Hversu merkilegt verður ekki spilarí himinsins þegar Guð stokkar með stóra stokknum, hægt verður að spila 75 grönd og 1000 spaða, eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Dísa í góðum hópi og í góðu formi. Útför Herdísar Jónu Guðnadóttur fór fram frá Neskirkju 23. febrúar 2005. Minningarorðin eru hér á eftir.
Spilað úr gjöfinni
Glatt fólk, við borð. Spil stokkuð um allan sal. Sumir tvískipta spilabunkanum og fella stokkana saman eins og tannhjól, aðrir bakblanda. Kliður fer um skarann, kátína smitar, nettur spenningur í lofti. Gefið og sagt, glímt við grandið, slagurinn hirtur, reiknað stíft hvað makkerinn á mörg lauf eftir eða hvort hjartaásinn var farinn. Augum gotið á mótspilarana, hvernig ætli spilin liggi? Svo er kanski svínað, stundum gengur það. Hlegið eða andvarpað. Það er gott að vera í hópi, sem getur skemmt sér saman, haldið heilanum við með flóknum útreikningum. Dísu var margt gefið og meðal þess var hæfni til spila og að deila tíma með glöðu og félagslyndu fólki.
Uppvöxtur Herdísar
Herdís Jóna Guðnadóttir fæddist í Reykjavík 15. apríl 1914. Foreldrar hennar voru Guðni Eyjólfsson, verkstjóri í Gasstöðinni í Reykjavík, og Sigrún Sigurðardóttir, húsmóðir. Hún var næstelst í stórum hópi systkina. Hin eru Njáll; Kjartan Ragnar; Gunnar Baldur; Hrefna Guðríður; Sigríður; Guðjón; Jóhann og Agnar, sem er yngstur. Kjartan, Guðjón og Jóhann eru látnir. Mér hefur verið falið að bera nærstöddum kveðjur frá Agnari og Fjólu konu hans og Sigríði og manni hennar Guy d’Bishop. Þau eru erlendis og geta ekki verið við þessa athöfn.
Herdís var Reykjavíkurmær, sótti skóla í bænum, ólst upp á Bergstaðastræti, lærði á lífið í reykvísku samhengi, kynntist lífsbaráttu stórra barnafjölskyldna, naut félagsmótunar í fjölmenni, náði að kynnast gömlum atvinnuháttum, lærði jafnvel að breiða fisk á klappir. Og hún fékk vinnu hjá Gasstöðinni.
Erlendur og fjölskyldan
Ung kynntist Herdís Erlendi Vilhjálmssyni frá Eyrarbakka (f. 11. sept. 1910), síðar deildarstjóra lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins. Erlendur beitti sér í velferðarmálum og var áhugamaður um uppbyggingu verkamannabústaða norðan Hringbrautar og vestan elliheimilisins Grundar. Þau Dísa og Lindi, eins og þau Herdís og Erlendur voru nefnd, gengu í hjónaband og keyptu íbúð við Brávallagötu. Í nágrenni þeirra voru ættingjar í fimm íbúðum svo stórfjölskyldan var aldrei langt undan til gleði og stuðnings. Erlendur var formaður félagsins, sem sá um byggingu verkamannabústaða. Dísa var glögg í reikningi og kunni fjárumsýslu. Framkvæmdastjórinn var fljótur að gera sér grein fyrir að kona hans væri honum hæfari til bókhaldsins og Dísa lét til leiðast, varð gjaldkeri verkamannabústaða.
Verustaðir Herdísar eru eins og tákn um þróun Reykjavíkur. Hún bjó í Þingholtunum, fór í nýja úthverfið við Hringbraut, flutti síðan á Melana og fór síðan enn vestar og lengra frá miðjunni. Þegar uppbygging hófst á Melunum, sunnan Hringbrautar, fylgdist Dísa með hinum nýju landvinningum og uppbyggingu. Lindi lét til leiðast og þau keyptu sér íbúð á Reynimel 72. Þegar þau bjuggu á Brávallgötunni ættleiddu þau soninn Guðna tíu mánaða. Á Melunum undi svo fjölskyldan glöð við sitt. Guðni flutti svo að heiman í fyllingu tímans og eignaðist sína fjölskyldu. Þegar þau Steinunn Skúladóttir, kona hans, keyptu nýbyggingu í Granskjóli lögðu Dísa og Lindi sitt í byggingafélag með syni og tengdadóttur og bjuggu saman í nokkur ár. Lávarðadeildin bjó uppi og unga fólkið niðri, með góðum samgangi milli hæða. Þegar enn urðu umskipti fluttu þau Dísa og Lindi á Flyðrugranda 16. Þar bjuggu þau til dauða beggja. Erlendur lést á árinu 1995 en Herdís lést 15. febrúar síðastliðinn.
