Sveinn Jónasson +++

Loks eftir langan dag

lít ég þig, helga jörð.

Seiddur um sólarlag

sigli ég inn Eyjafjörð.

Ennþá, á óskastund,

opnaðist faðmur hans.

Berast um sólgyllt sund

söngvar og geisladans.

Sjómaður á leið heim. Grímseyjarsund að baki, Hvanndalir og Héðinsfjörður á stjórnborða, Kaldbakur í austri. Fjörðurinn sléttur í miðnætursól og speglar bæði ský og fjöll. Stillan alger. Smáhvalir leika sér í Austurálnum nærri Hrísey. Múlinn, Rimar, svarfdælskur Stóllinn og Kerling fram í firði hvíla eins og sofandi risar sem í logni dagrenningar. Sjómennirnir skygna lög og láð. Í augum er tilhlökkun, þeir segja ekkert. Fegurðin er umfaðmandi. Hvað hugsar áhöfnin á Snæfellinu, hvað hugsar bátsmaðurinn? Hvað er þetta líf og hvað verður þegar komið er inn á Pollinn og stokkið í land. Er lífið eins og hver annar Kaldbakur eða kannsi fremur einhver Fagriskógur? Þeir þekktu hversu þunnt þilið er milli káetu og brims, milli lífs og dauða. “Förum yfir um vatnið” var sagt forðum og svo skall á stormviðrið á. Allir voru hætt komnir. Hvert var hægt að leita þá. Hvar verður um trúna á slíkum stundum? Turnarnir á guðshúsunum á leið inn fjörðin bentu upp. Reynslan af átökum á sjó og landi líka.

Æviágrip

Sveinn Jónasson fæddist í Bandagerði í Glerárþorpi 16. maí 1924 og lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 19. júní. Foreldrar hans voru Jónas Sveinsson og Ingibjörg Hallgrímsdóttir. Jónas var Húnvetningur, ættaður frá Litla-Dal, en Ingibjörg var Eyfirðingur, frá Flögu í Hörgárdal. Sveinn var annar í röð fjögurra systkina. Sverrir drukknaði ungur, Hallgerður er sömuleiðis látin en Áslaug lifir bróður sinn. Sveinn átti eina hálfsystur samfeðra, Sigurlaugu Margréti, sem einnig er látin.  

Ungur kynntist Sveinn Brynhildi Ólafsdóttur frá Brekku í Glerárþorpi. Hún var fimm árum eldri en bóndi hennar, fædd 23. janúar 1919. Þau eignuðust samtals átta börn. Þau eru Guðrún Sóley, Björg, Jónas, Víglundur, sem lést aðeins tveggja ára, Víglundur Jóhann, Sverrir Hallgrímur, sem er látinn, Sigurveig og Hafdís. Þau Sveinn og Unnur slitu hjúskap 1969 og þá flutti Sveinn suður. Hann eignaðist síðan Ásmund með Ásgerði Ásmundsdóttur. Sveinn gekk að nýju í hjónaband með Unni Guðmundsdóttur. Hún er fædd 7. júlí 1924 og lifir mann sinn.

Sveinn sótti skóla inn í bæ, Barnaskólann á Akureyri. Leiðin var drjúg og enn lengri í myrkri og norðlenskri stórhríð. Skólinn stælti og öflugur strákur vildi lifa á eigin forsendum. Hann var fljótur til með allt í lífinu. Sveinn var bráðþroska og bráðger um allt. Hann fór til sjós um leið og hann hafði möguleika á. Sjómennskan varð hans líf megnið af ævinni. Lengstum þjónaði hann Útgerðarfélagi Akureyringa og var á togurum félagsins, ekki síst Svalbak. Hann gekk í öll störf, stundum var hann bátsmaður og jafnvel kokkur. Túrarnir voru langir, landlegur fáar, kröfur á tíma sjómannsins ríkar og lífið flaug hratt þegar í land var komið. Brynhildur hélt saman búi og var höfðingi sinnar hjarðar eins og margar sjómannskonur voru lengstum.

Bandagerði

Bandagerði var æskuheimili Sveins og Brynhildur fór ekki langan veg frá sínu æskuheimili. Glerárþorpið var skemmtilegur uppeldisstaður fyrir börnin, eiginlega þorp. Víða var smábúskapur stundaður meðfram öðrum störfum til að drýgja tekjur og afla matar. Börnin höfðu víðan vang til leikja. Fóru inn í Glerárgil, niður með á, og svo út og suður, allt eftir þörfum, veðri og ímyndunarafli. Flest hús voru full að tápmiklu fólki og stutt var í liðið suður á Eyri og Brekku. Gagnvart þeim þurfti að gæta sín sérstaklega.

