Sigríður Jónsdóttir – Síta

Síta var yndisleg, vel gerð, róleg, spaugsöm en í henni var snöggur sálarblettur, góður húmoristi, trölltrygg, vel máli farin og hnyttin. Útför Sigríðar Jónsdóttur var gerð frá Neskirkju 22. október, 2007. Minningarorðin fara hér á eftir.

Vestur í Stykkishólmi urðu ævintýrin við hvert fótmál. Mannlífið var fjölskrúðugt og margir krakkar til að leika við. Hægt var að flengjast í reiðtúra eða leika sér við sjóinn. Varfærni var þörf, hættur voru hvarvetna. Æskuleikir eru æfing í að lifa og í þeim lærist ungviðinu hvar mörk öryggis og hættu liggja. Í menningu og list Íslendinga fyrr og síðar er unnið úr og bent á hvar lífið endar og dauðinn byrjar. Raunar má halda fram, að klassísk menning okkar sé ítarlegt uppgjör á þeim mörkum. Kveðskapur, þjóðsögur og bókmenntir eru útlistun á átökum og viðbrögðum við þau mæri. Leikir barna á Íslandi hafa verið næsta frjálsir. Auðvitað hafa foreldrar reynt að byrgja brunna og benda á hættur, en börnin hafa þó gert sínar tilraunir til að sannreyna sjálf hvort viðvarandir hafi við rök að styðjast.

Lífshætta

Hún Síta gerði líka tilraunir. Einu sinni sem oftar – í froststillu – lagði víkurnar við Stykkishólm. Barnaskarinn flykktist niður að sjó. Börnin stöppuðu á svellið og það hélt. Svo var haldið utar og hópurinn fór út á slétta glæruna. Öllu virtist óhætt. Síta var frökk, vildi utar og allt í einu sprakk glæran undir henni og hún féll í kaldan sjóinn og barðist þar um. Ráðagóðir krakkarnir tóku skyndiákvörðun, lögðust á ísinn og mynduðu röð. Í fætur fremsta manns var haldið og svo var það mennsk björgunarkeðja, sem lá á klakanum og upp á tryggan ís. Þessu liði tókst ætlunin og Sítu var bjargað. Hún var dregin upp úr dauðapollinum, upp á skörina, komst til lands og lífs eins og allir hinir. Svo var henni fylgt heim, Svafa bar fréttina á undan henni. Síta fékk að lifa.

Samfélag

Þessi bernskusaga um Sítu er heillandi. Hún er auðvitað táknsaga um, að maðurinn er samfélagsvera og samfélag hentar best til að bjarga þeim sem er í neyð. Enginn er eyland, heldur er hver karl eða kona hluti félags manna, af ættboga og menningu. Án mannfélags erum við án varnar og deyjum, án menningar erum við andlega nakin og náum ekki þroska. En í samfélagi verðum við manneskjur, í samfélagi þiggjum við veganesti til lífsins, í samfélagi lifum við gjarnan stærstu gleðistundir ævinnar en líka mesta harm, í samfélagi getum við notið okkar eða verið heft. Síta óx upp í samhengi og fjölskyldu og hún nýtti líf sitt til að úthella sér fyrir aðra, samfélag sitt og fólkið sitt.

Þú Guð líka

Í Davíðssálmum segir: „… Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.“ Þetta eru orð úr 139 sálmi Davíðs.

Ættbogi, mannfélag og náttúra er hið stóra samhengi mannsins, en Guð er hið algera samhengi. Í neti lífsins verðum við til og í faðmi Guðs verðum við eilífar sálir. Það sem ekki fæst í þessum heimi fáum við notið handan tíma. Þar fæst er hin algera sátt, jafnvægi kraftanna og skapandi hamingja.

Ævi og fjölskylda Sítu

Sigríður Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 14. maí árið 1931. Hún var dóttir Ólafar Bjarnadóttur (1895-1988)   og Jóns Hallvarðssonar (1899-1968). Báðum megin eru öflugir frændgarðar, mikið hæfileikafólk og mannval.

Systkini Sítu eru: Baldur (f. 6. september 1926); Bjarni Bragi (f. 8. júlí 1928) og Svafa (f. 25. mars 1930), en hún lést árið 1952 (1. júní).

Fyrsta árið var Sigríður í stórfjölskylduhúsinu á Kárastíg 11 í Reykjavík. Þar fæddist hún og þar datt föður hennar í hug, að vel mætti kalla hana eitthvað annað en Siggu! Þá varð fyrir honum heiti hinnar skapríku keisaraynju, hinnar síðustu, í austurrísk-ungverska keisaradæminu. Sú hét Zita. Þar var gæluheitið komið og fjölskyldufólk og vinir þekktu Sigríði Jónsdóttur sem Sítu og verður hún því svo nefnd hér á eftir.

