Valborg setti upp stúdentshúfuna sína í vorbirtunni árið 1941. Hún var dúx í MR. Annar stúent fékk reyndar sömu einkunn og hún og þau voru hæst yfir landið. Dúxar eru dýrmæti. Einkunn á blaði var Valborgu ekki aðeins staðfesting um getu hennar, heldur skipti miklu máli varðandi framhaldið. Stóri styrkurinn – það var umbunin sem dúxarnir fengu – tveir fyrir norðan og tveir frá MR, peningaupphæð til að kosta nám erlendis.
Heimstyrkjöldin lokaði Evrópu og Valborg vissi vel að hún færi ekki til Parísar til náms – og ekki heldur til Berlínar eða Leipzig. Og hún horfði vestur um haf, sótti um stórastyrk og svo beið hún. Valborg þorði varla að fara úr bænum því áætlanir skipa voru ekki gefnar upp opinberlega og þurfti að vakta komu þeirra og brottför. En svo reið slagið yfir. Í fréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá að ákveðið hefði verið að stóra styrkinn fengju ekki aðeins fjórir stúdentar heldur tíu. Það voru góðu fréttirnar. Hinar slæmu voru að engar konur fengju styrk. Valborg gat skilið að leiðir til Evrópu væru henni lokaðar. En henni var fyrirmunað að skilja hvernig hægt væri að ganga fram hjá landsdúx við úthlutun. Stríðið var vont en fordómar úthlutunarnefndar voru þeir að ef kona færi utan til náms myndi hún tapast í fang erlends eiginmanns og ekki rata til baka. Því væri ekki á það hættandi að fjárfesta í kvendúx. Að læra er eitt, að ná frábærum árangri er afleiðing góðrar ástundunar en svo er allt hitt, fordómar og flokkandi stjórnkerfi. Valborg lærði lexíuna um óréttlæti og vond stýrikerfi. Úhlutun ársins 1941 var ekki breytt, en ekki var hægt að sniðganga námsljósið tvö ár í röð. Valborg var of stór, hún var ekki sveigð eða brotin auðveldlega. „Learning by doing” – hún hafði lært að ekkert er sjálfgefið og fyrirhafnarlaust. Hún vann til hins stóra og hún ætlaði sér að vera stór í lífinu. Hvar er styrkur til lífs, hvar er hælið þegar á bjátar?
Upphaf og nám
Valborg Sigurðardóttir fæddist í Ráðagerði á Seltjarnarnesi 1. febrúar árið 1922. Hún var yngsta dóttir hjónanna Sigurðar Þórólfssonar og Ásdísar Margrétar Þorgrímsdóttur, sem áttu samtals tíu börn, átta saman og áður átti Sigurður tvö. Þegar Valborg var tveggja ára flutti fjölskyldan af Nesinu. Sigurður féll frá á miðjum aldri árið 1929. Valborg var þá nýorðin sjö ára og spurningarnar þyrlast upp: Hvaða áhrif hafði dauðsfallið á barnið Valborgu? Hvernig læddist sorgin í fjölskyldunni og hvernig var unnið úr henni? Hvað varð eftir til meins? En Ásdís, Valborgarmamma, var forkur og tókst að koma börnum sínum til manns, til náms og þroska.
Valborg lærði snemma að ekki var nóg að hafa getuna heldur varð að nýta stundirnar vel. Hún varð fljótt afburðanemandi. Henni var beint að MR og þrátt fyrir að hún hefði ekki notið sérstaks undibúnings glansaði hún á inntökuprófi. Svo tók við námið – franska og latína voru uppáhaldsfögin. Hún beitti sér í öllum greinum og árangur var í samræmi við puðið. Þegar Valborg hafði reiðst óréttlæti heims og skammsýnna karla skráði hún sig í Háskólann og notaði veturinn m.a. til að lesa og ljúka hinum heimspekilegu forspjallsvísindum. Hneykslunarbylgja almenningsálitsins hjálpaði, stóristyrkur varð hennar og Ameríka var fyrir stafni. Eftir þriggja vikna siksak-ferð Goðafoss um haf stríðstóla nálgðist skipið nýjan heim. Valborg fann lykt af landi áður en sást til strandar. Þaðan í frá var Valborg hrifin af Bandaríkjum Norður Ameríku. Frelsisstyttan varð henni sem milljónum tákn um frelsissókn, um manndómsskyldu og hlutverk. Hvað er maðurinn, hvað býr hið innra? Franskan var góð og latínan líka, en Valborg tók ákvörðun um að fara í sálarfræði, fór til Minneapolis og hóf þar nám. Síðan var hún alltaf að læra, stækka, þroskast og leita.
