti, framkvæma og hlúa að lífi. Að ljóða er að gera.

Í hinum forna menningarheimi, grískum og hebreskum, var póesía ekki aðeins huglægt verk, heldur náði til fóta, handa, starfa, vinnu, sköpunar, já raunveruleika og lífsbaráttu fólks. Handverk fólks var aldrei sálarlaus, andlaus framkvæmd heldur átti sér líka andlegar víddir. Auðvitað er þetta speki, sem við ættum að íhuga og taka til okkar. Handverk okkar í vinnunni, eldhúsi, garði, byggingapuði, barnauppeldi, bleyjuskiptum, já öllu ati lífsins á sér andlega hlið. Hin dýpsta speki, sem við kunnum að hugsa getur á hinn bóginn heldur aldrei lifað nema hún eigi sér hagnýta skírskotun í pólitík, í listum og í deiglu samfélagsins. Lífið er eitt og Grikkir og Hebrear fornaldar vissu, að lífið á sér framvindu, bæði andlega og efnislega. Allt var tengt og allt var á hreyfingu. Lífið var gjörningur, samfelld póesía.

 Hin skapandi Guðsmynd

Guðsmynd Biblíunnar er af þessu tagi. Í öllum bókum þess mikla rits er minnt á, að Guð er ekki fjarlæg, upphafin, andleg vera, heldur ástríðupersóna, sem elskar, grætur, faðmar, gleðst og syrgir. Samkvæmt kristninni er Guð svo tengdur, að þegar allt var brotið í mannheimi sat Guð ekki hjá heldur kom til að þurrka tárin, lækna meinin og skapa grundvöll lífsins. Guð gerir menn frelsis, vill okkur vel og yfirgefur okkur aldrei þrátt fyrir að við séum brestótt. Já Guð er stórskáldið, sem yrkir heiminn, yrkir mennina, nýtur lífsins, er sjálfur hin mikla póesía, líka þegar allt er þrotið, búið, týnt og brotið. Þegar köflum er lokið opnar Guð nýjan veruleika, byrjar nýjan kafla með nýjum möguleikum og lífi.

Ætt og ævi

Haraldur Karlsson fæddist á Njálsgötu 62 í Reykjavík 27. október árið 1922 og lést á Landspítalanum þann 30. október síðastliðinn, 85 ára að aldri. Móðir hans var Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir (12.9.1898-10.7.1970). Faðir hann bar fleiri nöfn en aðrir, hét Karl Haraldur Óskar og var Þórhallason (25.2.1896-11.3.1974. 

Haraldur var elstur í hópi níu systkina, sem komu í heiminn á aðeins sextán árum – á árunum 1922-38. Hin eru Guðrún Helga (f. 1924); Þórhalla (f. 1926); Sigríður (f. 1928 – d. 2001); Kristín (f. 1932); Ásgeir (f. 1934); Hjördís (f.1935); Fjóla (f.1936) og Þórdís (f. 1938). Þetta er kjarnmikið fólk og hefur notið langlífis. Af þessum níu systkinum lifa sjö, aðeins Sigríður er látin auk Haraldar, en hún lést árið 2001.

Fjölskyldan var á nokkurri fart. Haraldur sleit fyrstu barnsskónum á Njálsgötu, en þegar hann var á fjórða ári fluttu foreldrar hans inn í Sogamýri, þar sem nýbýlið Brekka var. Síðan voru þau eitt ár á Stokkseyri, en fóru svo á Grettisgötuna og þar á eftir í Vitann, sem stígurinn er kenndur við. Karl, faðir hans, keypti leifar vitans og breytti í hús. Haraldur kom tíu ára í Austurbæjarskóla, þá vel læs, enda hafði Guðrún amma kennt honum vel. Síðan fór hann í Ingimarsskóla og lauk þaðan grunnnámi.  