Spilað úr lífsgáfunum
Öllum er okkur úthlutað til lífsins. Njáluhöfundur taldi að fjórðungi bregði til fósturs og erfðafræði og lífvísindi nútímans eiga sínar kenningar. Við vitum, að mismunandi lífsgæðunum er úthlutað. Ein fær spil fyrir grand og slemmu en öðrum hentar nóló fyrir lífið best. Svo eru sálar- og líkamsgáfur sú gjöf, sem spila verður úr.
Dísu var afar margt og vel gefið. Hún átti því æskuláni að fagna að alast upp í stórum systkinahópi. Hún var að auki næstelst, raunar elsta systirin. Það er álags- en líka stælingarstaða. Systkinahópur gefur félagshæfni og Dísa sótti í að vera með fólki, sem kunni að hlægja, gleðjast og vera saman. Hún var mikil fjölskyldukona og þótti best að vera með fjörmiklu fólki. Unga fólkið laðaðist því að henni. Henni var gefið léttlyndi og gáski. Hún kunni vel að glettast við fólk, skemmti börnum með sögum, sem reyndu jafnvel á trúgirni og voru því til þroska fyrir ungviðið. Henni þótti skemmtilegra að ræða við fólkið sitt á léttu nótunum og létta viðmælandunum með glettni og hlátri.
Umhyggjan
Dísa var fjölskyldustólpi. Hún lagði upp úr velferð ástvina sinna. Lindi var lengstum í önnum við uppbyggingarstörf samfélagsins og Dísa bjó honum traust og gott heimili þar, sem hann naut sín og átti líka tóm til að sinna bókum sínum. Svo þegar Guðni kom og varð þeim lífsverkefni voru þau sameinuð í uppeldinu og sköpuðu honum góðan vaxtarreit. Steinunn tengdadóttir varð henni vinkona. Barnabörnin 6 og 10 langömmubörn urðu henni síðan gleðigjafar. Dísa vakti yfir velferð þeirra, tók við þeim svöngum, var fljót að vekja með þeim matarást, sem síðan þroskaðist í ástríki. Aldrei taldi hún eftir sér að elda baunasúpu, sjóða saltkjöt, baka vöflur og pönnukökur, steikja kjöt og útbúa magnaða sósu, reiða fram einhverja veisluna til að gera sínu fólki gott. Alltaf átti hún stund til að sinna ungviðinu, hvort sem það kom stutt eða langt að. Þegar fólkið hennar hóf verslunarrekstur var hún til í að nota reikningskúnstir og bókhaldsfærni til að fjármálin væru með sem bestu skikki. Þegar svo vantaði afgreiðslumann vöknuðu bisnissgenin og Dísa brilleraði niður í nr. 1 í Aðalstræti. Það munum við gamlir kúnnar, já allar þessar þúsundir sem þar komu. Allt vildi hún vel fyrir fólkið sitt gera. Þegar einhverjir skemmtilegir þættir voru í sjónvarpinu skellti hún spólu í vídeótækið og tók upp til að senda Guðna og Kaupmannahafnargenginu. Það var margt skemmtilegt sem fór yfir hafið, þættir Jóns Ársæls og svo sótti hún líka á andlegu miðin og sendi dulrænt efni til skoðunar í sonarhús.
Hið góða líf
Lindi og Dísa kunnu að meta og sækja í hið góða líf. Þau beittu sér fyrir uppbyggingu samfélags velsældar. Við, sem höfum átt heima í verkamannabústöðunum norðan Hringbrautar, höfum tekið þátt á baráttu launafólks í landinu og orðið vitni að hvernig baslplássið Reykjavík umhverfðist í heimsborg vitum að kynslóð Dísu lagði hornstein velferðarinnar. Þau hjónin voru sameinuð í að vilja hag hinna öldruðu sem bestan. Þau beittu sér fyrir bættum húsakynnum verkalýðsins og lögðu á þær vogarskálar mikilvæg lóð.
Engin velsæld er sönn nema hún sé iðkuð á heimaslóð. Þau Lindi voru sælkerar. Þau nutu þess að borða góðan og kostaríkan mat. Fyrr og síðar þótti Dísu gott að njóta danskra gæða og þá ekki síst matarmenningar. Þau höfðu líka gaman af að ferðast og geta notið þess að fræðast og upplifa saman. Á tíma rótleysis er afstaða þeirra Dísu fyrirmynd um fegurð hins smáa og dýrmæti hins heimafengna. Hver kynslóð og hver einstaklingur þarf að upplifa með sjálfum sér og þarf oft margar atlögur til að uppgötva hina einföldu staðreynd, að hamingjan er heimafengin. Þetta vissi Dísa mætavel. Hún spilaði vel úr sínum spilum og vissi vel hvernig ekki mátti spila, annars væri spilið tapað. Heimili þeirra Linda og Dísu var bókaheimili. Þau höfðu bæði gaman af því að lesa. Þau höfðu bæði áhuga á fólki og lífi þess. Og Dísa las því alls konar bækur, innlendar og erlendar, skáldsögur og æviminningar.