Síta fór ársgömul til Vestmannaeyja með fjölskyldu sinni. Þaðan fóru þau svo í Stykkishólm þar sem faðir hennar var sýslumaður til ársins 1941. Þá flutti fjölskyldan enn á ný og til Reykjavíkur. Erfitt var um húsnæði og um tíma bjó hún hjá fjölskyldu Einvarðs Hallvarðssonar, sem var föðurbróður hennar. Reyndist hann og fjölskyldan Sítu afar vel og mynduðust tengsl sem héldu.

Síta byrjaði skólagöngu í Hólminum, en hélt svo áfram grunnnámi í þeim merka Laugarnesskóla. Þaðan lá leið hennar í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og lauk hún landsprófi þaðan árið 1948. Menntaskólaganga hennar hófst, fyrst fór hún í MR en tók svo þá ákvörðun að söðla um og fara á heimavist og í aðrar aðstæður. Hún fór norður í Menntaskólann á Akureyri. Þar leið henni vel, en þá reið yfir hana þungt áfall. Svafa, systir hennar, lést í júníbyrjun 1952. Það var eins og varnarbrynjan á hafi myrkursins hefði brostið og Síta berðist um og reyndi að komast upp að nýju. Þær systur höfðu verið samrýmdar og staðið þétt saman og ekki síst þegar að þrengdi og þörf var á öryggi og hlýju.

Sítu fataðist flugið. Hún treysti sér ekki norður strax og hélt ekki áfram fyrr en ári síðar. En vinkonur hennar sem og fjölskylda, skólamenn fyrir norðan og vinir hennar sammæltust um, að hvetja hana til norðurfarar að nýju. Það tókst og Síta var næstu tvo vetur í MA í góðu yfirlæti, í fjörinu á heimavistinni, eignaðist vinkonur og styrkti tengslin fyrir lífið. Síta var góður námsmaður lauk stúdentsprófi árið 1955 með góðri einkunn. Síðan byrjaði hún málanám í Háskóla Íslands og fór líka til Parísar til að ná frönskunni almennilega og París var og er stórfengleg.

Atvinna og verustaðir

Alla tíð hafði Síta atvinnu af skrifstofustörfum. Fyrst hjá SÍS, frá vori árið 1955, en hún hóf svo störf á hagfræðideild Landsbanka Íslands árið 1960 og fylgdi þeirri deild þegar hún var gerð að Seðlabanka Íslands árið 1961. Vann hún þar ýmis skrifstofustörf þar til hún lét af störfum árið 1995. Hún var vel metin í starfi, glögg, ljúf í samskiptum og lagði bankamenningu Íslands gott til.

Síta naut þess á bernskuárum að vera nokkur sumur í skaftfellskri dýrð og tengjast menningu og umhverfi móðurslóðanna. Skaftfellsk menning var vefur hins agaða einfaldleika, orðheldnu fámælgi og langsækna kærleika. Þar var margs að gæta og margt að læra. Alla fullorðinstíð sína hélt Síta svo heimili með hinni “skaftfellsku” móður sinni í Sörlaskjóli 42.

Síta var ógift og barnlaus, en annaðist móður sína og sitt fólk með natni. Sveinn og Rósa, sambýlingar í Sörlaskjóli 42 voru henni svo góðir grannar, að þeim er hér þakkað. Þegar fór að halla undan fæti hjá Sítu og hún átti við vaxandi vanheilsu að stríða fór hún á Elli- og hjúkrunarheimilið Grund. Þar bjó hún við góða aðbúð, naut elskusemi starfsfólks, endurheimti eða eignaðist “nýja” systur í Sigrúnu, herbergisfélaga sínum. Þær nutu félagsskaparins og voru á Grund kallaðar “systurnar.”

Síta lést að morgni 10. október sl. og verður jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Ýmsir hafa beðið fyrir kveðjur til ykkar, sem komið í kirkju í dag til að blessa minningu Sítu. Kveðjur hafa borist frá: Baldri bróður á Kumbaravogi; Jóni Braga Bjarnasyni, bróðursyni, og Ágústu Guðmundsdóttir, konu hans, sem eru í Bandaríkjunum;
Kristínu Erlu Sigurðardóttur í Vín;  Steinari Braga Guðmundssyni og Rósu Guðmundsdóttur. Sigríður Ingólfsdóttir og Sigurður Ingi, sonur hennar, þakka fyrir vináttu. Þá biðja fyrir kveðju þau Sigrún, Viktoría Bryndís og Haukur, en þau eru börn Friðfinnu og Viktors á Bjarmastíg 7, Akureyri, sem forðum opnuðu heimili sitt fyrir Sítu og reyndust henni sem besta fjölskylda á Akureyrartímanum.

Þjónusta og elska

Minningarorð í útfararathöfn skilgreina ekki líf fólks og gera ekki upp með neinum tæmandi hætti, marka ekki stöðu fólks í lífinu, en geta hins vegar stutt í sorgar- og sálarvinnu. Það hefur verið undursamlegt að hlusta á vini og aðstandendur lýsa Sítu. Öllum ber saman um dyggðir hennar en lastaskorturinn er sláandi.