Að sið þeirrar tíðar byrjaði Haraldur að vinna ungur. Hann fór nokkur sumur í sveit austur í Villingaholt. En fór svo að vinna með föður sínum. Síðan tók við vinna hjá Hitaveitu Reykjavíkur og svo kom blessað stríðið. Haraldur fékk árið 1940 vinnu hjá breska hernum við byggingu Reykjavíkurflugvallar. Þegar hann fékk bílpróf árið 1941 fór hann að aka vörubíl föður síns og vann með viðgerðarflokk hjá Reykjavíkurbæ.  Síðan byrjaði hann húsasmíðanám hjá Guðbjarti Jónssyni, húsasmíðameistara, lauk því og hafði mikla atvinnu af framkvæmdum æ síðan. Haraldur tók alls staðar þátt í félagslífi þar sem hann fór, var t.d. einn af stólpum félagslífs á Grímsstaðaholtinu, sat í stjórn ungmennafélagsins, byggði m.a. með félögum sínum skemmu í Grímsstaðafjörunni. Í þessu sem öðru þjálfaðist hann til síðari félagsstarfa.  

Hjúskapur og börn

Hjúskaparmál Haraldar voru einföld, en ásta- og barnamálin þó flókin. Haraldur kvæntist einni konu en átti börn með tveimur konum. Hann kynntist Elínu Ólafsdóttur á dansleik í Gúttó (Elín var fædd22.9.1929-12.4.2000, fædd í Litla-Dal, Svínavatnshreppi í A-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar voru Hallfríður Ingveldur Björnsdóttir og Ólafur Jónasson í Litla-Dal). Þeim leist vel á hvort annað, segir hann í minningum sínum, og gengu í hjónaband í júlí 1947. Þau hófu hjúskap í bakhúsi við Fálkagötu, skammt frá brauðbúðinni. Þar var steinhlaða, sem smiðurinn breytti snarlega í íbúðarhús. Árið 1950 flutti stækkandi fjölskyldan norður í Litla-Dal í Svínavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þar voru þau til ársins 1963.

Börn þeirra eru: 

  1. Karl Þórhalli (f. 10.11.1947);
  2. Hallfríður Ólöf ( 24.2.1949). Maki hennar er Pétur Ottósson.
  3. Sigrún Ásta (f. 5.6.1953). Maki hennar er Þórður Adolfsson.
  4. Hjálmar (f. 29.janúar 1956). Maki hans er Svanhvít Ástvaldsdóttir.
  5. Jónas (f. 12.7.1959). Maki hans er Sigrún Sigurðardóttir.
  6. Kristbjörn (26.7.1960) og
  7. Sigríður (f. 9.12.1961). Maki hennar er Magnús Bjarni Baldursson.  

Auk þessara sjö barna eignaðist Haraldur önnur sjö börn með Guðrúnu Sigurvaldadóttir, sem var fædd á Gafli, í Svínadal í Austur Húnavatnssýslu (06.11.1925 – 29.07.2007. Foreldrar hennar voru Guðlaug Hallgrímsdóttir og Sigurvaldi Jósefsson).

Börn þeirra Guðrúnar eru:

  1. Óskar Vikar (f. 16.1.1958). Maki hans er Somsri Yurasit.
  2. Birgitta, f. 20.06.1958. Maki hennar er Sigurður Ingi Guðmundsson. Birgitta var alin upp hjá kjörforeldrunum Halldóri Eyþórssyni og Guðbjörgu Ágústsdóttur.
  3. Ásgeir, f. 15.6.1963. Maki hans er Guðrún Jóhannsdóttir.
  4. Sigurjón, f. 18.3.1965. Maki hans er Anna Rúnarsdóttir.
  5. Þorbjörn, f. 22.5.1967. Maki hans er Helga Hafsteinsdóttir.
  6. Hallgrímur, f. 2.10.1969. Maki hans er Ásdís Gunnarsdóttir.
  7. Þórhalli, f. 11.9.1971. Maki hans er Turid Rós Gunnarsdóttir.