Fljótt kom í ljós að stóristyrkur hafði rýrnað í hafi. Gengisskráningin var óhagstæð, íslenskir peningar voru léttvægir. Valborg kunni að fara vel með en hvernig sem centunum var velt varð henni ljóst að féð dygði ekki til námsins. Og þá kom American Scaninavinan Foundation til bjargar. Valborg fékk styrk og ráð góðs fólks sem benti henni á framúrskarandi kvennaháskóla. Nú hjálpaði að hún var dúx og dýrmæti og var metin að verðleikum. Hún varð nemandi í Smith College, Massachusetts, sem var ein af hinum fjölmörgu og kraftmiklu menntastofnunum Bandaríkjanna sem skýrði gull mannlífsins, slípaði dýrmæti og agaði námsforka til þroska og visku. Þar áttu gæðin athvarf og skólinn útskrifaði öflugar konur – ekki aðeins Nancy Reagan og Barböru Bush heldur líka Betty Friedan, Gloriu Steinem og Valborgu! Smith College var orðastaður framsækinna hugmynda tímans og orkubú í bandarískri menningu. Þar var leyfilegt að grufla og ræða róttækar hugsanir, álagsprófa kenningar og stefnur. Þar óttaðist enginn að menntun kvenna gerði þær villugjarnar. Í deiglu skólans mótuðust ýmsir málsvarar mannréttinda og þar með feminisma eftirstríðsáranna.
Dúxinn umbreyttist í menntakonuna Valborgu Sigurðardóttir, sem lærði ekki aðeins sálarfræði heldur sneri sér með fullum krafti að uppeldisfræðinni. Hún þorði að þroskast. Hún vissi að þau fræði voru mikilvæg og hagnýt. Stríðinu lauk, karlaherirnir streymdu heim af vígstöðvunum en hrifu þó ekki meistaranemann sem var að skrifa lokaritgerð sína þegar kallið kom að heiman. Valborg var beðin um að móta og stýra skóla sem gæti fagmenntað starfsfólk til starfa á stofnunum fyrir forskólabörn. Hún neitaði fyrst en ræddi málið við kennara sinn sem hvatti hana að slá til. Og þegar Valborg var orðinn meistari í sínum fræðum í ársbyrjun 1946 fór hún milli leikskóla og dagvistarheimila til að læra á vettvangi og búa sig undir störfin heima. Hún þekkti kenningarnar og vissi alveg hvað John Dewey meinti með „learning by doing.“ Og nám í reynd og á vettvangi gat hún flutt með sér yfir Atlansálana. Ísland kallaði og Valborg fór heim og breytti íslensku menntakerfi og viðmiðum í uppeldi barna. Hún varð sjálf stóristyrkurinn í málefnum leikskólakennara og uppeldisstefnu.
Skólastjóri – menntunarfrömuður
Valborg var skólastjóri Uppeldisskóla Sumargjafar frá 1. september árið 1946. Nýr skóli í nýjum aðstæðum, í nýju lýðveldi og á nýjum tíma. Hún minnti á í ræðu og riti að uppeldi væri ekki sjálfgefið. Uppeldisgeta væri ekki meðfædd, vanda ætti til starfs uppeldisstofnana og mennta ætti fólk til kennslustarfanna. Börnin ættu aðeins það besta skilið.