Dísa hafði gaman af gæðum í hinu ytra líka. Henni þótti betra að fatnaður væri vandaður. Reykjavíkurdaman lærði að meta hvað gott var og fór vel. Svo þegar margt af hennar fólki var búsett í Danmörk fór hún gjarnan til þeirra og notaði tækifærið til að versla í magasínunum í Höfn, kíkti á skartgripa- og kjóladeildirnar. Svo kom það fyrir að hún væri með yfirvikt, en færibandsfólkið á Kastrup var svo upprifið yfir, að þessi lady með þungu töskurnar væri um nírætt, að fínu kjólarnir fóru í gegn. Auðvitað launaði hún bandafólkinu með umhyggjusamlegum kátínuaugum. Allir voru glaðir, en vinkonurnar heima hefðu alveg viljað að yfirviktin hefði verið stundum enn meiri!
Sívökul
Kynslóðir aldanna hafa lært handtök og viðbrögð af fyrirmyndum og eldri kynslóðum. Lífsspeki miðlum við frá einni kynslóð til annarrar, en í hraðri tækniþróun og sístæðri byltingu samfélags verður enginn “útlærður” í sínu fagi eða lífi. Allt er á fleygiferð, allir verða að aðlagast nýju lífsmynstri, nýrri tækni og þróun samfélags. Dísu var gefin áhugi á lífinu, þrek til að bregðast við breytingum og þor til að takast á við ný viðfangsefni. Vegna tengsla sinna við ungt fólk var hún ekki að sýta liðna tíð. Hún gat alveg horft á strákana á Popp Tíví, skemmt sér yfir bullinu, glaðst yfir Sveppa, lært á vídeotæki, fagnað nýrri græju, haft gaman af nýrri tísku, hvort sem það nú var í fötum eða búsáhöldum. Hún varðveitti ungæðingsháttinn í sér og lifði því vel í samfélagi sviptinga. Hún gat bæði skilið unga og gamla, var því síung, skörp og glaðvakandi. Því naut hún elsku svo margra og því var hún metin svo vel. Kannski má segja að í henni hafi búið æskuhneigð og eitthvert lífsins sídrif.
Athvarf kynslóða
„Þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns…Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“
Hvernig eru þessi lífsspil okkar? Hvað má segja og hvað er hægt að segja? Slagafjöldinn er takmarkaður og möguleikarnir ekki endalausir. Svo er í málum hjartans, lífsins, sálarinnar – eða hvað? Dísa spurði um stóru spilin líka. Hvert er vitið í þessari stóru spilamennsku veraldarinnar. Hún var einbeitt í sinni spilamennsku, stóð vörð um velferð fjölskyldu og þeirra, sem þurftu stuðning. En hvað meira? Hún vildi gjarnan sjá lengra og var til í að grennslast.
Hvernig skilur þú lífsmörk og dauða? Er allt búið þegar síðasta andvarpið líður frá brjósti? En þeim sem sættir sig við það smálíf, að lífið sé bara þetta og ekkert meira er það engin huggun. Það er mun stórkostlegri heimssýn og lífsýn að vænta þess að dauðinn sé fæðing til nýrrar veraldar. Því trúir hinn kristni, í því er m.a. fólgin von trúarinnar. Gastu ímyndað þér hvernig veröldin utan magans var þegar þú varst í móðurkviði? Varð ekki líf þitt fjölskruðugt? Getur þú fremur ímyndað þér hvernig lífið handan dauða er? Máttu ekki vænta þess að meira og enn stórkostlegra sé í vændum.
Guð hefur stokkað þessa veröld skemmtilega, með litum, hlátri, fjöri, góðum mat og góðu lífi. En hversu merkilegt verður ekki spilarí himinsins þegar Guð stokkar með stóra stokknum, hægt verður að spila 75 grönd og 1000 spaða, eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Dísa í góðum hópi og í góðu formi.
Hún kom sem dís inn í þetta litríka líf, hún var sínu fólki lífsdís. Nú er hún og Lindi í faðmi hans sem elskar veröldina. Guð geymi hana, huggi þau er gráta og sjá á bak elskuríkri konu. Guð varðveiti hana um alla eilífð og gefi okkur viturt hjarta í lífsspili okkar. Okkur hefur verið gefið og okkur ber að spila vel – eins og Herdís.
Neskirkja 23. febrúar 2005.