 Af þessum fjórtán börnum eru síðan þrjátíu barnabörn, átta barnabarnabörn eða alls 52 afkomendur. Þetta er mikið barnríki. Haraldur Pétursson og Íris Viggósdóttur í Noregi geta ekki verið við þessa athöfn en biðja fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Framkvæmdir

Þegar norður kom var faglærðum iðnaðarmanni fagnað. Haraldur var hamhleypa til verka, snarráður, og stýrði vel átaksvinnu. Í sveitum var sjálfvirkt herútboð þegar byggt var einhvers staðar, allir nágrannar komu til að taka þátt í að steypa. Haraldur kunni atinu vel, var manna glaðastur, spaugaði og kunni vel að verkin gengju hratt og ákveðið. Það var ekki undarlegt, að um Harald var setið og hann fengin til byggingavinnu. Það er eins og hann hafi komið við sögu á flestum bæjum í austursýslunni þar sem byggt var á þessum árum. Varla var kofi reistur, hlaða eða íbúðarhús, að hann legði ekki hönd að. Hann kynntist því mörgum heimilum, hugsunarhætti og aðstæðum. Alls staðar gengu verkin þótt kaupið væri ekki hátt. Verksvitið skilaði sér og húsin risu honum og Húnvetningum til gagns og sóma.

Haraldur kunni vel glaðværðinni nyrðra og þandi tenórrödd sína óhikað í karlakór Bólstaðahlíðarhrepps. Hann lærði að meta unað og ljóðrænu sveitarinnar. Söng “hrísluna og lækinn” með innlifun, andaði að sér næmi til landsins, sem hann túlkaði síðan í ljóðmælum sínu. Hann naut gleði samfélagsins, tók þátt í félagslífinu, fór á fjall, náði að tengja hinar fjölmörgu víddir hálendis og láglendis, hvernig menn lifðu á þessum mörkum milli lífs og dauða og hvernig gleðjast mátti þrátt fyrir ágjafir og erfiðleika. Ljóðin hans tjá þetta líka með skýrum hætti. Hann hreifst af unaði og gjörningum lífsins.

Flutningar og lífsbarátta

Haraldur skrifaði í æviminningum sínum grípandi sögu frá unglinsárum um reynslu af hve stórkostlegt blíðviðri breyttist í fárviðri með skruggum og úrkomu. Hann sá eldingu lenda í bjargi, sem splundraðist við höggið. Undraðist Haraldur kraftana, sem leystust úr læðingi, undraðist hversu grjótið dreifðist í sprengingunni. Átökin eru mikil í náttúrunni en líka í heimi mannanna. Haraldur lifði andstæður og þverstæður í lífinu. Hann skrifaði sjálfur, að honum hefði þótt Litla-dals tíminn besti tími ævinnar. Það er ekki einkennilegt, hann naut sín, var metinn, allt lék í höndum hans, lánið lék við honum og lífssól hans skein í heiði. Svo komu erfiðleikarnir með kólgubökkum og ljósgangi. Veikindi og aðkrepptar aðstæður sístækkandi barnahóps hreyfði við fólkinu hans. Guðrún fór suður með sinn hóp og Elín líka með sinn.

 Það var ekki einfalt, að framfleyta svona stórhópum. Og djúpa samúð hefur maður með þessum konum, þessum mæðrum, sem gerðu það, sem þær gátu til að hafa í börn sín og á. Þrátt fyrir dugnað og framkvæmdagleði föðurins var oft þröngt í búunum. Og ótrúlegt er að hlusta á sögurnar um vatnsleysið í húsinu á Árbæjarbletti 10, þær minna helst á aðstæður fyrri alda. Jafnvel sulturinn teygði krumlur sínar inn á matarlítil heimilin. Það er ekki eins og þetta séu gamlar sögur, heldur reynsla sumra ykkar, sem sitja í kirkjunni í dag. En gleðistundirnar voru ýmsar, börnin lærðu að standa saman, fundu að sundrung dreifir en samstaðan styrkir. Svo komu líka depurðarstundir, sem þau urðu öll fyrir, börnin, konurnar og líka Haraldur vegna hinna sérstæðu aðstæðna. En lífið er sterkt, lífsþorstinn mikill og upp potaðist hópurinn með áraun sína og lífsreynslu. Og auðvitað eru þessi fjórtán börn stórkostlegt kraftaverk lífsins, með mikla meðgjöf hæfileika og atgervis, sem þau hafa unnið úr.