Skólinn dafnaði þrátt fyrir litlar fjárveitingar og styrktist þegar hann varð ríkisskóli. Á hvaða grunni áttu leikskólar að starfa? Valborg hafði metnað fyrir hönd barnanna, skólans og fræðanna og vildi að starfsfólk leikskóla með réttindi yrðu leikskólakennarar en ekki fóstrur. Hún átti sjálf hugmyndina að heitinu leikskólakennari og nöfn skipta máli. Á fyrri hluta áttunda áratugarins var tíminn fullnaður og Valborg fór utan til að leggja grunn að uppeldisstefnu sem síðar var samþykkt og markaði ramma eða hringi um starf leikskólanna í landinu. Valborg hafði því ekki aðeins mikil áhrif á þá 900 nemendur sem hún útskrifaði á ferli sínum sem skólastjóri heldur mótaði líka skólastefnuna. Hún skrifaði mikið um nám, kennslu og börnin og ástæða til að minna á hugðarefni Valborgar leikinn og myndsköpun sem mikilæga uppeldis- og kennsluþætti. Bækur hennar um þau efni eru merkilegir vegvísar. Myndsköpun ungra barna: frá kroti til táknmynda og Leikurinn og leikuppeldi.
Menntunarfrömuðurinn hafði víðtæk áhrif og lagði vel til mótunar viðmiða samfélags og skóla. Valborg upplifði fordóma sem ung kona og vissi hvernig átti að bregðast við þeim. Mörgum þótti stefna Valborgar ógna sér og affluttu stundum hugmyndir hennar um leikskóla og hlutverk þeirra og stöðu. Hún hélt þó óhikað áfram, náði eyrum og skilningi æ fleiri og treysti grundvöll leikskólamenntunar. Húnn sótti fram og svaraði líka ákveðið öllum fordómum. Valborg lauk störfum sem skólastjóri Fósturskólans árið 1985. Árin áttu að verða þrjú til fjögur ár urðu 39 við skólastjórn. Og þegar hún lauk störfum við Fósturskólann sneri hún sér að ritstörfum og gaf út árið 2005 hina merku bók: Íslenska menntakonan verður til. Fyrir opinber störf sín og félagsstöf var Valborg sæmd virðingartáknum ríkisins og sæmd heiðursdoktorsnafnbót Kennaraháskólans.
En Valborg var líka fjölskyldukona, eiginkona og móðir. Áður en við snúum okkur að heimilinu og lífinu á Aragötunni gerum við hlé og hlýðum á söng Sólveigar.
Hjúskapur og Ármann
Sagan um föðurlausa stúlku sem varð dúx hrífur. Valborg varð sjálf stóristyrkur hinna íslensku menntakvenna og skóla þjóðarinnar. En ævintýrasagan verður ekki sögð án þess að minna á samhengi Valborgar, heimilið. Við hlið hennar var eiginmaður sem studdi með ráðum og dáð. Hann var skóladúx eins og hún. Í september 1948 hittust þau Valborg og Ármann í Oslo. Hún var á námsför og hann á fræðaspretti. Og þau fóru út að borða – og það var hvorki úr franskri eða ítalskri kúsínu sem þau völdu sér – heldur borðuðu hvalkjöt. Ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri rómantískt. En þau voru alltaf á undan tímanum og nú er í norrænni matargerð farið að bera fram þetta góðmeti að nýju. Svo fóru þau heim og ástin kviknaði – enda hvalkjöt staðgott.
Þau gengu í hjónaband í kapellu Háskólans 11. 11. 1950. Sr. Stefán á Völlum, bróðir Ármanns, gaf þau saman og var svo snjall að leggja út af orðinu mannval. Og hjónaefnin voru ekki aðeins mannval, heldur kyssast nöfnin þeirra svo fallega að helmingur Ármanns og helmingur Valborgar verður mannval. Og þannig voru þau eiginlega í lífsfléttunni. Þau lögðu sitt besta til að bæta hvort annað upp. Þau voru ólík en stóðu sterkari saman en aðskilin. Mörg bestu hjónaböndin eru þannig.
