Baldur bjó við Tómasarhagann síðustu áratugi. Á góðviðrisdögum var gott að ganga eða hjóla Tómasarhagann og hitta Baldur. Hann var oft úti við og gladdi okkur vegfarendur með kátlegum athugasemdum. Svo var hann alltaf til í að ræða málin, fara yfir stöðu KR, frammistöðu ríkisstjórnarinnar, sumarbústaðamál í Grafningi, heimspólitíkina – nú eða kirkjumálin. Við gátum meira að segja staðsett KR í kristninni. Baldur var sáttur við að KR væri skrifað á altarisdúk Neskirkju, reyndar á grísku. Það sem fólk les sem xp – það er KR skv. gríska stafrófinu. Já, k og r eru fyrstu stafirnir í Kristur. Baldur var á því að KR væri þar með hákristilegt og kirkjulegt félag, til að efla mannlífið og gera það skemmtilegra. KR er undur í Vesturbænum og svo er hið himneska KR í veraldarsögunni og Guði. Þetta tvennt fer ágætlega saman. Og Baldur var bæði söngvin og músíkalskur og við gátum glaðst yfir söngnum: Heyr mína bæn sem oft hljómar á KR-leikjum. En nú er Baldur allur, söngurinn hljóðnaður en bænin lifir.
Fjölskylda og uppvöxtur
Baldur Berndsen Maríusson fæddist í Reykjavík 18. apríl árið 1936 og var því 76 ára þegar hann lést á Landspítalanum 15. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigríður Carlsdóttir Berndsen og Maríus Helgason. Systir Baldurs er Erna Maríusdóttir og hún lifir bróður sinn. Þau systkinin fengu gott veganesti en það var þó ekki mulið undir þau í uppvextinum og þau lærðu snemma að bjarga sér.
Fjölskylda Baldurs bjó í húsinu Grenjaðarstað við Hringbraut. Baldur var stoltur af að vera Vesturbæingur og bjó aldrei annars staðar en vestan lækjar, nema í þeim heiðarlegu undantekningum þegar hann bjó eða dvaldi erlendis vegna náms og vinnu.
Skólaganga Baldurs veitir innsýn í skólasögu Reykjavíkur. Fyrst fór hann í tímakennslu en síðan í Miðbæjarskólann. Svo var hinn glæsilegi Melaskóli tekinn í notkun og þangað fór Baldur og lauk þaðan barnaprófi. Þá lá leiðin í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar í tvö ár og síðan lauk hann gagnfræðaprófi frá Austubæjarskóla. Þá fór hann í Samvinnuskólann og útskrifaðist árið 1954. Síðan fór hann vestur um haf og í New York Business School þar sem hann lærði stjórnun og viðskiptafræði og útskrifaðist þaðan árið 1957.
Fjölskyldan
Inga B. Cleaver var jafnaldri Baldurs og bjó líka við Hringbrautina á unglingsárum. Þau voru bæði í Austurbæjarskóla og Baldur sá til hennar. Hann var alltaf stefnufastur og rásfastur og í skólaferð upp í Borgarfjörð settist hann við hlið Ingu, notaði ferðina svo vel að þau urðu par. Hreðavatnsferðirnar hafa löngum kveikt ástina og kynnt undir. Þau Inga og Baldur fóru saman í bíóferðir, dönsuðu mikið og voru flott par eins og þið sjáið á fallegu myndunum á sálmaskránni. Þau voru trúlofuð í fimm ár, voru ekkert að flýta sér í hjúskap “enda dekruð heima” segir Inga. Sambandið dafnaði og var til allrar framtíðar. Svo fengu þau íbúð niður við Ægissíðu og fóru að búa og Neskirkjuprestur gifti þau við altarið hér í kirkjunni á fimmtudagsmorgni 31. júlí árið 1958.
Magnús Bjarni fæddist þeim hjónum í febrúar 1961. Guðrún Edda kom svo í heiminn í maí árið 1966 og Sigríður Erla liðlega ári síðar eða í nóvember 1967. Magnús býr í Skaftafelli við Arnargötu. Kona hans er Sigríður Haraldsdóttir. Börn þeirra eru Baldur Karl og Elín Inga. Guðrún býr í sama húsi og Inga og Baldur hafa búið í við Tómasarhagann. Dóttir Guðrúnar er Edda Sólveig Sigtryggsdóttir. Sigríður Erla býr og starfar í Boston.