Vinna okkar með okkur sjálf, foreldratengsl er flestum æviverkefni, sem lýkur ekki og heldur áfram í börnum okkar. Því er svo mikilvægt að staldra við, ræða saman og taka hið góða og jákvæða með inn i framtíðina, en leyfa hinu að fara. Við þurfum að læra að sleppa og þora að loka málum.  

Reykjavíkurlífið

Eftir að Haraldur flutti aftur til Reykjavíkur fékkst hann við margvísleg störf auk húsasmíða, s.s. símvirkjun og trillusjómennsku og átti jafnvel tvo báta. Um tíma bugaðist hann og missti þrek og var í nokkur ár á Reykjalundi til heilsubótar og aðhlynningar. En vandi elur jafnan möguleika. Hann gat betur sinnt hugðarefnum sínum. Hann hafði alla tíð sungið og sinnt ljóðagerð. Hann hafði líka spilað á hljóðfæri s.s. mandólín, gítar, munnhörpu og ef ekki var annað tiltækt – þá bara á sög! En svo kom í ljós, að Haraldur var auk alls hins líka drátthagur. Haraldur fór að mála myndir. Þá skrifaði hann afar áhugaverðar æviminningar, sem vert er að birta með einhverjum hætti, á prenti eða á netinu til nota fyrir afkomendur en líka skoðunarmenn byggða- og menningarsögusögu Reykjavíkur og Húnvetninga. Svo lagði hann ættfræði fyrir sig. Ræktunarmaðurinn og bóndinn kom upp í honum við skógrækt, sem hann hafði gaman af og hellti sér í með miklu krafti. Fyrr og síðar reyndi Haraldur að þjóna sínu fólki, var alltaf boðinn og búinn að hjálpa til við framkvæmdir, lagði bæði reynslu og sína frjóu hugsun við svo hús urðu betri, framkvæmdir gengu hratt fyrir sig og allir nutu góðs af. Þjónustulipurð og hjálpsemi einkenndi Harald og greiðasemina hafa börnin hans erft. Það er einn besti arfur, sem menn getið hlotið.

Skapandi verk

Það eru margar undursamlegar sögur til af Haraldi. Þær er gott að segja þegar glímt er við sorg og stóru málin eru gerð upp. Svona sögur tjá lyndiseinkunn, geta skýrt ýmislegt í lífi hans og líka af hverju sum barna og barnabarna gera þetta en ekki hitt. Þegar húsið í Árbænum var að ganga af göflunum vegna þrengsla og mannfjölda reyndi Haraldur ítrekað að fé leyfi til stækkunar. En kerfið var ólipurt og ekki í neinum takti við þarfir fjölskyldunnar. Þegar sýnt var, að bæjaryfirvöld myndu ekki aðhafast tók Haraldur til sinna ráða, planaði vel, rótaði í garðinum og tók svo til við smíðar út á grasflöt. Svo þegar hann var búinn að puða talsvert og án þess að nokkur tæki eftir að eitthvað stæði til beið Haraldur rökkurs einn daginn. Þegar nægilega dimmt var orðið reisti hann allt í einu fleka, sem hann hafði verið að bauka við, svo kom annar hornrétt á, og svo enn einn. Allt í einu voru komnir veggir og svo small þakið á. Þegar morgnaði og vegfarendur fóru hjá var eins og eitthvað væri breytt, en enginn var með á hreinu hvað hafði gerst, en húsið hafði tognað eins og fyrir himneskan gjörning. Já, húsið hafði stækkað um tvö herbergi um nóttina, var fallegra en áður, sómdi sér vel, svona fullkomlega leyfislaust og ávöxtur snilli og áræðni. Næturvinnan getur stundum verið gjöful!  