Það var auðvitað snjallt hjá þeim að ganga í hjúskap á vopnahlésdaginn 11.11. og hefja vígsluathöfn kl. 11. Bæði stórveldi í sjálfum sér, bæði yngst í barnahópum og mótuð af lífsreynslu langferða um lendur mennta og landa. Vopnahléð hélt í lífi þeirra og varð til góðs. Það var ekki aðeins einhliða stuðningur, sem Valborg veitti manni sínum. Hann var henni stoð í brautryðjendastarfi hennar og lærði margt af henni í skólastjórn, m.a. að skipuleggja flottar útskriftarhátíðir. Þau unnu bæði með framtíðarfólki og að mótun framtíðarmenningar þjóðarinnar. Ármann studdi konu sína og hún endurgalt ást hans með stuðningi við hann. Þau voru gagnvirk í samskiptum.
Valborg skildi snemma að kvenréttindi eru mannréttindi. Hún þáði í móðurarf ríkulega réttlætisafsstöðu og hreinsaði svo gullið í amerísku frjálslyndi. Mannréttindahugsun gaf Valborgu rök sem nýta mátti í þágu kvenna, stöðu þeirra og hlutverks, en líka í þágu barnanna. Þarfir manna átti að tryggja, karla og kvenna. Og þarfir barna átti að virða – menntun í skóla átti að taka mið af forsendum þeirra.
Barnalán og heimili
Þeim Valborgu og Ármanni varð fimm barna auðið. Þau eru Sigríður Ásdís, sendiherra. Hennar eiginmaður er Kjartan Gunnarsson. Næstelstur er Stefán Valdemar, heimspekiprófessor í Noregi. Í miðjunni er Sigurður Ármann, hagfræðingur. Kona hans er Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir. Valborg Þóra, hæstaréttarlögmaður, er næstyngst systkinanna. Hennar eiginmaður er Eiríkur Thorseinsson. Yngstur er Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi í Brüssel.
Afkomendur Ármanns og Valborgar eru samtals ellefu á fæti og eitt í kvið. Stjúpbarnabörnin eru þrjú.
Oft hefur verið sagt í fjölskyldunni að Valborg hafi verið “útivinnandi” og Ármann “heimavinnandi.” Borðið varð miðja veruleika heimilisins, borð fyrir mat, fræðibækur, samfélag og samtal. Engum á heimilinu lá lágt rómur, oft var tekist á, mikið rætt og ólíkar skoðanir og hugmyndir viðraðar. Mömmunni, heimsborgaranum, var í mun að ríkuleg erlend áhrif næðu inn á heimili og til barnanna. Oft voru erlendar konur fengnar til aðstoðar í langan tíma. Og hlutverk þeirra var einnig að gefa ungviðinu stærra sjónsvið en túnblettinn heima.
Í prófessoranýlendunni á Aragötunni og Oddagötunni var Valbjargarheimilið barnflest. Heimlið dró að, börnin í hverfinu komu og voru velkomin og urðu vitni að fjölskrúðugu heimilislífi. Báðir foreldrarnir unnu úti og gegndu álagsstörfum í samfélaginu. Vísast hefðu stúlkurnar viljað að mamma þeirra væri meira heima og kannski líka venjuleg húsmóðir. Og kannski hefðu drengirnir viljað að pabbi þeirra væri frekar að grafa skurði með vélum en grafa upp lagagreinar. En þau lærðu að lifa samkvæmt aðferð Deweys „learning by doing,“ – fengu mikið í vöggugjöf og eru öll framúrskarandi í sínum greinum.
Í miðri hringiðunni var Valborg og álagið var oft mikið. Þrátt fyrir viðkvæmni og fíngerða lund var Valborg jafnan æðrulaus í stórræðum. Hún hafði orð um það sem dreif á daga, var orðheppinn, hnyttin og dró oft kjarna mála vel saman í setningu. Hún var eldhugi að upplagi og vinnusöm. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún spilaði á píanó og gaf sínu fólki tónlistarvíddir. Hún var alltaf að læra. Valborg las bækur með áfergju til hinstu stundar og var umhugað um að fleyta myndlistaráhuga og skilningi til barna sinna. Hún hafði framan af lítinn áhuga á forníslenskum bókmenntum en tók að lesa þær eftir sjötugt. Hún var lengstum efahyggjukona í trúmálum en las Biblíuna eftir áttrætt og varð vinur Guðs. Hún þorði að endurnýjast, breytast og verða.