Störfin
Eftir að Baldur lauk námi í New York hóf hann störf hjá Ísbirninum hf. og hafði starfað þar áður meðan hann var í námi. Árið 1960 gekk hann til liðs við Loftleiðir og starfði óslitið í þeirra þágu og síðan Flugleiða til ársins 1990.
Baldur var alla tíð dugmikill starfsmaður og hollur vinnuveitendum sínum. Fyrstu árin hjá Loftleiðum starfaði hann sem yfirmaður farþegaþjónustu í Reykjavík og síðan í Kaupmannahöfn og New York. Fjölskyldan fór vestur um haf skömmu eftir að Magnús fæddist. Þegar þau komu heim að nýju gegndi Baldur ýmsum ábyrgðarstörfum í þágu flugsins. Baldur var í stórum og öflugum hópi dugmikils fólks sem byggði upp öflugt flugfélag sem ferjaði fólk milli Norður Ameríku og Evrópu og fleytti mörgum til Íslands sem annars hefðu farið hjá og alla leið yfir hafið án þess að staldra við. Lofleiðir voru frábær vinnustaður og mikil samheldni ríkti og allir voru tilbúnir að leggja mikið á sig og vinna mikið í þágu félagsins. Og það var mannauðurinn sem skapaði auð félagsins.
Um tíma var Baldur rekstrarstjóri við framkvæmdir á vegum Loftleiða og um árabil sá hann um samningagerð á leiguflugsverkefnum erlendis. Og Baldur tengdist ýmsum nýsköpunarmálum t.d. pílagrímaflugi til Saudi Arabíu. Stefnufesta, ráðdeild og klókindi hans nýttust vel í störfum t.d. samningagerð. Og Baldur var á ferð og flugi á áttunda og níunda áratugnum til Nígeríu, Indónesíu og víðar um heiminn. Og hann gat líka farið með konu sína og börn víðar en flestir á þessum árum og veitt þeim útsýn.
Þetta voru ár uppbyggingar Loftleiða og þar með mikillar vinnu. Það rímaði vel við geðslag Baldurs sem hafði gaman af fólki og fjörmikilli vinnu. Hann naut starfa sinna, gladdist þegar vel gekk og Loftleiðir nutu krafta hans. Hann var félaginu mikilvægur í störfum og átti stóran vinahóp meðal starfsmanna Loftleiða. Það var honum mikið áfall þegar Loftleiðavél fórst á Sri Lanka árið 1978. Flestir farþega fórust í því slysi og þar á meðal vinir hans og samverkafólk.
Eftir skipulagsbreytingar árið 1990 missti Baldur vinnuna hjá Flugleiðum, þessu vængjaða óskabarni þjóðarinnar. Hann hafði helgað sig félaginu og það voru honum þung skref að ganga út. Baldur dró djúpt andann og leit í kringum sig en hóf síðan störf hjá Pósti og síma árið 1991 og starfaði þar í níu ár til 2000. Í fyrstu var hann í markaðsdeild Póstsins og síðar sem forstöðumaður TNT hraðflutninga og lagði grunn að rekstri þess. Síðast starfaði hann í fasteignadeild fyrirtækisins.
Baldur var iðjusamur og hafði ekki hugsað sér að setjast í helgan stein þótt aldurinn færðist yfir. Hann hafði gaman af að vera innan um fólk og frá árinu 2000 fram til ársins 2008 starfaði hann á fasteignasölunni Stóreign og sá um sölu og leigu á atvinnuhúsnæði og í kjölfar breytinga þar starfaði hann áfram hjá eigendum Stóreignar til 2009. Samhliða aðalstarfi frá 1958 og fram á 8. áratuginn starfaði Baldur í aukastarfi hjá íþróttavöllum Reykjavíkur við fjármál og uppgjör leikja ásamt bókhaldi. Hann var með aðsetur á Melavelli. Og hann var alveg til í að taka þátt í kvikmyndaævintýri Íslands og lék t.d. hlutverk í bíómyndunum Sódóma Reykjavík og Benjamín Dúfa.
