Koss á aðventu

Anna Sif fermdist áðan. Það er hægt að segja já við Jesúspurningunni allt árið, líka á fyrsta sunnudegi í aðventu. Ég hitti foreldra hennar fyrst þegar hún var fóstur í móðurkviði. Ég man vel eftir fundi okkar. Það var í San Fransisco. Ég var þar á guðfræðiráðstefnu og þau hjón bjuggu í borginni á þessum tíma. Amma fermingarstúlkunnar var vinnufélagi og vinur og hafði samband við dóttur sína. Niðurstaðan var að við fórum út að borða saman á frábærum veitingastað. Mér eru líka minnistæðar myndirnar á veggjum staðarins. Það voru eftirgerðir, kópíur, af myndum austurrískra málarans Gustav Klimt. Klimt var frægur fyrir skrautlegar, táknríkar og munúðarfullar myndir. Margar þeirra eru glitrandi gylltar af blaðgulli. Upp á vegg á veitingastaðnum var Kossinn, frægasta mynd Klimt. Og þar sem frummyndin er í Belvederehöllinni í Vín hlýtur Kossinn í San Fransisco að hafa verið eftirlíking. En stórkostleg og skínandi gyllt var hún – eins og frummyndin. Kossarnir eru góðir!

Maturinn var líka afbragð og kvöldið afar ánægjulegt. Og Anna Sif var á leiðinni, var í gerðinni. Og alla tíð síðan koma Kossinn og Klimt í huga minn þegar ég hugsa um foreldra hennar. Og svo kom glæsileg faðmlagsmyndin enn upp í hugann þegar hún gekk fyrir altarið og sagði sitt já við spurningunni um hvort Jesús Kristur verði hennar leiðtogi í lífinu. Guð smellti á hana kossi þegar hún fæddist og var skírð á sínum tíma. Guð hefur faðmað og kysst hana alla tíð síðan, elskað hana, gefið henni gott heimili og möguleika og hæfni til að vaxa og þroskast. Svo staðfesti hún sinn hluta af þeim samningi sem stofnað var til á sínum tíma. Hún var tekin inn í elskuríkt ríki Guðs og varð borgari tveggja heima, heims tímans og himins eilífðar. Tvöfalt vegabréf er gott og gæfulegt.

Aðventa

Í dag er hátíð, fyrsti sunnudagur í aðventu. Og raunar er þessi dagur upphaf kirkjuársins sem er annað tímarím en almannaksárið. Kirkjuárið er eiginlega löng flétta hinnar kristnu sögu. Allt kirkjuárið eru í kirkjunni sagðar sögur Biblíunnar, úr gamla og nýja testamentinu – og rifjuð upp stef og minni sem varða hið kristna drama. Og í dag er svo nýjársdagur. Þar sem gamla árinu lauk í gær er nýr tími runninn upp. Í dag er lögð áhersla á hina opnu möguleika lífsins og það sem máli skiptir. Sögð er saga um innreið Jesú á asna í borgina helgu, Jersúsalem. Þar var fólk líkt okkur, fólk með fordóma, hagsmuni og ótrúlega ólík viðhorf og viðbrögð við Jesú. Hvaða hugmyndir gerum við okkur um þennan Jesú Krist?

Í gær fór ég – eins og gert var á þúsundum heimila á Íslandi – í geymsluna og tók fram aðventukassana. Við, fjölskyldan, settum upp aðventuljós og skreyttum krans. Skrautið sem kom upp úr kössunum gladdi og amerískur Snæfinnur snjókall kom úr einum. Drengirnir mínir ærðust af gleði að finna þenna gamlan vin því hann spilar jólalög á píanó, syngur og dillar sér um leið.

Aðventukransarnir eru komnir upp hér í kirkjunni og áðan sungum við sálminn hennar Lilju (Sólveigar Kristjánsdóttur), sem er hér í kirkjunni í dag: „Við kveikjum einu kerti á“ og vísar til og minnir á þann sem í jötu lá – og Jesúbarnið er.

Latneska orðið adventus þýðir koma – að eitthvað eða einhver kemur. Og hvað viljum við að komi til okkar og hver viljum við að komi? Í hinu trúarlega og kirkjulega samhengi er aðventutíminn undirbúningstími komu Jesú Krists. Aðventutíminn er tími þungunar og hreiðurgerðar hins innri manns. Alla aðventuna undirbúum við okkur með íhugnartextum kirkjunnar, sálmum og skreytingum. Við undirbúum komu Jesú Krists. Undirbúningur er um nákvæmlega það sama og spurt er um í spurningunni: „Viltu leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins.“ Spurning merkir: Viltu trúa á þann Guð sem fæddist í heim manna? Viltu leyfa þeim Guði að elska þig og kyssa, vera þér vinur alla æfi, styðja þig og hjálpa þér?

