Farmaður á leið heim. Fram hjá Vestmannaeyjum – svo farið fyrir Reykjanestá og til hafnar. Akurey, Engey og Viðey fyrir stafni. Í stillu speglar Flóinn feimna Esju og hægt að sjá smáhvali leika sér. Í augum er tilhlökkun og fegurðin umfaðmar. Hvað hugsar áhöfnin og hvað hugsar vélstjórinn? Hann þekkti bæinn sem við blasti, hvað var hvers og hvurs var hvað. Hann þekkti húsin og sá líka turnana á guðshúsunum. Hann var á leið inn á höfn og heim til síns fólks. En kirkjuturnarnir bentu til annarar hafnar. Bentu reyndar upp til hæða. Í lífinu er gott að vita hvar höfn er að finna og í eilifa lífinu eru önnur mið sem vert er að veita athygli.
Í áttunda Davíðssálmi lesum við lýsingu manns, sem er eins og barn, sem starir hrifið upp í glitrandi næturhvelfinguna.
“Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?”
Þetta eru grunnspurningar. Hvað er maðurinn í þessu stóra ofurgímaldi sem veröldin er? Erum við eitthvað meira en sandkorn á geimströnd – eða kannski fremur eins og ofurlítill blossi í safni tímans? Við lifum stutt, líðum útaf og hverfum í mistur tímans fyrr en varir. Er þá allt búið? Er þetta mannlíf aðeins skyndiferð, eins og snögg flutningaferð milli tveggja hafna, svo allt búið og ekki meir? Á farmennska mannlífs okkar dýpri rök og markmið? Er það “skipafélag” sem við köllum heiminn vel rekið “fyrirtæki” og til góðs? Er eigandinn í brúnni traustsins verður, þessi sem við köllum Guð? Sálmaskáldið forna var sannfært um, að maðurinn er meira en rykkorn í geimnum, sannfærður um að stjörnur, tungl, dýr, fuglar himins og fiskar hafsins, menn, já allt sem fer hafsins vegu nytu elsku og að lífið er gott. Þess vegna getur skáldið haldið fram hinni góðu niðurstöðu um lífið:
…hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Og svo kemur niðurlagið í þessum spekisálmi fornaldar.
„Drottinn, Guð vor,
hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina.“
Samhengi, farmennska og nám
Gunnar Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 4. júlí 1921. Pabbinn, Þorsteinn Magnússon, var úr Flóanum en móðirin, Helga Þorgerður Guðmundsdóttir, að vestan. Gunnar var sá fjórði af níu börnum. Tvö létust ung en sjö náðu fullorðinsaldri. Þau voru Sigmundur, Magnús, Steinar, Ragnhildur, Sighvatur og Sigríður. Af þeim lifa Magnús og Sigríður.
Gunnar og fjölskyldan bjuggu við þá merku götu sem kennd er við kvenskörunginn Bergþóru á Bergþórshvoli og líklega hefur næmur drengur sem Gunnar var einhvern tíma hugleitt eigindir hetju götunnar hans. Á þessum árum, nærri heimili Gunnars, var verið að reisa Auðsturbæjarskólann, sem varð þegar á fyrstu starfsárum musteri nútímalegs skólastarfs. Gunnar byrjaði þó ekki skólaveru sína þar þar heldur í bráðabirgðahúsnæði. Austurbæjarskóli var tekinn í notkun í miðri kreppunni árið 1929 – og var tákn um líf og nútíma þrátt fyrir bág kjör almennings og hrunda markaði erlendis.
Gunnar sótti Austurbæjarskóla til ársins 1935. Eftir útskrift hóf hann störf sem sendisveinn. Bróðir hans hafði staði sig vel á sjó og þegar starf hans sem káetudrengur á Goðafossi losnaði fékk Gunnar plássið. Hann byrjaði því farmennsku sína á skipi Eimskipafélagsins, sem sigldi á Leith, Hamborg og Kaupmannahöfn. Skipið var í Hamborg siðari hluta ágúst 1939. Af æfingum var ljóst að Þjóðverjar undirbjuggu stríð. Goðafoss var svo fyrir sunnan Vestmannaeyjar þegar stríðið braust út í septemberbyrjun.