Barnaríki

Barnaskaranum hans Sveins þótti auðvitað skemmtilegt þegar pabbi kom í land og tók sér tíma fyrir þau. Þegar hann sneri sér að þeim var hann natinn og umhyggjusamur faðir. Hann var hagur og smíðaði ímislegt smálegt fyrir þau, sleða fengu þau flest, leikföng ímiskonar telgdi hann eða rak saman. Og hann var það nærri þeimi í aldri að hann var sem næst eins og elsti bróðirinn í hópnum. “Er þetta bróðir þinn,” spurðu ókunnugir þau elstu. Og af því að hann hafði ekki tapað æskunni sjálfur þegar börnin voru ung gætti hann að því, að þau nytu allra þeirra gæða sem æska hans hafði kennt að var til að gleðja. Þau áttu sína skauta og hjól. Svo tuskaðist hann í strákunum sínu og þeir höfðu gaman af föður sínum. Sveinn safnaði blöðum og bókum sem félagar hans á sjónum voru hættir að nota og gáfu honum. Þetta bar hann í bæinn þegar hann kom af hafi. Það var góður afli sem systkinin gátu nýtt sér og höfðu gaman af.

Persónueinkenni

Sveinn var snyrtimenni og fagurkeri. Hann bar sig vel, valdi sitt tau með gaumgæfni í JMJ. Var flottur á velli og sópaði af honum, þegar hann klæddi sig upp og stikaði rösklega frakkaklæddur inn í bæ. Í hinum norðlensku byggðum var talið eðlilegt að karlar kynnu að prjóna og beita nál. Og Sveinn lagði sig jafnvel eftir saumaskap, alla vega saumaði hann koddaver og sængurver í barnarúm heima hjá sér. Hann var dugmikill alla tíð,var vanur að vinna mikið og dró ekki af sér hvorki í eigin vinnutíma eða í þjónustu annarra.

Félagslyndur

Sveinn var glaðsinna og félagslyndur. Hann lærði snemma að láta sér lynda við fólk. Hann var einnig skapfestumaður, sem ekki gaf sig í orðræðu fyrr en fullreynt var. Á sjónum eignaðist hann vini sem hann ræktaði allt til enda. Í landlegum leitaði hann til ættfólks síns og heimsótti fólk konu sinnar einnig. Svo þegar hann flutti suður var hann fljótur að koma sér fyrir í nýju umhverfi og meðal nýs vinahóps.

Vélaútgerð

Sveinn hafði áhuga á vélum alla tíð. Hann var vel í sveit settur til að fylgjast með komu vélaaldar til Íslands. Hann gat fylgst með hvernig flugið byrjaði nyrðra. Hann fuylgdist með hvernig bílamenning kom norður og bílar hafa löngum skipt Akureyinga máli, eins og þeir þekkja sem eitthvað hafa verið nyrðra. Sveinn eignaðist snemma vélhjól og hefur hjólaáhugi haldist í fjölskyldunni. Hann vildi eiga góða bíla, og kannski voru hans eigin bílar alltaf bestir! Alla vega var ljóst að BMW hans var bæði góður og vel glansandi bíll. Tækin hans Sveins sýndu. Hann tók svo að sér að bóna bíla annara þegar hann var kominn suður. Hann sinnti sínu verki með slíkri natni að hann hafði af þeim starfa talsverðar tekjur. Atvinnubílstjóri var hann lengstum syðra og keyrði hjá Nýju sendibílastöðinni.

Förum yfir um vatnið

Jesús fór út í bátinn og vildi sigla. Þegar fiskimennirnir, vinir hans höfðu létt landfestum þá lagðist meistarinn fyrir eins og þreyttur maður á stíminu út á miðin. Þrátt fyrir blikur og óveður svaf hann. Veðrið var slíkt að bátsverjar óttuðust um líf sitt og vöktu Jesú með ópum. Hann reis upp og talaði í storminn, sem lyppaðist niður, logn datt á og aldan mildaðist. Þá sneri Jesús sér að þeim sem voru honum samskipa og spurði: “Hvar er trú ykkar?” Þeir voru bæði orðnir undrandi og hræddir og gátu ekki annað en spurt sjálfa sig: ,,Hver er þessi maður?”