Guðsviðhorf og myndin af Jesú

Þegar Anna Sif var fóstur, bumbubúi, í móður sinni í San Fransisco, í lok nóvember 1997 var ég á þingi bandarískra guðfræðinga. Daginn eftir að ég borðaði með foreldrum Önnu Sifjar og sá Kossinn fór ég á fyrirlestur um Jesúmyndir og Jesútúlkun. Það Jesúspjall varðar fermingarjáið og hugmyndir og viðhorf okkar allra. Og ég dreg út nokkur atriði, færi í stílinn og dreg saman á mannamáli, en ekki „himnesku“ eða „fræðensku!“

Spurningar fyrirlesarans voru: Hvernig hugsum við um Guð? Hver er afstaðan til Jesú? Hvernig ímyndum við okkur Jesú? Var hann bara mjúkur karl, sem forðaðist tilbreytingarlausa erfiðisvinnu? Var hann hippatýpa? Var hann aflslappað góðmenni sem lagði gott til en forðaðist átök og uppþot? Hverjir eru fordómar okkar og hvernig lesum við? Og hvernig lita fordómar trúarhugmyndir og þar með hvernig við hugsum um Jesú Krist?

Hinn mjúki eða/og máttugi Jesús

Í tuttugu aldir hefur fólk dáð hinn mjúkláta Jesú Krist. Jesús Kristur fann vissulega til með þeim sem leið illa, voru særðir, fangelsaðir og lentu utan garðs og marka samfélagsins. Mjúki Jesús hefur höfðað til hinna umhyggjusömu. Já, góðlyndir hafa um aldir séð blíða Jesú en kannski ekki mikið meira eða haft löngun eða áhuga á einhverju að auki. Jesús guðspjallanna er þó alltaf í plús og meira en bara eitt einfalt atriði.

Tuttugu alda kristni hefur brenglað og einfaldað Jesúmynd sem fólk sér eða vill sjá. Máttur Jesú hefur verið talaður niður um aldir. Milljónir hafa ekki tekið eftir eða upplifað hinn raunverulega og lífgefandi sprengikraft Jesú Krists – hafa hugsanlega aldrei horfst í augu við mátt hans og styrk. Jesú var ekki gunga eða heigull. Hann var alls ekki vingull, sveimhugi, sem hreifst af nýjustu tísku. Nei – þvert á móti – hann var frumkvöðull, byltingarsinni, þorði að svifta því til hliðar sem fyrir var. Hann var hugsuður sem ekki aðeins orðaði byltingu, heldur þorði að hugsa nýja þanka, nýjar leiðir. Vegna þess varð hann hættulegur valdahópum og kerfum samtíðar sinnar. Það var því eðlilegt að hann væri stimplaður sem hættulegur óróaseggur. Hann ógnaði stjórnvöldum, kerfum, klíkum tímans. Hann var ekki umreikandi sakleysingi heldur stórveldi sem olli stórviðburðum og stórvirkjum. Hann lifði í rótæku frelsi Guðs og ekkert braut hann í því algera frelsi.

Jesús stóð með lífinu

Hann var meðal manna og hvatti ekki til lífsflótta af neinu tagi. Jesús Kristur kom ekki til rústa húsum manna til að byggja klaustur úr steinum húsarústanna. Hann kom ekki til að eyðleggja líf manna heldur gefa mönnum líf og auka lífskúnst fólks og hamingju. Hann kom til að nálgast okkur mennina, anda á okkur elsku sinni, líta okkur augum umhyggju og hrifningar – til að blása okkur í brjóst nýju hugrekki, nýjum viðhorfum til sjálfra okkar, til annarra, til veraldar, til líkama, til tísku, til unaðarins að lifa – til sín – til Guðs. Hlutverk hans var ekki að fá okkur til að fórna okkur sjálfum og öllu því sem okkur tilheyrir á einhverju altari heimsins – heldur kom hann til að fá okkur til að vera lífgjafar í okkar eigin samhengi, gera heimili okkar, eignir okkar, allt sem við umgöngumst að ölturum fyrir líf, fyrir gleði, fögnuð, hljóma og liti -leyfa okkur að vera það sem við erum. Við erum og eigum að vera prestar hins góða lífs á heimilum og í vinnu. Lífslist Jesú Krists var að vera á hverju augnabliki frjáls, stór, styrkur og fullur af eldi. Það er sú lífslist sem við megum gjarnan temja okkur.

Já, koss, líf, faðmlag, væntingar og Jesús. Má bjóða þér gott líf? Hvernig væri að sinna hreiðurgerð hið innra. Hvernig væri að leyfa fóstrinu hið innra að þroskast og undirbúa vel komu Jesúbarnsins? Nú er besta tilboðið sem þér getur hlotnast tilboð um himneskan koss.

Amen

Íhugun í Neskirkju, 1. sd. í aðventu, 2. desember 2012.

1. sunnudagur í aðventu – Textaröð:  A

Lexía:  Jes 62.10-12

Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill:  Róm 13.11-14

Gerið þetta því heldur sem þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni. Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.

Guðspjall:  Matt 21.1-9

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn
 þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“
Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:
Segið dótturinni Síon:
Konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.
Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“