Kjúklingabringur í rasphjúp

Í hlaðborðsveislum er upplagt að bjóða kjötrétt sem fingrafæði. Á okkar heimili er rautt kjöt á undanhaldi og flestum þykir hvítt kjöt gott. Ég steiki stundum þennan kjúklingarétt sem fingrafæði en hann dugar ágætlega í kvöldmat líka. Ég hafði stuttan tíma í eldamennsku í kvöld og á 45 mín. var komin þessi ágæta máltíð.

 

4 kjúklingabringur

2 msk dijon hunangssinnep

salt og grófmalaður pipar

2-3 msk fersk steinselja – í kvöld notaði ég 1,5 msk kóríander

Paxo-kjúklingarasp

2 msk brætt smjör

sítrónusafi

Þverskerið bringurnar í strimla. Blandið saman sinnepi, salti og pipar í skál. Setjið kjúklingabitana út í og veltið þar til kjötið er vel smurt með leginum. Leggið á diska og hellið raspinu yfir. Smjörpappír á bökunarplötu. Takið einn og einn bita og tryggið að raspið sé á alla kanta og setjið svo á pappírinn á plötunni og látið þá ekki liggja alveg þétt. Þegar allir bitarnir eru komnir á plötuna er ofurlítið af sítrónusafa sett á alla bita. Síðan er kjötið sett í 180 ºC heitan ofn og steikt í 15 mínútur. Þá er skúffan tekin út og bráðnu smjörinu rennt yfir bitana. Síðan er steikt í 5 mínútur í viðbót, sem sé samtals 20 mínútur.

Síðan er auðvitað hægt að baka bringurnar óskornar, þ.e. heilar, og lengið þá steikingartímann í ofninum um 5 mínútur og heildarbaksturstími er þá 25 mínútur. Ef brauðrasp er notað er rétt að nota 1-2 msk af þurrkuðum kryddjurtum. Matreiðslan er einföld og hægt að konferera ef vinir eru nærri. Gunnar Sandholt, fóstri, sat hjá mér einu sinni og notaði svo hugmyndina fyrir folaldakjöt! Uppskriftargrunnurinn kom úr Gestagjafanum.