Líf Sveins Jónasssonar var ekki alltaf auðvelt og oft lenti hann í háska. Hann var happamaður á sjó, ekkert skip sökk undan honum, aldrei lenti hann í strandháska. En sigling hans á landi var ekki alltaf auðveld. Stundum stormaði og stundum óttaðist hann um lífslán sitt. Sveinn axlaði ábyrgð á uppvexti barnanna og var öflug fyrirvinna. En stormurinn eða vandinn í lífi hans var áfengið, sem skerti lífsgæði hans og meinaði honum að njóta allra hæfileika sinna sem og fjölskyldu sinnar. Þegar að sverfur læðist óttinn að og að lokum gerði hann sér grein fyrrir í hvaða óefni var komið. Það þarf bæði vilja og vöku til að taka ákvörðun sem staðið er við. Sveinn tókst á við vandann og það var logn á þeim sjónum í langan tíma.

Skilin í lífinu

Þau Brynhildur söðuluðu um og skildu. Sveinn fór suður og hóf nýtt líf. Fyrst starfaði hann hjá Olíufélaginu Esso og  hóf síðan eigin atvinurekstur. Aksturinn lánaðist vel hjá Nýju sendibílastöðinni. Hann náði að koma undir síg fótum og vann auðvitað mikið. Hann eignaðist góðan og öflugan vinahóp, m.a. í AA hreyfingunni. Þetta skeið var umsvifamikið og fjölbreytilegt í lífi hans. Hann nýtti tímann vel síðari árin í þágu síns fólks. Alltaf átti hann tíma  fyrir börn og barnabörn, sagði helst ekki nei og var óþreytandi að þjóta með barnabörnin hingað og þangað eins og með þurfti.

Sveinn kynntist og hóf sambúð með Unni Guðmundsdótur og þau gengu í hjónaband 1994. Hann og Unnur urðu sem afi og amma Rebekku Ragnarsdóttir og önnuðust hana þegar á þurfti að halda. Síðustu árin misstu þau heilsu svo að bæði fóru á dvalar og elliheimilið Grund, Unnur fyrst og síðan Sveinn í kjölfarið síðastliðið haust. Sveinn hafði fengið hjartaáfall áður en hafði þó náð sér að nokkru og gat gengið að nýju. Þó hrakaði honum og hann fékk lungnabólgu fyrir skömmu. Af honum dró og hann lést síðan 19. júní síðastliðinn, áttræður að aldri.

Loks eftir langan dag leit eg þig, helga jörð

“Hver er þessi maður?”spurðu menn á vatni suður í Palestínu forðum. Margt hefur verið hugsað á landi og sjó í gegnum tíðina. Sveinn hafði hlotið sinn skerf að lífsreynslu. Hann vissi hvað var að missa börn. Hann hafði misst ástvini sína, hann missti ástina. Hann var í lífsháska á þurru landi. Og hann var maður til að ganga í sjálfan sig og horfast í augu við hinar miklu spurningar. Hann vissi alveg hver hann sjálfur var og hver meistarinn var sem svaf í bátnum hjá honum.

Hann vissi að hverju dró og þá er gott að geta rifjað upp skyggnistundir ævinnar, rifjað upp þegar himininn vitjaði sjávarins á Eyjafirði, sjófuglarnir kenndu lífið, unnið var úr óveðursspruningum, næturröðull sló gullbirtu á veröldina og hugurinn grét af gleði yfir lífinu, voninni, gáskanum og láninu. Sveinn Jónasson er á leið heim, heim inn í himininn.

Mannleg orð reyna að tjá og skáldamálið að heiman er gott til að reyna að færa í búning tilfinningar og reynslu. Davíð Stefánsson var á leið heim úr langferð og Sveinn var langferðamaður eins og skáldið. Þeir hafa getað skilið hvor annan. Í ljóði um siglingu inn Eyjafjörð segir:

Afram – og alltaf heim,

inn gegnum sundin blá.

Guðirnir gefa þeim

gleði, sem landið sjá.

Loks eftir langan dag

leit eg þig, helga jörð.

Seiddur um sólarlag

sigli ég inn Eyjafjörð.

Sveinn Jónasson, hefur siglt hinsta sinni inn langan fjörðinn. Hann er kominn heim inn á Pollinn eilífa, komin á land á helga jörð handan hliðsins gullna. Þar er gleði, óspillt og hrein. Því þar er sá sem stillir allan ofsa, allt óveður mannlífsins. Þar er sá sem tekur alla í sitt fang og geymir sem góð móðir og góður faðir. Þar er Guð.

28. júní 2004.