Og nú er þessi mikilvirka hæfileikakona látin. Nú er síðasti landneminn í prófessorahverfinu farinn. Nú strikar hún ekki lengur undir í bókunum sínum eða merkir mikilvægar blaðsíður með sneplum. Hún situr aldrei framar í gula stólnum sínum á Aragötunni og reddar kennurum. Hún stendur aldrei aftur í eldhúsinu og leggur línur eða yddar eftirminnilega setningu. Hún kennir ekki meira eða skrifar fleira. Nú er hún farin.
Hvað ætlar þú að gera með minningarnar um móður, tengdamóður, ömmu, vinkonu, ástvin? Blessaðu þær. Leyfðu henni að verða þér meira en minning – ávirk og breytandi minning – þér til góðs. Hvar er hæli og hvar er styrkur? Valborg var stór, hún vildi vera hæli og til stuðnings.
Valborg verður í dag jarðsett í kirkjugarðinum á Görðum á Álftanesi. Þar fæddist meistari Jón Vídalín. Um hann var sagt að hann væri ingenio ad magna nato – borinn til stórvirkja, og það er líka góður eftirþanki um Valborgu Sigurðardóttur.
Heyr mig, lát mig lífið finna – var sungið þegar þau Valborg og Ármann gengu í hjónaband – og oft síðan. Hvað er lífið? Síðustu lífsvikurnar las Valborg í Saltara Biblíunnar. Þar segir í 46. Davíðssálmi: „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Því óttumst vér eigi…“ Valborg er farin inn í borg himins. Og boðskapurinn er að mannfólkið og veröldin nýtur verndar, blessunar, styrks og hælis. Valborg naut stórastyrks, varð stóristyrkur og nýtur nú þess sem er stóristyrkur lífsins. Þar eru engin svik, ekki fordómar eða áföll. Þar ríkir friður Guðs – lífið sjálft.
Guð geymi Valborgu, börn hennar, tengdabörn, afkomendur og ástvini. Guð veri með okkur.
Amen
Minningarorð við útför í Neskirkju, 30. nóvember, 2012.
Æviágrip
Valborg Sigurðardóttir fæddist 1. febrúar 1922 í Ráðagerði á Seltjarnarnesi en ólst upp á Ásvallagötu 28 í Reykjavík. Hún lést á dvalar – og hjúkrunarheimilinu Grund sunnudaginn 25. nóvember, 2012.
Foreldrar hennar voru hjónin Ásdís Margrét Þorgrímsdóttir húsfreyja, f. 18.10.1883, d. 9.4.1969 og Sigurður Þórólfsson skólastjóri á Hvítárbakka, f. 11.7.1869, d. 1.3.1929.
Systkini Valborgar voru: Þorgrímur Vídalín, prófastur á Staðastað, f. 19.11.1905, d. 10.7.1983. Hrefna, f. 28.10.1907, d. 21.5.1908. Anna, forstöðumaður Kvennasögusafhs Íslands, f. 5.12.1908, d. 3.1.1996. Guðmundur Axel, stud.jur., f. 28.4. 1911, d. 20.9. 1931. Guðrún, húsmóðir, f. 7.7.1912, d. 1.7.1995. Margrét, f. 29.1. 1914, d. 21.3.2002. Aðalheiður, húsmóðir, f. 6.12.1915, d. 29.6.1998. Sigurmar Ásberg, borgarfógeti, f. 18.4. 1917, d. 14.7.1990. Áslaug, fóstra, f. 27.1.1919, d. 20.8.2005. Hálfsystur Valborgar, samfeðra: Kristín Lovísa, alþm., f. 23.3.1898, d. 31.10.1971. Margrét, f. 3.4.1901, dáin sama dag.