KR og íþróttirnar
Vesturbærinn var ekki samur ef KR nyti ekki við. Baldur var mikill KR-ingur, sótti ekki aðeins leiki heldur tók þátt í félagsstarfinu og starfaði að knattspyrnumálum yfir fjörtíu ár. Eiginlega var Baldur KR-ingur frá vöggu og til grafar – svo mikill að meira segja KR-húfan hans fór með honum í kistuna hans. Allir sem einn.
Baldur þjónaði KR með setu í ráðum, var fulltrúi félagsins í Knattspyrnuráði Reykjavíkur og formaður í um 15 ár. Baldur var í stjórn Knattspyrnudeildar KR og var um tíma formaður. Hann sat ársþing ÍSÍ og KSÍ og var eftirlitsdómari KSÍ á knattspyrnuleikjum. Fyrir störf sín var hann sæmdur ýmsum helstu viðurkenningum íslenskrar knattspyrnu.
Félagslíf
Baldur var félagslyndur og hafði gleði af samskiptum við fólk. Hann átti marga viðmælendur, vini og kunningja. Hann ræktaði vel samband við félaga í knattspyrnunni og sótti kaffi- og tippfundi í KR og hitti vini sína í hárskeraklúbbnum í Lágmúla. Hugur Baldurs var ekki bara bundinn KR, Loftleiðum og Vesturbænum heldur hafði hann mikinn áhuga á velferð Sjálfstæðisflokksins. Alla tíð hafði hann einfaldan og skýran smekk í pólitík, var hægri maður og beitti sér í þágu Sjálfstæðisflokksins og var m.a. í fulltrúaráði flokksins um tíma. Baldur var líka ættrækinn og hélt t.d. vel utan um sögu Berndsenanna, sem hann hafði gaman af.
Bústaðurinn
Baldur var framkvæmdamaður og hagur. Hann lærði snemma að smíða og bjarga sér og hafði skoðun á framkvæmdum. Þau Inga fengu lóð í Svínahlíð við sunnanvert Þingvallavatn. Þar naut Baldur sín, fékk útrás í smíðum og puði og virkjaði aðra með sér. Og myndarlegur bústaður reis og pallarnir sem sjást á myndinni í sálmaskránni bera vitni smíðagetu Baldurs.
Skil
Nú eru skil orðin. Baldur mundar ekki lengur hamarinn, kemur ekki lengur til funda í KR og stöndugur sjálfstæðismaður er fallinn. Mannlífið er fátæklegra Vesturbænum og við sjáum á bak kjarnyrtum vökumanni mannlífs og lífsgæða. Stærsti missirinn er Ingu og fjölskyldu. Nú hefur Baldur verið rifinn úr fangi hennar og þeirra í skyndingu. Hann sem stóð keikur fyrir nokkrum vikum er nár.
Rifjaðu upp styrk Baldurs og getu, vilja hans og hugsjónir. Leyfðu þeim að hvetja til dáða. Alla tíð vildi hann láta gott af sér leiða, verða til að menn og góð málefni næðu flugi og lyftingu. Hann hefur lokið góðu dagsverki.
Baldur stendur ekki reistur við Tómasarhagann til að klípa svolítið í mann, taka stöðuna eða miðla fréttum. Hvað svo? Baldur hefur fundið sína loftleið inn í himininn. Ekki er hægt að fullyrða að þar sé sérstök deild hægri sinnaðra KR-inga en þar er sú himneska KR-deild sem er Kristsmenn og krossmenn. Hann mun væntanlega sætta sig vel við það kompaní og njóta þess að syngja söngperlur og vera í góðu samfélagi. Það verður ekkert frost í því skjóli heldur má hann vera þar í góðu yfirlæti, ræða gagn og gæði. Þar verður pólitíkin ekki neikvæð heldur öll í plús og loftleiðirnar án áfalla. Þar er Guð og þar ganga öll mál upp. Og þar eru allir sem einn.
Guð geymi Baldur og fólkið hans. Guð geymi þig.
Amen
Minningarorð í Neskirkju, 28. desember 2012.
Ævi og starfsferill
Baldur fæddist í Reykjavík 18. apríl 1936. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 15. desember. Foreldrar hans voru: Sigríður Carlsdóttir Berndsen, f. 8.11.1910 á Skagaströnd, d. 9.9. 1978 og Maríus Helgason, f. 22.12. 1906 og d. 1.12. 1986. Systir Baldurs er Erna Maríusdóttir, f. 6.2.1941, gift Vali Pálssyni og eiga þau fjóra syni.