Snarræðið og kraftur einkenndi vinnulag Haraldar alla tíð. Allt frá því hann eignaðist Willysinn fyrir norðan og gerði upp díselvél Ferguson-traktorsins var hann fær í flestan sjó við að laga og gera við bílana sína, sem urðu margir áður en yfir lauk. Einn laugardagsmorguninn vaknaði hann snemma og svo bárust skerandi málmhljóð um hverfið. Haraldur var byrjaður í útgerð og vantaði hentugan bíl fyrir flutning á veiðarfærum og kannski afla líka. Hann sá í Morrisnum sínum gott efni í flutningabíl svo hann mundaði bara slípirokkinn og lét hann ganga í skrokk á “bodí” bílsins. Hluta af húsinu skar hann af og fyrir hádegi var Haraldur búinn að breyta fólksbílnum í þennan líka gerðarlega “pick-up.” Þegar hann var spurður um ástæðu þessa sagði hann einfaldlega að toppurinn hefði skrölt að aftan, hægra megin! Gott ef hann málaði svo ekki pick-upinn eftir hádegi.  

Svona sá hann í aðstæðum möguleika, sá í hlutum nýja notkun og aðlagaði þá þar með. Og slík möguleikasýn er nauðsyn öllum þeim, sem skapa, vilja finna færa leið og gildir einu á hvaða sviði það er. Haraldur var framkvæmdamaðurinn, skáldið sem gat endurraðað, endurgert, endurverið og það er eftirbreytnivert. Nú er komið að skilum og mikilvægt fyrir stóran ættbogann að varðveita hinar góðu minningar, leyfa þeim að lifa en hinu að fara.

Kafla lokið

Hvað ætlar þú að gera við sorg þína? Hvernig ætlar þú að gera upp fortíðina? Vísast er eitthvað, sem kvelur þig, einhverjar minningar sem angra, eitthvað verið gert eða sagt, eða ekki verið gert eða sagt, sem þú vildir að væri öðru vísi. Fortíðin, lífið, hefði getað verið öðru vísi, en nú verður engu breytt. Elín, Guðrún og Haraldur eru öll látin. Nú eru orðin mikil skil og mikilvægt að þú viðurkennir þau. Með dauða Haraldar er stórum kafla í fjölskyldunni lokið. Vertu með í að ljúka þeim kafla, viðurkenndu skilin.

Talaðu um það sem svíður hið innra, en leyfðu því svo að fara. Talaðu um það, sem gleður hið innra og leyfðu því að lifa. Horfðu svo á systkini þín, ættmenni þín – þetta er þitt fólk, fólk sem hefur svo margt til brunns að bera, fallegt, gott, gjafmilt, kátt og skemmtilegt fólk. Saman byrjið þið algerlega nýjan lífskafla, yrkið nýjar sögur. Þær eru ekki bara framhald hins liðna, heldur nýr tími. Þið þurfið ekki að skera bodíið eða reisa veggi um nótt heldur bara viðurkenna að lífið er gott og á hverjum degi eru nýir möguleikar. Komið saman sem fjölskylda, haldið hátíðir og segið öðrum hvað ykkur þykir vant um í hinum.  

Yfir öllu vakir svo gjörningameistarinn á himnum, þessi sem ljóðar lífsmöguleika, gleðimál, býr til músík, málar myndir fegurðar fyrir þig, já skapar möguleika fyrir lítil og stór börn, elskar þau öll óháð því hvernig þau verða til. Ljóðið um Guð er um að lífið er einn samfelldur gjörningur, póesía elskunnar. Svo þegar lífi lýkur er þessi ljóðmögur mættur, opnar fangið og leyfir öllu lífinu, öllu fólki, já allri sköpun sinni að hverfa inn í það ríkidæmi sem við köllum í orðfæð okkar himininn. Þar má Haraldur búa, þar eru Elín og Guðrún, allur ættboginn. Þar er engin kvöl né tár. Þar ríkir elskan hrein.