Þá urðu skil. Í stað Evrópusiglinga var síðan siglt á Ameríu. En Gunnar hafði sannfærst um að honum væri skynsamlegt að afla sér réttinda. Hann ákvað að fara í land og læra vélstjórn og settist á skólabekk haustið 1940. Hann lauk sveinsprófi frá Iðnskólanum árið 1944 og fór síðan í Vélskólann og lauk fjórða stigi árið 1948. Gunnar var lánsamur í námi og komst á samning hjá Vélsmiðjunni Héðni og eignaðist þar og í skóla góða vini sem hann naut síðan.
Þegar Gunnar hafði lokið námi gekk hann til liðs við nýstofnaða skipadeild SÍS og fór á Hvassafellið. Á skipum SÍS var hann síðan óslitið til ársins 1975 lengst af sem yfirvélstjóri. Eftir að hann hafði verið á Evrópusiglingum á Hvassafellinu fór hann síðar í strandflutningum á Stapafelli og var að lokum á Skaptafelli sem sigldi einkum á Ameríkuhafnir.
Fjölskyldan
Gunnar sá ekki aðeins hús, skip, sjó eða fjöll heldur líka fólk. Hann kynntist Guðmundu Ögmundsdóttur sem var Breiðfirðingur og tíu árum yngri en Gunnar. Þau Guðmunda gengu í hjónaband árið 1952. Þeim varð þriggja barna auðið. Þau eru Guðný Gerður, Ögmundur og Gunnar Freyr.
Guðný Gerður fæddist árið 1953. Hún er borgarminjavörður í Reykjavík. Ögmundur er árinu yngri, fæddist árið 1954. Hann er framhaldsskólakennari og kennir raungreinar við Fjölbrautarskóla Garðabæjar. Kona hans er Rannveig Stefánsdóttir. Börn þeirra Ögmundar eru Sóley, Auður og Asgeir. Auður á soninn Arnór Inga, sem er eina langafabarn Gunnars. Sonur Gunnars Freys er Nökkvi.
Þegar þau Guðmunda gengu í hjónaband var Gunnar farmaður og því langdvölum að heiman. Það var þeim happ að deilda íbúð með foreldrum Guðmundu, Guðnýju Hallbjarnardóttur og Ögmundi Ólafssyni, á Hrísateig 12. Svo fóru þau Gunnar að byggja í Hvassaleiti 40 og fluttu inn í byrjun sjöunda áratugarins. Þá voru börnin öll fædd en húsið var stórt og íbúðaskipan var slík að eldri kynslóðin fór með þeim.
Sjálfstæður
Eftir að Gunnar og Guðmunda skildu árið 1972 endurskoði Gunnar sín kort og leiðir. Hann vildi ekki lengur fjarri sínu fólki og koma af hafi í heimilisleysi. Hann sagði upp störfum hjá skipadeild Sís og fór í land. Hann naut menntunar og starfa sinna og var ráðinn skipaskoðunarmaður hjá Siglingamálastofnun ríkisins árið 1976. Í embættiserindum fór hann víða, innnalands sem utan, skoðaði skip, leit eftir að viðgerð og smíði væri í samræmi við reglur og íslensk lög. Hann var því sá sem ákvað hvort skip fengju haffærnisskírteini eða ekki. Gunnar hefði átt að láta af störfum hjá Siglingamálastofnun árið 1991. Hann var þó ráðinn til framhaldsstarfa, því hann var skipulagður og glöggur og var ráðinn til að koma skikki á teikningavörslu Siglingamálastofnunar.
Gunnar var alinn upp í Reykjavík og bjó ávallt vestan Ellíðaáa. Eftir að hafa alist upp í austurbænum, búið á Teigum og í Hvassaleiti flutti hann svo vestur í bæ og eignaðist íbúð á Meistaravöllum. Hann, sem var KR-ingur, hélt sig svo við KR svæðið, og bjó í mörg ár á Seilugranda eða þar til hann var 89 ára. Þegar heilsan bilaði fór hann á Hjúkrunarheimilið á Grund í mars 2010 og lést þar 5. janúar síðastliðinn.