Skólasystur fyrir norðan lögðu saman í lýsingu á henni ungri: Síta var yndisleg, vel gerð manneskja, róleg, spaugsöm en í henni var snöggur sálarblettur, góður húmoristi, trölltrygg, vel máli farin og hnyttin. Mér virðist, að skaphöfn hennar hafi snemma verið skýr og hafi haldist. Hún tók þátt í ýmsu í menningarlífi borgarinnar, fylgdist með bókmenntum og dægurmálum, hafi góða yfirsýn varðandi deiglu samfélagsins eins og er oft um skarpa einhleypinga. Hún var eins og margir nútímamenn, ferðalangur í tíma og rúmi og naut ferðanna sem hún fór, hvort sem það var nú til Ítalíu eða í orlofssetur fjölskyldunnar að Seljum á Mýrum.

Gildi manna verður ekki úrskurðað heldur í minningarorðum. En mig langar til að draga athygli þessa safnaðar að ríkulegri þjónustu Sítu. Þær voru ekki beinlínis mjög líkar Zíta keisaraynja og Síta í Sörlaskjólinu. En það voru til fleiri Zítur í sögunni. Á 13. öld fæddist kona suður í Toscana á Ítalíu og hún hét Zita og varð kunn fyrir elskusemi, sem var svo yfirfljótanleg og með jarðteiknum að Zita var síðar tekin í tölu dýrlinga, var dýrlingur hinnar auðmjúku þjónustu. Kannski er það hin þjónandi Zita, sem Sigríður Jónsdóttir líkist meira, en sú, sem þjónað var í keisarahöllinni.

Síta hin íslenska reyndist vel öllum þeim, sem henni voru vandabundnir. Hún þjónaði ekki aðeins móður sinni til hinsta dags. Hún umvafði líka systur sína kærleika sínum þau ár, sem hún lifði, gerði sitt til að gleðja hana og vera með henni í smáu sem stóru. En eftir að hún féll frá og veröldin stækkaði og fjölgaði í fjölskyldunni stækkaði faðmur Sítu. Hún átti ekki börn sjálf, en úthellti sér fyrir bróðurbörn sín, börn Rósu og Bjarna Braga, sem besta aðstoðarmóðir og síðan börn þeirra með sömu ástareinurð.

Síta átti í sér barnvirðingu og kyrru svo börn gátu án streitu rætt við hana. Börnin studdi hún og hvatti. Fátt var svo stórt, að það yrði Sítu fyrirstaða eða dýrt að  hún hefði ekki einhver tök. Hún átti til gjafmildi að telja og kippti í það kynið. Allt hennar fólk og þeir, sem nærri henni voru, vinnufélagar þ.m.t, nutu þessa af hennar hálfu. 

Síta þjónaði samfélagi sínu með róttæku og kærleiksríku móti, efldi líf margra barna, gerði líf þeirra ævintýralegt. Í minningu margra þeirra eru viðburðir, sem eru svo skemmtilegir og kúnstugir, að Astrid Lindgren hefði allt eins getað uppdiktað þá og gefið út á bók. Síta var stókostleg í sumu og ávallt veitul í samskiptum.

Af því enginn er eyland er besta þjónustan í þessum heimi fólgin í að efla fólk, veita því litríki í grárri tilveru, opna nýjar víddir þegar sund virðast lokuð, vera til staðar þegar börn, já fólk á öllum aldri, þarfnast hlýju og öryggis, vera öðrum opin sál og laða fram lífið. Það var Síta.

Elskan

Alla tíð var dregið í hana, vök sjávar var opin og nærri, en alltaf var hún í samfélagi. Hún var ein en þó nálæg. Hún var barnlaus en þó barnmörg. Og nú hefur vökin opnast enn betur, handtak hinna fremstu og næstu slitnað og nú er skilum náð. En hvað tekur við? Er það köld gröf og myrk hvíla? Nei, það er betra líf. Í stað einverunnar hverfur hún inn í margmenni. Í stað skuggaleiks ríkir þar birtan ein. Í stað þess að sjá á eftir og óttast um sitt fólk má hún hlægja í stórum hópi sinna, þeirra sem hún elskaði, mömmu og pabba, Svöfu, afa, ömmu, já hins stóra frændgarðs þar sem ekkert er tapað og engu er sóað, þar sem allir hafa náð fullum þroska, þar sem enginn þarf að líða fyrir hvorki sorg eða mistök, þar sem allir eru glaðir og þar sem bernskan ríkir hrein. Þar brotnar enginn ís á víkum, þar eru engar myrkar vakir, þar ríkir elskan hrein, sem aldrei springur og engan svíkur. Guð geymi Sítu um alla eilífð. Guð geymi þig, sem kveður, og alla ástvini.