Baldur kvæntist Ingu B. Cleaver fv. deildarstjóra í utanríkisráðuneytinu, f. 14.3. 1936 þann 29.8. 1958. Börn þeirra eru: 1) Magnús Bjarni, f. 6.2. 1961. Eiginkona hans er Sigríður Haraldsdóttir og börn þeirra Baldur Karl f. 25.3. 1989 og Elín Inga f. 7.2. 1992. 2) Guðrún Edda f. 28.5. 1966. Dóttir hennar með Sigtryggi Georgssyni er Edda Sólveig f. 8.2. 2002. 3) Sigríður Erla.
Að lokinn hefðbundinni skólaskyldu í Reykjavík fór Baldur í Samvinnuskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1954. Að því loknu fór hann í New York Business School þar sem hann lærði stjórnun og viðskiptafræði og útskrifaðist þaðan 1957.
Að loknu námi 1958 hóf Baldur störf hjá Ísbirninum hf., en þar hafði hann einnig starfað sem unglingur með skóla. Árið 1960 hóf hann störf hjá Loftleiðum hf., síðar Flugleiðum hf. og starfaði þar til 1990. Fyrstu árin þar starfaði hann sem yfirmaður farþegaþjónustu í Reykjavík, Kaupmannahöfn og New York. Seinni hlutann starfaði hann sem rekstrarstjóri við framkvæmdir og samningagerð á leiguflugsverkefnum erlendis, þ.á.m. öllu pílagrímaflugi félagsins.
Árið 1991 hóf Baldur störf hjá Pósti og síma og starfaði þar til 2000. Í fyrstu starfaði hann í markaðsdeild póstsins og síðar sem forstöðumaður TNT hraðflutninga og lagði grunn að rekstri þess. Síðast starfaði hann í fasteignadeild fyrirtækisins.
Frá árinu 2000 fram til ársins 2008 starfaði hann á fasteignasölunni Stóreign og sá um sölu og leigu á atvinnuhúsnæði og í kjölfar breytinga þar starfaði hann áfram hjá eigendum Stóreignar til 2009.
Samhliða aðalstarfi frá 1958 og fram á 8. áratuginn starfaði Baldur í aukastarfi hjá íþróttavöllum Reykjavíkur við fjármál og uppgjör leikja ásamt bókhaldi. Hann var með aðsetur á Melavelli.
Baldur var alla tíð mjög virkur í félagsstörfum og starfaði m.a. að knattspyrnumálum í yfir 40 ár. Sat hann m.a. í stjórn Knattspyrnudeildar KR og var m.a. formaður deildarinnar KR 1976-1977. Sat einnig fyrir hönd KR í Knattspyrnuráði Reykjavíkur 1978–1996, þar af formaður þess í 15 ár og sat ársþing ÍSÍ og KSÍ. Hefur undanfarin ár starfað sem eftirlitsdómari KSÍ við knattspyrnuleiki. Fyrir störf sín var hann sæmdur heiðursmerki KSÍ 1987 vegna starfa í 40 ár, gullmerki KSÍ 1992 vegna starfa í 45 ár starfsafmæli og var sæmdur gullmerki KRR 1998.
Hann starfaði með Sjálfstæðisflokknum og sat í fulltrúaráði þess um tíma og hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum.
Baldur fæddist í Reykjavík og ólst upp í Vesturbænum þar sem hann bjó alla ævi. Mörg sumur sem barn var hann hjá ömmu sinni og afa á Skagaströnd. Baldur byggði sér sumarbústað í Svínahlíð á Þingvöllum þar sem eyddi stórum hluta hvers sumars ásamt fjölskyldunni.
Baldur kom fram í útvarpsþætti Lísu Pálsdóttur, Flakki veturinn 2012 þar sem hann talaði um gamlar heimaslóðir við Ásvalla- og Ljósvallagötu um miðbik síðustu aldar. Einnig lék hann lítil hlutverk í bíómyndunum Sódóma Reykjavík og Benjamín Dúfa.
Útför Baldurs var gerð frá Neskirkju föstudaginn 28. desember, 2012, kl. 13.00.