Minningarnar
Hvað viltu gera með minningar þínar um Gunnar? Rifjaðu þær upp og farðu vel með þær. Hann horfði í kringum sig, var athugull og greinandi vökumaður. Hann var vel að sér í sögu Íslands nútímans. Hann hafði góða yfirsýn yfir þróun borgarinnar- dóttir hans hefur eflaust þegið eitthvað af eigindum og áhuga í þeim efnum frá föður sínum. Gunnar fylgdist vel með hvernig Reykjavík óx og umbreyttist. Hann þekkti vel til byggingabreytinga og þróun búsetu. Alla tíð var hann fróðleiksfús og minnugur með afbrigðum.
Hann var áhugamaður um stjórnmál, las mikið, hafði áhuga á bókmenntum og líka pólitík og hafði víðtæka og góða yfirsýn. Alla tíð fylgdist hann vel með. Á síðari árum gat hann greint fólkinu sínu nákvæmlega frá og skýrt út hverjir væru bestu ræðumenn á Alþingi, hverjir væru rökfastir og málefnalega skilvísir. Og þá lét hann menn ekki gjalda fyrir stjórnmálaskoðanir heldur njóta hæfni og getu þeirra í pólítík hvar sem þeir voru í flokki.
Gunnar var fjölhæfur og hafði getu til að aðlagast nýjum aðstæðum og verkefnum. Hann var sjálfbjarga, æðrulaus. Hann var ekki aðeins öflugur í störfum sínum heldur sá um eigið heimili þegar hann var orðinn einn – og gilti einu hvort það var í eldhúsi, viðhaldi eða þrifum. Hann var raunsarlegur og umhyggjusamur faðir og afi, bauð til sín fjölskyldunni í mat og barnabörnin gátu gengið að því vísu að afi ætti nóg af ís, sósur í úrvali og kex. Og það var ekki skammtað! Hann heimsótti oft Rögnu systur sína bæði meðan hann var í siglingum heldur einnig þegar hann hafði rýmri tíma eftir að daglaunastörfum lauk.
Hinsta ferðin
Og nú hefur Gunnar siglt sínu fleyi í hinstu höfn – inn í stillu himinsins. Hann segir ekki lengur frá Alþingishátíðinni í Dýrafirði eða torgasögu Kaupmannahafnar og furðum Guineu Bissau. Hann býður engum lengur í mat eða í Bilka til að kaupa reiðhjól handa barnabarni. Hann segir ekki framar bygginga- eða fjölskyldusögu frá Skólavörðuholtinu. Hann hefur lokið síðusta túrnum. Hann hefur lokið ævisiglingu sinni og æviverkefni sínu með sóma. Hann er kominn í land á stóra holt himinsins.
„Föðurland vort hálft er hafið “ – segir í sjómannasálmi Jóns Magnússonar. Og þar segir líka:
„Drottinn, þinnar ástar óður endurhljómi’ um jörð og höf. Breiddu þína blessun yfir blóma lífs og þögla gröf. Vígi’ og skjöldur vertu þeim, sem vinda upp hin hvítu tröf. Drottinn, þinnar ástar óður endurhljómi’ um jörð og höf.“
Gunnar var oft búinn að láta úr höfn. Alltaf kom hann til baka, en nú kemur hann ekki aftur. En hann er ekki horfinn. Hann siglir á hafi elsku Guðs. Kristnin boðar elskandi Guð, sem hefur umhyggju fyrir fólki, leiðir og blessar.
Guð huggi ykkur sem syrgið.
Guð geymi Gunnar Þorsteinsson um alla eilífð.
Í Jesú nafni, amen.
Minningarorð við útför Gunnars, Neskirkju, miðvikudaginn 16. janúar, 2013.
Gunnar hlýtur hinsta leg í duftgarðinum Sóllandi.