Valborg giftist Ármanni Snævarr, prófessor, fyrrv. háskólarektor og hæstaréttardómara, f. 18.9.1919, d. 15.2.2012. Foreldrar hans voru Valdimar V. Snævarr, skólastjóri og sálmaskáld og Stefanía Erlendsdóttur, húsmóðir. Börn Valborgar og Ármanns eru: 1) Sigríður Ásdís, f. 23.6.1952, sendiherra, gift Kjartani Gunnarssyni, f. 4.10.1951, lögfræðingi, sonur þeirra er Kjartan Gunnsteinn, f. 5. 7.2007. 2) Stefán Valdemar, f. 25.10.1953, prófessor í Lillehammer í Noregi. 3) Sigurður Ármann, f. 6.4.1955, hagfræðingur, kvæntur Eydísi Kristínu Sveinbjarnardóttur, f. 24. 6.1961, deildarstjóra og klíniskum lektor. Börn Sigurðar eru Jóhannes, f. 2.11.1982, og Ásdís Nordal, f. 21.8.1984, eiginmaður hennar er Gunnar Sigurðsson. Börn Eydísar eru Sveinbjörn Thorarensen, f. 26. 11.1984 og Sigurlaug Thorarensen, f. 18.12.1990, sambýlismaður hennar er Jakob Lind. 4) Valborg Þóra, f. 10.8.1960, hæstaréttarlögmaður, gift Eiríki Thorsteinsson, f. 17.9.1959, kvikmyndagerðarmanni. Sonur Valborgar er Gunnsteinn Ármann Snævarr f. 18.1.1981, eiginkona hans er Zeynep Sidal Snævarr. Dóttir Eiríks er Oddný Eva Thorsteinsson, f. 16.5.1988. 5) Árni Þorvaldur, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, f. 4.3.1962. Börn hans eru Ásgerður, f. 1.8.1988, sambýlismaður Andri Bjartur Jakobsson, og Þorgrímur Kári, f. 12.10.1993.
Valborg sat í stjórn Geðverndarfélags Íslands 1950-58, í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar 1956-68, í Æskulýðsráði Reykjavíkur 1955-56 og sat í stjórnskipuðum nefndum um Fósturskóla Íslands og forskólastarf innan vébanda grunnskóla.
Valborg starfaði í Zontaklúbbi Reykjavíkur og var formaður 1975-76. Hún var formaður Félags kvenna í fræðslustörfum DKG 1987-89 og formaður Bemskunnar-íslandsdeildar OMEP (alþjóðasamtaka um uppeldi ungra barna) frá stofnun 1989 til 2001.
Valborg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1941 og Cand.phil prófi frá Háskóla Íslands 1942. Hún hlaut námsstyrk Menntamálaráðs (“Stóra styrkinn”) og fór til náms í Bandaríkjunum. Nam hún fyrst sálfræði við Háskólann í Minnesota árin 1942-1943. Valborg lauk B.A. prófi í uppeldis- og sálarfræði frá Smith College, Massachusetts árið 1944 og M.A. prófi frá sama skóla tveimur árum síðar. Árið 2002 var Valborg kjörin heiðursdoktor við Kennaraháskóla Íslands. Hún var heiðursfélagi í Fósturfélagi Íslands og Sálfræðingafélagi Íslands. Valborg var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar 1972 og stórriddarakrossi 1986.
Valborg skrifaði fjölmargar greinar og bækur um uppeldis- og kennslumál. Óútgefin er M.A. ritgerð hennar “An approach to the study of the stereotypes of family roles and their influence on people’s judgements of personality and behavior” (1946). Meðal utgefina ritverka má nefna Myndsköpun ungra barna (1989), Leikur og leikuppeldi (1991) og með öðrum Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili (1985). Árið 2005 kom út bók hennar Íslenska menntakonan verður til. Valborg var skólastjóri Uppeldisskóla Sumargjafar (síðar Fósturskóla Íslands) frá stofnun árið 1946 og þar til hún lét af störfum árið 1985. Valborg sat í stjórn Geðverndarfélags Íslands 1950-58, í stjórn Barnavinafélagsins Sumargjafar 1956-68, í Æskulýðsráði Reykjavíkur 1955-56 og sat í stjórnskipuðum nefndum um Fósturskóla Íslands og forskólastarf innan vébanda grunnskóla.